Stöðugleikaframlög slitabúa gætu numið á bilinu 300 til 400 milljörðum króna

Auglýsing

Samningar milli stjórnvalda og kröfuhafa gætu skilað ríkinu á bilinu 300 og 400 milljörðum króna, miðað við þau skilyrði sem liggja til grundvallar samningunum í dag og hafa verið birt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Um er að ræða þá rammasamninga, eða svoköllið „erindi“, milli hluta kröfuhafa Kaupþings, Glitnis og LBI annars vegar og framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta hins vegar. Samningsdrögin voru undirrituð dagana 7. og 8. júní, skömmu áður en áætlun um losun fjármagnshafta var kynnt í Hörpu. Það er mat framkvæmdahópsins að samþykkja eigi samningana.

Samningsdrög fyrir hvert þrotabú eru margþætt. Þau samanstanda af svokölluðu stöðugleikaframlagi þrotabús til stjórnvalda og frekari stöðugleikaskilyrðum, meðal annars um fjármögnun nýju bankanna og ríkisins, auk skilyrða sem er ætlað að koma í veg fyrir útflæði erlends fjármagns og gætu ógnað efnahagsstöðugleika.


Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði þegar losunaráætlun fjármagnshafta var kynnt síðasta mánudag að fjárhæð til ríkisins vegna hennar gæti numið um 500 milljörðum króna. Taka skal fram að í þessari umfjöllun er eingöngu litið til mögulegra stöðugleikaframlaga í tengslum við uppgjör slitabúa gömlu bankanna, en ekki ávinning ríkisins af fyrirhuguðum gjaldeyrisútboðum fyrirr aflandskrónueigendur.

Auglýsing

Hér fyrir neðan má sjá hvað stöðugleikaframlög þrotabúanna gætu skilað ríkinu, miðað við stöðugleikaskilyrðin eins og þau birtast á vef fjármálaráðuneytisins.

Stöðugleikaframlög Glitnis

Stöðugleikaskilyrði Glitnis fela í sér 58 milljarða greiðslu reiðufjár til stjórnvalda. Hluti af milljörðunum 58 eru 37 milljarða arðgreiðsla frá Íslandsbanka, sem myndu renna úr bankanum til Glitnis og þaðan til stjórnvalda. Stefnt er að því að lækka eigið fé Íslandsbanka fyrir sölu hans í um 119 milljarða, en það er í dag rúmlega 180 milljarðar. Eftir arðgreiðslu á eiginfjárhlutfall bankans að vera 23 próesnt, að fengnu leyfi FME og Seðlabankans.


Auk þess framselur Glitnir kröfur og önnur réttindi að andvirði um 59 milljarðar á bókfærðu virði til ríkisins. Nafnvirði þessara krafna og réttinda er um 200 milljarðar króna. Til viðbótar bætast við kröfur á innlenda aðila að virði um 14 milljarðar króna.


Tvennt er í stöðu Glitnis er varðar sölu 95% eignarhlutar í Íslandsbanka og skiptingu söluverðsins milli kröfuhafa og stjórnvalda. Ef bankinn verður seldur erlendum aðilum fyrir gjaldeyri þá mun ríkið fá 60% söluandvirðis, en þó eigi meira en 60% af bókfærði virði eigin fjár sem yrði um 119 milljarðar við söluna. Það myndi þýða að ríkið fengi um 71 milljarð í gjaldeyri ef bankinn er seldur erlendum aðilum.


Samkvæmt erindi kröfuhafanna lítur málið öðruvísi út ef bankinn er seldur innlendum aðilum. Þá yrði gefið út 119 milljarða veðtryggt skuldabréf á 5,5 prósent vöxtum til stjórnvalda, greitt við sölu 95% hlutar Glitnis í Íslandsbanka. Endurheimtur bréfsins yrðu jafnmiklar og söluandvirði bankans, upp að 119 milljörðum króna. Söluandvirði hærra en 119 milljarðar og upp að 136 milljörðum myndi skiptast til helminga milli kröfuhafa og ríkisins. Söluandvirði hærra en 136 milljarðar króna myndi renna að 75% hluta til ríkisins.


