Ríkasta 0,1 prósent landsmanna, alls um 244 fjölskyldur, jók tekjur sínar um 40 milljarða króna á síðasta ári. Þær voru 54 milljarðar króna árið 2020 en 94 milljarðar króna í fyrra. Langstærstu hluti þessara tekna voru fjármagnstekjur, sem hópurinn hafði af því að ávaxta fjármuni sína til dæmis í hlutabréfum eða fasteignum. Slíkar tekjur námu 36 milljörðum króna sem þýðir að hver fjölskylda jók tekjur sínar að meðaltali um næstum 150 milljónir króna á einu ári.
Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra. Það þýðir að ríkasta 0,1 prósent landsmanna tók til sín 20 prósent allra fjármagnstekna sem urðu til á síðasta ári á meðan að 99,9 prósent þjóðarinnar þénaði hin 80 prósentin.
Hlutfall heildartekna með fjármagnstekjum hjá tekjuhæsta hluta framteljenda jókst gríðarlega á árinu 2021. Það fór úr því að vera 2,6 prósent 2020 í 4,2 prósent í fyrra. Hlutfallið hefur ekki verið hærra síðan á árinu 2007, þegar íslenska bankagóðærið var á hápunkti sínum. Það hrundi svo til grunna ári síðar með miklum afleiðingum fyrir margt venjulegt fólk á Íslandi. Ef frá eru talin árin 2003, 2005, 2006 og 2007, þegar íslenska bankakerfið þandist út af erlendu lánsfé sem var svo velt áfram, að mestu til þröngs hóps fjárfesta úr viðskiptamannahópi bankanna, þá hefur hlutdeild ríkustu 0,1 prósent landsmanna í heildartekjum á einum ári aldrei verið hærri.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur ríkasta hóps landsmanna á síðasta ári. Svarið var birt á vef Alþingis síðdegis í gær.
Stjórnvöld gripu til margháttaðra efnahagsaðgerða á árunum 2020 og 2021 sem leiddu til þess að hlutabréfa- og fasteignamarkaðir hækkuðu mikið. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér margháttaðar styrktargreiðslur til fyrirtækja og veitingu á vaxtalausum lánum í formi frestaðra skattgreiðslna. Þá afnam Seðlabanki Íslands hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka sem jók útlánagetu banka landsins um mörg hundruð milljarða króna og stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent. Þeir höfðu aldrei verið lægri.
Þessar örvunaraðgerðir gerðu það að verkum að mikil tilfærsla varð á fjármunum til fjármagnseigenda.
Stærstur hluti vegna sölu hlutabréfa
Svipað er uppi á teningnum þegar horft er á ríkasta eitt prósent landsmanna. Þar er um að ræða um 2.440 fjölskyldur. Tekjur þess hóps fóru úr 161 milljarði króna árið 2021 í 226 milljarða króna í fyrra, og jukust þar með um 65 milljarða króna. Alls voru 54 milljarðar króna af þeirri tölu fjármagnstekjur, sem þýðir að 30 prósent fjármagnstekna lenti hjá ríkasta einu prósenti landsmanna á síðasta ári.
Hlutfall ríkasta eins prósents landsmanna af heildartekjum jókst úr 7,9 prósent í tíu prósent í fyrra. Það hefur ekki verið hærra síðan á árinu 2008 og utan bankagóðærisáranna 2003 til 2008 hefur hópurinn aldrei tekið til sín stærri sneið af tekjukökunni innan árs á Íslandi.
Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021.
Samkvæmt þeim tölum sem birtar voru í gær liggur fyrir að þeim var verulega misskipt milli efstu tíundarinnar. Ríkasta eitt prósentið tók til sín 31 prósent af tekjum vegna fjármagns innan þeirrar tíundar á síðasta ári.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu alls um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Raðstöfunartekjur efsta tekjuhópsins hækkuðu langmest
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir. Alls um níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Þetta þýðir að ráðstöfunartekjur efsta tekjuhópsins hækkuðu mun meira hlutfallslega en annarra tekjuhópa ofan á það að tekjur þess hóps voru meiri fyrir. Krónunum í vasa þeirra sem höfðu miklar fjármagnstekjur fjölgaði því umtalsvert meira en í vasa þeirra sem þáðu fyrst og síðast launatekjur á síðasta ári.
Í nýlegu Mánaðaryfirliti ASÍ kom fram að skattbyrði hafi heilt yfir aukist í fyrra þegar hún er reiknuð sem hlutfall tekju- og fjármagnstekjuskatts af heildartekjum. Hún fór úr 22,4 prósent af heildartekjum í 23,4 prósent.
Skattbyrði efstu tíundarinnar dróst hins vegar saman. Árið 2020 borgaði þessi hópur 28,9 prósent af tekjum sínum í skatta en 27,3 prósent í fyrra. Skattbyrði allra annarra hópa, hinna 90 prósent heimila í landinu, jókst á sama tíma.
Ríkustu 244 fjölskyldurnar myndu greiða 1,1 milljarði meira á ári
Ef fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður úr 22 í 25 prósent myndi það skila tæplega 5,3 milljörðum króna í tekjuaukningu fyrir ríkissjóð á ári. Af þeirri upphæð myndu þau tíu prósent landsmanna sem eru með hæstu tekjurnar greiða 4,6 milljarða króna, eða tæp 87 prósent. Þetta kemur fram í minnisblaði sem skrifstofa skattamála fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar og var skilað til hennar 17. október síðastliðinn. Í minnisblaðinu kom fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti.
Miðað við þessar tölur myndi ríkasta eitt prósent landsmanna greiða um 1,6 milljarða króna af þessari aukningu ef ráðist yrði í hækkunina. Þar af myndi ríkasta 0,1 prósentið, 244 fjölskyldur, greiða um 1,1 milljarð króna, eða rétt tæplega fjórðung þeirra viðbótarskatttekna sem ríkissjóður myndi afla með því að fara þá leið.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði