Mynd: Arnar Þór Ingólfsson photobílllaugarnes.jpeg
Jepplingur á ferð í Laugarnesi í Reykjavík. Bílar af þessari stærðargráðu og stærri hafa orðið æ algengari á götunum undanfarin ár.
Mynd: Arnar Þór Ingólfsson

Bílarnir á götunum þyngjast og þyngjast

Nýskráðir fólksbílar á Íslandi árið 2021 voru að meðaltali um 50 prósentum þyngri en bílarnir voru árið 1990. Þetta er alþjóðleg þróun – sem sumir segja að sé helst leidd af bílaframleiðendum sem vilja selja almenningi stærri og dýrari bíla ár frá ári.

Með­al­þyngd nýskráðra fólks­bíla á Íslandi hefur vaxið mjög und­an­farna þrjá ára­tugi. Í upp­hafi tíunda ára­tug­ar­ins voru nýskráðir fólks­bílar sem komu á göt­una að með­al­tali rúm­lega 1,2 tonn að þyngd, en árið 2021 var með­al­þyngdin rétt tæp­lega 1,8 tonn.

Hinn með­al­þungi nýskráði fólks­bíll sem rennur inn á mal­bikið á Íslandi var því tæpum 600 kílóum þyngri í fyrra en hann var árið 1990, sam­kvæmt svörum Sam­göngu­stofu við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um þetta efni, en svar­inu fylgdi tafla yfir meðal eigin þyngd nýskráðra fólks­bíla á Íslandi á árunum 1990-2021.

Fyr­ir­spurn blaða­manns var inn­blásin af nýlegu talna­efni úr skýrslu EPA, umhverf­is­stofn­unar Banda­ríkj­anna, sem sýndi hvernig bílar á mark­aði þar í landi hafa orðið sífellt þyngri og þyngri und­an­farna ára­tugi.

Þetta er alþjóð­leg þróun – bíl­arnir hafa stækkað og stækkað og verða því eðli máls­ins sam­kvæmt þyngri. Neyslu­mynstrið hefur breyst og hlut­fall svo­kall­aðra jepp­linga af seldum bílum auk­ist veru­lega. Þeir hafa, rétt eins og reyndar stærri jepp­ar, orðið vax­andi hluti af fram­boði bíla­fram­leið­enda á und­an­förnum árum, enda arð­bær­ari sölu­vara. Neyt­endur hafa tekið þessum stærri bílum fagn­andi, þrátt fyrir að þeir séu alla jafna tölu­vert dýr­ari en lægri og létt­ari fólks­bíl­ar.

Hrun­ið, þið munið

Eins og sjá má á mynd­inni hér að neðan er þró­unin á Íslandi hvað þyngd bíla varðar ólínu­leg og áhrif efna­hags­hruns­ins á þær gerðir bíla sem seld­ust í land­inu auð­sjá­an­leg. Áður en kreppti að hér á landi haustið 2008 höfðu lúxusjeppar af ýmsu tagi orðið áber­andi á göt­un­um, oft sagðir tákn­mynd auðs og sam­fé­lags­stöðu. Stórir bílar og stórir karl­ar.

Á fyrstu árunum eftir efna­hags­hrunið urðu nýskráðir bílar hins­vegar létt­ari og náði með­al­þyngd nýskráðra fólks­bíla ekki sömu hæðum og árið 2008 fyrr en árið 2019, þegar veru­legur upp­gangur var búinn að vera í efna­hags­lífi land­ans um nokk­urra ára skeið.

„Árið var alveg frá­bært,“ sagði sölu­stjóri Range Rover á Íslandi í sam­tali við RÚV í upp­hafi árs 2017. Þar var til umfjöll­unar rjúk­andi sala á lúx­us­bíl­um. „Árið ein­kennd­ist nokkuð af mjög góðri sölu á jepp­lingum og jepp­um,“ sagði einnig í þess­ari sömu frétt.

Þró­unin hefur síðan haldið áfram í sömu átt og þyngd nýskráðra fólks­bíla auk­ist ár frá ári og ekki síst núna á árunum 2020 og 2021, þegar margir í sam­fé­lag­inu hafa haft meira á milli hand­anna sökum vaxta­lækk­ana og þess að hefð­bundnar utan­lands- og eyðslu­ferðir hafa verið slegnar af vegna veirunn­ar.

Raf­magns­bílar eru líka vax­andi hlutur nýskráðra bíla, en eigin þyngd þeirra er að með­al­tali umtals­vert meiri en bíla sem ganga fyrir jarð­efna­elds­neyti, þar sem raf­hlöð­urnar í þeim eru stórar og þung­ar.

Þrátt fyrir að það komi ekki fram á mynd­inni hér að ofan fékk Kjarn­inn líka upp­lýs­ingar um þyngd nýskráðra bíla á fyrstu 18 dögum jan­ú­ar­mán­aðar sendar frá Sam­göngu­stofu. Sló eigin þyngd þeirra fólks­bíla sem komið hafa nýir á göt­una frá ára­mótum nærri tveimur tonnum að með­al­tali.

