Velta veðmála á einn leik í efstu deild karla í íslenskri knattspyrnu getur verið allt að einn milljarður króna. Verið er að veðja á leiki sem fara fram á Íslandi út um allan heim, sérstaklega í Asíu. Ástæður þessa er aðallega þær að íslenska deildin er spiluð á sumrin, þegar nánast allar knattspyrnudeildir í heimi eru í fríi, og að hún er álitin spillingarfrí. Og það er ekki bara verið að veðja á leiki í efstu deild. Þvert á móti. Það er veðjað á allar deildir karla og kvenna, leiki í öðrum flokki karla og meira að segja leiki í utandeildinni. Dæmi eru um að æfingarleikir að vori, þar sem úrslitin skipta engu máli, hafi ratað inn á veðmálasíður virtra veðmálafyrirtækja.
Við þessa aukningu, og vegna þeirra háu fjárhæða sem undir eru, eru upp áhyggjur af því að það skapist freistnivandi til að hafa rangt við til að hagræða úrslitum.
Formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) sá tilefni til að minnast sérstaklega á hagræðingu úrslita í pistli í síðustu viku, Íslensk getspá fylgist grannt með þessum málum og mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur skipað nefnd til að skoða þau.
Ásakanir en engar sannanir
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), skrifaði pistil á heimasíðu sambandsins 28. apríl síðastliðinn. Inntak hans var að mestu að bjóða knattspyrnufólk og stuðningsmenn velkomna til leiks, enda Íslandsmótið þá rétt óhafið.
Athygli vakti hins vegar að Geir kaus að fjalla sérstaklega um hagræðingu úrslita í pistlinum. Þar bað hann aðildarfélög KSÍ um að vera á varðbergi gagnvart slíkri hagræðingu. „Alltof víða hafa knattspyrnusambönd þurft að glíma við slíka svikastarfsemi. Það er nokkuð sem við viljum ekki sjá innan okkar raða.“
Kjarninn beindi í kjölfarið spurningum til Geirs um málið og spurði hann meðal annars hvort KSÍ hefði einhverjar upplýsingar um hópa eða aðila sem hafi reynt að fá leikmenn á Íslandi til að hagræða úrslitum. Geir segir það hafa komið fram ásakanir um slíkt en að ekkert hafi sannast. Að sögn Geirs hefur KSÍ ekki upplýsingar um að fólk sé að störfum fyrir erlenda veðmálahópa hérlendis. „Við höfum orðið vör við fólk á leikjum sem aflar upplýsinga og sendir þær frá sér, væntanlega til erlendra getraunafyrirtækja.“
Hann segir Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) og Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA)hafa á síðastliðnum árum staðið fyrir fræðslu til að gera knattspyrnusambönd meðvitaðari um hagræðingu úrslita. „Þá hafa FIFA og UEFA sett upp eftirlitskerfi sem ná til efstu deilda. KSÍ hefur fyrst og fremst vakið athygli aðildarfélaga á málinu auk þess sem í undirbúning er aukin fræðsla.“
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, skrifaði pistil í síðustu viku sem vakti töluverða athygli. MYND:UEFA.COM
Milljarður í veltu á einum leik á Íslandi
Það er ekki að ástæðulausu sem knattspyrnusambönd eru að hafa miklar áhyggjur af mögulegum áhrifum veðmálastarfsemi á hagræðingu úrslita. Samkvæmt upplýsingum frá íslenskri Getspá er talið að veðmálamarkaðurinn í heiminum sé að velta um 400 milljörðum dala á ári, eða 52,8 þúsund milljörðum íslenskra króna. Þar af eru veðmál á íþróttir að velta um 50 milljörðum dala, um 6.600 milljörðum króna. Það eru vel rúmlega þrjár árlegar íslenskar þjóðarframleiðslur. Um 70 prósent af þessum veðmálum eru á vinsælustu íþrótt í heimi, knattspyrnu.
Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri getraunadeildar Íslenskrar Getspár, segir að með því að horfa á þessar tölur sé hægt að áætla hvað verið sé að veðja á leiki í íslensku deildinni. Íslandsmótið í knattspyrnu er spilað á sumrin þegar mjög fáar aðrar deildir eru í gangi og auk þess eru margir leikir í deildarkeppninni spilaðir á mánudögum. Það sé nánast aldrei spilað á þeim dögum í öðrum löndum og því fá leikir á Íslandi mikið vægi hjá veðmálasíðum. „Það eru kannski fimm til sjö leikir í efstu deild í gangi í heiminum á mánudegi í júlí. Þá er kannski kominn um milljarður króna í veltu á einn leik í efstu deild á Íslandi. Það er rosalega mikið.“
„Það eru kannski fimm til sjö leikir í efstu deild í gangi í heiminum á mánudegi í júlí. Þá er kannski kominn um milljarður króna í veltu á einn leik í efstu deild á Íslandi. Það er rosalega mikið.
