Á nánast hverjum degi fyrstu níu mánuði ársins hafa öfgafull veður geisað á Indlandi. Við erum að tala um hitabylgjur, kuldaköst, hvirfilbylji, þrumu- og eldingaveður, úrhelli, flóð og aurskriður.
Umhverfis- og vísindastofnun Indlands (CSE) segir í nýútgefinni skýrslu sinni að öfgar í veðri hafi átt sér stað 241 dag af fyrstu 273 dögum ársins. Á 88 prósentum tímabilsins. Stofnunin segir ennfremur að vegna þessara öfga hafi 2.755 manns týnt lífi, 1,8 milljónir hektara ræktarlands orðið fyrir tjóni, um 415 þúsund hús eyðilagst og tæplega 70 þúsund dýr sem ræktuð eru til manneldis fallið.
Sérfræðingahópur milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skilgreinir veðuröfgar sem atburði sem gerast oftar eða á öðrum stöðum og á öðrum tímum en að meðaltali síðustu áratugi.
Skýrslan sýnir það sem vísindamenn svo sem vissu. Að Indverjar eru meðal þeirra jarðarbúa sem helst eru farnir að finna fyrir hamförum vegna loftslagsbreytinga.
„Þetta er til merkis um loftslagsbreytingar. Þetta snýst ekki um einn atburð heldur aukna tíðni margra atburða – að þær veðuröfgar sem við áður sáum einu sinni á hundrað árum hafa orðið tíðari og verða einu sinni á fimm ára fresti eða oftar,“ segir Sunita Narain, forstjóri CSE.
Og öfgarnar hafa vissulega komið harkalega niður á efnahag Indlands. Talið er að í fyrra, þegar gríðarlegir hitar hrjáðu Indverja, hafi um 5,4 prósent af landsframleiðslunni tapast.
Einn mælikvarði sem bent hefur verið á eru vinnustundir. Þær voru 167 milljörðum færri árið 2021, 39 prósentum, en að meðaltali tíu árin þar á undan.
Sendinefnd Indverja á loftslagsráðstefnunni (COP27) sem nú stendur yfir í Egyptalandi, hafa vakið athygli á þessu og vilja m.a. tryggja að ekki verði gengið of nærri jarðefnaeldsneytisvinnslu í landinu sem skapar gríðarlega mörg störf í landi sem er að reyna að brjótast út úr fátækt. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um að draga úr framleiðslu og notkun jarðefnaeldsneytis á sama tíma og byggt verðir verða upp frekari innviðir fyrir vinnslu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa.
Indverjar hafa sett sér metnaðarfull og að því er talið er raunhæf loftslagsmarkmið. Þannig hafa stjórnvöld einsett sér að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2070. Þá er stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 45 prósent fyrir árið 2030. Á næstu átta árum er ennfremur stefnt að því að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum verði um 50 prósent af allri framleiðslu fyrir lok áratugarins.
Sérfræðingar benda á að aukin tíðni og ákefð veðuröfga muni halda áfram að aukast með hækkandi hitastigi á jörðinni. Öfgar í veðri eru farnar að bitna á efnahag Indlands og munu halda áfram að gera það í auknum mæli. Þar sem öfgarnar virðast vera að skella á af fullum þunga þessi misserin er ekki hægt að bíða eftir að aðgerðir til að vinna gegn hlýnun loftslags skili árangri. Indverjar verði að hafa ítarlegar áætlanir um hvernig eigi að aðlagast breyttu veðurfari. Til þess verkefnis þurfa þeir stuðning alþjóða samfélagsins.
Um 80 prósent Indverja búa á svæðum sem eru viðkvæm fyrir öfgum í veðri, s.s. fyrir flóðum eða hitabylgjum.
Þróuð hafa verið viðvörunarkerfi, kerfi sem vara fólk við flóðahættu og fellibyljum, en þau ná ekki enn til allra. Svo er misjafnt hvort að fólk hafi yfir höfuð burði til að bregðast við slíkum viðvörunum. Leita skjóls. Flýja tímabundið.
Sérfræðingar segja að afleiðingar öfgaveðurs á Indlandi í ár eigi enn eftir að koma fram. Bæði sé um áhrif til styttri og lengri tíma að ræða. „Eftir því sem fleiri gögn koma fram í dagsljósið þá sjáum við að loftslagsbreytingar eru að eiga sér sífellt hraðar stað og öfgafullir veðuratburðir að gerast hver ofan í annan,“ segir Roxy Mathew Koll, loftslagssérfræðingur við Hitabeltisstofnunina á Indlandi. „Þetta er að gerast hraðar en við áttum von á.“
Hún segir Suður-Asíu vera „táknmynd“ loftslagsbreytinga og að í þeim heimshluta sjáist skýr merki um tíðari hitabylgjur, flóð, þurrka og fellibylji. Allt þetta hafi svo áhrif á orkuöryggi, aðgang að hreinu vatni og matvælum.
Aðlögun að loftslagsbreytingum er rándýrt fyrirbæri. Efnameiri þjóðir hétu því á COP15, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2009, að fjármagna slíkt, hétu gríðarlegum upphæðum í þessi þörfu verkefni hjá fátækari löndum. Löndum sem bera minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingum af mannavöldum en bera hitann og þungann af afleiðingunum.
Stjórnvöld á Indlandi vilja að ríku löndin standi við þessi loforð sem ekki hafa verið efnd, tveimur árum eftir þann frest sem þau fengu. Þau hafa enda lagt áherslu á það á COP27 að þessar bætur fáist – og það sem fyrst.
Nýja skýrslan um veðuröfgar ársins sýni svart á hvítu hversu brýnt sé að bregðast við. Ekki seinna en strax.