Bílarnir á götunum þyngjast og þyngjast
Nýskráðir fólksbílar á Íslandi árið 2021 voru að meðaltali um 50 prósentum þyngri en bílarnir voru árið 1990. Þetta er alþjóðleg þróun – sem sumir segja að sé helst leidd af bílaframleiðendum sem vilja selja almenningi stærri og dýrari bíla ár frá ári.
Meðalþyngd nýskráðra fólksbíla á Íslandi hefur vaxið mjög undanfarna þrjá áratugi. Í upphafi tíunda áratugarins voru nýskráðir fólksbílar sem komu á götuna að meðaltali rúmlega 1,2 tonn að þyngd, en árið 2021 var meðalþyngdin rétt tæplega 1,8 tonn.
Hinn meðalþungi nýskráði fólksbíll sem rennur inn á malbikið á Íslandi var því tæpum 600 kílóum þyngri í fyrra en hann var árið 1990, samkvæmt svörum Samgöngustofu við fyrirspurn Kjarnans um þetta efni, en svarinu fylgdi tafla yfir meðal eigin þyngd nýskráðra fólksbíla á Íslandi á árunum 1990-2021.
Fyrirspurn blaðamanns var innblásin af nýlegu talnaefni úr skýrslu EPA, umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, sem sýndi hvernig bílar á markaði þar í landi hafa orðið sífellt þyngri og þyngri undanfarna áratugi.
Þetta er alþjóðleg þróun – bílarnir hafa stækkað og stækkað og verða því eðli málsins samkvæmt þyngri. Neyslumynstrið hefur breyst og hlutfall svokallaðra jepplinga af seldum bílum aukist verulega. Þeir hafa, rétt eins og reyndar stærri jeppar, orðið vaxandi hluti af framboði bílaframleiðenda á undanförnum árum, enda arðbærari söluvara. Neytendur hafa tekið þessum stærri bílum fagnandi, þrátt fyrir að þeir séu alla jafna töluvert dýrari en lægri og léttari fólksbílar.
Hrunið, þið munið
Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er þróunin á Íslandi hvað þyngd bíla varðar ólínuleg og áhrif efnahagshrunsins á þær gerðir bíla sem seldust í landinu auðsjáanleg. Áður en kreppti að hér á landi haustið 2008 höfðu lúxusjeppar af ýmsu tagi orðið áberandi á götunum, oft sagðir táknmynd auðs og samfélagsstöðu. Stórir bílar og stórir karlar.
Á fyrstu árunum eftir efnahagshrunið urðu nýskráðir bílar hinsvegar léttari og náði meðalþyngd nýskráðra fólksbíla ekki sömu hæðum og árið 2008 fyrr en árið 2019, þegar verulegur uppgangur var búinn að vera í efnahagslífi landans um nokkurra ára skeið.
„Árið var alveg frábært,“ sagði sölustjóri Range Rover á Íslandi í samtali við RÚV í upphafi árs 2017. Þar var til umfjöllunar rjúkandi sala á lúxusbílum. „Árið einkenndist nokkuð af mjög góðri sölu á jepplingum og jeppum,“ sagði einnig í þessari sömu frétt.
Þróunin hefur síðan haldið áfram í sömu átt og þyngd nýskráðra fólksbíla aukist ár frá ári og ekki síst núna á árunum 2020 og 2021, þegar margir í samfélaginu hafa haft meira á milli handanna sökum vaxtalækkana og þess að hefðbundnar utanlands- og eyðsluferðir hafa verið slegnar af vegna veirunnar.
Rafmagnsbílar eru líka vaxandi hlutur nýskráðra bíla, en eigin þyngd þeirra er að meðaltali umtalsvert meiri en bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, þar sem rafhlöðurnar í þeim eru stórar og þungar.
Þrátt fyrir að það komi ekki fram á myndinni hér að ofan fékk Kjarninn líka upplýsingar um þyngd nýskráðra bíla á fyrstu 18 dögum janúarmánaðar sendar frá Samgöngustofu. Sló eigin þyngd þeirra fólksbíla sem komið hafa nýir á götuna frá áramótum nærri tveimur tonnum að meðaltali.
