Fimm dagar eru síðan Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kom fyrir breska þingið og baðst afsökunar á að hafa verið viðstaddur um hundrað manna veislu í Downingstræti 10, 20 maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi.
Veisluhöldin fóru fram í garði Downingstræti og sagðist Johnson skilja reiði almennings á þátttöku hans í veisluhöldunum en hann sagðist hafa verið sannfærður um að „um vinnutengdan viðburð hafi verið að ræða“.
Í kjölfar afsökunarbeiðninnar bárust frekari fregnir af skemmtanahaldi í Downingstræti. Á fimmtudagskvöld greindi breska dagblaðið The Telegraph frá því að starfsfólk á skrifstofu forsætisráðherra hafi staðið fyrir tveimur kveðjupartýum þar sem tveir starfsmenn voru að láta af störfum. Umrætt kvöld var 16. apríl 2021, kvöldið fyrir útför Filippusar drottningarmanns, þegar strangar sóttvarnareglur voru í gildi.
Samkvæmt reglunum var óheimilt að umgangast annað fólk innandyra að undanskildum þeim sem búa á sama heimili. Leyfilegt var að koma saman utandyra í sex manna hópum.
Ljóst er að Johnson berst nú fyrir tilverurétti sínum í breskum stjórnmálum. Í gær greindi Nadine Dorries, menningarmálaráðherra Bretlands, frá því að afnotagjald breska ríkisútvarpsins BBC verður lagt niður eftir fimm ár. Dorries er jafnframt dygg stuðningskona Johnson og hefur hann verið sakaður um að nota BBC til að bjarga forsætisráðherrastólnum. Afnám afnotagjaldanna er talin munu falla vel í kramið hjá Íhaldsflokknum og kjósendum hans.
„Forsætisráðherrann telur að þau sem fjalla um brot hans eigi að gjalda þess á meðan hann kemst upp með það,“ segir Lucy Powell, þingkona stjórnarandstöðunnar. Ákvörðunin er sögð hluti af enn stærri áætlun um að tryggja að Johnson haldi forsætisráðherrastólnum, áætlun sem gengur undir nafninu Red Meat, eða Rauða kjötið.
Þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem veisluhöld í Downingstræti á tímum heimsfaraldurs koma til tals sem Johnson hefur þurft að svara fyrir. Svo virðist sem umræður síðustu daga, sem og umdeild afsökunarbeiðni Johnson í þinginu í síðustu viku, sé kornið sem fylli mælinn. Atburðarrásin fram að afsökunarbeiðinni var á þessa leið:
1. desember 2021:
Þegar fyrstu ásakanir um garðveisluna komu fram í umræðum á þinginu sagði forsætisráðherrann að farið hafi verið eftir öllum gildandi reglum. Það ítrekaði hann í viðtali 7. desember.
13. desember 2021:
Johnson er spurður út í „jólaspurningakeppni“ sem haldin í Downingstræti 15. desember 2020. „Ég get sagt þér enn einu sinni að ég braut engar reglur. Þetta er allt til skoðunar,“ svaraði forsætisráðherrann.
20. desember 2021:
Johnson þvertekur fyrir veisluhöld í Downingstræti 15. maí 2020, þegar útgöngubann var í gildi. „Ég á heima hér og ég starfa hér. Þetta voru fundir á vinnutíma sem fjölluðu um vinnuna“
10. janúar 2022:
Johnson var spurður um veisluhöldin í maí 2020 og vísar í rannsókn sérstaks saksóknara á meintum sóttvarnabrotum í Downingstræti 10, sem stendur yfir.
13. janúar 2022:
Johnson biðst afsökunar fyrir að hafa verið viðstaddur garðveisluna í Downingstræti 20. maí 2020.
Vantrauststillaga möguleg
Fjöldi þingmanna hefur krafist afsagnar Johnson, þar á meðal háttsettir þingmenn í Íhaldsflokknum líkt og Douglas Ross, leiðtogi Íhaldsmanna í Skotlandi, William Wragg, Caroline Nokes, Roger Gale og Steve Baker. Sá síðastnefndi segir í samtali við BBC að af 61 þingmanni Íhaldsflokksins í hans kjördæmi séu á móti því að Johnson sitji áfram sem forsætisráðherra. Baker segir að sömu reglur verði að gilda um alla og ómögulegt sé að segja til um hvort hann geti stutt Johnson til að leiða flokkinn í næstu kosningum.
Ross hefur sent 1922-nefnd flokksins, sem sér um helstu forystumál Íhaldsflokksins, bréf þar sem hann leggur fram vantrauststillögu á Johnson. Ef nefndinni berast 54 slík bréf verður vantrauststillagan tekin til meðferðar innan flokksins. Heimildir The Guardian herma að 35 bréf hafi þegar borist.
Rannsókn sérstaks saksóknara, Sue Gray, á sóttvarnabrotunum í Downingstræti 10 er hafin og sagði Johnson í afsökunarbeiðni sinni að hann væri reiðubúinn að svara fyrir aðkomu sína að veisluhöldunum. Ráðherrar í stjórn Johnson hafa óskað eftir því við þingmenn Íhaldsflokksins að þeir bíði eftur skýrslu Gray áður en framtíð Johnson hjá flokknum, eða í stjórnmálum almennt, verði tekin.