Bílastæðamál fyrir utan verslanir í Ármúla urðu að áhugaverðu fréttamáli fyrir skemmstu, er Morgunblaðið sagði frá raunum verslunareigenda við götuna sem höfðu lent í því dag eftir dag að sá mikli fjöldi fólks sem var á leið í sýnatöku vegna kórónuveirunnar í húsakynnum heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut 34 legði ökutækjum sínum beint fyrir framan verslanir þeirra.
„Fólk keyrir bara eins og það vill og leggur þar sem það vill,“ sagði einn verslunareigandi í stuttu samtali við blaðið 6. janúar og minntist á að málið hefði verið rætt í samfélagsmiðlahópi verslunareigenda í Ármúlanum, sem væru orðnir langþreyttir á þessu ástandi.

Bílastæðin sem verslunareigandinn kvartaði yfir að væru upptekin eru beint fyrir framan Ármúla 42 og eru kyrfilega merkt sem einkastæði hússins – einungis fyrir viðskiptavini í Ármúla 42. Í samtali við Kjarnann sagði þessi sami verslunareigandi að hún teldi að verslunarrýminu fylgdu bílastæðin við götuna, það væru jú slík skilti á húsinu.
Raunin er hins vegar sú, samkvæmt athugun Kjarnans í borgarvefsjá og svörum Reykjavíkurborg við fyrirspurnum, að umrædd stæði – og fleiri sem standa fyrir framan atvinnuhúsnæði á þessum slóðum í Reykjavík – eru á borgarlandi og eiga að vera öllum aðgengileg.
Húseigendur eða rekstraraðilar hafa þannig enga heimild til að slá eign sinni á þau.
Í Ármúla á þetta við um bílastæði meðfram allri þessari hlið götunnar frá Vegmúla niður að Grensásvegi. Nánar tiltekið eru bílastæðin fyrir framan húsaröðina sem nær frá húsi númer 16 til húss númer 44 á borgarlandi.

Þrátt fyrir það sést, þegar ferðast er eftir götunni í götusýn á vef Já.is eða á Google Maps, að skilti eru víða sjáanleg á húsum eða í gluggum verslana – og tjá vegfarendum að um sé að ræða einkastæði.
„Aukagatan“ í Ármúla er inni á lóðum
Hinum megin við Ármúlann, í húsaröðinni sem nær frá húsi 15 niður til húss frá Vegmúla niður að Grensásvegi, eru bílastæðin við götuna hins vegar inni á lóðum húsa, og einnig sú „aukagata“ sem liggur meðfram götunni. Ofar í Ármúlanum, eða frá húsi númer 1 til húss númer 13, eru bílastæði beggja megin við götuna einnig öll inni á lóðum.
Á þessum svæðum geta húseigendur því merkt sér einkastæði alveg eins og þeim lystir, bílastæðin við götuna eru inni á þeirra lóðum.
Eftirlitsdeild muni væntanlega gera könnun
Samkvæmt svörum frá Reykjavíkurborg til Kjarnans hafa fyrirtæki ekki leyfi til þess að sérmerkja sér bílastæði sem eru á borgarlandi, heldur eiga slík stæði að vera aðgengileg öllum.
Upplýsingafulltrúi hjá borginni sem kannaði málið segist ekki þekkja til neinna samninga um annað, nema í tengslum við bílastæði fyrir fatlað fólk.
Svarinu frá Reykjavíkurborg fylgdu þær upplýsingar að eftirlitsdeild hjá borginni myndi væntanlega taka þetta mál fyrir, gera könnun og fylgja málinu eftir núna á fyrri hluta ársins.
Síðumúli svipaður og Ármúli
Samkvæmt lauslegri athugun Kjarnans eru aðstæður í Síðumúla svipaðar og í Ármúlanum. Öðru megin götunnar eru nær öll bílastæði sem standa við götuna á borgarlandi, nánar tiltekið í húsaröðninni frá húsi númer 11 og niður að húsi númer 39 sem stendur við horn Síðumúla og Fellsmúla.

„Aukagatan“ við hlið götunnar í Síðumúlanum er þannig nær öll á borgarlandi og bílastæðin innan því langflest á landi Reykjavíkurborgar, sem þýðir að stæðin eiga að vera aðgengileg öllum.
Þrátt fyrir það eru víða á húsveggjum skilti þar sem því er jafnvel hótað að ef aðrir en þeir sem eigi erindi í húsin eigi á hættu að ökutæki þeirra verði dregin í burtu.

Skilti af þessari gerð eru meðal annars á húsinu hér að ofan, sem er númer 23 við Síðumúla. Það hýsir auk annars skrifstofur og fundarsal Blaðamannafélags Íslands.
Vestari „aukagatan“ á Grensásvegi er borgarland

Á Grensásvegi á milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar eru „aukagötur“ undir bílastæði beggja megin götunnar, en einungis gatan sem er vestan megin Grensásvegar, á milli húsa 8 til 16, er á borgarlandi.
Þar hafa fyrirtæki því í reynd enga heimild til þess að merkja sér bílastæði fyrir viðskiptavini fyrir utan dyrnar.

Er myndavélarbíll Google ók um götuna í júlí árið 2013 voru þó skilti á nær hverju húsi.
Skeifa, Kringla, Borgartún, Fiskislóð
Blaðamaður kannaði hvernig stöðu þessara mála væri háttað á fleiri helstu þjónustu- og verslunarsvæðum Reykjavíkurborgar.
Niðurstaðan af þeirri lauslegu könnun í borgarvefsjá var sú að bílastæði sem merkt eru einkastæði eru sjaldnast á borgarlandi á öðrum svæðum – nema auðvitað í miðborginni, þar sem stæði á borgarlandi eru gjaldskyld.

Í Skeifunni virðist hvert eitt og einasta bílastæði vera innan lóðarmarka og hið sama á við í Borgartúni og í Kringlunni, en á þessum þremur svæðum eru samanlagt þúsundir ókeypis bílastæða.
Í verslunar- og þjónustukjarnanum við Fiskislóð gegnt Grandagarði eru allnokkur fyrirtæki með sérmerkt bílastæði.
Þau stæði eru inni á lóðum umræddra húsa, eins og sjá má hér að neðan.

Bílastæði við Suðurlandsbraut að hluta á borgarlandi
Við þessa yfirferð á bílastæðamálum við atvinnuhúsnæði í Reykjavík má svo bæta að bílastæðin framan við atvinnuhúsnæði á Suðurlandsbraut, allt frá húsi númer 4 og niður að húsi 32, eru að umtalsverðu leyti á borgarlandi, eins og sjá má dæmi um hér að neðan.
Nánar tiltekið á þetta við um allar lóðir sem eru á milli Hilton-hótelsins og Orkureitsins svokallaða.

Mörg þessara bílastæða munu væntanlega víkja á næstu árum, samfara því að götumyndinni verður breytt með tilkomu Borgarlínu.
Samkvæmt framsettum tillögum í frumdragaskýrslu Borgarlínu er áætlað að það borgarland sem nú fer undir bílastæði við Suðurlandsbraut verði nýtt undir hjóla- og göngustíga sem liggja eiga meðfram Suðurlandsbrautinni.
Það er óháð því hvort akreinar undir bílaumferð á Suðurlandsbraut verði ein eða tvær í hvora áttina, eins og sjá má á skýringarmyndinni hér að neðan.
