Veðsetning hlutabréfa, oft kölluð gírun, jókst um 89,2 milljarða króna á síðasta ári og hefur aldrei verið meiri frá því að hlutabréfamarkaður á Íslandi var endurreistur eftir bankahrunið. Alls var markaðsvirði veðsettra hlutabréfa 272,6 milljarðar króna um liðin áramót. Frá árslokum 2017, á fjórum árum, hefur markaðsvirði veðsetning hlutabréfa aukist um 163,8 milljarða króna, eða 150 prósent.
Þetta má lesa út úr tölur sem Nasdaq Iceland, sem rekur Kauphöllina hér á landi, birti í byrjun árs.
Nokkrar ástæður eru fyrir því að veðsetning hlutabréfa er að aukast. Fyrst má nefna að fleiri félög eru nú skráð á markað en voru í upphafi síðasta árs, og munar þar mest um stórar skráningar á Íslandsbanka og Síldarvinnslunni á síðasta ári auk þess sem minni félög á borð við Play skráðu sig á First North markaðinn. Í öðru lagi hefur þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum stóraukist með þátttöku hans í umfangsmiklum hlutafjárútboðum í Icelandair á árinu 2020 og svo með útboðinu í Íslandsbanka í fyrra, þar sem útboðsverðið reyndist langt undir markaðsvirði og þátttakendur gátu leyst út umtalsverðan hagnað á nokkrum vikum.
Níu félög hækkuðu um meira en 50 prósent
Kjarninn greindi frá því á mánudag að gríðarlegar hækkanir hafi orðið á virði bréfa í Kauphöllinni á síðasta ári. Þannig hækkaði virði bréfa allra félaga sem skráð eru á aðalmarkað.
Alls hækkuðu 15 félög á aðalmarkaði um meira en 30 prósent á árinu og níu þeirra hækkuðu um meira en 50 prósent. Arion banki, sem hækkaði mest, jók markaðsvirði sitt um rúmlega 100 prósent og Eimskip fylgdi fast á eftir með um 96 prósent hækkun.
Heildarvísitala allra skráðra hlutabréfa hækkaði alls um 40,2 prósent á árinu 2021, heildarviðskipti jukust í krónum talið um 77 prósent og í fjölda gerðra viðskipta um 79 prósent milli ára. Það hafa ekki verið gerð fleiri viðskipti með hlutabréf á einu ári frá því fyrir bankahrun, eða í 14 ár.
Eitt félag lækkaði, 25 hækkuðu
Eina félagið í Kauphöllinni sem lækkaði á síðasta ári var Solid Clouds, sem er skráð á First North markaðinn. Bréf í því félagi, sem skráð var á markað í júlí 2021, lækkuðu um 26,6 prósent frá útboðsgengi.
Þessi mikla hækkunarhrina er afleiðing af því að ódýru fjármagni hefur verið spýtt inn á fjármálamarkaði af Seðlabankanum og ríkisstjórninni sem viðbragð við kórónuveirufaraldrinum. Á meðal þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til er að vextir hafa lækkað niður í sögulega lága tölu, sveiflujöfnunarauki á eigið fé banka var afnumin um tíma og bankaskattur lækkaður skarpt.
Virði skráðra bréfa jókst um meira en þúsund milljarða
Samanlagt virði hlutabréfa sem skráð eru í Kauphöllina jókst fyrir vikið um rúmlega eitt þúsund milljarða króna á síðasta ári og var 2.556 milljarðar króna þegar því ári lauk. Ef horft er aftur til þess tíma þegar kórónuveirufaraldurinn var að skella á fullum krafti á Ísland, í mars 2020, þá hefur virði hlutabréfa hækkað um næstum 1.500 milljarða króna, eða um 140 prósent.
Fyrir vikið er hlutfall veðtöku – markaðsvirði hlutabréfa sem eru veðsett deilt í heildarmarkaðsvirði allra félaga – lágt þrátt fyrir að veðtaka í krónum hafi aukist umtalsvert. Raunar hefur hlutfallsleg veðtaka, sem er nú 10,16 prósent, ekki verið lægri síðan sumarið 2017, þegar hún var rétt undir tíu prósent.
Þegar horft er á veðtökuhlutfallið verður þó að taka tillit til þess að lífeyrissjóðir eiga beint um 35 prósent af markaðsvirði allra skráðra félaga. Þær eignir eru óveðsettar enda standa inngreiðslur og fjárfestingatekjur sjóðanna undir fjárfestingum hennar. Í síðasta riti Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, sem kom út í september í fyrra, sagði að bein veðsetning hlutabréfa í eigu annarra fjárfesta en lífeyrissjóða væri um 17 prósent.
Hundruð milljarða flæða til hluthafa
Kauphöllin tekur ekki lengur saman upplýsingar um hversu mikið félög skráð á markaði greiða samtals í arð eða nota til að kaupa eigin bréf til baka, og skila þannig fjármunum til hluthafa sinna. Innherji, undirvefur á Vísi sem fjallar um viðskipti, tók hins vegar saman upplýsingar um það skömmu fyrir áramót og samkvæmt þeirri úttekt greiddu félög skráð í Kauphöll meira en 80 milljarða króna út í arð og í endurkaup á eigin bréfum á síðasta ári. Það er aukning upp á tæplega 50 milljarða króna milli ára.
Í sömu úttekt kemur einnig fram að sennilegt sé að arðgreiðslur og endurkaup aukist gríðarlega á árinu 2022 og verði á bilinu 150 til 200 milljarðar króna.
Bara Arion banki, það félag sem jók virði sitt hlutfallslega mest á síðasta ári, greiddi út 25,5 milljarða króna til hluthafa sinna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og tilkynnti í haust að hann ætlaði að greiða um og yfir 60 milljarða króna til viðbótar í nánustu framtíð. Ef áform bankans ganga að fullu eftir er gert ráð fyrir því að hluthafar hans fái 87,9 milljarða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til útgreiðsluferlinu er lokið.