Erfingjar Vatnsenda, sem fengu nýlega staðfest endanlega með dómi Hæstaréttar að þeir væru réttmætir eigendur Vatnsenda en ekki einungis Þorsteinn Hjaltested, telja Kópavogsbæ skulda sér meira en tíu milljarða króna vegna þess hvernig bærinn hefur staðið að uppbyggingu á Vatnsenda á grundvelli samnings við Þorsteinn Hjaltested. Nú liggur fyrir að Þorsteinn á ekki Vatnsenda og að hann var aldrei einn réttmætur eigandi jarðarinnar heldur fimmtán erfingjar með honum, líkt og þeir hafa haldið fram árum saman. Þetta var endanlega staðfest með dómi Hæstaréttar 5. mars síðastliðinn.
Erfðadeilur
Þorsteinn tók við jörðinni í samræmi við erfðaskrá sem frændi hans, Magnús Einarsson Hjaltested, gerði. Þegar Magnús dó erfði Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested jörðina. Þegar hann lést svo árið 1966 fór sonur hans af fyrra hjónabandi, Magnús, fram á að fá jörðina, sem hann fékk á endanum. Þorsteinn er elsti sonur Magnúsar.
Málið hefur verið fyrir dómstólum í mörg ár, en aðrir erfingjar hafa reynt að fá erfðaskránni hnekkt frá 2007. Árið 2013 dæmdi Hæstiréttur að skiptum á dánarbúi afa Þorsteins, Sigurðar Kristjáns, hefði aldrei lokið og því þyrfti að ljúka skiptum. Skiptastjórinn, Jón Auðunn Jónsson, sem það gerði taldi sig þurfa að gera það í samræmi við erfðaskrána og að Þorsteinn væri réttmætur erfingi, sem nú hefur verið endanlega staðfest að vera alls ekki rétt.
Kópavogsbær á mikið undir
Kópavogsbær hefur tekið hluta af Vatnsenda eignarnámi, síðast 864 hektara árið 2007, og greiddi þá fyrir það ríflega tvo milljarða króna til Þorsteins Hjaltested, sem jafngildir ríflega 3,7 milljörðum að núvirði. Uppbygging á jörðinni hefur verið gríðarlega mikil á undanförnum árum og sér ekki fyrir endann á henni. Hinir réttmætu eigendur Vatnsenda telja sig eiga rétt á greiðslu frá Kópavogsbæ, og að samningarnir sem gerðir voru við Þorstein hafi verið byggðir á röngum forsendum, þar sem hann var ekki réttmætur eigandi Vatnsenda.
Sigmundur Hannesson hrl., lögmaður erfingjana sem nú hafa náð fram rétti sínum með Hæstaréttardómum, sagði í viðtali við Kjarnann í janúar í fyrra, að forsvarmenn Kópavogsbæjar gerðu sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. „Upphæðirnar sem um ræðir eru geggjaðar og hagsmunirnir miklir fyrir alla sem tengjast málinu,“ sagði Sigmundur. Erfingjar dánarbúsins telja enn, ekki síst á grundvelli nýlegra dóma Hæstaréttar, að Kópavogsbær skuldi tæplega níu milljarða króna í eignarnámsbætur vegna uppbyggingar á Vatnsenda, að viðbættum vöxtum. Samtals nam upphæðin um tíu milljörðum króna í janúar í fyrra, en eftir því sem tíminn líður safnast upp vextir ofan á höfuðstólinn.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er fjárhagsstaða Þorsteins í uppnámi, þar sem hann hefur tapað nær öllu fé sínu og eignum, meðal annars milljörðum sem hann fékk frá Kópavogsbæ. Þorsteinn hefur oft verið á listum yfir ríkustu menn landsins, og var skattakóngur um tíma, en nú hefur fjárhagsstaða hans breyst til hins verra, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Máttu treysta þinglýsingarbók
Kjarninn sendi Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi, fyrirspurn vegna málefna er tengjast Vatnsenda í fyrra, þegar málið komst einu sinni sem oftar í hámæli. Þar sagði Ármann að Kópavogsbær hefði tekið land úr Vatnsenda eignarnámi í fjögur skipti, 1992, 1998, 2000 og 2007. Hann sagði bæinn hafa gert ráð fyrir því, að þinglýstur eigandi jarðarinnar væri réttmætur eigandi hennar, en það var Þorsteinn Hjaltested á þeim tíma sem samningar um eignarnámið voru gerðir. „Sveitarfélögin máttu að sjáfsögðu treysta því að þinglýsingarbók væri rétt um eignarhaldið. Kópavogsbær vill árétta að bærinn er eigandi að því landi sem hann hefur tekið eignarnámi úr Vatnsenda á síð- ustu tveimur áratugum. Eignarnámin fóru fram samkvæmt eignarnámsheimild ráðherra og beindust að þeim aðila sem þinglýsingarbók tilgreindi sem eiganda,“ sagði Ármann.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Áður en bærinn gekk frá samningum við Þorstein var búið að benda forsvarsmönnum bæjarins á deilurnar um Vatnsenda, og vafi léki á því hver væri raunverulegur eigandi Vatnsenda og þar með réttmætur þiggjandi eignarnámsbóta.
Hvað nú?
Í ljósi þess að óumdeilt er nú, að Þorsteinn fékk bætur frá Kópavogsbæ á röngum forsendum, er óvíst hvernig málinu mun ljúka. Ekki er útilokað að Kópavogsbær muni þurfa að greiða milljarða til viðbótar vegna Vatnsenda, í ljósi þess að þiggjandi fjármuna bæjarins reyndist ekki vera réttmætur eigandi landsins, en bærinn hefur til þessa staðið fast á því að hann hafi gengið með réttmætum hætti frá samningum vegna Vatnsenda. Fá dæmi, ef þá nokkur, eru fyrir víðlíka máli hér á landi, ekki síst þegar horft til umfangs þess í krónum talið. Málið hefur ekki verið til lykta leitt ennþá. Líklega mun Hæstiréttur þurfa að skera úr um hverjar lyktirnar verða í málinu, líkt og hann hefur gert ítrekað til þessa, þegar einstök deiluefni þess hafa farið í gegnum dómskerfið.