Heildarmat á virði fasteigna á Íslandi verður 19,9 prósent meira á næsta ári en það er á þessu ári. Það þýðir að heildarvirði allra fasteigna hérlendis verður 12.627 milljarðar króna samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2023. Hækkunin nemur um 2.100 þúsund milljónum króna á milli ára.
Um langmestu hækkun er að ræða á fasteignamati milli ára eftir bankahrun. Fyrra metið var sett árið 2017 þegar fasteignamat allra fasteigna á Íslandi hækkaði um 13,8 prósent milli ára. Í fyrra hækkaði það um 7,3 prósent og því er hækkunin nú margföld sú hækkun.
Íbúðir eru stærsti hluti fasteigna á landinu. Heildarvirði þeirra hækka um 23,6 prósent milli ára og er samanlagt fasteignamat þeirra nú 9.126 milljarðar króna. Þar af hækkaði sérbýli um 25,4 prósent og fjölbýli um 21,6 prósent. Hækkun á fasteignamati íbúða er nánast sú sama á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar, eða 23,6 og 23,7 prósent.
Til að setja þessar tölur í samhengi þá þýðir þetta til að mynda að að íbúð í Reykjavík sem var metin á 70 milljónir króna í ár er metin á 86,5 milljónir króna á næsta ári.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 10,2 prósent á landinu öllu og fasteignamat sumarhúsa hækkaði um 20,3 prósent.
Íbúðarmatið hækkar mest í Fljótsdalshrepp, eða um 38,9 prósent en litlu minna í helstu nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á suðurlandi Árborg (36,6 prósent), Hveragerði (36,6 prósent) og í Ölfusi (36 prósent). Minnst hækkaði mati í Dalvíkurbyggð, eða um 6,2 prósent.
Skattahækkun í kortunum
Fasteignamat einstakrar fasteignar fylgir þróun kaupsamninga á öllu landinu með sérstakri áherslu á tilheyrandi nágrenni eignarinnar. Ef að skráningarupplýsingar fasteignar hafa ekki breyst milli ára er orsök hækkunar að mestu leyti vegna breytingar kaupverðs á sambærilegum eignum á svæðinu. Fasteignamatið endurspeglar því þær miklu hækkanir sem orðið hafa á íbúðarverði á undanförnu ári, en gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir húsnæði á síðustu árum án þess að framboð hafi haldið í. Fyrir vikið er íbúðarmarkaðurinn meira og minna uppseldur.
Fyrir flesta íbúðareigendur þýðir hærra fasteignamat aðallega tvennt. Í fyrsta lagi hærra bókfært virði á íbúð þeirra, með tilheyrandi viðbótarveðrými. Það þýðir á mannamáli að fleiri geta endurfjármagnað lán sín og tekið út fé til dæmis til ýmiskonar neyslu án þess að fara yfir það hámarkshlutfall á lánum sem lánveitendur setja.
Í öðru lagi þýðir þetta hærri fasteignaskatta. Árið 2021 voru tekjur Reykjavíkurborgar vegna fasteignaskatta til að mynda 22,4 milljarðar króna, en fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði er 0,18 prósent af fasteignamati hvers tíma. Miðað við að fasteignamatið í höfuðborginni hækkaði um 6,9 prósent 2022 og á að hækka um 18,7 prósent á næsta ári má búast við að tekjur borgarinnar af þessum tekjustofni verði að minnsta kosti um fimm milljörðum krónum hærri á næsta ári en þær voru í fyrra, verði skattprósentan ekki lækkuð.