Olíukaup í Færeyjum, flugferðir ráðamanna og flugvél sem er sjaldnast heima
Ríkisendurskoðun finnur að ýmsum atriðum í rekstri Landhelgisgæslu Íslands í nýrri úttekt sem Alþingi bað um og kynnt var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í vikunni. Flogið var með ráðamenn þjóðarinnar tíu sinnum í loftförum LHG á árunum 2018-2020.
Olíukaup Landhelgisgæslunnar á varðskip sín í Færeyjum, sem hafa átt sér stað allt frá aldamótum, eru á meðal þess sem gagnrýnt er í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum Landhelgisgæslunnar. Dómsmálaráðuneytið fær gagnrýni fyrir að láta olíukaupin óátalin.
Í skýrslu um úttektina, sem kynnt var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á miðvikudag kemur fram að Landhelgisgæslan hafi fyllt ellefu sinum á tanka tveggja varðskipa í Færeyjum, þar sem enginn virðisaukaskattur er greiddur af skipaolíu, á árunum 2018-2020. Alls hafi um þrjár milljónir lítra verið keyptar á skipin fyrir 208,3 milljónir króna.
Landhelgisgæslan er sögð hafa sagt Ríkisendurskoðun í svari við fyrirspurn að í flestum tilfellum væri hagkvæmara að kaupa eldsneyti á Íslandi, ef ekki væri fyrir þann mun sem væri fólginn í virðisaukaskatti viðskiptanna.
Ríkisendurskoðun segir mikilvægt að hafa í huga að virðisaukaskatturinn sem „stjórnendur Landhelgisgæslunnar vísa til að skeri úr um hvar borgi sig að kaupa
eldsneyti rennur allur til ríkissjóðs.“ Ekki fæst því séð, samkvæmt Ríkisendurskoðun, að þarna sé um haldbær rök sé að ræða.
Aðili sem fer með löggæsluvald forðist opinber gjöld
„Einnig verður að horfa til þess að viðbragðstími varðskipa innan efnahagslögsögunnar lengist sem nemur siglingatíma frá miðlínu til Færeyja og aftur til baka. Þá er ekki unnt að halda því fram að enginn aukakostnaður fylgi því að taka olíu í Færeyjum enda kostar að sigla varðskipum frá miðlínu til Færeyja og aftur til baka bæði í beinum siglingakostnaði, olíunotkun, sliti á tækjum og launum áhafnar. Einnig má benda á þá óþörfu kolefnislosun sem þessar siglingar hafa í för með sér,“ segir um þetta í úttekt Ríkisendurskoðunar.
„Það er umhugsunarvert að yfirstjórn dómsmálaráðuneytis hafi látið það óátalið að Landhelgisgæslan, sem fer með lögregluvald á hafsvæðinu í kringum Ísland, skuli ganga jafn langt og raun ber vitni til að komast hjá greiðslu lögboðinna opinberra gjalda í ríkissjóð,“ segir þar einnig.
Í svörum Landhelgisgæslunnar við þessum aðfinnslum er gerð athugasemd við þessa framsetningu Ríkisendurskoðunar og vísar Gæslan til umsagnar Tollstjóra, sem hafi staðfest að olíutaka í Færeyjum sé fyllilega til samræmis við gildandi lög og reglur.
Dómsmálaráðuneytið gerir hins vegar í svari sínu engar athugasemdir við ábendingu Ríkisendurskoðunar um að rétt væri að hætta að taka skipaolíu á varðskipin í Færeyjum.
Margra ára aðgerðaleysi varðandi Ægi vekji „undrun“
Í úttekt Ríkisendurskoðunar er, í kafla sem fjallar um nýtingu og rekstur sjófara Landhelgisgæslunnar, athygli vakin á því fé sem veitt var til reksturs á varðskipinu Ægi hafi verið illa nýtt á undanförnum árum.
„Skipið hefur ekki verið haffært síðan í febrúar 2016 en var fyrst auglýst til sölu í nóvember 2020. Hafnargjöld og annar kostnaður nam á árunum 2018‒20 um 37 m.kr. Að sögn Landhelgisgæslunnar stóðu vonir til þess að fé fengist til að gera skipið haffært á ný en þegar sú reyndist ekki vera raunin var óskað eftir söluheimild á skipinu. Ríkisendurskoðun telur einsýnt að dómsmálaráðuneyti og Landhelgisgæslan hefðu þurft að taka skýra ákvörðun um framtíð skipsins miklu fyrr. Margra ára aðgerðaleysi í málefnum varðskipsins Ægis vekur undrun,“ segir í úttektinni.
Því er bætt við að skortur á raunsærri áætlanagerð er kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti Landhelgisgæslunnar hafi reynst vera „alvarlegur veikleiki“ og gagnrýnt er að undirbúningur þeirrar ákvörðunar að kaupa notað varðskip í staðinn fyrir Tý og Ægi hafi verið takmarkaður.
TF-SIF flogið meira að heiman en hér heima
Ríkisendurskoðun gagnrýnir einnig í skýrslu sinni hve mikið flugvél Gæslunnar, TF-SIF, er notuð í leiguverkefnum erlendis, en fram kemur að 62 prósent heildarflugstundavélarinnar hafi verið í leiguverkefnum á erlendri grundu.
„Leigutekjur vegna Frontex-verkefna hafa komið til móts við kröfu sem gerð hefur verið um öflun rekstrartekna en jafnframt verður að horfa til þess fórnarkostnaðar sem er fólginn í skertri getu stofnunarinnar til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að TF-SIF verði fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis enda er meginhlutverk Landhelgisgæslunnar að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland. Til slíkra starfa var TF-SIF keypt og var það forsendan með fjárheimild Alþingis. Útleiga vélarinnar í svo miklu mæli getur ekki gengið til lengri tíma,“ segir í úttektinni.
Ráðamenn meðferðis í tíu flugverkefnum 2018-2020
Það vakti mikla athygli í ágúst árið 2020 er þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, var notuð til þess að flytja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, frá Reynisfjöru á Mýrdalssandi. Þar var ráðherrann staddur í hestaferð og var hún til flutt til Reykjavíkur til þess að taka þátt í samráðs- og blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar.
Ríkisendurskoðun spurði Gæsluna um það hversu oft ráðherra, ráðuneytisstjórar eða aðrir aðilar á vegum stjórnsýslunnar hefðu verið meðferðis í flugverkefnum á árunum 2018-2020 og svarið var að það hefði gerst alls tíu sinnum.
Í úttekt Ríkisendurskoðunar er bent á að þegar flogið var með dómsmálaráðherra hafi TF-EIR verið eina tiltæka þyrla Landhelgisgæslunnar, sökum viðhalds á þyrlunni TF-GRO, en um þetta var fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma. Þá sagði Landhelgisgæslan í tilkynningu að ekki hefði verið um óeðlilega tilhögun að ræða og viðbragðsgeta stofnunarinnar hefði ekki verið skert.
Ráðherra viðurkenndi þó að það hefðu verið mistök að nýta þyrluna með þessum hætti og sagði koma til greina að endurskoða með hvaða hætti staðið væri að flugi Gæslunnar í þágu ráðamanna.
Ríkisendurskoðun spurði dómsmálaráðuneytið hvort endurskoðun á verklagi hefði átt sér stað, líkt og ráðherra hefði talið tilefni til, og fékk í hendur drög að verklagsreglum sem eiga samkvæmt því sem segir í úttektinni að koma í veg fyrir að vafi leiki á réttmætri nýtingu loft- og sjófara stofnunarinnar.
Ríkisendurskoðun er ansi harðorð í þessum kafla skýrslunnar og segir að ferðir „ráðherra eða annarra einstaklinga með flugvélum, þyrlum eða skipum sem Landhelgisgæslan hefur til umráða, í einkaerindum“ séu „alvarlega athugunarverðar“.
„Tæki stofnunarinnar eru öryggisbúnaður sem keyptur er eða leigður sem tæki til löggæslu og björgunarstarfa til hagsbóta fyrir almenning en ekki til einkaerinda. Ríkisendurskoðun telur eðlilegt að settar verði viðmiðunarreglur um afnot æðstu stjórnar ríkisins af loftförum í eigu og leigu stofnana ríkisins, þar á meðal Landhelgisgæslu Íslands. Eðlilegt er að slíkt verði með aðkomu forsætisráðuneytisins. Yrðu reglurnar einkum látnar taka til flutninga vegna óvæntra atburða eða formlegra athafna á vegum æðstu stjórnar ríkisins en öll einkanot verði óheimil,“ segir í úttektinni.
Landhelgisgæslan segir í svari sínu við þessum athugasemdum Ríkisendurskoðunar að það sé sjálfsagt og eðlilegt að setja reglur vegna nýtingu loftfara í verkefnum óviðkomandi eftirlits- og björgunarstörfum. Landhelgisgæslan ítrekar þó að „engin dæmi eru um að loftför stofnunarinnar hafi verið nýtt í einkaerindum.“
Forsætisráðuneytið veitti einnig svar við þessum lið og sagði að farið yrði yfir fyrirhugaðar verklagsreglur um notkun loftfara Gæslunnar í samstarfi við dómsmálaráðuneytið.
Þá kemur einnig fram í svari ráðuneytisins að fyrirhugað sé, við endurskoðun siðareglna ráðherra sem á sér nú stað við upphaf kjörtímabils, „að hnykkja á þeirri meginreglu að ráðherrar hafi ekki einkanot af gæðum starfsins. Meðal annars verður skoðað hvort þar megi nefna dæmi um afnot af samgöngutækjum.“
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
16. desember 2022Einn Héraðsdómur verði með yfirstjórn í Reykjavík en átta starfsstöðvar um landið
-
9. desember 2022Ekki upplýst formlega en leitað til hennar „í krafti vináttu og persónulegra tengsla“
-
9. desember 2022Fullyrt að stjórnvöld hafi breytt reglugerð til að aðstoða Pussy Riot eftir beiðni Ragnars