Ríkið hefur mánuð til að leggja fram fé í þjóðarhöll, annars byggir borgin íþróttahús á bílastæði
Árum saman hefur aðstöðuleysi barna og ungmenna sem æfa hjá Þrótti eða Ármann verið tengt við uppbyggingu nýjum þjóðarleikvöngum fyrir knattspyrnu og inniíþróttir. Sameiginlegur kostnaður hefur verið áætlaður allt að 24 milljarðar króna. Nú sér fyrir endann á því þrátefli. Borgarstjóri hefur gefið ríkinu rúman mánuð til að kynna fjármagnaðar tillögur að nýjum þjóðarleikvangi fyrir inniíþróttir. Gerist það ekki mun borgin byggja nýtt íþróttahús fyrir iðkendur í Laugardal. Og þar með taka engan þátt í kostnaði við uppbyggingu þjóðarleikvangsins.
Þjóðarleikvangar. Heimili landsliða þar sem þjóð sameinast um að hvetja áfram hópíþróttalið sem fóðra þjóðarsjálfið á hátt sem erfitt er að útskýra, og enn erfiðara að toppa. Góður árangur knattspyrnu-, handbolta- og körfuboltalandsliða Íslands hefur getu til að láta þjóð sem er oft ekki sammála um neitt nema að vera ósammála um flest leggja niður vopnin, fallast í faðma og toga svo að öllu afli í sömu átt.
Í nokkur ár hefur hins vegar blasað við sú staða að þessi heimili landsliðanna eru úr sér gengin. Þau uppfylla ekki alþjóðlegar kröfur og eru annað hvort á undanþágum eða geta ekki hýst heimaleiki landsliða. Getur þjóð sem tengir þjóðarsjálfið jafn sterkt við landsliðin sín spilað heimaleiki sína … að heiman?
Svarið hefur verið nei. Það sé ekki hægt. Ráðast þurfi í uppbyggingu á nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu og nýrri þjóðarhöll fyrir inniíþróttir.
Málið hefur hins vegar orðið að pólitísku bitbeini milli ríkisins, sem vill byggja upp nýja leikvanga í Laugardalnum þar sem hinir gömlu eru, og Reykjavíkurborgar, sem vill fyrst og síðast hafa hagsmuni iðkenda tveggja hverfisfélaga í Laugardalnum í fyrirrúmi þegar kemur að uppbyggingu mannvirkja þar.
Úr hefur orðið reiptog sem nú sér mögulega fyrir endann á. Í vikunni var spilað út spili sem mun mögulega höggva á þennan hnút, en með þeim hætti að mikil óvissa verður um uppbyggingu þjóðarleikvanga í Laugardalnum.
Hvort það verði raunin mun ráðast innan mánaðar.
Risastór íþróttafélög án íþróttahúss
Íþróttafélögin Þróttur og Ármann reka fjölmennar íþróttadeildir, sameiginlega einar þær fjölmennustu í Reykjavík. Íþróttagreinarnar sem félögin bjóða upp á skarast ekki og því má líta á iðkendahóp þeirra sem eina hverfisheild. Þannig rekur Þróttur til dæmis afar öfluga knattspyrnudeild en Ármann hefur byggt upp risastóra körfuknattleiksdeild af mikilli elju, á skömmum tíma. Félögin tvö þjónusta þrjú rótgróin hverfi í Laugardalnum: Laugarnes-, Langholts- og Vogahverfi. Auk þess var nýverið greint frá því að þau yrðu sameiginlega hverfafélög nýrrar Vogabyggðar.
Aðstöðumál íþróttafélaga og skóla í Laugardalnum hafa þó lengi verið í lamasessi. Eini gervigrasvöllurinn í hverfinu er ónýtur vegna ofnotkunar og eina íþróttahúsið sem uppfyllir nútímakröfur um æfingaaðstöðu, Laugardalshöllinn, hefur oft verið tekin undir aðra notkun eins og tónleikahald og ráðstefnur. Íþróttaæfingar barna og unglinga hafa þá verið látnar víkja fyrir öðrum tekjuberandi viðburðum. Þess utan hefur Laugardalshöllinn ekki verið í notkun í tvö ár vegna leka, og vandræða vegna útboðsmála sem fylgdu viðgerð á henni.
Í þarfagreiningu sem Reykjavík lét gera á aðstöðu íþróttafélaga innan borgarmarkanna fyrir nokkru lentu mál Þróttar og Ármanns í tveimur efstu sætunum. Úrbætur á þeim voru þær brýnustu.
Árum saman hefur verið mikill þrýstingur frá þeim sem standa að rekstri íþróttafélaganna, að uppistöðu sjálfboðaliðum sem gefa tíma sinn til stjórnarsetu eða í önnur þörf verkefni sem þarf að ráðast í til að vinna að framgangi þeirra, að unnin verði bragabót á þessu ástandi.
Tími til að „grípa skófluna“
Þessi aðstöðumál hafa svo blandast saman við boðaða uppbyggingu á nýjum þjóðarleikvöngum fyrir knattspyrnu og inniíþróttir. Núverandi þjóðarleikvangar eru enda báðir í Laugardalnum og uppfylla, líkt og áður sagði, ekki lengur alþjóðlegar kröfur. Þá þarf að endurnýja ef íslensk landslið ætla sér að spila heimaleiki sína á Íslandi í framtíðinni.
Vegna þessarar stöðu hafa átt sér stað viðræður milli ríkisins annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar um uppbyggingu þjóðarleikvanga og hvort þeir gætu líka nýst til að besta æfingaaðstöðu barna og unglinga í Þrótti og Ármann samhliða.
Haustið 2020, ári fyrir síðustu þingkosningar, skall á með yfirlýsingum um þessi mál. Þann 22. september það ár var birt tilkynning á vef stjórnarráðsins um að starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hefði skilað skýrslu um helstu valkosti er snúa að uppbyggingu slíks íþróttamannvirkis. Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hafði skipað starfshópinn til þess að afla upplýsinga um kröfur sem gerðar voru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót auk þess að greina þarfir fyrir slíkt mannvirki hérlendis.
Helstu niðurstöður hópsins voru þær að engin mannvirki á Íslandi uppfylltu þær kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handknattleik og körfuknattleik.
Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur yrði að byggja nýtt mannvirki. Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað. Heildarkostnaður við byggingu þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir var áætlaður á bilinu 7,9 til 8,7 milljarðar króna. Munurinn fólst í því hvort húsið eigi að taka fimm þúsund eða 8.600 áhorfendur.
Í tilkynningunni var haft eftir mennta- og menningarmálaráðherra að fram undan væri að tryggja fjármögnun og samvinnu við helstu samstarfsaðila. Síðar þyrfti að „ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga, íþróttaunnendur og iðkendur á öllum aldri.“
Bókað í þverpólitískri sátt
Í sama mánuði, september 2020, skilaði breska ráðgjafafyrirtækið AFL valkostagreiningu um endurnýjun þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Niðurstaða hennar var að hagkvæmasti kosturinn varðandi byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu væri að byggja nýjan fótboltavöll með sætum fyrir 15 þúsund áhorfendur og að ekki væri fýsilegt til langs tíma að ráðast í endurbætur á Laugardalsvelli. Kostnaður við hann var áætlaður 10-15 milljarðar króna.
Þann 10. nóvember 2020 markaði Reykjavíkurborg sér þá stefnu, í tengslum við forgangsröðun fjárfestinga í íþróttamálum, að hún væri tilbúin til að koma að fjármögnun þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum (síðarnefndi yrði nauðsynlegur þar sem færa þarf frjálsíþróttaaðstöðu frá Laugardalsvelli til að uppfylla alþjóðakröfur) ef aðstaða á þeim myndi nýtast börnum og unglingum til æfinga og keppni.
Borgarráð samþykkti bókun þess efnis þennan dag sem fulltrúar allra flokka sem þar sátu samþykktu. Þar stóð meðal annars: „Reykjavíkurborg lýsir sig tilbúna til að leggja núverandi knattspyrnuvöll og mannvirki, og núverandi framlög vegna rekstrar vallarins eða jafngildi þeirra inn í verkefnið. Aðkoma borgarinnar að þjóðarleikvangi í knattspyrnu byggir að öðru leyti á þeirri forsendu að frekari fjármögnun, framkvæmdaáhætta og rekstraráhætta vegna leikvangsins verði ekki á hendi Reykjavíkurborgar heldur annarra aðila að verkefninu.“
Þennan sama dag, 10. nóvember 2020, sendi mennta- og menningarmálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að ríkisstjórnin hefði samþykkt á fundi sínum þann dag að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingu nýs þjóðarleikvangs, að tillögu þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Í tilkynningunni var meðal annars haft eftir Lilju Alfreðsdóttur að það væri löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og að hún væri „vongóð um að hann muni rísa á næstu fimm árum.“
„Ég er er fullur bjartsýni um að lending náist í því og að nýr þjóðarleikvangur rísi sem allra fyrst,“ sagði Bjarni Benediktsson á sama stað.
Þolinmæðin á þrotum
Þegar fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar fyrir árin 2022-2026 var birt í mars 2021, rúmum fjórum mánuðum síðar, kom hins vegar í ljós að ekki var gert ráð fyrir því í áformum stjórnvalda að fjármagni yrði veitt í verkefnin út árið 2026.
Þolinmæði íþróttafélaganna í Laugardal brast endanlega og þau settu aukinn kraft í kröfur sínar um úrbætur.
Þann 24. mars 2021 undirrituðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og fulltrúar íþróttafélaganna í Laugardal sameiginlega viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir börn og ungmenni í Laugardal. Þar sagði meðal annars að aðilar væru „sammála um að lokið verði við þarfagreiningu vegna nýs íþróttahúss fyrir félögin og að strax hefjist undirbúningur við gerð nýs deiliskipulags byggt á hugmyndum félaganna um íþróttamannvirki í Laugardal“.
Sumarið 2021 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem gerði ráð fyrir að tveir nýir gervigrasvellir yrðu lagðir á gamla Valbjarnarvellingum í Laugardal sem myndu þjóna knattspyrnudeild Þróttar. Framkvæmdir við lagningu þeirra töfðust vegna kærumála í tengslum við útboð en hófust lokst í mars og á að ljúka í sumar.
Þá stóð eftir innanhúsaðstaða íþróttafélaganna í Laugardal. Af hverju var eiginlega verið að þvæla þjóðarleikvöngum saman við aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal?
Ástæðan er sú að gólfflötur í nýrri þjóðarhöll er slíkur að hann rúmar fjóra fulla keppnisvelli í handbolta. Þegar þeim yrði bætt við þá tvo velli sem eru í Laugardalshöll gæti þjóðarhallarlausnin skilað iðkendum í Laugardal alls sex æfingavöllum í fullri stærð, sem þyrfti að deila með landsliðum þegar þannig bæri undir.
Nýtt íþróttahús á bílastæðinu við hlið Þróttaheimilisins myndi skila tveimur nýjum völlum í fullri stærð og því var ávinningurinn að þjóðarhallarleiðirnir, mjög einfaldlega, fleiri vellir. Meira pláss.
„Komið að því að bretta upp ermarnar og klára þetta mál“
Kosið var í september 2021 og flokkarnir þrír, Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem stýrðu landinu á síðasta kjörtímabili endurnýjuðu samstarf sitt. Sá sem vann mesta kosningasigurinn, Framsóknarflokkurinn, gerði þjóðarleikvanga að kosningamáli. Í málefnaáherslum hans fyrir kosningar sagði að flokkurinn vildi „byggja nýja þjóðarleikvanga á næsta kjörtímabili í samstarfi við íþróttahreyfinguna.“
Þremur dögum fyrir kosningarnar skrifuðu þrír forvígismenn flokksins: Lilja Alfreðsdóttir, Willum Þór Þórsson og Ásmundur Einar Daðason grein sem birtist á Vísi og bar fyrirsögnina „Þjóðarhöllin rísi“. Þar sagði meðal annars: „Ef við ætlum áfram að eiga íþróttafólk í fremstu röð á heimsvísu verðum við að bæta úr aðstöðumálum, annars er raunveruleg hætta á að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum. Nú er komið að því að bretta upp ermarnar og klára þetta mál sem hefur allt of lengi fengið að mara í hálfu kafi.“
Málið rataði inn í nýjan stjórnarsáttmála en orðalagið þar var afar loðið. Þar stóð einfaldlega: Unnið verður áfram að uppbyggingu þjóðarhallar inniíþrótta og þjóðarleikvanga.
