Meirihluti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna hefur samþykkt að taka til umfjöllunar að snúa við dómi frá 1973 í máli Roe gegn Wade sem markaði þáttaskil í réttindum kvenna til þungunarrofs. Niðurstaða dómsins var að réttur kvenna til þungunarrofs eigi stoð í stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Politico birti fréttaskýringu upp úr drögum meirihlutaálitsins í gærkvöldi og er þetta í fyrsta sinn sem skjali frá Hæstarétti Bandaríkjanna er lekið í fjölmiðla. Ekki leið á löngu þar til hópur fólks kom saman við Hæstarétt Bandaríkjanna og krafðist þess að réttur til þungunarrofs yrði virtur. Mótmælin hafa haldið áfram í dag.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, og Chuck Schumer, leiðtogi Demókrataflokksins í öldungadeildinni, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem þau segja drög hæstaréttar benda til þess að hæstiréttur ætli að samþykkja mestu skerðingu á réttindum Bandaríkjamanna í hálfa öld. „Ekki einungis skerðingu á réttindum kvenna heldur allra Bandaríkjamanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, lítur lekann alvarlegum augum og segir í yfirlýsingu að um árás á sjálfstæði Hæstaréttar Bandaríkjanna sé að ræða. „Þetta er enn eitt dæmið um stigmgögnun herferðar öfgavinstrisins sem ógnar alríkisdómurum,“ segir McConnell meðal annars í færslu sinni.
Last night’s stunning breach was an attack on the independence of the Supreme Court. By every indication, this was yet another escalation in the radical left’s ongoing campaign to bully and intimidate federal judges and substitute mob rule for the rule of law. pic.twitter.com/wvigWvPqm7
— Leader McConnell (@LeaderMcConnell) May 3, 2022
Niðurstaða í máli Roe gegn Wade „svívirðilega röng frá upphafi“
Í 98 síðna drögum meirihlutaálits hæstaréttar sem er skrifað af hæstaréttardómaranum Samuel Alito, segir meðal annars að niðurstaða dómsins í máli Roe gegn Wade hafi verið „svívirðilega röng frá upphafi“ og að það sé kominn tími til að fylgja stjórnarskránni þar sem komi fram að það eigi að vera í höndum löggjafarvaldsins að ákveða hvort konur í ríkjum Bandaríkjanna eigi rétt á því að gangast undir þungunarrof.
Alito er einn af sex íhaldssömum dómurum hæstaréttar og var skipaður af George W. Bush í janúar 2006. Í álitinu segir Alito einnig að dómurinn hafi „langt því frá leitt til þjóðarsáttar um þungunarrof, heldur hafi hann ýtt undir eldfima umræðu og dýpkað sundrungu.“ Dómarar við hæstarétt eða talsmenn dómstólsins hafa ekki viljað tjáð sig um skjalið í samtali við Politico.
Tímamótadómurinn í máli Roe gegn Wade upphófst með málsókn konu, sem kölluð var Jane Roe í dómsskjölum, gegn ríkinu. Iðulega er vísað til þess dómafordæmis sem Roe gegn Wade. Konan, sem réttu nafni hét Norma McCorvey, varð ólétt en vildi rjúfa þungunina. En hún bjó í Texas og á áttunda áratug síðustu aldar var þungunarrof þar aðeins heimilt ef meðgangan ógnaði lífi konunnar.
Fimm dómarar skipaðir í forsetatíð repúblikana greiddu þá atkvæði með tveimur frjálslyndum dómurum. Tveir dómarar skipaðir af repúblikönum voru andvígir niðurstöðunni og frá því að dómurinn féll, í rúm 50 ár, hefur stór hluti íhaldsmanna barist fyrir því að dómnum verði hnekkt.
McCorvey talaði síðar gegn þungunarrofi en í heimildarmynd sem kom út árið 2020 segist McCorvey aðeins hafa gert svo þar sem henni var greitt fyrir það. Hún lést árið 2017, 69 ára að aldri.
Þróun eða afturför?
Mörg ríki eru komin á svipaðar slóðir og fyrir hátt í fimmtíu árum þar sem réttindi kvenna að þungunarrofi hafa verið skert með ýmsum hætti. Síðasta haust tóku gildi lög í Texas sem banna þungunarrof eftir að óþroskað hjartað byrjar að slá og dæla blóði um fósturvísinn, sem gerist í sjöttu viku meðgöngu, og skiptir þá til að mynda engu hvort að konunni hafi verið nauðgað. Þetta er einnig það snemma á meðgöngu að fæstar konur eru búnar að átta sig á þunguninni.
Þróunina, eða öllu heldur afturförina, hvað varðar réttindi kvenna til að hafa vald yfir eigin líkama má meðal annars rekja til ríkja þar sem repúblikanar hafa verið við stjórn í áraraðir, endurtekinni skipun íhaldssamra dómara og auknum ítökum hópa, m.a. kristinna, sem barist hafa gegn þungunarrofi áratugum saman.