Samandregið þá færa þessi stöðugleikaframlög kröfuhafa Glitnis ríkinu á bilinu um 200 til 250 milljarða króna. Lægri talan gerir ráð fyrir sölu Íslandsbanka fyrir erlendan gjaldeyri að jafnvirði 119 milljarðar króna (jafnt bókfærðu virði eigin fjár). Hærri talan gerir ráð fyrir sölu bankans fyrir krónur á 119 milljarða króna.


Vert er að taka fram að greiðsla söluandvirðis í erlendum gjaldeyri myndi einfalda stjórnvöldum að greiða niður opinberar skuldir, eins og áform standa til.

Stöðugleikaframlög Kaupþings

Erindi kröfuhafa Kaupþings gagnvart framkvæmdahópnum um losun hafta kveður á um útgáfu skuldabréfs að andvirði 84 milljarðar króna. Skuldabréfið, útgefið til íslenskra stjórnvalda, er til þriggja ára, ber 5,5 prósent vexti og er veðtryggt. Heimilt er að draga frá allt að fimm milljarða af skuldabréfinu á líftíma þess vegna kostnaðar sem stofnað er til á Íslandi við rekstur Kaupþings og vegna lágmarksgreiðslna til innlendra kröfuhafa. Undir ákvæðið falla ekki hvatagreiðslur. Gert er ráð fyrir að fimm milljarðar verði dregnir frá stöðugleikaframlögum hjá öllum slitabúunum, til að standa undir kostnaði við þau á Íslandi.


Þá framselur Kaupþing kröfur á hendur innlendum aðilum og eignarhluti í innlendum félögum og öðrum eignum. Nafnverð þessara krafna og eignarhluta er 114,8 milljarðar króna en bókfært virði er um 14,4 milljarðar. Hluti upphæðarinnar verður endurgreiddur í erlendri mynt.


Stefnt er að sölu Arion banka fyrir árslok 2016, að því gefnu að markaðsaðstæður séu ákjósanlegar. Hlutur ríkisins af söluandvirðinu er mismunandi eftir hvað fæst fyrir bankann. Ríkið fær þriðjung af söluandvirði umfram 100 milljarðar og upp að 140 milljörðum, helming af söluandvirði á bilinu 140 til 160 milljarðar og 75 prósent af fjárhæð umfram 160 milljarðar. Miðað við að söluandvirði sé 120 milljarðar, 150 milljarðar eða 170 milljarðar þá getur hlutur stjórnvalda verið á bilinu 6,6 til 30,7 milljarðar.


Miðað við að söluandvirði Arion banka gæti verið jafnt 80% af bókfærðu virði eigin fjár hans í dag, þá myndu samningar sem þessir skila ríkinu ríflega 100 milljörðum króna í stöðugleikaframlagi frá Kaupþingi.

Stöðugleikaframlög Gamla Landsbankans (LBI)

Samkvæmt erindi kröfuhafa LBI verður lausafé búsins í krónum afhent stjórnvöldum, að frádregnum krónum sem standa til tryggingar ágreiningskröfum og eru í dag tæplega 50 milljarðar króna, auk innlends rekstrarkostnaðar að undanskildum hvaðtagreiðslum. Fjárhæðin sem send verður íslenska ríkinu úr þrotabúi LBI yrði með þessu um 20 milljarðar króna. Auk þess yrði innlendar kröfur að upphæð um 10 milljarðar króna framseld til stjórnvalda. Samtals væru það því um 30 milljarðar sem rynnu til ríkisins frá LBI.


Hluti fréttaskýringarinnar sem snýr að Glitni hefur verið uppfærður frá fyrstu útgáfu. Í fyrstu útgáfu vantaði innlendar kröfur metnar á um 14 milljarða króna sem Glitnir myndi samkvæmt erindi kröfuhafa framselja til ríkisins. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira eftir höfundinnHallgrímur Oddsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None