Róttæki vinstriflokkurinn Syriza og hægriflokkurinn Sjálfstæðir Grikkir hafa ákveðið að hefja meirihlutasamstarf í gríska þinginu. Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, verður forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn og sór embættiseið strax í gær. Flokkarnir hafa þegar myndað ríkisstjórn.
Greint var frá því snemma í dag að Yanis Varoufakis verður fjármálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Hann hefur verið mjög opinskár í gagnrýni á aðhaldsaðgerðir og hefur meðal annars líkt þeim við pyntingar.Nikos Pappas, nýr utanríkisráðherra Grikklands, tilkynnti um ráðherraskipan ríkisstjórnarinnar í dag, en ráðherrarnir sóru embættiseið nú seinni partinn. 39 ráðherrastöður eru í ríkisstjórninni, konur eru í sex þeirra.
Syriza var ótvíræður sigurvegari kosninganna, hlaut 36,3 prósent atkvæða og vantaði aðeins tvö þingsæti upp á að fá hreinan meirihluta í þinginu. Flokkurinn fékk 149 sæti af 300. Þetta gerist vegna þess að samkvæmt grískum reglum hlýtur sá flokkur sem fær stærstan hlut atkvæða 50 sæti til viðbótar á þinginu. Samtals eru flokkarnir tveir með 162 þingsæti, en Sjálfstæðir Grikkir fengu 4,7 prósent atkvæða og 13 þingsæti.
Ólíkir flokkar með eitt sameiginlegt mál
Samstarf þessara tveggja flokka kom mörgum á óvart, enda flokkarnir á öndverðum meiði í mjög mörgum málum. Það sem sameinar flokkana tvo er andstaðan við aðhaldsaðgerðir og efnahagsstefnu sem Grikkland hefur þurft að gangast undir síðastliðin ár vegna samkomulags við Seðlabanka Evrópu, Evrópusambandið (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Þessi þrenning, eða troika eins og yfirleitt er talað um í Grikklandi, er ekki beinlínis vinsæl í Grikklandi. Flokkarnir tveir áttu það sameiginlegt í kosningabaráttu sinni að stíla inn á reiði almennings í garð þrenningarinnar.
Syriza er hins vegar sósíalískur vinstriflokkur sem hefur gagnrýnt valdablokkirnar í grískum stjórnmálum harðlega, á meðan Sjálfstæðir Grikkir er íhaldssamur hægri flokkur sem hefur verið viðriðinn þessar valdablokkir. Flokkurinn aðhyllist einnig harða innflytjendastefnu, og hefur orðið uppvís að kynþáttahatri og andúð í garð samkynhneigðra. Leiðtogi flokksins hefur látið hafa eftir sér að Evrópu sé stjórnað af þýskum nýnasistum, og hefur látið í veðri vaka að það séu gyðingar sem ekki borgi skatta, en skattskil eru stórt vandamál í grísku samfélagi.
Grátt leikið Grikkland
Grikkland hefur verið mjög grátt leikið allt frá því að kreppan skall á árið 2008. Verg landsframleiðsla er til að mynda fjórðungi lægri nú en hún var árið 2008. Skuldir ríkisins nema um 316 milljörðum evra, eða 176 prósentum af vergri landsframleiðslu, en þetta er hæsta skuldahlutfallið á evrusvæðinu. Ítalía er með næst hæsta hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu, eða 132 prósent. Um fjórðungur Grikkja er án atvinnu og hlutfallið er yfir 50 prósent hjá ungu fólki. Ríkið hefur fengið 240 milljarða evra að láni frá árinu 2010 í gegnum samkomulagið. Stærstur hluti skuldanna er við önnur ríki evrusvæðisins, eða 60 prósent.
Enginn trúir því að Grikkland geti staðið undir þessum skuldum.
Í staðinn fyrir þessi risavöxnu lán sem Grikkir fengu til að fara ekki á hausinn þurftu þeir að gangast undir mjög strangar aðhaldsaðgerðir. Eftirlaun voru fryst, opinberum starfsmönnum sagt upp í stórum stíl og skattar hækkaðir, svo dæmi séu nefnd. Viðsnúningur virðist hafa hafist í fyrsta sinn á nýliðnu ári, og á þriðja ársfjórðungi 2014 var vöxturinn orðinn 1,9 prósent.
Viðurkennt hefur verið að þessar umfangsmiklu niðurskurðaraðgerðir sem ráðist var í skiluðu ekki allar tilætluðum árangri, ekki var gert ráð fyrir að kreppan yrði eins djúp og raun bar vitni og ekki heldur að atvinnuleysi yrði svo mikið. Þrenningin Seðlabanki Evrópu, AGS og ESB hefur verið gagnrýnd fyrir samkomulagið, sumum þykir hafa verið ljóst frá upphafi að Grikkland gæti aldrei staðið undir því.
Þessu halda forvígismenn Syriza til dæmis fram nú. Euclid Tsakalotos, talsmaður flokksins í efnahagsmálum, sagði við BBC í morgun að „enginn trúir því að Grikkland geti staðið undir þessum skuldum.“ Hann hefði aldrei hitt hagfræðing sem af einlægni héldi því fram að Grikkir muni borga til baka allar skuldir sínar. „Það er ekki hægt.“
„Vonin er á leiðinni“
Við þessar kringumstæður allar komst Syriza til valda. Slagorð flokksins var „vonin er á leiðinni“ og í sigurræðu sinni í gær sagði Tsipras að vonin hefði komist í sögubækurnar. Flokkurinn sagðist vilja draga til baka uppsagnir opinberra starfsmanna, hætta niðurskurði í opinberri þjónustu og hækka laun og lífeyri. Stærsta kosningamálið var vitanlega andstaðan við aðhaldsaðgerðirnar, og loforð um að losa þjóðina undan yfirráðum þessara alþjóðlegu stofnana. Syriza vill að stór hluti 240 milljarðanna sem fengnir hafa verið að láni verði afskrifaðir og samið verði upp á nýtt um afganginn.
