Olíuverðslækkunin undanfarnar vikur hefur nú þegar haft mikil áhrif á umsvif í þjónustutengdum greinum sem tengjast olíuiðnaði í Noregi og Skotlandi. Verð á norðursjávarolíu er enn lágt, eða um 56 USD/fatið. Mörg fyrirtæki sem gera út skip sem þjónusta olíuborpalla í Norðursjónum hafa lent í hremmingum síðustu vikur. Ytri aðstæður hafa breyst hratt til hins verra. Verð sem stóru olíufélögin greiða í skammtímaverktakasamninga við fyrirtækin sem gera út þjónustuskipin hafa lækkað hratt undanfarið. Algengt sólarhringsverð til olíuþjónustuskipa er nú um 4.000 pund en var um 14.000 pund fyrir einungis sex vikum síðan (pund = 197 íslenskar krónur).
7.000 störf horfin í Noregi
Vegna ástandsins hafa olíufyrirtækin sem starfa í Norðursjónum í einhverjum tilfellum slegið verkefnum á frest á meðan olíuverð er svo lágt. Þjónustufyrirtækin hafa sum hver brugðist við þessu með því að fresta pöntunum á nýjum skipum. Í nýlegu viðtali við Åge Remöy framkvæmdastjóra REM Offshore í Álasundi við tímaritið Maritime.no kemur fram að um 46 skip sem gerð eru út frá Stavanger, Bergen, Aderdeen og öðrum höfnum hafa verið verkefnalítil undanfarnar vikur vegna ástandsins á olíumörkuðum. Að sögn Åge munu aðstæður áfram verða krefjandi á næstunni. Verð á bréfum fyrirtækja í þjónustu við olíuiðnaði í Kauphöllinni í Osló hefur lækkað frá því olíuverðið hrundi.
Samkvæmt fréttasíðunni SkipsMagasinet.no hafa alls 7.000 störf horfið í olíuiðnaði í Noregi í haust og vetur. Statoil, þar sem norkska ríkið er stærsti eigandinn með tæplega 70 prósent hlut, eitt og sér hefur skorið niður á milli 1.600 til 1.900 störf. Sérfræðingar á norska olíumarkaðnum óttast að fleiri störf muni glatast á næstunni. Allt hangir þetta á olíuverðsþróuninni á komandi mánuðum.
Olíuiðnaðurinn í heiminum hefur gengið í gegnum erfiðleika, eftir að verð á olíu féll úr 110 Bandríkjadölum í um 60 Bandaríkjadali, á einungis átta vikum. Sérstaklega hefur þetta verið erfitt fyrir Norðemnn og Rússa.
Fáfnir Offshore siglir þennan ólgusjó
Eitt fyrirtæki sem tengist Íslandi starfar á hinum viðkvæma þjónustuskipamarkaði við olíuiðnaðinn, Fáfnir Offshore. Fyrirtækið gerir út nýlegt skip, Polarsyssel, til að þjónusta olíuborpalla á norsku hafsvæði. Að hluta til reiðir Fáfnir Offshore sig á skammtímaleigumarkaðinn og því má ætla að þessar breyttu aðstæður á mörkuðum muni hafa neikvæð áhrif á rekstur þess eins og annarra sambærilegra fyrirtækja. Fyrirtækið er hins vegar með sex ára samning við sýslumanninn á Svalbarða, um gæslustörf í sex mánuði á hverju ári. Helstu eigendur Fáfnir Offshore eru Steingrímur Erlingsson og fjárfestingarsjóðirnir Horn II, sem er í stýringu hjá Landsbankanum, og Akur, sem er í stýringu hjá Íslandsbanka, ásamt smærri hluthöfum. Þá tók Íslandsbanki þátt í að fjármagna Polarsyssel, en heildar kostnaðurinn við smíði þess nam um 7,3 milljörðum króna.