Meðaltal heildarlauna á Íslandi voru tæpar 571 þúsund krónur í lok síðasta árs og hafa hækkað um 2,5 prósent á milli ára. Frá árinu 2010 hafa þau hækkað um rúmlega 15 prósent. Mesta hlutfallslega launaskriðið milli ára er hjá yfirmönnum fjármála- og stjórnunardeilda, en lan þeirra hækkuðu um 11,5 prósent á síðasta ári. Þau eru nú að meðaltali 1.117 þúsund krónur á mánuði. Mikill kynjamunur er á stjórnendastörfum. Fleiri karlar en konur sinna slíkum í 17 af 20 tegundum stjórnendastarfa.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í launagreiningu PwC fyrir árið 2014.
Launagreiningin er unnin úr gögnum 16.137 launþega frá 83 fyrirtækjum. Það samsvarar tæplega tíu prósent alls launafólks á Íslandi. Skýrslan um niðurstöður hennar, sem var gerð opinber í dag, birtir upplýsingar um 131 tegund starfa á íslenskum atvinnumarkaði.
Föst laun hækka meira en heildarlaun
Í skýrslunni segir að meðaltal heildarlauna þátttakenda í könnuninni hafi verið 465.565 krónur árið 2010. Launin hafi vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og heildarlaunin standi nú í 570.719 krónum. Sú hækkun launa sem átti sér stað á árinu 2014 er umtalsvert umfram verðbólgu sem þýðir raunverulega kaupmáttaraukningu. Helmingur launamanna eru með 500 þúsund krónur eða meira í heildarlaun á mánuði og 7,1 prósent eru með meira en eina milljón króna í laun á mánuði. Í fyrra voru um 9,3 prósent heildarlauna tilkomin vegna aukagreiðslna í launaumslaginu. Það er mjög sambærilegt hlutfall og árin á undan. Hlutfall aukagreiðslna af heildarlaunum er hærra hjá fyrirtækjum sem greiða lág grunnlaun.
Föstu launin, það sem fólk fær greitt utan aukagreiðslna, hafa hækkað hraðar en heildarlaun undanfarin ár. Árið 2010 voru meðaltals föst laun 443.632 krónur. Í fyrra voru þau 517.571 krónur og höfðu hækkað um 16,6 prósent frá árinu 2010. Á síðasta árin einu saman hækkuðu þau um3,1 prósent.
Launahækkanir virðast heilt yfir hafa verið mjög í takt við verðbólgu þegar litið er á tímabil sem nær yfir nokkur ár. Frá árinu 2010 er árlegt meðaltal breytinga á föstum launum 3,9 prósent, sem er sama tala og árleg meðaltals verðbólga var á sama tímabili. Árleg breyting heildarlauna er hins vegar 3,6 prósent að meðaltali, eða 0,3 prósentustígi undir árlegu verðbólgumeðaltali.
Hallar mjög á konur
Í skýrslunni er einnig farið yfir kynjahlutföll í stjórnendastöðum fyrirtækja. Niðurstaðan er sú að karlar eru fjölmennari í 17 starfsheitum af 20 sem skoðuð voru. Einu þrjár stjórnendastöðustéttirnar sem konur voru fjölmennari en karlar í voru yfirmenn þjónustudeilda, yfirmenn starfsmannahalds og í stétt skrifstofustjóra, aðalbókara og aðalgjaldkera.
Tæplega 80 prósent forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja og stofnana eru karlar.
Mest launaskrið hjá yfirmönnum í fjármála- og stjórnunardeildum
Sá starfaflokkur sem hækkar mest í launum á milli ára eru yfirmenn fjármála- og stjórnunardeilda. Miðgildi launa þar hækkaði um 11,5 prósent á árinu 2014, úr einni milljón króna í 1.117 þúsund krónur á mánuði. Sérfræðistörf í stærðfræði og tryggingafræði komu þar á eftir, en miðgildi laun þeirra sem starfa í þeim geira hækkuðu að meðaltali um 10,4 prósent.
Minnsta launaskriðið, hjá þeim flokkum sem kannaðir voru, er hjá bilstjórum vöru- og flutningabifreiða. Laun þar hækkuðu að meðaltali um tvö prósent í fyrra og miðgildi þeirra stóð í 478 þúsund krónum í lok árs.
Starfaflokkur | 2013 | 2014 | breyting |
Forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana | 1.800 þúsund | 1.859 þúsund | 3,30 prósent |
Yfirmenn fjármála- og stjórnunardeilda | 1.003 þúsund | 1.117 þúsund | 11,50 prósent |
Sérfræðistörf í stærðfræði og tryggingafræði | 701 þúsund | 774 þúsund | 10,40 prósent |
Sérfræðistörf í vélaverkfræði | 776 þúsund | 801 þúsund | 3,30 prósent |
Sérfræðistörf við endurskoðun og uppgjör | 734 þúsund | 782 þúsund | 6,50 prósent |
Tækni- og rannsóknarstörf við öryggis-, hollustu- og gæðaeftirlit | 568 þúsund | 604 þúsund | 6,40 prósent |
Störf þjónustufulltrúa og sérhæfð störf í bankastofnunum | 429 þúsund | 452 þúsund | 5,30 prósent |
Störf bókara | 438 þúsund | 456 þúsund | 4,10 prósent |
Afgreiðslu- og sölustörf í sérvöruverslunum og heildsölum | 335 þúsund | 354 þúsund | 5,40 prósent |
Störf málmsmiða, logsuðumanna, blikksmiða og stálsmiða | 553 þúsund | 590 þúsund | 6,70 prósent |
Störf iðn- og landbúnaðarvélvirkja | 548 þúsund | 601 þúsund | 9,60 prósent |
Sérhæfð störf við matvælaiðnað | 412 þúsund | 442 þúsund | 7,30 prósent |
Bílstjórar vöru- og flutningabifreiða | 468 þúsund | 478 þúsund | 2,00 prósent |
Störf verkafólks við flutninga og vörugeymslu | 336 þúsund | 359 þúsund | 6,90 prósent |