Öfgahægrivandinn ekki meiri í Úkraínu en í nágrannaríkjunum
Hópur þjóðernissinnaðra sjálfboðaliðahermanna sem kalla sig Azov-hreyfinguna varð formlegur hluti af þjóðvarðliði Úkraínu árið 2014. Úkraína á þó ekki við meira öfgahægri- eða nýnasistavandamál að etja en ýmsar margar nágrannaþjóðir landsins.
Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur, í herskáum ræðum sínum til réttlætingar á innrásinni í Úkraínu, ítrekað vísað til þess að á meðal þess sem hann vilji ná fram sé að „afnasistavæða“ landið. Pútin hefur sagt nýnasista, þjóðernissinna og gyðingahatara ríða röftum um Úkraínu alla og standa stjórnkerfinu í Kyiv nærri.
Þessum málflutningi hafa svo erindrekar rússneskra stjórnvalda á erlendri grundu miðlað áfram. Í viðtali við mbl.is á dögunum sagði Mikhail Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, að meginástæða hernaðaraðgerða Rússa væri „að brjóta á bak herinn í Úkraínu, sem og að losna við nasistana sem eru þar.“ Aðeins þannig, sagði Noskov, yrði hægt að „tryggja öryggi íbúa á Donbas-svæðinu, sem og Rússlands“.
Volodímír Zelenskí forseti Úkraínu hefur brugðist við þessum nasistaávirðingum frá stjórnvöldum í Kremlin með nokkru háði og bent á að hann sjálfur, lýðræðislega kjörinn forseti landsins, sé gyðingur. „Hvernig gæti ég verið nasisti?“ sagði hann í ávarpi á dögunum og vísaði til þess að afi sinni hefði barist með Rauða hernum gegn þýskum nasistum á tímum seinni heimsstyrjaldar.
Í Úkraínu, eins og flestum ríkjum Austur-Evrópu, eru þó til staðar hægriöfgahreyfingar sem jafnvel hafa innan sinna raða hópa sem kenna sig við nýnasisma. Átökin sem hafa geisað í austurhluta Úkraínu allt frá árinu 2014 hafa til dæmis orðið vatn á myllu hóps sem kallar sig Azov-hreyfinguna.
Þessi hópur sjálfboðaliða, sem telur nokkur þúsund manns, hefur barist gegn rússneskum aðskilnaðarsinnum í Dónetsk og Lúgansk héruðum á undanförnum árum, í samvinnu við sveitir úkraínska stjórnarhersins. Hernaðararmur Azov-hreyfingarinnar varð við upphaf átakanna í reynd formlegur hluti úkraínska þjóðvarðliðsins, sem var mjög svo veikburða er átökin í Donbass hófust.
„Hardcore“ hreyfingar en ekki áhrifamiklar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur, sem meðal annars hefur stundað rannsóknir á þjóðernishyggju og evrópskum stjórnmálum, segir að öfgahægrihreyfingar hafi vissulega verið og séu til staðar í Úkraínu, án þess þó að komast til mikilla áhrifa. Azov-hreyfinguna megi kalla afsprengi átakanna sem hófust árið 2014 með innlimun Krímskaga. Hann bendir á að sú öfgahreyfing sem mestu fylgi hafi náð í lýðræðislegum kosningum sé Svoboda-hreyfingin sem fékk tæplega 11 prósent fylgi í þingkosningum í Úkraínu árið 2012. Hún hafi pólítískt séð haft miklu meiri áhrif en Azov-hreyfingin.
„Það eru mjög „hardcore“ hreyfingar þarna, sem hafa haft mikil áhrif eins og í öðrum nágrannaríkjum. Það hafa verið svona öfgahreyfingar víðast hvar í Austur-Evrópu. En áhrifin í Úkraínu eru ekkert umfram það sem verið hefur í öðrum ríkjum,“ segir Eiríkur í samtali við Kjarnann og bendir á að öfgaþjóðernissinnuð öfl þrífist einnig í Rússlandi og séu sum jafnvel nátengd forsetanum.
