Stuðningsmenn þeirra 20 liða sem leika í ensku úrvaldsdeildinni og tíu liða sem leika í næstefstu deild þar í landi taka höndum saman um þessa helgi og mótmæla háu miðaverði á leiki í deildunum. Mótmælunum verður komið á framfæri á leikjum helgarinnar þar sem til stendur að breiða úr borðum til að vekja athygli á málstaðnum. Á meðal þeirra leikja sem til stendur að mótmæla á eru stórleikir sunnudagsins, Merseyside-nágrannaslagur Everton og Liverpool og fjandvinahittingur Arsenal og Manchester United í London. Báðum leikjunum er sjónvarpað um allan heim og sjónvarpsáhorfendur eru mörg hundruð milljónir.
Skilaboðið eru skýr: stuðningsmenn eru ekki viðskiptavinir sem eru bara til þess að græða á, þeir eru ástæðan fyrir því að enska knattspyrnan er það sem hún er, eitt vinsælasta afþreyingarefni í heimi. Undanfarin ár hefur þróun á miðaverði á leikina hins vegar verið með þeim hætti að það er vandkvæðum bundið fyrir marga stuðningsmenn að eiga fyrir þeim. Og það telja stuðningsmannasamtök vítt og breitt um England algjöra fráleita stöðu.
Einn þeirra leikja sem mótmælt verður á er einn frægasti nágrannaslagur heims, leikur Everton og Liverpool sem fram fer á sunnudag.
Ótrúlegir sjónvarpssamningar
Enska úrvalsdeildin er í raun fyrirtæki þar sem liðin 20 sem í henni spila hverju sinni eru í hlutverki hluthafa. Vinsældir deildarinnar eru nær fordæmalausar og hún er sú knattspyrnudeild sem langflestir áhorfendur horfa á í heiminum. Leikjum úr ensku úrvalsdeildinni er sjónvarpað til yfir 212 svæða í heiminum þar sem eru 643 milljónir heimila og 4,7 milljarðar manns búa.
Viðskiptalegur árangur þessa fyrirbæris, sem var sett á fót árið 1992, hefur verið ævintýralegur. Þar skiptir mestu máli auknar tekjur vegna sölu á sjónvarpsrétti. Þegar úrvaldsdeildin var sett á fót greiddu handhafar sjónvarpsréttarins 191 milljón pund fyrir sex ára samning. Það þýddi að liðin í deildinni, eigendur hennar, fengu samtals 32 milljónir punda til að skipta á milli sín á árunum 1992 til 1997.
Virði sjónvarpsréttarins hefur margfaldast í verði síðan þá. Í byrjun árs var gerður nýr samningur sem er að mörgum talin nærri galin. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það gera rúmlega eitt þúsund milljarðar íslenskra króna. Eina íþróttadeildin í heiminum sem þénar meira vegna seldra sjónvarpsrétta er bandaríska NFL-deildin.
365 miðlar halda á sjónvarpsréttinum til að sýna frá enska boltanum út þetta tímabil. Fyrirtækið fær að öllum líkindum samkeppni um hann frá Símanum þegar rétturinn verður boðinn út að nýju í næsta mánuði.
Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu réttinn, borga meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðvarnar sýna. Til samanburðar má nefna að samningurinn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kostaði um þrjá milljarða punda. Nýi samningurinn er því 70 prósent hærri en sá sem var í gildi.
Til viðbótar við þennan samning selur úrvaldsdeildin sýningarrétt á sér til 80 annarra aðila í heiminum sem sýna leiki hennar utan Englands. Verið er að ganga frá sölu þess réttar um þessar mundir. Til dæmis verður líkast til tilkynnt um hver fékk réttinn í Noregi í gær og rétturinn til að sýna frá enska boltanum á Íslandi fer í útboð í nóvember þar sem fastlega er búist við því að Síminn muni keppa við núverandi rétthafa, 365 miðla, um að komast yfir hann. Enskir fjölmiðlar telja að salan á alþjóðaréttinum muni skila ensku úrvalsdeildinni þremur milljörðum punda til viðbótar á samningstímanum, eða um 580 milljörðum íslenskra króna. Því fá liðin 20 sem spila í deildinni rúmlega tvo milljarða punda til skiptanna á hverju ári sem samningurinn gildir. Það gerir um 100 milljónir punda á hvert lið að meðaltali. Það er alvöru peningur.
Flest ríkustu knattspyrnuliðin í heimi eru ensk
Þessi mikla tekjuaukning hefur gert ensk knattspyrnulið að risafyrirtækjum. Fimm af átta ríkustu félagsliðum heims eru ensk. Hin þrjú eru Real Madrid,Barcelona og Bayern Munchen. Öll 20 liðin í ensku úrvalsdeildinni eru á meðal 30 ríkustu liða í heiminum. Staðan er svo góð að eigendur Manchester United, sem keyptu liðið með gríðarlega stórri skuldsettri yfirtöku fyrir nokkrum árum og skráð það svo á markað, eru farnir að greiða sér út háan arð án þess að það hafi áhrif á getu liðsins til að kaupa leikmenn eða ráðast í aðrar nauðsynlegar fjárfestingar.
En einn hópur nýtur ekki þessa mikla vaxtar: stuðningsmennirnir sem troðfylla vellina í ensku úrvalsdeildinni hverja helgi. Undanfarin ár hefur uppbygging nýrra leikvanga snúist að miklu leyti um að fjölga viðhafnar-glerstúkum sem ofurríkir geta keypt til að fylgjast með leikjum í betra yfirlæti. Rík áhersla hefur verið lögð á að fjölga "corporate"-tekjum.
Manchester United er eitt ríkasta knattspyrnufélag heims. Félagið er skráð á markað í Bandaríkjunum og eigendur þess fá háar arðgreiðslur frá því.
Miðaverð hækkað gríðarlega
Á sama tíma hefur almennt miðaverð verið hækkað gríðarlega. Frá árinu 2011 hafa ódýrustu miðarnir á leiki í úrvalsdeildinni hækkað um 15 prósent. Á sama tíma jókst kostnaður við framfærslu í Bretlandi um 6,8 prósent. Miðaverðið hækkaði því mun skarpar en flestar nauðsynjavörur í landinu. Eftirspurnin eftir miðum er vitanlega gríðarleg. Síðustu tvö tímabil hefur samanlögð nýting allra leikvanga liða í úrvaldsdeildinni verið 96 prósent. Og það hafa liðin nýtt sér til að hækka miðaverðið. Í könnun BBC á því hvað knattspyrna kosti stuðningsmenn, sem birt verður 15. október næstkomandi, kemur fram að dýrustu miðarnir á heimaleiki liða eru á leiki Arsenal, West Ham og Chelsea, þeir kosta á bilinu 87 til 97 pund, eða allt að 19 þúsund krónum. Meðalverðið á leik í deildinni er um 54pund, rúmlega tíu þúsund krónur. Miðarnir ganga síðan kaupum og sölum á svörtum markaði sökum gríðarlegrar eftirspurnar en lítils framboðs og þar getur verðið auðveldlega tvöfaldast.
Á hverjum leik er hluti miða frátekinn fyrir stuðningsmenn aðkomuliðsins, enda gríðarlegur fjöldi Breta sem fylgja sínu liði viðsvegar um landið hverja helgi. Verðið á þessum miðuð hefur hækkað mjög skarpt á undanförnum árum. Dýrustu aðkomumiðarnir, sem eru hjá sömu liðum og selja dýrustu almennu miðanna, kosta á bilinu 59 til 70 pund, eða allt að 13.500 krónur. Þá eiga stuðningsmenn aðkomuliða eftir að greiða fyrir allan samgöngukostnað og uppihald.
Í könnun GoEuro Fotball, sem birt var fyrr á þessu ári, kom fram að það kostaði stuðningsmenn í Englandi að meðaltali 216,14 pund að ferðast á útileiki sinna liða, eða um 42 þúsund krónur. Það er fé sem lág- og meðaltekjumenn í Englandi geta illa sér af í dægrastyttingu 19 helgar á ári. Stuðningsmaður sem færi á alla útileiki síns liðs í deildinni á einu tímabili væri að eyða tæpum 800 þúsund krónum að meðaltali í það ævintýri. GoEuro Fotball segir að það kosti sruðningsmenn nánast það sama að ferðast frá Englandi til Þýskalands til að fara á leik í Bundesliga-deildinni og það kostar þá að fara á útileik í ensku úrvaldsdeildinni.
Mikil óánægja hefur verið með þróun miðaverðs á leiki um langt skeið.
Stuðningsmenn, ekki viðskiptavinir
Stuðningsmennirnir eru búnir að fá nóg af þessu okri og um helgina ætla þeir að grípa til aðgerða. Yfirskriftin er að þeir seú stuðningsmenn, ekki viðskiptavinir. á því sé mikill munur og liðin eigi að taka tillit til þess.
Kröfur þeirra eru að miðaverð á alla leiki verði lækkað og að 20 punda þak verði sett á miðaverð á útileiki. Samtök stuðningsmanna segja að ensku knattspyrnuliðið séu að fjarlægast rætur sínar hratt. Stuðningsmenn þeirra, sem eru lykilþáttur í að skapa þá ótrúlega blóðheitu umgjörð sem er í kringum þá íþrótta-sápuóperu sem enska deildin er, eru að upplagi langflestir af lág- og millistétt. Fótboltaáhorf var afþreyingin sem þeir höfðu efni á að veita sér. Nú sé það hins vegar að verða sífellt fjarlægari möguleiki að komast á völlinn. Þeir séu þess í stað fylltir af hálfdrukknum uppum og jakkafataklæddum milljarðamæringum í glerbúrum. Í almennu sætunum eru sífellt fleiri ferðamenn, sem virðast ótrúlega oft vera Norðmenn.
Áhugavert verður að sjá hvort stjórnendur liðanna, og stjórnendur stórfyrirtækisins ensku úrvaldsdeildarinnar, hlusti á þetta ákall helstu stuðningsmanna liðanna. Eða hvort það sé raunverulega stefna þeirra að gera áhorf á leiki deildarinnar úr stúkunni að lúxusvöru sem venjulegir neytendur hafa illa efni á veita sér.