Hagsmunasamtök kannabisframleiðenda og söluaðila í Bandaríkjunum, National Cannabis Industry Association (NCIA) eru ört vaxandi samtök í Bandaríkjunum og hafa þau nú yfirbragð hefðbundinna hagsmunasamtakanna á bandarískum vinnumarkaði.
Þau hafa lagt sig fram um að vinna náið með Washington ríki sérstaklega, frá því að kannabis- og maríjúananeysla, í litlum skömmtum og undir regluverki, varð lögleg í nóvember 2012. Nýjustu spár Washington ríkis gera ráð fyrir að það fái tæplega tuttugu milljónir Bandaríkjadala í skatttekjur vegna kannabisiðnaðarins á síðasta fjórðungi þessa árs, eða sem nemur um tveimur og hálfum milljarði króna. Það er tæplega fjórfalt meira en var í byrjun ársins.
Síðan lögleiðingin gekk í gegn hefur mikið vatn runnið og risavaxinn iðnaður er nú að verða til, með ört vaxandi tekjum fyrir Washington ríki og fyrirtæki innan hans. Á skömmum tímar hafa stór og smá fyrirtæki orðið til, þar sem markhópurinn er fullorðið fólk, 21 árs og eldri. Framleiddir eru neysluskammtar til þess að reykja, kökur til að borða og vökvar til að drekka, svo eitthvað sé nefnt.
Opinber og svartur markaður - Vaxandi samkeppni
Regluverkið með iðnaðinum er strangt og skattar eru háir miðað marga aðra geira í ríkinu, en 25 prósent skattur er lagður á alla virðiskeðjuna í iðnaðinum, frá framleiðslu til sölu, og er skatttekjunum síðan meðal annars eytt í forvarnastarf. Þetta hefur leitt til þess að verð á löglega keyptu maríjúana var mun hærra en á svarta markaðnum í upphafi, en eftir því sem tíminn hefur liðið og reynsla komist á framleiðslu og sölu, og hagræði aukist, þá hefur verðmunurinn minnkað mikið. Samkvæmt upplýsingum sem Time tók saman í apríl á þessu ári hafði verðið á hverju grammi af löglega seldu maríjúana lækkað úr 30 Bandaríkjadölum, um 3.800 krónum, í tólf dali á innan við ári, eða sem nemur um 1.500 krónum.
Þrátt fyrir að framleiðsla og sala á kannabisefnum sé lögleg í Washington hefur svarti markaðurinn ekki koðnað niður. Síður en svo. Fyrirtæki sem hafa orðið til og sinna framleiðslu og sölu á kannabisvörum beina því nú til NCIA að þrýsta á stjórnvöld að taka úr umferð ólöglegan svartan markað með kannabisefni, svipað og fyrirtæki í öðrum geirum gera til þess að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Rökin eru þau sömu og í mörgum öðrum geirum; hið opinbera er að missa skatttekjur, fyrirtæki sem starfa samkvæmt lögum skaðast og samkeppnishæfni geirans minnkar til lengdar.
Þessi tvískipti markaður hins löglega og ólölega veldur yfirvöldum áhyggjum, enda var eitt meginmarkmiðið með lögleiðingunni að bæla niður svartan markað með kannabisefni, sem var nátengdur skipulagðri glæpastarfsemi. Svo virðist sem töluvert sé í það enn að það markmið náist.
Milljarða geiri orðinn til
Washington ríki, í takt við loforð sem gefin voru þegar hin fræga lögleiðing á framleiðslu, sölu og neyslu kannabis varð að veruleika, hefur lagt mikið upp úr því að safna saman hagtölum til að fylgjast með iðnaðinum verða til. Spár ríkisins gera nú ráð fyrir að kannabisiðnaðurinn muni skila tæplega tuttugu milljónum Bandaríkjadala í skatttekjur á fjórða ársfjórðungi þessa árs, eins og áður segir. Sé miðað við að skatttekjur séu um 25 prósent af heildarumfangi, eins og lagt er upp með, þá verða heildartekjur vegna hins löglega kannabisiðnaðar um 80 milljónir Bandaríkjadala á síðustu þremur mánuðum ársins. Á ársgrundvelli eru það um 320 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 40 milljörðum króna.
Hér má sjá mynd sem sýnir þróun tekna Washington ríkis vegna hins löglega kannabisiðnaðar í ríkinu, eins og hún birtist í spá ríkisins. Mynd: Vefur Washington ríkis.
Þróunin hinnan Washington ríkis einkennist af örum vexti, samkvæmt umfjöllun Forbes, en í mars síðastliðnum var fullyrt í blaðinu að mörg hundruð milljónir Bandaríkjadala væru nú að sogast inn í hinn löglega kannabisiðnaða. Veðmálið þar er nokkuð skýrt; mikill vöxtur framundan og ef lögleiðingin breiðist hratt út um öll Bandaríkin þá munu fyrirtækin í Washington ríki - og raunar Colorado einnig - búa við samkeppnisforskot á risavöxnum markaði.