Meirihluti Skota myndi kjósa með sjálfstæði ef gengið yrði til kosninga um sjálfstæðið á nýjan leik, samkvæmt nýrri könnun STV í Skotlandi.
53 prósent aðspurðra segjast myndu segja já við sjálfstæði ef kosið yrði á morgun. 44 prósent myndu segja nei, og þrjú prósent sögðust óákveðin. Þetta er fyrsta könnunin frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í september síðastliðnum sem bendir til þess að meirihluti sé fyrir sjálfstæði, þegar óákveðnir eru teknir með í reikninginn.
Helmingur aðspurðra sagðist jafnframt styðja það að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin á næstu fimm árum og 58 prósent á næstu tíu árum.
Þá myndu 52 prósent styðja nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði ef Bretar kjósa að yfirgefa Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem á að fara fram um það mál árið 2017. 41 prósent segjast styðja nýja þjóðaratkvæðagreiðslu ef ákveðið verður að framlengja Trident kjarnorkuáætluninni og 50 prósent ef það verður samþykkt að Englendingar kjósi um lög sem gilda í Englandi.
Mikil ánægja með Skoska þjóðarflokkinn
Þegar kosið var um sjálfstæðið fyrir rétt tæpu ári síðan varð niðurstaðan sú að 55,3 prósent Skota sögðu nei við sjálfstæði en 44,7 prósent vildu sjálfstæði. Kjörsókn var 84,5 prósent. Margir áttu von á því að niðurstaðan yrði til þess að minnka fylgi við Skoska þjóðarflokkinn, en raunin varð allt önnur.
Flokkurinn vann sannkallaðan stórsigur í bresku þingkosningunum fyrr á árinu, fór úr því að hafa 6 af 59 þingsætum Skotlands í Westminster og í það að hafa 56 af 59 sætum.
Flokkurinn myndaði fyrstu meirihlutastjórn sína í heimastjórninni í Skotlandi eftir kosningar þar árið 2011. Í könnuninni sem gerð var fyrir STV í síðustu viku heldur flokkurinn meirihluta sínum í þinginu í næstu kosningum, sem verða í maí á næsta ári.
Flokkurinn myndi fá 74 þingsæti af þeim 129 sem eru í skoska þinginu, Holyrood. Flokkurinn er með 69 sæti núna. Íhaldsflokkurinn héldi sínum 15 þingsætum, Græningjar myndu bæta við sig og fá 8 þingmenn, en bæði Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar myndu tapa fylgi. Verkamannaflokkurinn færi úr 37 þingmönnum í 26 og Frjálslyndir demókratar færu úr sjö í sex.
Sömuleiðis var kannaður stuðningur við leiðtoga í könnuninni. 71 prósent aðspurðra sögðust ánægð með störf Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands og formanns Skoska þjóðarflokksins.