Auknar öryggiskröfur og stærra fólk á alla kanta
Vaxandi stærð og meðalþyngd bíla hefur verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum erlendis á undanförnum árum. Öryggistilfinning er stundum nefnd á meðal ástæðna fyrir því að neytendur velja sér að vera á þyngri og hærri bílum en áður.
Stífari opinberar kröfur um öryggi eru svo það sem helst hefur leitt til þess að bílar eru að jafnaði orðnir bæði breiðari og lengri, en samkvæmt reglugerðum þarf að vera ákveðið mikið af efni sem getur þjappast saman ef til áreksturs kemur.
Önnur ástæða sem stundum er nefnd fyrir því að bílaframleiðendur hafa verið að framleiða stærri og stærri bíla undanfarna áratugi er sú að fólkið sem notar bílana hefur verið að stækka, bæði að lengjast og gildna. Það fer meira fyrir því.
Vegna næringarríkari fæðu hefur meðalhæð fullorðinna vaxið nokkuð skarpt undanfarin 100 ár, með tilheyrandi kröfum um aukið pláss til að teygja úr fótunum. Lífsstílsbreytingar – og mögulega óhófleg notkun bílsins sem ferðamáta – hefur svo gert mannfólkið breiðara að meðaltali. Breiðara fólk gerir svo kröfu um breiðari bílsæti, sem aftur gerir kröfu um að bílarnir breikki.
Þrátt fyrir að margir upplifi aukið öryggi í umferðinni er þeir sitja í stórum og rammgerðum bíl fremur en litlum og léttum eru þyngri bílar hins vegar óumdeilanlega hættulegri fyrir aðra sem eru í umferðinni, ekki síst þá sem eru gangandi eða hjólandi í götuumhverfinu.
Því þyngri sem bílar eru, því lengri viðbragðstíma þarf ökumaður til þess að hemla sig niður í núll ef eitthvað óvænt gerist – og hreyfiorkan sem losnar úr læðingi við árekstur er meiri hjá þungum bíl en léttum. Þá skerða háir jeppar margir hverjir útsýni ökumanna á svæðið beint fyrir framan bílinn – stundum með banvænum afleiðingum.
Bílaframleiðendur hafi búið til gerviþörf eftir þungum bílum
Í fyrra kom út skýrsla á vegum nokkurra breskra umhverfisverndarsamtaka sem fékk nokkuð umtal þar í landi. Í skýrslunni var athygli vakin á göllunum við smájeppa og jeppa, SUV’s – eins og þessar gerðir bíla eru gjarnan kallaðir á ensku.
Samtökin mæltu með því að bílaframleiðendum yrði bannað að auglýsa jeppa og jepplinga, en greining samtakanna sýndi fram á að þeir væru helst keyptir af einstaklingum með búsetu í borgum og bæjum, en hlutfall þeirra af nýskráðum bílum var einna hæst í auðugustu hverfunum í vesturhluta Lundúna.
Þrír af hverjum fjórum nýjum jepplingum og jeppum sem seldir voru í Bretlandi á árunum 2019-2020 voru skráðir á einstaklinga sem bjuggu í þéttbýli. Í Bretlandi er til sérstakt hugtak yfir jeppa sem aðallega eru notaðir til innanbæjaraksturs í borgum, en þeir eru gjarnan kallaðir „Chelsea-traktorar“ og þá vísað til samnefnds hverfis í Lundúnum.
Í skýrslu bresku félagasamtakanna var sett fram greining á því hvernig bílaframleiðendur hefðu staðið að auglýsingum á jepplingum undanfarna áratugi.
Niðurstaðan af því var sú að bílaframleiðendur hefðu með liðsinni auglýsingastofa vísvitandi búið til eftirspurn eftir tækjum sem væru „mun stærri og öflugari en meðalkaupandi þeirra myndi nokkru sinni þurfa í reynd“ og að búið væri að sannfæra stóran hluta neytenda um að tækið sem þeir þyrftu til þess að skjótast nokkurra kílómetra leið í erindum sínum væri rúmlega tveggja tonna krukkur, sem tekur meira pláss á götunum, mengar meira og hefur heilt yfir skaðleg áhrif á umferðaröryggi í þéttbýli.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Myndu að „sjálfsögðu ekki“ sætta sig við verulegar tafir á Axarvegi
-
9. janúar 2023Þegar það snjóaði inn um anddyri Íslands
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld