Kostnaður ríkisins vegna reksturs og hýsingar tölvukerfisins Orra lækkar um tæpar 8,7 milljónir krónur á mánuði, eða 94 milljónir króna á ári, í kjölfar nýs samnings sem Fjársýsla ríkisins hefur gert við Advania, sama fyrirtæki og sinnti þjónustunni áður. Í svörum Ríkiskaupa við fyrirspurn Kjarnans um hvort einhverjar viðbótarkröfur hafi verið gerðar í nýja útboðinu kemur fram að þjónustan muni í raun aukast. Í nýja samningnum eru ákvæði um þjónustþætti sem ekki voru til staðar í þeim eldri.
Því er ríkið að borga tæpar 7,9 milljónir króna á mánuði fyrir þjónustu sem það greiddi áður 16,5 milljónir króna á mánuði fyrir, og það er að fá meira fyrir peninginn. Sá sem sinnti þjónustunni áður, og hefur gert frá upphafi, er hins vegar sami aðili og samið hefur verið um að sinna henni núna, Advania.
Skiluðu inn sex tilboðum
Fjársýsla ríkisins og Advania undirrituðu samning um rekstur og hýsingu tölvukerfisins Orra nýverið. Ákveðið var að ganga til samninga við Advania í kjölfar örútboðs sem fór fram á vegum Ríkiskaupa. Advania hafði áður séð um rekstur og hýsingu Orra og þegið fyrir það 16,5 milljónir króna á mánuði fyrir utan virðisaukaskatt.
Þrír aðilar buðu í verkefnið. Síminn bauð hæst, um 21 milljón króna. Opin Kerfi buðu 10,3 milljónir króna og Advania skilaði inn sex tilboðum. Það hæsta var upp á 17 milljónir króna en það lægsta upp á 6,4 milljónir króna. Eðlilega fylgdi mismikil þjónustu hverju tilboði. Því lægra sem tilboðið var því minni þjónusta fylgdi því.
- janúar 2015 bárust þeim sem boðið höfðu í verkið skilaboð um að einu tilboði Advania hefði verið tekið. Kjarninn sendi fyrirspurn um málið til Ríkiskaupa um málið þar sem þau svör fengust að útboðsferlinu væri ekki lokið og að engu tilboði hefði verið formlega tekið.
Þann 29. apríl síðastliðinn sendi Ríkiskaup svo tölvupóst á aðra bjóðendur þar sem þeim var tilkynnt að tilboð frá Advania, svokallað tilboð B, hefði verið endanlega samþykkt og að bindandi samningur væri komin á milli aðila.
Ríkiskaup svöruðu síðan fyrirspurn Kjarnans um málið fyrr í þessari viku.
Heildarvirði samningsins 830 milljónir króna
Þar kemur fram að tilboðinu sem tekið var frá Advania, sem veitti líka þjónustuna fyrir útboðið, hafi verið upp á 7.850.000 krónur án virðisaukaskatts á mánuði. Því nemur samningslækkunin 8.650.000 krónum á mánuði án virðisaukaskatts. Á ársgrundvelli þýðir það að kostnaður ríkisins vegna hýsingar og reksturs Orra fer úr 198 milljónum króna í tæpar 104 milljónir króna. Kostnaðurinn tæplega helmingast.
Samningurinn er til sex ára með heimild til framlengingar um allt að tvö ár. Heildarvirði hans er því allt að 830 milljónir króna.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segja Ríkiskaup að þó hin nýji samningur og þjónusta sé mjög sambærileg við fyrri samning, þá eru nokkur frávik sem kunni að skýra lækkun kostnaðar. „Ekki er um svonefndan alrekstur að ræða eins og áður var, heldur eru samningsþættir skilgreindir sérstaklega. Útboðið og nýi samningurinn skilgreinir af meiri nákvæmni þjónustustig, vélbúnað og þess háttar heldur en eldri samningurinn gerði.
Í örútboðinu og í hinum nýja samningi eru ákvæði um þjónustuþætti, sem ekki voru til staðar í fyrri samning. Sér í lagi, þá skal verksali nú útvega varavélasal þannig að unnt sé að halda kjarnastarfsemi Orra gangandi í varasal, komi til stórfelldra áfalla í aðalvélasal.“
Munurinn virðist því felast í að nákvæmari skilgreiningu á þeim þáttum sem undir eru í samningnum og því að Advania auki þjónustu sína við ríkið. Samt kostar þjónustan nú 94 milljónum krónum minna á ári.
Átti að kosta 160 milljónir en kostaði fjóra milljarða
Tölvukerfið Orri er samheiti yfir ýmis kerfi ríkisins, til dæmis fjárhags- og mannauðskerfi og ýmis stuðningskerfi sem því fylgja. Alls nota um 190 stofnanir ríkisins kerfið og um 15 þúsund einstaklingar eru með vefaðgang að því. Um 19 þúsund manns fá reglulega launagreiðslur sem kerfið annast mánaðarlega.
Örútboðið sem nú er lokið með samningum við Advania náði yfir alla hýsingu og dagelgan rekstur á Orra kerfinu.
Orra kerfið hefur verið mjög umdeilt. Árið 2001 skrifaði þáverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, undir samning við Skýrr um kaup á bókhaldskerfi fyrir um milljarð króna, þrátt fyrir að fjárheimild til verkefnisnis á fjárlögum væri einungis 160 milljónir króna . Kastljós greindi frá því haustið 2012 að kostnaður vegna kerfisins væri þá þegar orðin um fjórir milljarðar króna og að í drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar um Orra, sem lekið hafði verið til fréttaskýringarþáttarins, hafi komi fram að ekki hafi verið staðið við gerða samninga. Tveir fyrrum yfirmenn hjá Skýrr áttu sæti í stýrinefndinni sem hafði yfirumsjón með vinnu ríkisins við útboð vegna kaupa á fjárhagskerfum fyrir ríkið.
Kerfið hefur einnig legið undir ámæli fyrir stórkostlega öryggisgalla.
Nafni Skýrr var breytt í Advania snemma árs 2012 þegar fyrirtækið var sameinað HugurAx, EJS og nokkrum norrænum dótturfyrirtækjum. Hýsing og rekstur kerfisins hefur því alla tíð verið hjá Advania eða fyrirrennara þess félags, sem bjó kerfið einnig til.