Í næsta mánuði eru tvö ár liðin frá því að síðast var kosið til Alþingis. Þar af leiðandi er kjörtímabil sitjandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tæplega hálfnað.
Ljóst er að kjörtímabilið hefur skilað þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi. Kjarninn fór yfir fylgisbreytingar hvers og eins.
Fastur í um fjórðungsfylgi
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins, líkt og hann hefur verið hartnær alla íslenska stjórnmálasögu. Þeir tímar þegar flokkurinn var breiðfylking sem gat gengið að því vísu að fá um og yfir 40 prósent fylgi í kosningum virðast hins vegar vera rækilega að baki. Flokkurinn fékk herfilega útreið í kosningunum árið 2009. Þá fékk hann 23,7 prósent fylgi, eða 12,9 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningunum þar áður. Samhliða tapaði hann titlinum stærsti flokkur landsins til Samfylkingarinnar.
Í síðustu kosningum náði hann vopnum sínum á lokaspretti kosningabaráttunnar og þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndust 27,1 prósent greiddra atkvæða hafa fallið Sjálfstæðisflokknum í skaut og hann aftur orðinn stærstur í landinu.
Þrátt fyrir það gaf flokkurinn eftir forsætisráðherrastólinn til óumdeilanlegs sigurvegara kosninganna, Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það verður að segjast eins og er að stjórnarsetan, þrátt fyrir að vera á köflum skrautleg, hefur varla haft nein áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins. Sama hvernig veðrar þá er fylgi flokksins mælt 25-27 prósent. Mögulega er ástæðan sú að þarna sé um kjarnafylgi flokksins að ræða og að honum takist illa að höfða til kjósenda utan þess.
Fylgið hrunið
Stöðugleiki er hins vegar ekki orð sem hægt er að nota um gengi hins stjórnarflokksins, Framsóknarflokks. Flokkurinn rauk upp í fylgi í aðdraganda síðustu kosninga á baki kosningaloforðs um að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán og í kjölfar Icesave-dómsins, sem Framsókn tókst að eigna sér pólitískt í umræðunni. Í kosningunum í apríl 2013 fékk flokkurinn heil 24,4 prósent og forsætisráðherrastólinn. Það var tæplega tíu prósentum meira en hann fékk í kosningunum þar á undan. Fylgið var þó fljótt að hverfa. Ári eftir kosningar mældist það 14 prósent. Og þrátt fyrir að hafa komið stærsta kosningamálinu, leiðréttingu á völdum verðtryggðum húsnæðislánum upp á 80 milljarða króna, sem ráðist var í á síðari hluta ársins 2014, hefur fylgið bara haldið áfram að dala. Í fjórum af síðustu fimm mælingum Capacent hefur það mælst um ellefu prósent. Það hefur ekki mælst jafn lágt síðan í mars 2009, um einum og hálfum mánuði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður flokksins. Óánægja með ríkisstjórnina virðist því einungis bitna á Framsóknarflokknum, ekki Sjálfstæðisflokknum.
Samfylkingin í vandræðum með að ná vopnum sínum
Samfylkingin ætlaði sér að verða hinn turninn í íslenskum stjórnmálum, skýr valkostur við Sjálfstæðisflokkinn. Á þeim 15 árum sem liðin eru síðan að flokkurinn var stofnaður hefur orðið ljóst að það markmið er ekki að fara að nást. Ástæðurnar sem tíndar hafa verið til eru mýmargar. Ósamstaða miðju- og vinstriflokka hefur til að mynda skilað því að vinstrafylgið skiptist niður á marga flokka. Mörgum finnst flokkurinn daðra allt of mikið við atvinnulífið. Og enn aðrir segja forystusveit hans í gegnum árin einfaldlega skorta aðdráttarafl.
Eftir að hafa sópað til sín óánægjufylgi í fyrstu kosningunum eftir hrun, þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn þegar efnahagskerfið féll, fjaraði fljótt undan fylginu. Í kosningunum 2013 fékk Samfylkingin einungis 12,9 prósent, heilum 16,9 prósentustigum minna en 2009. Það er skellur sem á sér vart hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu.
Mjög erfið stjórnarseta, þar sem ríkisstjórnin var í raun minnihlutastjórn stóran hluta kjörtímabilsins án þess að viðurkenna það, spilaði auðvitað inní þetta afhroð. En Björt framtíð, nýr stjórnmálaflokkur sem staðsetti sig á mjög svipuðum stað í hinu pólitíska litrofi og Samfylkingin, skipti þar líka máli og tók töluvert af fylgi hennar til sín. Þá má ekki vanmeta áhrif kosningasigurs Framsóknarflokksins á fylgi Samfylkingarinnar.
Samfylkingin hefur ekki riðið feitum hesti frá fyrstu tveimur árunum í stjórnarandstöðu. Hann hefur hæst mælst með 20 prósent fylgi, en fyrir síðustu kosningar hafði Samfylkingin minnst fengið 26,8 prósent í þingkosningum. Í nýjustu mælingum Capacent hefur fylgið enn verið að dala og rétt skríður nú um 17 prósent. Ef krísa er ekki farin að gera vart við sig hjá forystu Samfylkingarinnar gagnvart fylgisleysinu þá ætti hún að fara að læðast inn. Flokknum virðist ekkert ganga að ná til kjósenda.
