Íslendingar eru þjóð sem finnst viðeigandi að storka stærðarlögmálunum. Um tíma ætluðum við að verða miðstöð fjármála í heiminum og töldum unga menn í dýrum jakkafötum hafa fundið upp leiðir til að stunda viðskipta með arðbærari hætti en nokkri annarri þjóð hafði tekist. Þegar sú skýjaborg var leyst upp ansi snögglega fyrir tæpum sjö árum, og í ljós kom að hæfileikar mannanna lágu fyrst og síðast í því að telja banka á að lána sér háar fjárhæðir og að kaupa fyrirtæki á allt of háum verðum, voru vonbrigði þjóðarinnar gríðarleg. Og þau eru enn viðvarandi.
Það þýðir samt ekki að við ætlum að hætta að kýla upp fyrir okkur. Íslendingar eiga enda heimsmet í raforkuframleiðslu, lesa flestar bækur, gefa mest til UNICEF allra, miðað við höfðatölu.
Það má hins vegar segja að metnaðarfyllsta storkun þessarar 329 þúsund manna þjóðar sé sú að ætla sér að eiga eitt besta landsliðið í vinsælustu íþrótt heims, knattspyrnu. Og það meira að segja ekki miðað við höfðatölu.
Í kvöld leikur Ísland við Tékkland og getur stigið stórt skref í átt að þátttöku í lokakeppni Evrópumeistaramóts í knattspyrnu, sem haldin verður í Frakklandi sumarið 2016. Vinni liðið sinn leik og Hollendingar misstiga sig gegn Lettum á útivelli er liðið komið með annan fótinn í lokakeppnina.
Og það ótrúlega við þetta er að þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem við erum kominn í svona dauðafæri.
Kjarninn fer yfir þá þróun íslenskra karlalandsliðsins í knattspyrnu sem leitt hefur til þeirrar stöðu sem er uppi í dag.
Stig að meðaltali í leik í leikjum í undankeppnum landsliðsins | Create infographics
Harða liðið hans Guðjóns
Í fyrsta sinn sem það var raunhæfur möguleiki að ná inn í lokakeppni var í aðdraganda Evrópumeistaramótsins 2000. Hinn granítharði Guðjón Þórðarson þjálfaði liðið. Ísland lenti í mjög erfiðum riðli með heimsmeisturum Frakka, Rússum og Úkraínumönnum. Frammistaða íslenska landsliðsins vakti heimsathygli. Fyrst náði liðið jafntefli við Frakka á heimavelli eftir að Ríkharður Daðason hafði komið því yfir með stórkostlegu skallamarki fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll.
Liðið spilaði síðan einn sinn eftirminnilegasta leik úti á móti þáverandi heimsmeisturum þegar það náði að jafna leikinn í 2-2 eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Leikurinn tapaðist á endanum 3-2. Ísland náði samt sem áður 15 stigum úr tíu leikjum, skoraði 12 mörk og fékk einungis sjö mörk á sig, þar af fjögur gegn Frökkum. Það fór þó ekkert á milli mála, og var í raun ekkert launungarmál, að aðaláherslan á þessum árum var á varnarleik. Í byrjunarliði Íslands voru alltaf fimm varnarmenn og einn mjög varnarþenkjandi miðjumaður. Oft var gantast með það að eini leikmaðurinn í liðinu sem gæti haldið bolta væri Rúnar Kristinsson. Hinir hreinsuðu bara. Það er lýsandi fyrir leikskipulag Íslendinga á þeim tíma að í ótrúlega eftirminnilegu, og nánast óviðeigandi, viðtali Ingólfs Hannessonar við Guðjón Þórðarson eftir fyrri Frakkaleikinn spurði íþróttafréttamaðurinn þjálfarann eftirfarandi spurningar: „Þessi varnarleikur allan timann, allir á tánum í 90 mínútur[...] hvernig er hægt að fá menn til þess að gera þetta?“
Í dauðafæri gegn Þjóðverjum
Guðjón hætti með landsliðið eftir síðari Frakklandsleikinn og tók við liði Stoke þegar íslenskir fjárfestar ákváðu að kaupa það sögufræga félag. Við landsliðinu tók Atli Eðvaldsson og fékk hann að stýra liðinu í gegnum eina heila undankeppni, fyrir heimsmeistaramótið 2002. Ísland þótti hafa lent í mun léttari riðli (voru meðal annars með Norður Írlandi og Möltu í riðli) en í undankeppninni sem á undan fylgdi og því var það talið merki um afturför þegar liðinu tókst aðeins fá 13 stig. Auk þess hafði varnarleikurinn, sem var aðalsmerki Íslands fram að þeim tíma, tekið miklum afturförum. Liðið fékk á sig 20 mörk í leikjunum tíu og en náði að skora 14. Helmingur markanna kom gegn Möltu og tæpur helmingur stiganna líka. Í lokaleik undankeppninnar var íslenska liðið niðurlægt af fyrrum nýlendurherrum okkar Dönum.
