Núna í september verða haldnar þingkosningar í Svíþjóð þar sem rúmlega 7,5 milljónir Svía geta nýtt kosningarétt sinn en einnig er kosið í sveitarstjórnir. Helstu átakalínur kosninganna hafa verið að myndast undanfarið og virðast þrenn málefni ætla að verða þau helstu sem tekist verður á um: staða heilbrigðis- og menntakerfis, hækkandi glæpatíðni og síðast en ekki síst þjóðaröryggismál í ljósi hegðunar Rússa í Evrópu.
Í fyrstu grein var farið yfir sögu sænskra stjórnmála á seinni hluta síðustu aldar með áherslu á breytingar í rekstri á velferðarkerfinu. Í annarri grein var sjónum beint að pólitísku landslagi síðustu ára og hvernig flokkar hins mögulega „blábrúna“ bandalags standa nú rétt fyrir kosningar. Í þessari síðustu grein verður síðan rýnt í ríkisstjórn Magdalenu Andersson, hið mögulega „rauðgræna“ bandalag og hvaða sviðsmyndir við gætum séð eftir kosningar.
Núverandi kjörtímabil
Síðan í lok nóvember á síðasta ári hefur einsflokks minnihlutaríkisstjórn Sósíaldemókrata (s. Socialdemokraterna) verið við völd, en hún stýrir landinu með 28,65% meirihluta, þeim minnsta síðan 1979, með óvirkum stuðningi Miðflokksins (s. Centerpartiet), Vinstriflokksins (s. Vänsterpartiet) og Græningja (s. Miljöpartiet). Það má segja að sú ríkisstjórn sem nú er við völd sé eins konar síðasti lifandi afkomandi fyrstu ríkisstjórnar Stefan Löfven sem fyrst tók við völdum 2014. Síðan þá hefur ýmislegt gerst.
Stjórnartíð Stefans Löfven (2014–2021) einkenndist einkum af brotakenndum pólitískum sjó þegar kom að þeim áskorunum og verkefnum sem fyrir lágu. Þá var það hans ríkisstjórn sem tók við þeim mikla straumi af flóttafólki árið 2015 og árið þar á eftir. Þar að auki var fyrsta hryðjuverkaárás á sænskri grundu framin í hans stjórnartíð vorið 2017. Viðbrögð stjórnvalda við þessum áskorunum virðast þó hafa fallið ágætlega í kramið á kjósendum þar sem hún hélt að mörgu leyti enn velli eftir útkomu kosninganna 2018. Stefna sænskra stjórnvalda í sóttvarnamálum hefur þó töluvert verið gagnrýnd, bæði heima fyrir og að utan, þó svo að sænskur almenningur virðist almennt hafa stutt þær.
Á þeim tímapunkti virtist framtíð Sósíaldemókrata sem leiðandi afl í ríkisstjórn landsins heldur dökk og aðeins tímaspursmál hvenær ný öfl tækju við. En síðan þá hefur fylgi flokksins þvert á móti aukist og virðast störf Andersson falla vel í kramið hjá mörgum landsmönnum. Þegar Andersson tók við sem forsætisráðherra í lok nóvember síðastliðnum var flokkurinn að mælast í sögulegu lágmarki, eða með rúmlega 25% fylgi. Í skoðanakönnunum síðan þá hefur hann þó verið að mælast með rúmlega 31% fylgi en nú í ágúst mældist flokkurinn þó með 28,5% fylgi.
Þó eru mörg mál sem brenna á landsmönnum og virðist vera talsverður pólitískur brotsjór fyri stafni, rétt eins og hefur verið síðustu ár. En segja má að ákvörðun Andersson og Sósíaldemókrata að styðja inngöngu Svía í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) hafi skilað þeim auknu fylgi ásamt áherslum og framgöngu nýs formanns.
Framtíð Græningja
Áður en Magdalena Andersson tók við sem forsætisráðherra og myndaði sína eins flokks ríkisstjórn höfðu Græningjar setið í ríkisstjórn talsvert lengi. Í takt við þetta hefur fylgi flokksins dalað talsvert síðustu ár vegna erfiðra málamiðlana sem flokkurinn hefur þurft að gera í innleiðingu á grunnstefnumálum sínum er snerta loftslag og umhverfi.
Núna á síðustu mánuðum hafa Græningjar verið að mælast undir þingþröskuldinum (4%) með rúmlega 3,5% fylgi. Í síðustu skoðanakönnun mældist þó flokkurinn með 4,5% fylgi. Áhugavert verður að sjá hvort leiðtoga flokksins, Per Bolund, takist að halda slíku fylgi en kosningarnar í september koma til með að verða mikil þrekraun. Á síðustu vikum hefur flokkurinn einna helst reynt að minna kjósendur á að það sé í raun bara einn flokkur sem setur loftslagsaðgerðir fremst í stefnumál sín.
Prinsipp Vinstriflokksins
Síðustu ár hefur Vinstriflokkurinn helst verið áberandi fyrir hlutverk sitt í þeim ríkisstjórnum sem myndaðar hafa verið eftir síðustu kosningar og hvernig fyrir þeim fór á endanum. Fylgi flokksins hefur verið nokkuð stöðugt síðan þá en hann hefur staðið fast við sín baráttumál og ekki að kostnaðarlausu. Það má nefnilega rekja ríkisstjórnarkrísuna sem skall á sumarið 2021 til harðrar andstöðu Vinstriflokksins við upptöku markaðsstýrðrar leigu í stað hins almenna eftirlits með húsaleigu í nýbyggðum íbúðum. Þessi stefnubreyting var eitt af mörgum atriðum Janúarsamkomulagsins svokallaða sem var ígildi stjórnarsáttmála Sósíaldemókrataflokksins og Græningja. Þetta samkomulag var síðan stutt beint af Miðflokknum og Frjálslynda flokknum (s. Liberalerna), en þessir tveir síðastnefndu flokkar voru þeir sem kröfðust þess að það yrði með.
En þó svo að Vinstriflokkurinn hafi ekki verið með í þessu ríkisstjórnarsamkomulagi reiddi það sig samt sem áður á stuðning flokksins en þó hafði þáverandi formaður flokksins Jonas Sjöstedt gefið að út að flokkurinn myndi bera fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Stefan Löfvens. Í byrjun júní árið 2021 lagði svo ríkisstjórnin fram tillögu fyrir þingið að fjarlægja leigueftirlit í nýjum íbúabyggingum og tilkynnti núverandi formaður Vinstriflokksins, Nooshi Dagostar, að flokkurinn bæri ekki lengur traust til ríkisstjórnarinnar.
Vantrauststillaga samþykkt
Þann 21. júní 2021 var á endanum vantrauststillaga borin upp á hendur Stefan Löfven sem var samþykkt í sögulegri atkvæðagreiðslu með stuðningi Svíþjóðardemókrata (s. Sverigedemokraterna), Hægriflokksins (s. Moderaterna) og Kristinna demókrata (s. Kristdemokraterna) – sem sáu sér leik á borði. Aldrei í sögu sænskra stjórnmála hafði sitjandi forsætisráðherra verið velt úr stóli með slíkum hætti. Einnig er vert að taka fram að það var ekki Vinstriflokkurinn sem kallaði eftir sjálfri atkvæðagreiðslunni heldur voru það Svíþjóðardemókratar sem voru ekki lengi að bregðast við stöðunni.
Eftir að niðurstaðan varð ljós fékk Ulf Kristersson formaður Hægriflokksins umboð til að mynda nýja ríkisstjórn, sem hann reyndi að gera með Kristnum demókrötum, Svíþjóðardemókrötum og Frjálslynda flokknum. Það tókst þó ekki en einungis það að Frjálslyndi flokkurinn hafi verið reiðubúinn að styðja ríkisstjórn sem væri að einhverju leyti mynduð af Svíþjóðardemókrötum sýndi hversu langt þessi síðarnefndi flokkur var kominn inn í meginstraum stjórnmálanna. Töldu sumir að nú væri fokið í flest skjól. Stefan Löfven var svo aftur kosinn forsætisráðherra þegar sjórinn hafði róast en tilkynnti jafnframt að hann myndi víkja úr stóli áður en árið væri úti. Þegar atvikið í sjónvarpssalnum sem nefnt var hér á undan átti sér stað síðasta haust var Per Bolund umhverfisráðherra í viðkvæmri ríkisstjórn Stefans Löfven sem þá hafði tekið við. Síðan þá hafa Græningjar með Per Bolund í fararbroddi vikið úr ríkisstjórninni en þar áður hafði Vinstriflokkurinn með Nooshi Dagostar í fararbroddi gert slíkt hið sama.
Þó er vert að taka það fram að Miðflokkurinn féll á endanum frá því að innleiða þessa breytingu á leigumarkaðnum og ákvað Frjálslyndi flokkurinn að lokum að falla frá frekari viðræðum við Miðflokkinn varðandi áframhaldandi samstarf.
Annie Lööf og hennar breiða miðja
Annie Lööf hefur leitt Miðflokkinn í meira en áratug en þegar hún tók við stjórnartaumum flokksins varð hún yngsti formaður hans í sögunni, aðeins 29 ára gömul. Eftir kosningarnar 2018 var það raunhæfur möguleiki að Lööf myndi mynda samsteypuríkisstjórn út frá miðju og jafnframt leiða hana en þær tilraunir gengu þó ekki á endanum. Stuðningur flokksins við síðustu ríkisstjórn sem mynduð var með Janúarsamkomulaginu braut jafnframt upp blokkarpólitík landsins þar sem hann hafði nær ætíð leitað til hægri í ríkisstjórnarmyndunarviðræðum.
Frá síðustu kosningum hefur Miðflokkurinn verið að mælast með rúmlega 7–9% fylgi en nú í vor virtust aðeins rúmlega 5% kjósenda ætla að gefa honum atkvæði sitt. Líklega hafði flokkurinn þá verið að missa fylgi til Sósíaldemókrata undir nýrri forystu Andersson. En eins þverstæðukennt og það kann að vera að þá er það Sósíalemókrötum í hag að Miðflokkurinn hafi hraustlegt fylgi þannig að réttlætanlegt sé að mynda ríkisstjórn með þeim. Í síðustu skoðanakönnun mældist flokkurinn með 6% fylgi. Undanfarið hefur flokkurinn sett hvað mesta áherslu á loftslagsmál og reynir að koma fram sem töluvert grænni flokkur en fólki hefur þótt hann verið.
Nýir vindar innan raða Sósíaldemókrata
Í dag standa hinir ráðandi flokkar síðustu áratuga – helst Sósíaldemókratar og Hægriflokkurinn – frammi fyrir vaxandi óánægju meðal almennings vegna stöðu mála þegar kemur að vaxandi glæpatíðni og stöðu velferðarkerfisins. Segja má að Svíþjóðardemókratar séu ákveðin birtingarmynd þeirrar óánægju. Þó er Svíþjóð í dag enn leiðtogi á sviði jafnréttismála á alþjóðlegum skala og virðist það vera almennt svo að almenningur er hlynntur jafnréttisáherslum. Ákveðin þversögn fylgir þessu samt sem áður þar sem tekjuójöfnuður, fátækt og heimilisleysi hefur haldið áfram að aukast í landinu á undanförnum árum.
Í takt við breytt efnahagslegt landslag sem myndast hefur í gegnum árin hefur flokkur Sósíaldemókrata færst töluvert nær miðju þegar liðið hefur á tuttugustu og fyrstu öld, líkt og margir svipaðir flokkar í Evrópu hafa gert. Myndu sumir jafnvel segja að Vinstriflokkurinn í dag standi fyrir því sem Sósíaldemókratar stóðu eitt sinn fyrir. Flokkurinn er þannig orðinn markaðsvænni en einnig hefur hann þurft að aðlaga sig að málamiðlunum úr ýmsum áttum, miklu meira en aðrir flokkar á síðustu árum. Jafnframt er flokkurinn sá ríkasti í Svíþjóð og með lang burðarmesta baklandið.
Stríðið hefur áhrif
Innrás Rússlands í Úkraínu hefur breytt öryggisástandi flestra landa í Evrópu til muna. Jafnframt hefur það bersýnilega haft áhrif á núverandi stuðning við stjórnmálaflokka í landinu, en þó hafa þau áhrif einna helst verið jákvæð fyrir einn flokk. Svo virðist sem allir flokkar hafi verið að tapa fylgi síðan stríðið hófst nema Sósíaldemókratar, sem hafa aukið hressilega við sig í síðustu skoðanakönnunum. Jafnframt hefur ákvörðun flokksins um að hefja aðildarviðræður við NATO einnig haft jákvæð áhrif á fylgið sem og traustvekjandi nýr formaður.
Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar á þessu ári hafa stjórnarmenn í Kreml hótað töluvert mörgum löndum sem dirfast myndu að blanda sér í aðgerðir þeirra. Þær hótanir sem bárust til Svíþjóðar og Finnlands báru sérstakan ugg með sér þar sem hvorugt þessara landa eru hluti af NATO. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa Rússar varað Svía og Finna við því að ganga í NATO og annað varnarsamstarf til vesturs. En það má segja að þegar háttsemi og grimmd Rússa birtist heimsaugum virtist „Rússagrýlan“ loksins vera komin að dyragætt þessara tveggja landa og fór umræðan um ágæti NATO-aðildar af stað. Þar að auki hefur Pútín og gengi hans í Kreml verið að vanvirða bæði land- og lofthelgi Svíþjóðar, meðal annars með því að fljúga kjarnorkuvopnum aðeins í þeim tilgangi að hræða.
Innganga í NATO
Eftir að stjórnvöld bæði Svíþjóðar og Finnlands lýstu því formlega yfir að þau hyggjust leitast eftir inngöngu í NATO beið þeirra þó þungt grjót í vegi í formi andstöðu Recep Tayyip Erdoğans Tyrklandsforseta. Hún byggðist þó einna helst á frekari áætlunum hans að berja á Kúrdum en hann vildi meina að Svíar hefðu stutt óbeint við Verkalýðsflokk Kúrda (PKK) sem Tyrklandsforseti hafði bannfært og stimplað sem hryðjuverkasamtök. Þannig hefðu Svíar stutt flokkinn með því að veita meðlimum hans hæli í gegnum tíðina.
Eftir nokkra fundi milli fulltrúa Svíþjóðar, Finnlands og Tyrklands samþykkti Erdogan loksins að hleypa þessum ríkjum inn í bandalagið. Ekki er alveg víst hvað sænsk stjórnvöld gáfu í staðinn en einhverjir vildu meina að fjöldi kúrdanskra Svía með tengingu við PKK yrðu framseldir í klær Erdogans en slíkt verður þó að teljast ólíklegt enn sem komið er. Jafnframt virðist andstöðu Tyrklands við aðild Svía að NATO ekki alveg vera lokið og verður áhugavert að sjá hvernig þessi mál munu þróast þegar mynda á nýja ríkisstjórn.
Áhugaverðir kjósendahópar
Þegar rýnt er í komandi kosningar er áhugavert að skoða hverjir það eru sem kjósa. Sænski stjórnmálafræðingurinn Henrik Ekengren Oscarsson telur upp fimm kjósendahópa sem gætu ráðið úrslitunum í kosningunum:
Í fyrsta lagi er það millistétt í og í kringum borgir sem tilheyra bæði miðjunni þegar kemur að tekjum og þegar kemur að hinum pólitíska skala.
Í öðru lagi er litið til annarrar kynslóðar innflytjenda sem ef til vill kjósa öðruvísi en foreldrar þeirra hafa gert í gegnum tíðina. Sósíaldemókratar hafa alltaf verið með mikinn stuðning meðal innflytjenda og í hverfum eins og Rosengård í Malmö og í ákveðnum hverfum við Järvafältet í Stokkhólmi þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa eru innflytjendur eða með innflytjendabakgrunn. Þar mælist stuðningur við Sósíaldemókrata yfir 75%. Þó er vert að taka það fram að þótt það komi kannski mörgum á óvart miðað við stefnu þeirra að þá hafa Svíþjóðardemókratar einnig verið að sækja fylgi til innflytjenda, sérstaklega annarrar kynslóða innflytjenda á ýmsum stöðum.
Í þriðja lagi eru það fyrirtækjaeigendur sem nánast allir kjósa Hægriflokkinn en undanfarið hefur þessi kjósendahópur verið opnari fyrir lausnum Svíþjóðardemókrata sem hafa tekið upp breytta stefnu til að veiða fleiri atkvæði úr þessum hópi.
