Þann 30. september síðastliðinn fékk Síminn 32,7 milljarða króna greidda í reiðufé. Um var að ræða hluta af kaupverði franska sjóðstýringarfyrirtækisins Ardian á Mílu, en heildarverðið í viðskiptunum var 69,5 milljarðar króna. Auk reiðufjár fékk Síminn framseljanlegt skuldabréf upp á 17,5 milljarða króna vegna seljendaláns sem hann veitti Ardian til þriggja ára. Það sem upp á vantar í heildarverðið eru yfirtökur á skuldum Mílum.
Í fjárfestakynningu sem Síminn birti samhliða uppgjöri þriðja ársfjórðungs yfirstandandi árs kemur fram að reiðuféð sem Síminn fékk í lok síðasta mánaðar sé varðveitt á bankareikningum og að mánaðarlegar vaxtatekjur félagsins vegna þessa séu um 160 milljónir króna.
Sennilegast er að þær vaxtatekjur verði þó einungis innheimtar í einn mánuð. Hluthafar Símans samþykktu í gær að greiða sér 30,5 milljarða króna út úr félaginu.
Tók hálftíma að ákveða útgreiðslu á 30,5 milljörðum
Salan á Mílu gerði það að verkum að hagnaður Símans á síðasta ársfjórðungi, sem stóð frá júlíbyrjun til septemberloka, var 36,3 milljarðar króna. Þar af var hagnaður af áframhaldandi starfsemi 718 milljónir króna. Því er söluhagnaðurinn vegna Mílu nánast allur hagnaðurinn.
Til samanburðar má nefna að markaðsvirði Símans er nú um 79,3 milljarðar króna. Hagnaðurinn á einum ársfjórðungi er því tæpur helmingur af markaðsvirði félagsins.
Það er langt umfram markmið Símans og í fjárfestakynningunni kom fram að á hluthafafundi yrði kosið um tillögu stjórnar þess efnis að 30,5 milljarðar króna verði greiddir út til hluthafa félagsins með því að lækka hlutafé. Sá hluthafafundur fór fram í gær og stóð í hálftíma. Þar var tillagan samþykkt. Upphæðin verður greidd út við fyrsta tækifæri.
Afar arðbær fjárfesting Stoða
Stærsti hluthafi Símans, fjárfestingafélagið Stoðir sem á 15,92 prósent hlut, fær rúmlega fimm milljarða króna í sinn hlut vegna þessa. Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í apríl 2019 og keyptu sig hratt upp í að verða orðinn stærsti einstaki hluthafinn. Í kjölfar þess fóru Stoðir fram á hluthafafund og stjórnarkjör, þar sem Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og einn helsti eigandi félagsins, varð stjórnarformaður Símans. Ætla má að fjárfestingafélagið hafi greitt um og yfir sex milljarða króna fyrir þann hlut sem félagið safnaði sér á árinu 2019. Hlutfallsleg eign Stoða í Símanum hefur svo aukist samhliða því að félagið hefur keypt eigin bréf af hluthöfum sínum, og fært niður hlutafé.
Í apríl í fyrra greiddi Síminn til að mynda hluthöfum sínum átta milljarða króna vegna endurkaupa á bréfum og arðgreiðslu upp á 500 milljónir króna. Af þeirri upphæð fengu Stoðir um 1,3 milljarð króna. Í ár höfðu endurkaup numið um 2,8 milljörðum króna áður en ákveðið var að ráðast í stóru útgreiðsluna í gær og arðgreiðslan var um 500 milljóniir króna. Af þeirri upphæð má ætla að Stoðir hafi fengið rúman hálfan milljarð króna.
Því má ljóst vera, að meðtalinni þeirri upphæð sem Stoðir eiga von á að fá greidda vegna útgreiðslunnar sem samþykkt var í gær, að Stoðir hafa endurheimt að uppistöðu það fjármagn sem félagið lagði út til að verða stærsti eigandi Símans vegna útgreiðslna úr félaginu á rúmum þremur árum. Samt eru Stoðir áfram sem áður stærsti eigandi Símans og hlutur félagsins í honum er í dag metinn á 12,6 milljarða króna.
Nær allir aðrir stærstu hluthafar Símans eru lífeyrissjóðir, en Lífeyrissjóður Verzlunarmanna fer með 11,76 prósenta hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 10,77 prósent og Gildi Lífeyrissjóður á 7,48 prósent í fyrirtækinu.
Miklar útgreiðslur úr Arion banka líka
Stoðir eru líka stærsti innlendi einkafjárfestirinn í Arion banka með 5,2 prósent eignarhlut. Einungis þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga stærri hlut í bankanum.
Hjá Arion banka hefur líka verið rekin sú stefna að reyna að greiða sem mest eigið fé út úr bankanum undanfarin ár. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna á síðasta ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 hefur Arion banki skilað 28,9 milljörðum króna til hluthafa sinna í gegnum arðgreiðslur og endurkaup á bréfum. Því hefur Arion banki greitt yfir 60 milljarða króna út til hluthafa sinna á tveimur árum.
Auk þessara eigna eiga Stoðir meðal annars 6,1 prósent í Kviku banka og eru þriðji stærsti eigandi hans en þessar þrjár eignir í skráðum íslenskum félögum mynduðu um 80 prósent af virði fjárfestinga félagsins um mitt þetta ár. Eigið fé Stoða í lok júní síðastliðins var rúmlega 45 milljarðar króna.
Búist við að milljarðarnir rati inn á hlutabréfamarkaðinn
Kauphöllin var græn í gær og ekkert félag lækkaði í viðskiptum dagsins. Nokkur hækkuðu umtalsvert, eða um 5-6,5 prósent.
Ástæðan er aðallega rakin til boðaðrar útgreiðslu til hluthafa Símans, en í ljósi þess að félagið er í 98 prósent eigu innlendra aðila, og að uppistöðu lífeyrissjóða sem eiga 60 prósent og eru margir hverjir með takmarkað svigrúm til að fjárfesta erlendis vegna lögbundins þak á erlendar eignir þeirra, þá er búist við að milljarðarnir 30,5 rati að uppistöðu inn á íslenska hlutabréfamarkað.
Fyrir þetta fé gæti hluthafahópur Símans enda keypt nánast allt hlutafé í samkeppnisaðilunum Sýn og Nova ef þeir bættu 1,1 milljarði króna við, en sameiginlegt markaðsvirði þeirra í dagslok í gær var 31,6 milljarðar króna.