Þrátt fyrir að vogunarsjóður bandaríska fjárfestisins John Paulson, Paulson Credit Opportunities Master, hafi selt allar kröfur sínar á slitabú Glitnis í ágúst 2014 er hann enn mjög tengdur stórum kröfuhafa. Í sama mánuði og Paulson seldi keypti PAC Credit Fund Limited mikið magn krafna á Glitni og er nú fjórði stærsti kröfuhafi búsins. Annar stjórnenda PAC Credit Fund Limited er lykilstjórnandi vogunarsjóðs Paulsons.
Keyptu mikið í ágúst 2014
Írski sjóðurinn PAC Credit Fund er sá aðili sem hefur bætt mest af kröfum á Glitni við sig á undanförnum misserum. Sjóðurinn keypti sig upphaflega inn í kröfuhafahóp Glitnis í febrúar þegar hann eignaðist kröfur upp á 20 milljarða króna að nafnvirði. Hann bætti svo við sig 63 milljörðum í kröfum þann 28. ágúst síðastliðinn. Annar hluthafi PAC er starfsstöð bandaríska fjárfestingabankans J.P. Morgan í Írlandi.
Í gögnum frá írsku fyrirtækjaskránni,sem Kjarninn hefur undir höndum, má hins vegar sjá að annar tveggja stjórnenda PAC Credit Fund er Stuart Leslie Merzer. Hann er lykilstjórnandi hjá vogunarsjóðnum Paulson&Co.
Sjóður Paulson, Paulson Credit Oportunities Master, keypti kröfur á slitabú Glitnis í mars 2013. Í apríl síðastliðnum var umfang krafna sem hann átti á Glitni orðið um 53 milljarðar króna að nafnvirði.
Í nýrri kröfuhafaskrá Glitnis, frá 20. nóvember 2014, kemur hins vegar fram að sjóðurinn hafi selt allar kröfur sínar á Glitni. Það gerðist, samkvæmt heimildum Kjarnans, í ágúst síðastliðnum, sama mánuði og PAC Credit Fund keypti þorra þeirra krafna sem hann á á Glitni. PAC Credit Fund er eftir uppkaupin fjórði stærsti kröfuhafi Glitnis.
Hagnaðist mikið á stöðutöku fyrir hrun
Líkt og áður sagði er stofnandi og stjórnandi Paulson&Co John Paulson. Um hann hafa verið skrifaðar bækur, á meðal þeirra „The biggest trade ever“, sem fjallaði um stöðutöku hans gegn húsnæðisbólunni í Bandaríkjunum sem gerði hann óheyrilega ríkan. Einn fimm aðalsjóða hans, Paulson Credit Opportunities Master, hóf að kaupa kröfur á Glitni af miklum móð vorið 2013.
Sjóðsstýringarfyrirtæki Paulson var sjöundi stærsti vogunarsjóður Bandaríkjanna í árslok 2012. Það e með um sex milljarði dala, um 750 milljarða króna, í stýringu.
Síðasta ár var hins vegar ekki gott ár fyrir Paulson. Businessweek greindi frá því í gær að afkoma vogunarsjóðs hans var sú næst versta frá því að hann var stofnaður árið 1994. Í raun hefur fátt gengið upp hjá Paulson frá því að hann græddi 15 milljarði dala, tæplega 2.000 milljarða króna, á stöðutöku sinni gegn húsnæðisbólunni í Bandaríkjunum. Eignir sjóðsins eru í dag taldar vera um 19 milljarðar dala, um 2.500 milljarðar króna. Þær hafa lækkað um helming frá árinu 2011, þegar þær voru sem mestar.
Burlington og Deutsche Bank sanka að sér kröfum
Stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis er Burlington Loan Management, sem er í eigu bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner. Sjóðurinn, sem er stór kröfuhafi margra annarra íslenskra slitabúa, og eigandi ýmissa íslenskra fyrirtækja, er stærsti einstaki kröfuhafi íslensks atvinnulífs.
Þýski bankarisinn Deutsche Bank er skráður eigandi að kröfum í þrotabú Glitnis upp á 157,1 milljarð króna að nafnvirði. Það gerir hann að þriðja stærsta kröfuhafa bankans.
Deutsche Bank er þriðji stærsti kröfuhafi Glitnis. Talið er að hann haldi að mestu á kröfum sínum fyrir aðra.
Samkurl Burlington við Deutsche Bank hefur verið nokkuð mikið. Dótturfyrirtæki þýska bankarisans, Deutsche Bank AG í Amsterdam, heldur til að mynda á 99 prósent af hlutdeildarskirteinum í ALMC. Heimildir Kjarnans herma að Burlington eða sjóðir Davidson Kempner séu endanlegir eigendur hluta þeirra skirteina. Þá keypti Burlington 26 milljarða króna skuldir Lýsingar af Deutsche Bank skömmu fyrir síðustu áramót.
Viðmælendur Kjarnans telja að Deutsche Bank sé að halda á þeim kröfum sem bankinn er skráður fyrir á Glitni fyrir einhverja aðra. Bankinn sé milliliður, ekki endanlegur eigandi þeirra.
Næst stærsti kröfuhafi Glitnis er vogunarsjóðurinn Silver Point. Hann var á sínum tíma stofnaður af tveimur fyrrum starfsmönnum fjárfestingabankans Goldman Sachs og er í dag í 79. sæti yfir stærstu vogunarsjóði heims. Sjóðurinn hefur bætt við sig kröfum upp á 25,2 milljarða króna að nafnvirði undanfarið eitt og hálft ár og á kröfur upp á 157,1 milljarð króna.