Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna rekstrarársins 2021 var gert ráð fyrir að samstæða hennar, bæði A- og B-hluti rekstrarins, myndi skila 3,3 milljarða króna tapi. Niðurstaðan í rekstrinum reyndist allt önnur, eða 23,4 milljarða króna hagnaður.
Þetta er niðurstaða sem er afar frábrugðin því sem var árið áður, en þá gerði borgin ráð fyrir að hagnast um 11,9 milljarða króna en tapaði á endanum 2,8 milljörðum króna. Heimsfaraldur kórónuveiru litaði það uppgjör verulega.
Í ársreikningi Reykjavíkurborgar, sem birtur var í dag, kemur fram að sá hluti rekstrar hennar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, hafi verið rekinn í 3,8 milljarða króna tapi. Það er umtalsvert betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, en í henni var reiknað með 12 milljarða króna tapi á þessum hluta rekstursins. Tap A-hluta höfuðborgarinnar var tveimur milljörðum króna minna í fyrra en árið 2020.
Stærsta frávikið frá áætluninni er að skatttekjur voru einfaldlega um 6,3 milljörðum krónum hærri en reiknað hafði verið með á árinu 2021, og alls 110,5 milljarðar króna. Alls voru tekjur A-hluta borgarinnar 142,3 milljarðar króna, sem var 7,7 milljörðum krónum meira en áætlun gerði ráð fyrir og heilum 14,6 milljörðum krónum hærri en þær voru árið 2020. Rekstrargjöld voru um hálfum milljarði króna lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun en hækkuðu samt um 9,6 milljarða króna milli ára.
Hækkun á fasteignaverði skilaði 20,5 milljörðum
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Rekstur þessa hluta var langt yfir áætlun, eða jákvæður um 19,6 milljarða króna. Áætlun hafð igerð ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 8,6 milljarða króna. Þar munar mestu um að matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða, sem halda utan um 3.012 félagslegar leiguíbúðir í eigu borgarinnar, voru langt umfram áætlun, enda fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22 prósent síðustu tólf mánuði. Fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir að virði íbúðanna myndi aukast um 1,1 milljarð króna í fyrra en raunin varð 20,5 milljarða króna hækkun.
Í Reykjavík er 78 prósent af öllu félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þótt íbúar höfuðborgarinnar séu 56 prósent íbúa á svæðinu.
Þá voru jákvæð áhrif af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur umtalsverð, en þau voru 6,6 milljarðar króna á árinu 2021.
Segir niðurstöðuna staðfesta ábyrga fjármálastjórn
Í tilkynningu vegna birtingar ársreikningsins, sem var lagður fyrir borgarráð í dag, er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að niðurstaðan sé mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn auka kostnað vegna kórónuveirufaraldursins, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni.
Hann segist stoltur af því hvernig þessi tvö ár, 2020 og 2021, gengu í þjónustu við borgarbúa. „Við brugðumst einnig við heimsfaraldrinum með því að auka fjárfestingar í stað þess að draga saman seglin. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við Græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda, og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina og fyrir þá miklu uppbyggingu sem framundan er.”