Í fimmta og síðasta lagi eru það landsbyggðaríbúar sem virðist vera heldur óræður hópur sem getur jafnframt haft mikil áhrif á niðurstöður.
Mögulegar sviðsmyndir að loknum kosningum
Eins og staðan er núna virðast tvær sviðsmyndir líklegastar að kosningum loknum: annars vegar gætu kosningarnar í september markað tímamót í sænskri stjórnmálasögu ef Svíþjóðardemókratar komast til valda í samstarfi við, eða með beinum stuðningi við, Hægriflokkinn, Kristna demókrata og Frjálslynda flokkinn. Miðað við nýjustu skoðanakannanir myndi slík ríkisstjórn ná meirihluta en þessir þrír síðastnefndu flokkar myndu helst aðeins vilja stuðning Svíþjóðardemókrata við stjórn sína. Þó hefur Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata gefið það út að hann sækist eftir því að verða forsætisráðherra og þannig leiða nýja ríkisstjórn. Þó verður það að teljast ólíklegt eins og er. En víst er að ef Svíþjóðardemókratar setjast í ríkisstjórn, eða veita henni stuðning sinn, kemur flokkurinn til með að þurfa gera málamiðlanir, eitthvað sem hann hefur aldrei þurft að gera áður. Þess vegna yrði áhugavert að sjá hvaða áhrif sameiginlegt fjármálafrumvarp slíkrar ríkisstjórnar myndi hafa á fylgi flokksins.
Hins vegar gætu Sósíaldemókratar haldið í völdin ásamt Miðflokknum og með stuðningi frá Vinstriflokknum, ef Græningjar ná ekki að halda sér inni á þingi. Þetta veltur mikið á því hvort Annie Lööf og Miðflokkurinn sé reiðubúinn að starfa á einhvern hátt með Vinstriflokknum eftir það sem gerðist síðasta sumar. Hér verður einnig þörf á málamiðlunum ef þessi samsetning á að ganga. Annie Lööf hefur þegar sagt að hún og flokkur hennar treysti sér ekki í að mynda fjármálaáætlun þar sem Vinstriflokkurinn er einhvers staðar með í ráðum. Þó hefur Nooshi Dagostar nýlega nefnt að hún og flokkur hennar muni ekki „draga rauðar línur“ þegar kemur að mögulegu samstarfi við aðra flokka. Virðist þá flokkurinn nú vilja hafa meiri áhrif og er þá mögulega opinn fyrir málamiðlunum.
Það eru þess vegna tveir kostir sem virðast líklegastir núna en svo er aldrei að vita hvernig málin þróast þegar niðurstöður kosninganna liggja fyrir. Enn getur ýmislegt gerst fram að kosningum og einnig geta orðið ófyrirséðar vendingar að þeim lokum sem gætu breytt heilmiklu. Annie Lööf hefur til dæmis ýjað að því að hún vilji leiða stóra stjórn frá miðju til bæði hægri og vinstri – sá möguleiki er þó talsvert ólíklegur eins og staðan er núna.
Jafnframt hafa undanfarið verið að myndast ákveðin viðvörunarmerki um að efnahagskreppa muni bíta sænskt hagkerfi innan skamms. Nú í ágúst var slegið met í verði á rafmagni í landinu, eins og víða annars staðar í Evrópu, og mun matvælaverð líklega halda áfram að hækka. Með hækkandi verðbólgu og vöxtum virðast töluvert svartar blikur vera á lofti. Hagfræðistofnun Svíþjóðar telur að efnahagskreppa muni líklega gera vart við sig snemma á næsta ári og verður sá ólgusjór eitthvað sem ný ríkisstjórn mun þurfa að glíma við.
Að lokum er einnig mikilvægt að hugsa til þess að þótt erfitt virðist að ná sömu samfélagslegu sátt sem áður ríkti innan sænskra stjórnmála vegna þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í sænsku samfélagi er almenn velferð eitthvað sem allir eiga að geta sammælst um að séu grunnréttindi einstaklingsins (hvaðan svo sem hann kemur). Þess vegna ætti að vera hægt að mynda nýja sátt um þau grunn félagshyggjugildi sem eitt sinn byggðu þær sterku undirstöður sem einkenndu Svíþjóð, og alla íbúa þess.