Þann 4. nóvember árið 2020 boðaði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur til fréttamannafundar á Kristjánsborg. Fulltrúar fjölmiðla fjölmenntu á fundinn enda höfðu þeir kvöldið áður fengið veður af að búast mætti við miklum tíðindum. Sem kom á daginn. Forsætisráðherrann tilkynnti að allur minkastofn, á öllum minkabúum landsins, skyldi felldur. Samtals um 17 milljónir dýra. Ráðherrann sagði ástæðuna vera nýtt afbrigði kórónuveirunnar, sem greinst hefði í minkum, og einnig fólki á Norður-Jótlandi. Veiran gæti myndað smitkeðjur, og hugsanlega borist til annarra landa. Engan tíma mætti missa, sagði ráðherrann og „strax í dag“ þarf að hefjast handa við að fella minkastofninn. Daginn áður hafði ráðherrann fengið í hendur mat dönsku sóttvarnarstofnunarinnar (Statens Serum Institut) þar sem fram kom að „áframhaldandi minkaeldi meðan veiran geisar“ gæti ógnað heilsu landsmanna.
5. nóvember, hélt Mette Frederiksen annan fréttamannafund. Þar tilkynnti hún að Norður-Jótlandi yrði „skellt í lás“ eins og hún komst að orði. Ferðir til og frá Norður- Jótlandi yrðu bannaðar nema brýna nauðsyn bæri til. Íþróttahús, bókasöfn, veitinga- og kaffihús yrðu lokuð, samkomuhald bannað. Skólahald yrði lagt af, nema fyrir nemendur í yngri deildum.
Þungt högg
Minkaeldi á sér áratuga sögu í Danmörku og dönsk skinn haft á sér gæðastimpil. Danir hafa verið mjög umsvifamiklir í skinnaframleiðslunni og um árabil kom um það bil þriðjungur allra seldra minkaskinna í heiminum frá Danmörku. Þegar forsætisráðherrann tilkynnti um lógun minkastofnsins voru talsvert á annað þúsund bú í landinu, lang flest á Norður- og Vestur Jótlandi.
Ákveðið í flýti og án lagaheimildar
Ákvörðunin um aflífun danska minkastofnsins var tekin í miklum flýti, enda lá, að mati ráðherra, mikið við. Að kvöldi 4. nóvember 2020, sama daginn og Mette Frederiksen forsætisráðherra fyrirskipaði aflífun minkanna, tilkynnti matvælaráðuneytið dómsmálaráðuneytinu að ráðuneytið og matvælastofnunin teldu að lagaheimild til að fyrirskipa aflífun minkastofnsins væri ekki til staðar. Daginn eftir lýsti dómsmálaráðuneytið sig sammála því áliti.
Lög sem heimiluðu förgun minkastofnsins voru sett í miklum flýti, eftirá. Mogens Jensen matvæla- og landbúnaðarráðherra varð margsaga í viðtölum varðandi lagaheimildina og sagði að lokum af sér. Mette Frederiksen forsætisráðherra og Nick Hækkerup dómsmálaráðherra sögðu síðar að orð forsætisráðherrans um aflífun minkanna hefðu verið tilmæli en ekki tilskipun. Stjórnmálaskýrendur sögðu þetta yfirklór. Mælt var fyrir frumvarpinu um aflífun minkastofnsins 13. nóvember en það varð ekki að lögum fyrr en 21. desember 2020, löngu eftir að búið var að farga stofninum.
Hótað með bótamissi
Lögreglan fékk fyrirmæli um að tilkynna bændum símleiðis frá ákvörðun stjórnvalda um að dýrunum skyldi lógað. Bændum var jafnframt tilkynnt að ef þeir yrðu ekki samstarfsfúsir og færu sjálfviljugir að fyrirskipunum stjórnvalda gætu þeir átt á hættu að fá engar bætur fyrir bústofninn. Bændum var jafnframt tilkynnt að nánari upplýsingar um alla tilhögun varðandi framkvæmdina kæmu von bráðar.
Að urða eða brenna
Ákveðið var að hræ minkanna, sem voru samtals rúmlega 15 milljónir (ekki 17 eins og fyrst var talið) skyldu urðuð. Rökin voru þau að allt þyrfti að gerast með hraði og allt of langan tíma tæki að brenna öll hræin. Stórar gryfjur voru grafnar á svæðum sem talin voru örugg út frá mengunarsjónarmiðum og hræin urðuð þar. Ekki tókst það verk eins og til stóð.
„Urðunarævintýrið“ eins og einn þingmaður komst að orði kostaði stórfé.
Lofað bótum
Þegar ákveðið var að farga minkastofninum, á einu bretti, var ljóst að tjón bænda yrði mikið. Þeim var lofað bótum og margítrekað að þeir myndu ekki bera skarðan hlut frá borði. „Við höfum heyrt slíkar yfirlýsingar áður en orð og efndir fara ekki alltaf saman“ sagði formaður samtaka danskra minkabænda. Nokkuð dróst að hefja útborgun bótanna til bænda, en samkvæmt útreikningum stjórnvalda nema greiðslurnar milljörðum danskra króna. 20 milljarðar króna (380 milljarðar íslenskir) er upphæð sem nefnd hefur verið en hún er þó ekki endanleg. Gæti orðið hærri.
Stærsta niðurrifsverkefni í sögu Danmerkur tekur sex ár
Hvað á að gera við minkahúsin spurðu margir eftir að minkarnir voru horfnir. Þessari spurningu var ekki auðsvarað. Eftir að danska mannvirkjastofnunin hafði skoðað húsakostinn á öllum minkabúum landsins var niðurstaða stofnunarinnar að öll minkahús í landinu skuli rifin.
Danska mannvirkjastofnunin kynnti niðurrifsáætlunina fyrir minkabændum, og fjölmiðlum, fyrir hálfum mánuði. Ætlunin er að verkið hefjist í byrjun næsta árs og ljúki árið 2028. Þegar spurt var hvers vegna þetta tæki svona langan tíma var svarið að verkið væri umfangsmikið. Um væri að ræða lang stærsta verkefni af þessu tagi í sögu Danmerkur. Til að útskýra nánar umfangið var nefnt að stærsta niðurrifsverkefni í landinu til þessa hefði verið niðurrif 5 háhýsa (hvert um sig 16 hæðir) á Brøndby ströndinni, niðurrif minkabúanna samsvaraði 1214 húsum af sömu stærð.
Bændur þurfa að sækja um að húsin á landi þeirra verði rifin og þegar hafa borist 1246 slíkar umsóknir.
Mörg minkahúsanna sem á næstu árum verða rifin eru gömul og þegar þau voru reist var asbest mikið notað. Asbestið þótti hentugt, það fúnaði ekki, ryðgaði ekki og brann ekki. Auk þess fremur ódýrt miðað við mörg önnur byggingaefni. En það hefur líka ókosti sem ekki var vitað um fyrr en í kringum 1970 og var þá bannað að nota það í íbúðarhúsnæði. Síðar kom svo algjört bann við notkun þess. Asbestryk er krabbameinsvaldandi og fyrirséð að niðurrifi minkahúsanna fylgi mikil rykmyndun. Þess vegna þarf sérstakan tækjabúnað þegar húsin verða rifin og meðal annars af þeim sökum verður niðurrifið tímafrekt.
Eins og áður sagði á niðurrifinu að ljúka árið 2028. Miðað er við að rífa árlega hús á um það bil 240 búum. Sú áætlun er birt með fyrirvara.