Þjóðarleikvangur „á þessu kjörtímabili“
Eftir kosningarnar voru málefni þjóðarleikvanga flutt undir í nýtt mennta- og barnamálaráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar.
Hann sagði í umræðuþættinum Pallborðinu á Vísi þann 9. desember 2021 að uppbygging þjóðarleikvanga, fyrir knattspyrnu og inniíþróttir, væru eitt af þeim verkefnum sem væru efst á hans lista á þessu kjörtímabili. „Ég reikna með því að mitt fyrsta mál sem ég fer með inn í ríkisstjórn varði þetta mál. Fyrsti fundurinn sem ég tók sem ráðherra var með ÍSÍ og sérsamböndunum í gær. Það er líka til að undirstrika mikilvægi þessa málefnaflokks."
Þar sagði Ásmundur Einar einnig að dregið gæti til tíðinda í málinu í desember 2021. „Minn hugur stendur nú til þess að á þessu kjörtímabili geti maður farið á heimaleiki á nýjum þjóðarleikvangi.“
Ekkert breyst á 30 árum
Nokkrum vikum áður hafði einn fremsti körfuknattleiksleikmaður Íslandssögunnar, Jón Arnór Stefánsson, mætt í viðtal við Stöð 2 þar sem hann fór yfir að aðstöðuleysið sem blasti við börnum og ungmennum í Laugardal til inniíþrótta. Jón Arnór, sem er íbúi í hverfinu og á börn sem stunda þar íþróttir, sagði stöðuna þá sömu og hann hefði staðið frammi fyrir 30 árum áður, þegar Jón Arnór var að alast upp í hverfinu.
Þá leiddi aðstöðuleysið í Laugardal til þess að Jón Arnór, og margir aðrir leikmenn sem skipuðu lykilhlutverk í gullaldarliði KR í körfubolta fyrr á þessari öld, leituðu í Vesturbæinn til æfinga.
Jón Arnór fylgdi því eftir með grein sem birtist á Vísi 1. mars sem bar heitið „Er Degi alveg sama?“. „Enn á ný virðist strategían vera sú að þvæla umræðu um þjóðarhöll inn í málið og forðast þannig að gefa skýr svör.
Mig langar því að spyrja aftur. Stendur til að byggja fjölnota íþróttahús fyrir íþróttafélögin í hverfinu, eða er Degi og félögum alveg sama um íþróttaiðkendur hverfisfélaga Laugardalsins?“
Dagur gaf loforð
Birting greinarinnar var ekki tilviljun. Daginn eftir, 2. mars, hélt Dagur opinn íbúafund í Laugarnesskóla þar sem meðal annars var rætt ítarlega um aðstöðumál íþróttafélaganna. Þar sagði Dagur að Reykjavíkurborg hefði tekið frá fjármuni í uppbyggingu íþróttahúss og að hún héldi því enn opnu hvort þeim yrði best varið í þjóðarhöll eða í sérstakt íþróttahús. Skilyrðið væri að peningarnir, um tveir milljarðar króna, myndu nýtast fyrir börn og ungmenni í Laugardal.
Borgarstjórinn sagði á fundinum að því yrði gefin mjög skammur tími að láta á þetta reyna. „Við erum búin að taka frá peninga fyrir öðrum hvorum kostinum. Þannig að það verður að skýrast á þessu vori, og ég hef rætt það síðast í gær við fleiri en einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að ríkið ætli sér raunverulega að fara í þetta og setji pening á borðið. Ef að það gerist ekki þá förum við í sérstakt hús fyrir Þrótt og Ármann,“ sagði Dagur á fundinum.
Hann fékk spurningu úr sal um hversu skammur tími yrði gefin og sagði að slaki yrði gefinn fram að birtingu nýrrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2028. „Ég segi að ef það verða ekki peningar í þetta þar þá meina þau ekkert með þessu. Þannig að fyrir 1. maí þarf þetta að liggja fyrir. Annars legg ég tillögu fyrir borgarráð 5. maí.“
Ekkert í nýrri fjármálaáætlun og Dagur stendur við dagsetninguna
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var birt í fyrradag. Þar er ekki gert ráð fyrir fjármunum í uppbyggingu þjóðarleikvanga út árið 2028. Formenn KSÍ og KKÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir og Hannes S. Jónsson, voru sammála í samtali við Fréttablaðið að áætlunin væri ekki með neinum hætti í takti við það sem ráðamenn hefðu sagt. „Þetta er bara eins og að vera sleginn niður að fá svona kaldar kveðjur,“ sagði Hannes.
KSÍ hefur átt í óformlegum samskiptum við verkefnahóp sem þróar hugmyndir um að reisa nýjan þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu á félagssvæði Breiðabliks í Kópavogi, og fjármagna hann með svokallaðri grænni innviðafjárfestingu þar sem fasteignafélag kæmi að fjármögnun og rekstri, með aðkomu lífeyrissjóða.
Í ljósi nýjustu tíðinda um að ekkert fjármagn hafi verið tekið sértækt frá í byggingu nýs þjóðarleiksvangs í knattspyrnu gæti það samtal þróast áfram.
Dagur B. Eggertsson segir í samtali við Kjarnann að ekkert hafi breyst að hans hálfu. Allt standi sem sagt var á íbúafundinum og hann mun leita skýringa á stöðunni frá ríkisstjórninni. „Það hefur legið fyrir að ef Þjóðarhöllinn er ekki að fara strax í byggingu þá telji borgin ekki hægt að bíða með úrbætur á aðstöðu í Laugardalnum. Borgin lagði þá línu að áform um Þjóðarhöll þyrftu að vera föst í hendi.“
Að óbreyttu verður því lögð tillaga fyrir borgarráð Reykjavíkur 5. maí næstkomandi, níu dögum fyrir borgarstjórnarkosningar, um að byggja íþróttahús fyrir Þrótt og Ármann á bílastæðinu við Þróttaraheimilið í Laugardal.
Óskilgreint fjárfestingasvigrúm
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem bera ábyrgð á annars vegar fjármálaáætlun og hins vegar þjóðarleikvöngum brugðust báðir við í vikunni. Ásmundur Einar sagði við RÚV að það ætti ekki að lesa of mikið í það að fjármagn í þjóðarleikvanga væri ekki á fimm ára áætlun ríkissjóð. „Fyrsta mál mitt í ríkisstjórn var skipun sérstaks stýrihóps sem hefur verið að halda utan um verkefnið. Hann er að skila af sér núna svona milli-tillögu, skulum við segja, öðru hvoru megin við helgina og er þar af leiðandi að marka þá verkefnið áfram.“
Þegar Ásmundur Einar var spurður út í málið í þingsal í gær sagðist hann „reikna með því að öðrum hvorum megin við þessa helgi munum við kynna hvernig við sjáum fyrir okkur skrefin stigin á þessu kjörtímabili hvað það snertir. Í framhaldinu gæti farið fram áframhaldandi samtal við borgina.“
Bjarni birti stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann kenndi því um að ekki hefði náðst samkomulag milli ríkis og borgar um „fjárhagslegt framlag og aðra þætti“. Það ásamt heimsfaraldri hefði leitt til þess að áætlanir hefðu raskast. „Varðandi fjármálaáætlun er því til að svara að það er rangt sem ég les í fjölmiðlum að ekki sé minnst á þjóðarleikvanga. Á bls. 330 segir beinlínis að gert sé ráð fyrir að á næstu árum rísi þjóðarleikvangar og á bls. 90 kemur fram að óráðstafað fjárfestingasvigrúm fari vaxandi eftir því sem líður á áætlunartímabilið. Slíkt svigrúm getur einmitt nýst til þess að klára fjármögnun mannvirkja eins og þjóðarleikvanga, sem á þessum tímapunkti liggur reyndar ekki endanlega fyrir hvar eiga að rísa og að hvaða marki borgin eða aðrir ætli að taka þátt í að fjármagna.“
Ég tek eftir því að borgarstjóri segir þjóðarleikvanga hvergi getið í fjármálaáætlun og hann ætli þá mögulega að...
Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, March 29, 2022
Því er staðan sú að íslenska ríkið hefur til 1. maí að leggja fram fjármagnaða tillögu um uppbyggingu á þjóðarleikvangi fyrir inniíþróttir í Laugardal. Kostnaður við nýjan Laugardalsvöll og nýja þjóðarhöll er sameiginlega áætlaður, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, allt að 23,7 milljarðar króna.