Þolinmæði almennings gagnvart þjálfaranum var orðin ansi tæp eftir þau úrslit. Atli hélt þó starfinu og byrjaði næstu undankeppni, en var rekinn eftir þrjá leiki og þeir Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson tóku við. Í undankeppninni fyrir Evrópumeistaramótið 2004 fékk liðið 13 stig og skoraði 11 mörk en fékk einungis níu á sig. Í henni vann liðið bæði Færeyjar og Litháen tvívegis og náði fræknu 0-0 jafntefli við Þjóðverja á Laugardalsvellinum í næst síðasta leiknum. Miðað við að um fimm liða riðil var að ræða var árangurinn frábær. Fyrir lokaleikinn gegn Þjóðverjum áttu Íslendingar möguleika á því að vinna riðilinn ef Skotar myndu tapa fyrir Litháen og Íslandi tækist að vinna Þjóðverja í Þýskalandi. Svo varð ekki og Þjóðverjar unnu 3-0.
Eyðimerkurgangan hefst
Íslendingar voru því farnir að gera kröfur gagnvart landsliðinu. Það stóð svo sannarlega ekki undir þeim í næstu undankeppni, sem var fyrir heimsmeistaramótið 2006. Árangurinn var, vægast sagt, afleittur. Liðið vann einungis einn leik af tíu, gegn Möltu heima, og endaði með fjögur stig í næst neðsta sæti riðilsins. Nú verða lesendur að muna að á þessum tíma töldu Íslendingar sig vera leiðandi í heiminum. Fjármálasnillinga sem höfðu fundið upp nýja leið til að reka banka með ofurhagnaði. Og peningum rigndi yfir samfélagið. Hluti þeirrar peninga leitaði í fjárfestingar í að gera íslenska mun betri en fjöldi þegna landsins gat réttlætt. Þetta var gert með uppbyggingu innviða á borð við knattspyrnuhúsa, mikilli fjárfestingu í þjálfaramenntun og atvinnumennskuvæðingu hluta stærstu liða landsins.
Eftir hina afleitu frammistöðu var enda skipt um mann í brúnni og Eyjólfur Sverrisson, einn besti leikmaður Íslands frá upphafi, tók við. Í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2008 þóttu möguleikar Íslands betri en oft áður. Að vísu voru Spánverjar í riðli með okkur en hin sterku liðin í honum voru nágrannar okkar frá Svíþjóð og Danmörku. Ísland byrjaði keppnina vel og jarðaði Norður Írland 0-3 á útivelli. Eftir það fór að síga á ógæfuhliðin og niðurlægingin náði líklega hámarki með nánast kómískri 5-0 híðingu gegn Svíþjóð þar sem Ísland fékk á sig eitt vandræðalegasta mark sem þjóðin hefur nokkru sinni fengið á sig. Rúmlega 4,7 milljón manns hafa horft á markið á Youtube.
Andlitinu var lítillega bjargað þegar Ísland náði að gera 1-1 jafntefli við Spán en niðurstaðan varð samt sem áður næstneðsta sæti riðilsins. Ísland fékk einungis átta stig, skoraði tíu mörk og fékk 27 mörk á sig. Það gerðu 0,83 skoruð mörk skoruð að meðaltali í leik og heil 2,25 fengin á sig. Eyjólfur, sem hafði legið undir fordæmalausri gagnrýni frá íslensku pressunni vegna frammistöðu landsliðsins var látinn taka pokann sinn fyrir næstu undakeppni.
Nýja kynslóðin fer að láta að sér kræla
Ólafur Jóhannesson, sem hafði byggt upp stórveldi FH í Hafnarfirði á upphafsárum nýrrar aldar, fékk tækifæri sem landsliðseinvaldur þegar Eyjólfur var rekinn í október 2007. Undankeppni heimsmeistaramótsins 2010 fór hins vegar ekki vel. Ísland lenti í neðsta sæti 9. undanriðils, sem Hollendingar rúlluðu upp. Þeir unnu alla leiki sína, skoruðu 17 mörk og fengu einungis tvö á sig (Kristján Örn Sigurðsson skoraði annað þeirra). Íslendingar fengu hins vegar fimm stig. Eini sigur liðsins kom í heimaleik á móti Makedóníu. Liðið náði að skora sjö mörk en fékk 13 á sig.
Í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2012 lenti Ísland í mjög sterkum riðli með Portúgal, Danmörku, Norðmönnum og Kýpur. Árangur liðisns var slakur, einungis einn sigur og eitt jafntefli. Það gaf fjögur stig. Markatalan var líka döpur. Íslendingum tókst einungis að skora sex mörk en fengu 14 á sig. Í þessari undankeppni gerðist þó ýmislegt jákvætt. Ungir leikmenn stigu sín fyrstu skref sem lykilmenn með landsliðinu.Gylfi Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Rúrík Gíslason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbeinn Sigþórsson, Alfreð Finnbogason, Birkir Bjarnason, Hannes Þór Halldórsson og Eggert Gunnþór Jónsson stigu allir inn í liðið og fengu mikilvæga reynslu. Eftir að Ólafur var látinn fara og Lars Lagerbäck var ráðinn í starfs landsliðseinvalds var byggt á þessum grunni stórkostlegra leikmanna.