Pétur segir fleira spila inn í en að á Íslandi sé spiluð sumardeild. Íslenska deildin, og hinar norrænu deildirnar, eru taldar spillingarfríar. Það geri það að verkum að vinsælla sé að veðja á þær.
Asíumarkaðurinn langstærstur
Þeir sem þekkja ekki til gera sér kannski ekki grein fyrir umfangi veðmálastarfsemi í heiminum. Það eru tugir ef ekki hundruð þúsunda vefmálasíðna út um allan heim. Sumar eru löglegar, margar ólöglegar eða einungis löglegar í ákveðnum hluta heimsins.
Þessi starfsemi er langumsvifamest í Asíu. Sá markaður er langstærstur. Líka þegar kemur að því að veðja á leiki á Íslandi.
Til að setja aðdráttarafl veðmála á íslenska leiki í samhengi segir Pétur frá því að hann hafi einu sinni verið staddur í teppabúð í Istanbúl í Tyrklandi með eiginkonu sinni fyrir nokkrum árum. „Þar sat eigandinn með getraunablöðung í höndunum og var að velta fyrir sér leik ÍBV og KR. Þegar hann komst að því að ég væri frá Íslandi vildi hann fá að vita allt sem ég vissi um leikinn. Ég ætlaði aldrei að losna út.
Annað dæmi er þegar ég hitti mann frá Ísrael fyrir nokkrum árum. KR hafði þá verið spáð Íslandsmeistaratitli en gekk illa í deildinni. Hann spurði mig mikið um hvað væri í gangi hjá KR? Af hverju þeir væru að tapa svona mörgum leikjum?
Þetta er því orðið rosalega stórt alþjóðlega, að veðja á íslenska leiki.“
Veðjað á dómaralausa æfingaleiki
Það er ekki bara verið að veðja á leiki í efstu deild karla. Þvert á móti er verið að veðja á leiki í öllum deildum karla og kvenna á Íslandi, utandeild karla, leiki í öðrum flokki karla og meira að segja æfingarleiki sem skipta engu máli.
Pétur segir það alls ekki þannig að einungis óþekktar eða ólöglegar veðmálasíður séu að bjóða upp á að veðja á íslenska leiki. Flestar síður séu að gera það, enda er hluti af samkeppninni á þessum markaði að bjóða upp á sem mest úrval. „Þess vegna eru fyrirtækin að bjóða upp á þessa leiki sem þau vita kannski ekkert um . William Hill, sem er þekkt breskt veðmálafyrirtæki, bauð til dæmis upp á veðmál á æfingaleik milli Leiknis og ÍR í mars síðastliðnum. Það var ekki alvöru dómari að dæma þann leik. Úrslitin skiptu engu máli enda leikur á undirbúningstímabili. Það er mjög slæmt að hægt sé að veðja á leiki þar sem úrslitin skipta engu máli. Vegna þess að það skapar ákveðinn freistnivanda.“
Það er ekki bara verið að veðja á efstu deild karla. Veðjað er á leiki í öllum deildum, bæði karla og kvenna. Það er meira segja veðjað á leiki í öðrum flokki, utandeildinni og æfingarleiki.
Búið að skipa íslenska nefnd
Það hafa ekki komið upp mörg mál hérlendis um að leikmenn hafi reynt að hagræða úrslitum vegna veðmálasvindls. Það hafa þó komið upp tilvik þar sem slíkt hefur verið rannsakað. Í janúar 2014 átti Þór Akureyri að leika við Dalvík/Reyni í Kjarnafæðismótinu. Rannsókn leiddi í ljós að töluverðar upphæðir höfðu verið lagðar undir á að Þór myndi vinna leikinn með fleiri en þremur mörkum. Svo háar að veðmálasíðan sem bauð upp á leikinn lækkaði stuðulinn á leiknum skarpt í aðdraganda hans. Þór vann leikinn 7-0 og síðar var greint frá því að einn leikmanna Dalvíkur/Reynis hafi veðjað á leikinn. Málið hafði enga eftirmála.
Pétur segir fleiri dæmi hafa komið upp þar sem grunsemdir hafi vaknað um að rangt hafi verið haft við. Til dæmis muni hann eftir leik þar sem markvörður fékk á sig tvö klaufaleg mörk á mjög skömmum tíma. Þá hafi verið kannað hvort miklar fjárhæðir hafi verið lagðar undir á leikinn. Svo reyndist hins vegar ekki vera.
Hann segir að Íslensk getspá sé hluti af evrópusamtökum getraunafyrirtækja. „Ef það kemur í ljós óeðlilegt veðmál á íslenskan leik þá klingja bjöllur þar. Þá er hægt að skoða, hjá veðmálasíðunum, hvaðan það veðmál kemur.“
Og það er ljóst að það á að taka þessi mál fastari tökum en áður. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði fyrir skemmstu nefnd sem á að fjalla um hagræðingu úrslita og meðal annars að gera viðbragðsáætlun ef slík mál koma upp. Í henni munu m.a. sitja fulltrúar frá Íslenskri getspá, KSÍ og lögreglu.