Bóla sem virðist alls ekkert ætla að springa
Eini flokkurinn á þingi sem getur verið sáttur, raunar mjög sáttur, við nýjustu fylgismælingar eru Píratar. Þeir mælast nú með 15,2 prósent flygi og eru samkvæmt því þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það er ótrúlega góður árangur fyrir mjög róttækt framboð sem rétt skreið yfir fimm prósent þröskuldinn sem tryggir framboði fulltrúa á Alþingi í síðustu kosningum. Ef kosið yrði í dag myndu Píratar líklega fá yfir tíu þingmenn.
Stöðugur stígandi hefur verið í fylgi flokksins undanfarin misseri. Hann má líkast til að mestu rekja til frammistöðu þingmannanna þriggja sem sitja fyrir framboðið á þingi. Þeir hafa náð að marka sér sérstöðu með þeim málum sem þeir hafa lagt fram og stíga með því út fyrir þraskennda síbylgjuna sem einkennir hið daglega stjórnmálakarp.
Fylgissveiflur í skoðanakönnunum eru auðvitað engin trygging fyrir árangri í þingkosningum, það geta spútnikframboð á borð við Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur og Samstaða Lilju Mósesdóttur. En stuðningur við Pírata, sérstaklega hjá yngra fólki, virðist vera í stöðugum vexti. Þeir sem bíða eftir því að Pírata-bólan springi gætu því þurft að bíða lengi.
Festir sig í sessi sem stjórnmálaafl
Enginn stjórnmálaflokkur þarf að sitja jafn reglulega undir þeirri ásökun að vera til fyrir stjórnmálamennina sem honum stjórna, fyrir að vera ljósrit af Samfylkingunni, fyrir að vera verklítil og skoðanalaus og Björt framtíð. Sú gagnrýni er ekki að öllu leyti sanngjörn og ljóst að hún hefur lítil áhrif á þá sem flykkja sér að baki flokknum. Fylgið mælist nokkuð stöðugt 13-16 prósent og í flestum skoðanakönnunum mælist Björt framtíð sem þriðji stærsti flokkur landsins. Það verður að teljast nokkuð góður árangur fyrir flokk sem var stofnaður árið 2012, þótt hann græði töluvert á því að byggja á grunni Besta flokksins.
Það vita þó fáir jafn vel hversu fallvalt fylgið getur verið í aðdraganda kosninga og Björt framtíð. Fylgið mældist allt að 18 prósent snemma árs 2013 en þegar talið var upp úr kössunum í apríl sama ár fékk flokkurinn rúm átta prósent og sex þingmenn.
Flokkur innri átaka
Vinstri græn eiga þann forystumann í íslenskum stjórnmálum, Katrínu Jakobsdóttur, sem flestir Íslendingar treysta. Í könnun MMR sem var gerð fyrir um ári sögðust 46 prósent aðspurðra treysta henni. Samt nýtur flokkur hennar ekki mikils fylgis. Í síðustu kosningum fékk hann rúm ellefu prósent og fylgið hefur haldið sig í þeirri stærðargráðu í könnunum, verið á milli 11-14 prósent. Flokkurinn er því svipaður að stærðargráðu og Framsóknarflokkurinn, svona alla jafna. Munurinn á þeim er sá að Framsókn kann það flokka besta að stela kosningabaráttum og auka við fylgið þegar það skiptir mestu máli. Vinstri græn eru líka löskuð af nánast krónískum innanflokksátökum sem lituðu síðasta kjörtímabil. Fjórir þingmenn, þau Atli Gíslason, Lilja Mósedóttir, Ásmundur Einar Daðason og Jón Bjarnason, yfirgáfu þingflokkinn á þessum tíma og gerðu það að verkum að síðasta ríkisstjórn sat lengi sem minnihlutastjórn. Auk þess fóru deilur Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar vart fram hjá mörgum. Báðir sitja enn sem þingmenn Vinstri grænna þótt að nýr formaður sé tekin við. Það þvælist mögulega fyrir Katrínu að vera með þessa fyrirferðamiklu stjórnmálakempur í bakpokanum. Eða kannski á málflutningur Vinstri grænna einfaldlega ekki erindi við fleiri en raun ber vitni.
Auðir og ógildir
Og svo eru það allir hinir flokkarnir, sem leggjast reyndar í dvala á meðan að kjörtímabilið sjálft stendur yfir, en eru mættir í umræðuna strax og líður að kosningum. Þá verður landslagið eins og stúkan í hringleikahúsinu í Monty Phyton-myndinni Life of Brian, þéttsetin alls konar flokksbrotum sem eru aðallega sammála um að vera ekki sammála neinum öðrum um neitt.
Samhliða minnkandi kosningaþátttöku þá hefur hlutfall þeirra sem vilja ekki kjósa neitt og skila því auðu,eða ógilda viljandi seðilinn, aukist skarpt.