Í ríkjum þar sem demókratar eru við völd, til að mynda í Kaliforníu, Nýju Mexíkó og Michigan hafa ríkisstjórar brugðist fljótt við og heita því að styrkja rétt kvenna til þungunarrofs enn frekar, verði meirihlutaálit hæstaréttar samþykkt.
„Við getum ekki treyst [Hæstarétti] til að standa vörð um réttinn til þungunarrofs þannig að við gerum það sjálf,“ segir Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, í færslu á Twitter, þar sem hann heitir því einnig að konur muni áfram njóta verndar í ríkinu.
NEW: We are proposing an amendment to enshrine the right to choose in the California constitution.
— Gavin Newsom (@GavinNewsom) May 3, 2022
We can’t trust SCOTUS to protect the right to abortion, so we’ll do it ourselves.
Women will remain protected here. https://t.co/WTUpfymLS0
Drögin endurspegli ekki endanlega niðurstöðu
Joe Biden Bandaríkjaforseti tók það skýrt fram í yfirlýsingunni sinni vegna málsins að skjalinu sem var lekið eru fyrstu drög og endurspegli ekki endilega endanlega niðurstöðu hæstaréttar.
„Ef Hæstiréttur ákveður að snúa við dómnum fellur það í hendur kjörinna fulltrúa á öllum stigum að vernda rétt kvenna til að velja. Og það mun falla í hendur kjósenda að kjósa þau sem styðja rétt til þungunarrofs í nóvember,“ segir Biden í yfirlýsingu sinni. Þá kveðst hann reiðubúinn til að vinna að því að lögfesta niðurstöðu Roe gegn Wade.
My statement on the reported Supreme Court decision draft. pic.twitter.com/Kt3bP0kzqU
— President Biden (@POTUS) May 3, 2022
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem stofnunin ítrekar að þungunarrof sé heilbrigðisþjónusta. WHo bendir á að verði þungunarrofslöggjöf hert muni koma verst niður á jaðarsettum hópum sem munu nýta sér óörugga þungunarrofsþjónustu.
13 ríki geta bannað þungunarrof um leið og hæstiréttur snýr við dómnum
Roe gegn Wade hefur verið til umfjöllunar hjá hæstarétti síðan í desember vegna kröfu dómstóla í Mississippi um að dómnum verði snúið við. Í drögum meirihlutaálitsins kemur fram að vinnsla þess hófst í febrúar. Í álitinu er fjallað um mál Dobbs gegn Jackson Women's Health Organization, mál sem snýst um löggjöf í Mississippi sem leggur til bann við þungunarrofi eftir 15. viku meðgöngu. Verði álitið samþykkt mun löggjöfin í Mississippi taka gildi.
Ef dómnum verður snúið verður réttur til þungunarrofs ekki lengur varinn í stjórnarskrá landsins og færist í hendur einstakra ríkja. Búast má við að þungunrrof verði bannað í um helmingi ríkja Bandaríkjanna. Bannið mun taka gildi í 13 ríkjum um leið og meirihlutaálit hæstaréttar verður samþykkt þar sem ríkisþing þeirra hafa þegar samþykkt löggjöf þess efnis. Það þýðir að um 36 milljónir kvenna muni tafarlaust missa rétt til þungunarrofs, samkvæmt gögnum frá Planned Parenthood, heilbrigðisstofnun sem veitir þungunarrofsþjónustu.
Forseti hæstaréttar getur skrifað eigin meirihlutaálit
Íhaldssamir dómarar, skipaðir í forsetatíð repúblikana, mynda meirihluta í hæstaréttinum og greiddu fimm atkvæði með meirihlutaálitinu. Ásamt Alito, sem skrifaði álitið, greiddu Clarence Thomas, Neil Gorsuch, Brett Kavanaugh og Amy Coney Barrett með því að taka til umfjöllunar að snúa við dómnum. Þrír dómaranna voru skipaðir í forsetatíð Donalds Trump.
Þrír af níu dómurum hæstaréttar eru skipaðir í forsetatíð demókrata; Stephen G. Breyer, Sonia Sotomayor og Elena Kagan, og greiddu þau öll atkvæði gegn því að snúa við dómnum.
Ekki liggur fyrir hvernig John Roberts, forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna, mun greiða atkvæði á næstu stigum álitsins. Hann gæti einnig skrifað sitt eigið álit. Dómarar geta auk þess skipt um skoðun þar til endanlega atkvæðagreiðsla fer fram. Fordæmi eru fyrir því.
Skjalið sem lak til fjölmiðla er merkt sem „fyrstu drög meirihlutaálits“. Búist er við að endanlegri niðurstöðu hæstaréttar, það er hvort dómnum verði snúið við eða ekki, í lok júní eða byrjun júlí.