Mannréttindadómstóll Evrópu mun kveða upp dóm í máli Erlu Hlynsdóttur næstkomandi þriðjudag. Hæstiréttur dæmdi Erlu, sem þá var blaðamaður á DV, fyrir meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda í frétt um eiginkonu Guðmundar Jónssonar, kenndum við Byrgið, sem birt var í DV þann 31. ágúst 2007.
Erla Hlynsdóttir starfar í dag sem blaðamaður á Fréttatímanum.
Byrgismálið tröllreið íslensku samfélagi árið 2007. Byrgið var kristilegt líknarfélag sem rak meðferðarheimili fyrir einstaklingar sem hrasað höfðu illa á lífsleiðinni og áttu sjaldnast í önnur skjól að hverfa. Fjölmiðlar opinberuðu að Guðmundur hafði verið að eiga í margháttuðu kynferðissambandi við sumar konur sem dvöldu á heimilinu. Sú yngsta var 17 ára.
Auk þess var varpað ljósi á margháttaða fjármálaóreiðu í rekstri Byrgisins, en heimilið fékk fjárframlög frá hinu opinbera til að halda úti starfsemi sinni. Guðmundur var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í desember 2008 fyrir að hafa átt kynferðismök við stúlkur sem voru vistmenn hans. Í maí 2010 var Guðmundur auk þess dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik sem áttu sér stað á meðan að hann var forstöðumaður Byrgisins.
Ummæli höfð eftir viðmælendum
Í fréttinni sem Erla skrifaði í ágúst 2007 voru ýmis ummæli um Guðmund og eiginkonu hans höfð eftir tveimur viðmælendum. Eiginkona Guðmundar stefndi bæði viðmælendunum og Erlu fyrir meiðyrði og krafðist þess að fjórtán ummæli yrðu ómerkt.
Í febrúar 2010 dæmdi Hæstiréttur Erlu til að greiða eiginkonu Guðmundar 400 þúsund krónur í bætur vegna ummæla sem höfð voru eftir öðrum viðmælandanum, en hún var ein þeirra stúlkna sem Guðmundur hafði verið dæmdur fyrir að hafa kynferðismök við. Í raun var um hluta af ummælum að ræða, því í dómi Hæstaréttar var ummælum sem krafist var ómerkingar á skipt upp, og niðurlag ummælanna stríði gegn lögum. Ummælin sem um ræðir eru eftirfarandi: „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“
Viðmælendurnir höfnuðu því báðir að rétt hefði verið eftir þeim haft í grein Erlu og þar sem upptöku af samtali hennar við þá hafði verið fargað þótti Hæstarétti að ekki hefðu verið leiddar sönnur á því að ummælin hefðu verið höfð eftir viðmælendunum. Þess vegna dæmdi hann að Erla bæri skaðabótaábyrgð.
Hæstiréttur sagði að með þessum orðum hafi verið gefið til kynna að eiginkona Guðmundar hefði gerst sek um refsivert athæfi, sem væri ekki sannað. Viðmælendurnir höfnuðu því báðir að rétt hefði verið eftir þeim haft í grein Erlu og þar sem upptöku af samtali hennar við þá hafði verið fargað þótti Hæstarétti að ekki hefðu verið leiddar sönnur á því að ummælin hefðu verið höfð eftir viðmælendunum. Þess vegna dæmdi hann að Erla bæri skaðabótaábyrgð.
Þessari niðurstöðu vildi Erla og lögmaður hennar ekki una og kæru málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann ákvað að taka málið fyrir og dómur mun liggja fyrir næstkomandi þriðjudag.
Erla og Björk unnu mál fyrir tveimur árum
Þetta er í annað sinn sem Erla fer með mál fyrir Mannréttindadómstólinn. Hún hafði verið dæmd fyrir meiðyrði í desember 2009 fyrir ummæli um eiganda nektardansstaðarins Strawberries sem hún hafði eftir viðmælanda. Íslenskir dómstólar gerðu Erlu persónulega ábyrga fyrir ummælum viðmælanda síns og dæmdu hana bótaskylda. Mannréttindadómstóll Evrópu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í júlí 2012 að með dómnum hefði verið brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og dæmdi íslenska ríkið til að greiða Erlu skaðabætur.
Sama dag komst Mannréttindadómstólinn að sömu niðurstöðu í máli annarrar blaðakonu, Bjarkar Eiðsdóttur, sem dæmd hafði verið meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda. Niðurstaðan var sú sama utan þess að Björk fékk hærri bætur.