Virði bréfa í Arion banka hækkaði um 100,5 prósent á síðasta ári, og meira en nokkur önnur hlutabréf sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Alls er markaðsvirði bankans nú 291,7 milljarðar króna. Því hækkaði virði hlutabréfanna um 146 milljarða króna á árinu 2021. Stærstu eigendur Arion banka eru lífeyrissjóðir landsins, en samanlagt eiga þeir að minnsta kosti 41,5 prósent beinan hlut í bankanum. Stærstu einkafjárfestarnir eru fjárfestingafélagið Stoðir með 4,73 prósent hlut og Hvalur hf., í eigu Kristjáns og Birnu Loftsbarna, með 2,22 prósent hlut. Aðrir bankar sem skráðir eru á markað hækkuðu líka mikið í virði. Hlutabréf í Íslandsbanka hækkuðu um 59,7 prósent frá útboðsgengi í hlutafjárútboði bankans í fyrrasumar og bréf í Kviku banka hækkuðu um 54,9 prósent.
Bréf í öllum félögum sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar hækkuðu í fyrra.
Minnst var hækkunin í langstærsta fyrirtækinu sem skráð er í Kauphöllina, Marel, en bréf í því félagi hækkuðu um 10,9 prósent. Marel er einnig þá skráða félag sem er í mestum alþjóðlegum vaxtarfasa og með mest erlend umsvif allra þeirra félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Bréf Marel eru einnig skráð á markað í Hollandi en markaðsvirði þeirra í íslensku Kauphöllinni er 663,5 milljarðar króna.
Það vekur athygli að bréf í Marel hækkuðu minna en bréf í Icelandair, sem hefur glímt við margháttaða erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins og ferðatakmarkana sem hann hefur kallað á. Icelandair hefur tapað nálægt 60 milljörðum króna á árinu 2020 og á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Á því tímabili fór félagið tvívegis í hlutafjáraukningu og sótti sér yfir 30 milljarða króna í nýtt hlutafé.
Ekki verið fleiri viðskipti frá því fyrir hrun
Í samantekt Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina, vegna síðasta árs kemur fram að heildarvísitala hlutabréfa hafi hækkað alls um 40,2 prósent á árinu 2021. Heildarviðskipti með bréf voru 1.071 milljarður króna og jukust um 77 prósent milli ára. Mest var verslað með bréf í Arion banka, eða fyrir 259,8 milljarða króna. Fjöldi viðskipta jókst líka mikið, alls um 79 prósent milli ára, og þau hafa ekki verið fleiri í 14 ár, eða frá því fyrir bankahrun.
Bréf í Eimskipafélaginu hækkuðu næst mest á árinu, eða um 95,7 prósent. Markaðsvirði félagsins er nú 88,5 milljarðar króna. Stærsti eigandi Eimskipafélags er Samherji Holding, með 32,8 prósent eignarhlut.
Origo hækkaði líka mikið á árinu sem var að líða, eða um 80,5 prósent. Alls hækkuðu 15 félög á aðalmarkaði um meira en 30 prósent á árinu og níu þeirra hækkuðu um meira en 50 prósent.
Eina félagið í Kauphöllinni sem lækkaði í virði á síðasta ári var Solid Clouds, sem er skráð á First North markaðinn.
Bréf í því félagi, sem skráð var á markað í júlí 2021, lækkuðu um 26,6 prósent frá útboðsgengi.
Hundruð milljarða flæða til hluthafa
Kauphöllin tekur ekki lengur saman upplýsingar um hversu mikið félög skráð á markaði greiða samtals í arð eða nota til að kaupa eigin bréf til baka, og skila þannig fjármunum til hluthafa sinna. Innherji, undirvefur á Vísi sem fjallar um viðskipti, tók hins vegar saman upplýsingar um það skömmu fyrir áramót og samkvæmt þeirri úttekt greiddu félög skráð í Kauphöll meira en 80 milljarða króna út í arð og í endurkaup á eigin bréfum á síðasta ári. Það er aukning upp á tæplega 50 milljarða króna milli ára.
Í sömu úttekt kemur einnig fram að sennilegt sé að arðgreiðslur og endurkaup aukist gríðarlega á árinu 2022 og verði á bilinu 150 til 200 milljarðar króna.
Bara Arion banki, það félag sem jók virði sitt hlutfallslega mest á síðasta ári, greiddi út 25,5 milljarða króna til hluthafa sinna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og tilkynnti í haust að hann ætlaði að greiða um og yfir 60 milljarða króna til viðbótar í nánustu framtíð. Ef áform bankans ganga að fullu eftir er gert ráð fyrir því að hluthafar hans fái 87,9 milljarða króna út úr honum frá byrjun árs 2020 og þar til útgreiðsluferlinu er lokið.