Tsipras og Tsakalotos hafa meðal annarra sagt nú eftir kosningar að þeir séu reiðubúnir til samninga og ætli sér alls ekki út úr evrusamstarfinu. Nýja ríkisstjórnin sé tilbúin til viðræðna á jafningjagrundvelli til þess að komast að lífvænlegri lausn á málinu.
„Ef Grikkland fellur og þarf að ganga úr evrusamstarfinu - þá mun evrusamstarfið falla. Það væri mín versta martröð. Við sögðum frá upphafi að evrusamstarfið væri í hættu, evran er í hættu, en það er ekki Syriza sem er hættan... hættan stafar af aðhaldsstefnunni,“ sagði Tsakalotos einnig í morgun.
Dræm viðbrögð í Evrópu
Kosningasigri Syriza var tekið misjafnlega í Evrópu, en flestir stigu varlega til jarðar. Fjármálaráðherrar evruríkjanna, evruhópurinn svokallaði, hefur hingað til útilokað allar afskriftir af skuldum Grikkja. „Það er enginn stuðningur við afskriftir í Evrópu,“ sagði fjármálaráðherra Hollands, Jeroen Dijsselbloem, eftir fund þeirra í gær en hann er jafnframt í forsæti evruhópsins. Ríkin ættu að fara eftir reglum og skuldbindingum svæðisins. Hann sagði hins vegar að ef það yrði „nauðsynlegt“ væri hægt að skoða skuldirnar og endurgreiðslur þeirra eftir heildarskoðun á núverandi efnahagsástandi. Dijsselbloem hefur rætt við nýja fjármálaráðherra Grikklands og segist hafa lýst yfir miklum vilja til samstarfs.
. @atsipras I look forward to working with you for the benefit of the citizens of Greece and the European Union pic.twitter.com/5XNGl9R3rr
— Jean-Claude Juncker (@JunckerEU) January 26, 2015
Steffan Seibert, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar sagði einnig í gær að mikilvægt sé að Grikkland tryggi áframhaldandi efnahagsbata. „Hluti af því er að Grikkland standi við fyrri skuldbindingar sínar.“ Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, sagði við franska blaðið Le Monde að Grikkir yrðu að virða reglur evrusvæðisins og gætu ekki krafist sérmeðferðar vegna skulda sinna. Hún sagði einnig að málið snérist ekki aðeins í aðhaldsaðgerðum heldur ættu Grikkir enn eftir að ráðast í umfangsmiklar umbætur á kerfinu þar, svo sem skattheimtu og dómskerfinu. Ráðamenn í Finnlandi og Belgíu hafa gefið í skyn að þeir væru reiðubúnir til þess að lengja í lánum Grikklands og endurskipuleggja skuldirnar. The Economist bendir á að það eru ekki upphæðirnar sem Grikkland skuldar sem eru stóra málið, heldur það hversu nátengd hagkerfin á evrusvæðinu eru.
#Dailychart: If Greece leaves the euro, it is clear who would be hit by an ensuing default http://t.co/X9cIZnWXnV pic.twitter.com/76sWsZkSmB — The Economist (@TheEconomist) January 26, 2015
Markaðir virðast hafa trú á því að úr málunum leysist þar sem sú katastrófa sem búið var að spá ef Syriza sigraði í kosningunum varð ekki. Lækkun hefur helst verið á grísku mörkuðunum.
Hvað svo?
Þrátt fyrir yfirlýsingar og stefnu nýju ríkisstjórnarinnar er enn samningur í gildi við þrenninguna svokölluðu, og hann gildir út febrúar. Grikkland á enn eftir að fá 7,2 milljarða evra úr þessu samkomulagi til þess að fjármagna sig. Þess vegna þarf nýja ríkisstjórnin að minnsta kosti fyrst um sinn að fylgja skilyrðum samkomulagsins.
Enn er það mjög fjarlægur möguleiki að Grikkir gangi úr evrusamstarfinu. En nú þegar búið er að skipa ríkisstjórn reynir fyrst á. Næstu daga og vikur verður væntanlega áhugavert að fylgjast með þróun mála og hvort og þá hvernig samningaviðræðurnar verða. Stærsta spurningin er hversu mikið evruríkin eru tilbúin að koma til móts við Grikki og öfugt. Ef ekkert gengur verður möguleikinn á því að Grikkir gangi úr samstarfinu aðeins meiri, og þá er hætta á ferðum. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því að evrusamstarfið sé á einn veg og ekki sé hægt að segja sig úr því. Hins vegar er ekki lengur talað á sömu nótum og gert var þegar Grikklandi var bjargað, að evrusamstarfið sé dauðadæmt ef eitt ríki fari úr því.
Víst er að fylgst verður náið með framvindu mála á næstunni. Meðal þeirra sem munu fylgjast spenntir með eru stjórnmálamenn í öðrum ríkjum í svipaðri stöðu, ekki síst á Ítalíu og Spáni, þar sem systurflokkar Syriza í andstöðunni við aðhaldsaðgerðir undanfarinna ára hafa aukið við sig fylgi undanfarið. Niðurstaðan í Grikklandi gæti haft miklar afleiðingar fyrir Spánverja, sem kjósa nýtt þing seinna á árinu.