Endurreisnin
Í undankeppni fyrir síðasta heimsmeistaramót blómstraði íslenska liðið. Ungir leikmenn, sem búa yfir miklu meiri knattspyrnulegum gæðum en áður hefur sést í íslenskum leikmönnum, óðu í gegnum keppnina alls óhræddir.Ísland spilaði tíu leiki, skoraði 17 mörk og fékk 15 á sig. Það hefur aldrei áður skorað jafn mikið í undankeppni. Liðið vann fimm leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði þremur. Þetta skilaði 17 stigum og umspilsleikjum gegn Króatíu um sæti á heimsmeistaramótinu.
Minningin um umspilsleikina er ljúfsár. Sá fyrri, sem fór fram á grænspreyjuðum (enda gras eðilega dautt í nóvember) Laugardalsvelli í skítakulda, var stórkostlegur. Þrátt fyrir mótlæti á borð við að missa sinn markahæsta mann út af meiddan og hægri bakvörðinn réttilega af velli með rautt spjald þá náðu Króatar í raun aldrei að skapa neitt. Þeir virkuðu hugmyndasnauðir gegn gríðarlega ákveðnu íslensku liði sem minnti mun meira á varnarbuffsliðið hans Guðjóns Þórðarsonar, sem hélt boltanum helst ekki lengur en fjórar sekúndur, en hin sóknarsinnaða sveit sem Lars Lagerbäck hafði búið til. Guðmundur Benediktsson, sem lýsti leiknum af nánast líkamlegri ástríðu náði að fanga hugmyndaleysi Króatanna ágætlega. Í hvert sinn sem þeir reyndu að láta sóknarmanninn Ivica Olic þræða sig í gegn á hægri kantinum, sem var mjög oft, öskraði Guðmundur á Ara Frey Skúlason, bakvörð„Hann fer á vinstri Ari, hann fer alltaf á vinstri!“.
Fyrri leiknum var vart lokið þegar Icelandair sendi út áminningu á póstlistann sinn um hvað pakkaferð til Króatíu á síðari leikinn myndi kosta. Fjölmargir rifu upp símann á áttunda bjór og hótuðu því hið minnsta að panta sér ferð. Hinir allra bjartsýnustu voru farnir að skoða flug og hótelgistingu í Brasilíu, þar sem heimsmeistaramótið 2014 fór fram. En þegar leikurinn hófst var yfirburðartilfinningin fljót að koðna og draumarnir um sumarfrí í Brasilíu að hverfa. Liðið var eins og sprungin blaðra og átti ekkert í frábæra Króata. Jafnvel eftir að þeir urðu einum færri litu þeir út fyrir að vera tveimur fleiri. Hnípin þjóð virtist eiginlega skammast sín stundarkorn fyrir að hafa farið langt fram úr sér.
En svo grét Eiður Smári af einlægni í ríkissjónvarpinu og fólk fór smátt og smátt að átta sig á því hversu mikið afrek þessir strákar unnu. Þrátt fyrir að vera ekki að fara á heimsmeistaramót. Og ævintýrið hélt áfram.
Árangurinn hámarkaður
Það þarf ekkert að fjölyrða um frammistöðu liðsins í þeirri undankeppni sem nú stendur yfir. Íslenska liðið hefur tekið alla reynsluna sem það öðlaðist í þeirri síðustu, blandað henni saman við gæðin sem leikmennirnir búa yfir, hólfað það inn í takstískt upplegg hinna mjög hæfu þjálfara og límt allt saman með íslenska baráttuandanum og eðlislæga mikilmennskubrjálæðinu.
Skoruð mörk að meðaltali í leik í undankeppnum landsliðsins | Create infographics
Liðið hefur skorað flest mörk allra liða í riðlinum (tólf mörk) í þeim fimm leikjum sem þegar er búið að leika. Það hefur lagt Tyrki, Hollendinga, Letta og Kasaka en tapað fyrir Tékkum á útivelli. Tékkar eru auk þess eina liðið sem hefur skorað gegn Íslandi (liðið hefur fengið tvö mörk á sig) í undankeppninni. Íslenska liðið situr í öðru sæti riðilsins þegar undankeppnin er hálfnuð, stigi á eftir Tékkum og fimm stigum fyrir ofan Hollendinga.
Með sigri á Tékkum á Laugardalsvelli í dag mun liðið stíga risastórt skref í átt að lokakeppninni í Frakklandi næsta sumar, en tvö efstu lið riðilsins komast áfram. Misstigi Hollendingar sig á sama tíma gegn Lettum gæti verið uppi sú staða að Íslendingum nægði að vinna Kasakstan og Lettland heima en mætti tapa á móti bæði Hollendingum og Tyrkjum úti í þeim leikjum sem eftir eru í riðlinum. Liðið færi samt til Frakklands.
Og þorri þjóðarinnar færi líklega með.