Auknar örygg­is­kröfur og stærra fólk á alla kanta

Vax­andi stærð og með­al­þyngd bíla hefur verið tölu­vert til umfjöll­unar í fjöl­miðlum erlendis á und­an­förnum árum. Örygg­is­til­finn­ing er stundum nefnd á meðal ástæðna fyrir því að neyt­endur velja sér að vera á þyngri og hærri bílum en áður.

Stíf­ari opin­berar kröfur um öryggi eru svo það sem helst hefur leitt til þess að bílar eru að jafn­aði orðnir bæði breið­ari og lengri, en sam­kvæmt reglu­gerðum þarf að vera ákveðið mikið af efni sem getur þjapp­ast saman ef til árekst­urs kem­ur.

Önnur ástæða sem stundum er nefnd fyrir því að bíla­fram­leið­endur hafa verið að fram­leiða stærri og stærri bíla und­an­farna ára­tugi er sú að fólkið sem notar bíl­ana hefur verið að stækka, bæði að lengj­ast og gildna. Það fer meira fyrir því.

Vegna nær­ing­ar­rík­ari fæðu hefur með­al­hæð full­orð­inna vaxið nokkuð skarpt und­an­farin 100 ár, með til­heyr­andi kröfum um aukið pláss til að teygja úr fót­un­um. Lífs­stíls­breyt­ingar – og mögu­lega óhóf­leg notkun bíls­ins sem ferða­máta – hefur svo gert mann­fólkið breið­ara að með­al­tali. Breið­ara fólk gerir svo kröfu um breið­ari bílsæti, sem aftur gerir kröfu um að bíl­arnir breikki.

Þrátt fyrir að margir upp­lifi aukið öryggi í umferð­inni er þeir sitja í stórum og ramm­gerðum bíl fremur en litlum og léttum eru þyngri bílar hins vegar óum­deil­an­lega hættu­legri fyrir aðra sem eru í umferð­inni, ekki síst þá sem eru gang­andi eða hjólandi í götu­um­hverf­inu.

Þrátt fyrir að hærri og stærri bílar geti aukið öryggistilfinningu þeirra sem í þeim sitja hafa þeir ýmsa vankanta, eins og t.d. skert útsýni út um framrúðuna.
Mynd: Af samfélagsmiðlum

Því þyngri sem bílar eru, því lengri við­bragðs­tíma þarf öku­maður til þess að hemla sig niður í núll ef eitt­hvað óvænt ger­ist – og hreyfi­orkan sem losnar úr læð­ingi við árekstur er meiri hjá þungum bíl en létt­um. Þá skerða háir jeppar margir hverjir útsýni öku­manna á svæðið beint fyrir framan bíl­inn – stundum með ban­vænum afleið­ing­um.

Bíla­fram­leið­endur hafi búið til gervi­þörf eftir þungum bílum

Í fyrra kom út skýrsla á vegum nokk­urra breskra umhverf­is­vernd­ar­sam­taka sem fékk nokkuð umtal þar í landi. Í skýrsl­unni var athygli vakin á göll­unum við smá­jeppa og jeppa, SUV’s – eins og þessar gerðir bíla eru gjarnan kall­aðir á ensku.

Sam­tökin mæltu með því að bíla­fram­leið­endum yrði bannað að aug­lýsa jeppa og jepp­linga, en grein­ing sam­tak­anna sýndi fram á að þeir væru helst keyptir af ein­stak­lingum með búsetu í borgum og bæj­um, en hlut­fall þeirra af nýskráðum bílum var einna hæst í auð­ug­ustu hverf­unum í vest­ur­hluta Lund­úna.

Þrír af hverjum fjórum nýjum jepp­lingum og jeppum sem seldir voru í Bret­landi á árunum 2019-2020 voru skráðir á ein­stak­linga sem bjuggu í þétt­býli. Í Bret­landi er til sér­stakt hug­tak yfir jeppa sem aðal­lega eru not­aðir til inn­an­bæj­arakst­urs í borg­um, en þeir eru gjarnan kall­aðir „Chel­sea-trakt­or­ar“ og þá vísað til sam­nefnds hverfis í Lund­ún­um.

Í skýrslu bresku félaga­sam­tak­anna var sett fram grein­ing á því hvernig bíla­fram­leið­endur hefðu staðið að aug­lýs­ingum á jepp­lingum und­an­farna ára­tugi.

Nið­ur­staðan af því var sú að bíla­fram­leið­endur hefðu með lið­sinni aug­lýs­inga­stofa vís­vit­andi búið til eft­ir­spurn eftir tækjum sem væru „mun stærri og öfl­ug­ari en með­al­kaup­andi þeirra myndi nokkru sinni þurfa í reynd“ og að búið væri að sann­færa stóran hluta neyt­enda um að tækið sem þeir þyrftu til þess að skjót­ast nokk­urra kíló­metra leið í erindum sínum væri rúm­lega tveggja tonna krukk­ur, sem tekur meira pláss á göt­un­um, mengar meira og hefur heilt yfir skað­leg áhrif á umferð­ar­ör­yggi í þétt­býli.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar