Þrátt fyrir að fjórföld umframeftirspurn hafi verið eftir hlutafé í Reitum í útboði sem er nýlokið seldi Arion banki, sem var stærsti eigandi félagsins og sá um útboðið, einungis 13,25 prósent af hlut sínum í félaginu. Bankinn hélt eftir 8,7 prósent hlut. Landsbankinn, sem á 17,7 prósent hlut í Reitum, og Íslandsbanki, sem á 3,9 prósent hlut, seldu ekkert af sínu hlutafé í umræddu útboði.
Þetta hefur vakið töluverða athygli þar sem yfirlýst stefna allra viðskiptabankanna er að selja eignir í óskyldum rekstri sem fyrst. Reitir hafa verið í fangi viðskiptabankanna frá því síðla árs 2009.
Tóku þátt í hlutafjáraukningu í desember
Í hlutafjárútboðinu var 13,25 prósent af heildarhlutafé í Reitum til sölu. Arion banki var eigandi þess alls. Meðalgengið í útboðinu var tæplega 63,9 krónur á hlut. Heildarsöluandvirði útboðsins var því tæplega 6,4 milljarðar króna.
Mun meiri eftirspurn var eftir hlutum í Reitum en framboð. Alls bárust tilboð upp á 25,5 milljarða króna. Því var umframeftirspurnin fjórföld.
Útboðið hefur átt sér nokkurn aðdranganda. Í desember 2014 var hlutafé í Reitum aukið um samtals 17 milljaða króna. Sú hlutafjáraukning fór fram á genginu 51,43 krónur á hlut. Þeir sem keyptu hluti þá fengu því að kaupa á um 80 prósent þess verðs sem fjárfestum bauðst í útboðinu.
Allir viðskiptabankarnir: Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki keyptu nýtt hlutafé í aukningunni. Alls keyptu eldri eigendur Reita hlutafé fyrir um fimm milljarða kóna. Þeir eru að langstærstu leyti ofangreindir bankar.
Yfirlýst stefna að selja
Bæði þáttakan í hlutafjáraukningunni, og það hversu lítill hluti af eign viðskiptabankanna var seldur í útboðinu, hafa vakið töluverða athygli. Yfirlýst stefna allra viðskiptabankanna er enda að selja eignir í óskyldum rekstri sem fyrst. Í starfsreglum Eignabjargs, dótturfélags Arion banka sem heldur á hlut hans í Reitum, segir að félagið skuli „eftir fremsta megni haga því svo að eignahaldstími þess á fyrirtækjum í eigu félagsins vari í eins skamman tíma og hægt er“.
Íslandsbanki hefur gefið það út opinberlega að hann leitist við að selja eignir í óskyldum rekstri enda sé „ekki stefna bankans að eiga slíkar eignir til lengri tíma“. Í útgefinni stefnu Landsbankans um sölu fullnustueigna segir að stefnt sé að því að selja þær „eins fljótt og unnt er að teknu tilliti til markaðsaðstæðna“.
Auk þess er eignarhald bankanna á Reitum skilyrt sátt sem þeir, og þrotabú Glitnis, gerðu við Samkeppniseftirlitið 30. apríl 2010. Samkvæmt henni veitti eftirlitið þeim tímafrest til að minnka eignarhald sitt í Reitum. Um þessa sátt, og hvernig henni hefur verið fylgt eftir, segir í skráningarlýsingu Reita hún hafi að stórum hluta gengið eftir með „þynningu við endurfjármögnun útgefanda í árslok 2014 og með sölu þeirra á hlutabréfum í kjölfar endurfjármögnunar. Því til viðbótar minnkar eignarhaldið í fyrirhuguðu útboði sem verðbréfalýsing þessi tekur til. Ekki liggja fyrir upplýsingar um frekari söluskyldu á hlutum í útgefanda. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort og þá hvenær eða með hvaða hætti seljandi í útboðinu eða aðrir í hópi stærstu hluthafa hans áformi að selja þá eignarhluti sem þeir munu eiga eftir að útboðinu lýkur.“
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segist ekkert geta tjáð sig nánar um málið umfram það sem sem fram kemur í skráningarlýsingunni. Þar segir að „tímatakmörk á sölu eignarhluta í útgefanda [Reitum] sem Samkeppniseftirlitið hefur veitt aðilum að sátt[...]yrði framlengd til 31. maí 2015“. Páll Gunnar vildi ekki tjá sig um hvort einhver viðbótar söluskylda hvíldi á viðskiptabönkunum þremur fram að þeim tímatakmörkunum.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segist ekkert geta tjáð sig nánar um málið umfram það sem sem fram kemur í skráningarlýsingunni. Þar segir að „tímatakmörk á sölu eignarhluta í útgefanda [Reitum] sem Samkeppniseftirlitið hefur veitt aðilum að sátt[...]yrði framlengd til 31. maí 2015“. Páll Gunnar vildi ekki tjá sig um hvort einhver viðbótar söluskylda hvíldi á viðskiptabönkunum þremur fram að þeim tímatakmörkunum.
Vilja taka mið af aðstæðum á markaði
Í ljósi þessa spurði Kjarninn viðskiptabankanna þrjá hvað hafi valdið því að þeir seldu ekki hluti í útboðinu.
Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, svaraði því til að umsjónaraðili útboðsins, Arion banki, hafi ekki óskað eftir því að hlutur Íslandsbanka yrði seldur í útboðinu. „Álitaefni er snúa að eignarhaldi Íslandsbanka á fyrirtækjum í óskyldum rekstri snúa einkum að eignahlutum þar sem bankinn er í aðstöðu til að hafa áhrif á atvinnureksturinn. Þá er miðað við að eignarhaldið sé eða fari yfir tíu prósent auk þess sem horft er til annarra þátta svo sem stjórnarsetu. Hlutur Íslandsbanka í Reitum er 3,9 prósent og engin stjórnunartengsl eru milli bankans og félagsins. Bankinn stefnir þó að sölu hlutarins en hvenær það verður gert tekur mið af aðstæðum á markaði.“
Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að bankinn muni vinna í samræmi við þá sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið á árinu 2010 vegna eignarhaldsins á Reitum, en gildandi tímafrestur vegna hennar rennur út 31. maí næstkomandi. Að öðru leyti vill bankinn ekki tjá sig um áform sín á markaði „enda væru það upplýsingar sem alltaf myndu teljast verðmótandi“.
Hafa heimild til að fjárfesta fyrir eigin reikning
Aðspurður um hvað valdi því að Arion banki selji ekki allan hlut sinn segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, að markmið seljenda með útboðinu sé að gera Reitum kleift að uppfylla skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutabréfa og „stuðla þannig að auknum seljanleika hlutabréfanna og dreifðara eignarhaldi og hins vegar horfir seljandi til þess að selja eign sína á sem hagstæðustu verði“.
Þegar spurt var hvernig áframhaldandi eignarhald bankans á skráðri eign samrýmdist stefnu hans um eignarhald á fyrirtækjum í óskyldum rekstri segir í skriflegu svari Haraldar Guðna að fjármálafyrirtæki hafi heimild til þess að eiga viðskipti með hlutabréf í slíkum fyrirtækjum fyrir eigin reikning í fjárfestingskyni. „Eru fjármálafyrirtæki þannig í sömu stöðu, hvað þessar eignir varðar, og aðrir fjárfestar. Sá eignarhlutur í Reitum fasteignafélagi sem Arion banki hf. hyggst halda eftir, eftir útboðið, fellur fullkomlega innan marka heimilda bankans í þessu tilliti. Með vísan til þessa fellur áframhaldandi eignarhald bankans á takmörkuðum eignarhlut í Reitum fasteignafélagi hf. bæði innan starfsheimilda bankans, sem og að fjárfestingastefnu bankans að öðru leyti“.
Arion banki hefur selt hluti í Reitum á undanförnum mánuðum. Í árslok 2014 átti bankinn rúmlega 192 milljón hluti í Reitum. Þann 16. mars síðastliðinn átti bankinn um 166 milljón hluti. Því hefur bankinn selt um 26 milljón hluti síðan þá. Ekki kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn Kjarnans hverjir keyptu þennan hlut né á hvaða gengi það var gert.
Risastórt fasteignafélag
Eignasafn Reita saman stendur af mörgum af verðmætustu fasteignum landsins. Mikilvægasta einstaka eign félagsins er Kringlan en félagið á einnig margar verðmætar eignir miðsvæðis í Reykjavík. Félagið á stórt eignasafn í verslunarhúsnæði til viðbótar við Kringluna, t.d. Holtagarða, Spöngina, Mjóddina og Eiðistorg. Þá á félagið t.a.m. tvær stórar Icelandair hóteleignir; Hilton Reykjavík hótel og Icelandair Natura.
Tilkoma Reita verður annað fasteignafélagið sem bætist í hóp félaga í Kauphöllinni. Þar er fyrir fasteignafélagið Reginn og von er á Eik fasteignafélagi í Kauphöllina á næstunni. Ef allt gengur að óskum verða bréfin í Reitum tekin til viðskipta í Kauphöllinni þann 9. apríl næstkomandi.