Varðandi formleg tengsl Azov-hreyfingarinnar við herlið Úkraínu segir Eiríkur að ekki þurfi að leita lengra en til Ungverjalands til þess að finna öfgahreyfingar með tengsl inn í stjórnkerfið og hernaðarkerfið. Þessar hreyfingar segir hann oft tengjast fótboltabullum og ákveðnum „hooliganisma“ sem þrífist í menningunni sem tengist fótboltaliðum, svoleiðis sé það einnig í Rússlandi.
Fréttaritari BBC í Kænugarði sagði í pistli árið 2014 að úkraínsk stjórnvöld gerðu minna úr hlutverki Azov-hreyfingarinnar í hernaðinum í Donbass en efni stæðu til og að þau reyndu að komast hjá því að tala opinberlega um stórt hlutverk þessa öfgahóps, sem reynst hafði mikilvægur hlekkur í baráttunni gegn rússneskum aðskilnaðarsinnum í austurhéruðunum. Fæstir Úkraínumenn hefðu heyrt um að það væru menn sem kenndu sig við öfgaþjóðernishyggju og jafnvel nasisma að berjast fyrir hönd landsins á víglínunum í austri.
Vestrænir og alþjóðlegir fjölmiðlar hafa á undanförnum árum fjallað allnokkuð um ris öfgahægrisins í Úkraínu og þátt þess í vopnuðum átökum í austurhluta landsins, til dæmis hér, hér og hér. Tilvist einhverra yfirlýstra nýnasista innan þjóðvarðliðs Úkraínu hefur því ekki verið neitt leyndarmál.
Öfgahægrivandi Úkraínu réttlæti ekki innrás Rússa
Á dögunum var fjallað um þessi mál öll í grein sem birtist í breska tímaritinu New Statesman. Höfundur hennar er Michael Colborne, blaðamaður og rannsakandi hjá Bellingcat, sem var að gefa bók um Azov-hreyfinguna. Í greininni segir hann herskáu hægriöfgamennina í Úkraínu hafa notið nokkurs frjálsræðis undir verndarvæng þarlendra stjórnvalda. Frjálsræðis, sem jafnvel hafi verið öfundsvert í augum öfgahreyfinga af svipuðum meiði annarsstaðar í heiminum.
Fram kemur í greininni að liðsmönnum Azov-hreyfingarinnar hafi tekist að fljóta með á öldum úkraínskar þjóðerniskenndar sem óhjákvæmilega hefur orðið til vegna átakanna um Donbass-svæðið. Colborne nefnir sérstaklega að Arsen Avakov, fyrrverandi innanríkisráðherra Úkraínu, sem lét af embætti síðasta sumar, hafi leyft Azov-hreyfingunni að njóta ákveðins refsileysis, en það hafi dvínað frá því að hann hvarf úr ríkisstjórn Volódímírs Zelenskís.
Colborne bendir á að í öllu falli sé það einfaldlega staðreynd að öfgahægrið í Úkraínu sé bæði nokkuð öflugt og vel vopnað. Það geti verið vandamál, og að það sé engum til góða að forðast það að tala um það til þess að forðast að byggja undir áróður Pútíns og fylgitungla hans í Kreml um að vandi stafi af öfgahægrinu í Úkraínu.
„Samt verður að taka fram – og það er sorglegt að þess þurfi – réttlætir ekkert af þessu inngrip Rússa í Úkraínu. Núna þegar sviðsmyndir sem ég taldi ómögulegar fyrir fáum vikum eru að raungerast, er ég sleginn yfir kaldranalegum viðhorfum í sumum kreðsum sítengdra vinstrimanna (e. the compulsively online left) um núverandi stöðu, eins og einhvernveginn eigi Úkraína skilið að sæta innrás, verða hernumin og brytjuð í sundur einungis vegna tilvistar öfgahægrisins,“ skrifaði Colborne.
Lestu meira
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna