Ríkið lengir í lánum Vaðlaheiðarganga um 36 ár og eignast félagið að nánast öllu leyti
Þegar ákveðið varð að gera Vaðlaheiðargang átti að vera um einkaframkvæmd að ræða. Ríkið átti að lána fyrir framkvæmdinni en fá allt sitt til baka í eingreiðslu þremur árum eftir að þau yrðu opnuð. Veggjöld áttu að standa undir framkvæmdarkostnaði og gefa átti út skuldabréf til að selja fjárfestum svo hægt yrði að borga ríkinu. Þetta gekk ekki eftir, kostnaður reyndist átta milljörðum krónum meiri, tekjur minni en lagt var upp með og áhugi fjárfesta á að að lána svo hægt yrði að borga ríkinu var enginn.
Íslenska ríkið hefur breytt fimm milljörðum króna af skuldum Vaðlaheiðarganga hf. við ríkissjóð í nýtt hlutafé. Búast má við því að eftir þá breytingu verði ríkið að minnsta kosti eigandi að um 90 prósent af hlutafé í félaginu, sem byggði og rekur göng á Norðurlandi sem eru samnefnd því. Auk þess hefur ríkið samið við félagið um að lengja í lánum þess til ársins 2057 þannig að það greiði um 200 milljónir króna á ári af því. Lánin voru gjaldfallin áður en samkomulag um þetta náðist í lok júní síðastliðins en upphaflegt samkomulagi gerði ráð fyrir að þau yrðu greidd með einni greiðslu í maí í fyrra. Því munu lánin innheimtast 36 árum síðar en stóð til eftir að samkomulagið var gert.
Alls skulduðu Vaðlaheiðargöng ehf. íslenska ríkinu 19,7 milljarða króna í lok árs 2021. Stjórnvöld hafa, enn sem komið er, ekki greint frá samkomulaginu. Upplýsingar um það er hins vegar að finna í ársreikningi Vaðlaheiðarganga sem birtur var í síðasta mánuði.
Þar kemur líka fram að Vaðlaheiðargöng hafi tapað 884,5 milljónum króna á síðasta ári, sem er 80 milljónum krónum meira en félagið tapaði á árinu 2020. Þegar við bætist tap upp á 592 milljónir króna á fyrsta heila rekstrarárinu eftir að göngin voru opnuð 1. desember 2018 þá liggur fyrir að samanlagt tap Vaðlaheiðarganga á árunum 2019 til 2021 var tæplega 2,3 milljarðar króna.
Þar skiptir fjármagnskostnaður, greiðsla á þeim lánum sem voru tekin til að gera göngin, mestu en rekstrarkostnaður þeirra (viðhald og rekstur, laun starfsmanna og innheimtukostnaður) er um 23 prósent af veltu.
Hver ferð kostar 1.500 krónur
Vaðlaheiðargöng stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 kílómetra. Ef keyrt er á 90 km/klst. meðalhraða stytta göngin því leiðina um ellefu mínútur. Enn er hægt að keyra gömlu leiðina um Víkurskarð og sleppa þannig við að greiða í göngin, en vetrarfærð á þeim fjallavegi getur verið erfið. Í júlí 2019 greindi DV frá því að rekstur gangana hefði valdið vonbrigðum og að tekjur væru umtalsvert undir áætlun. Rekstrarfélag gangana hefði áætlað að um 90 prósent af umferð um svæðið myndi fara í gegnum göngin en raunin hafi verið um 70 prósent. Aðrir keyrðu áfram um Víkurskarð. Á árinu 2020, sem er síðustu birtu tölur um ferðir á svæðinu, fór um fimmtungur allra sem keyrðu þar um Víkurskarð frekar en göngin.
Verð í göngin fyrir fólksbíla (yfir 90 prósent allra ferða um þau eru farin á slíkum) var lækkað árið 2020 úr 2.500 í 1.500 krónur fyrir staka ferð og afsláttarkjör voru einnig einföldum. Flutningabílar borga nú 2.500 til 5.200 krónur á ferð eftir stærð. Einnig er hægt að skrá sig í áskrift, en það kostar 21.000 krónur á mánuði. Auk þess er hægt að kaupa tíu stakar ferðir á 12.500 krónur eða 50 stakar ferðir á 40.000 þúsund krónur.
Sé keyrt í gegnum göngin án þess að vera búinn að borga fer innheimtuseðill í heimabanka eiganda bílsins ásamt innheimtugjaldi.
Sum ökutæki greiða ekki fyrir að keyra í gegnum göngin. Þar er um að ræða til dæmis lögreglubifreiðar, sjúkrabifreiðar, bifreiðar björgunarsveita og ökutæki Vegagerðarinnar. Ferðir þeirra eru þó taldar með þegar umferð um göngin er reiknuð.
Átti að verða einkaframkvæmd
En spólum aðeins aftur. Rætt hafði verið um Vaðlaheiðargöng sem samgönguúrbót milli stærstu þéttbýlissvæða á Norðurlandi í áratugi áður en þau komust á skrið, eða allt frá árinu 1990. Á uppgangstímanum eftir aldarmót var félagið Greið leið stofnað af sveitarfélögum á svæðinu og fjárfestingafélaginu KEA. Lagt var í allskyns vinnu til að reyna að koma framkvæmdinni á koppinn sem mögulegri einkaframkvæmd, sem þyrfti þá ekki að lúta lögmálum samgönguáætlunar, sem ákveður röð þeirra samgönguframkvæmda sem ríkið fjármagnar. Með öðrum orðum væri hægt að ráðast fyrr í einkaframkvæmd, sem yrði fjármögnuð með veggjöldum, en að bíða eftir því að tími gangnanna myndi koma á samgönguáætlun.
Á árunum 2009 og 2010, eftir bankahrun, ákvað íslenska ríkið að kanna hvort fýsilegt væri að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd.
Leitað var til íslenskra lífeyrissjóða um að koma að fjármögnun verkefnisins en ekki náðist saman um slíkt. Sjóðirnir töldu verkefnið einfaldlega ekki ganga upp fjárhagslega.
Því ákvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði til skamms tíma en síðar yrði leitað á almennan markað að langtímafjármögnun. Verkefnið átti að verða aðlaðandi fyrir fjárfesta m.a. vegna þess að fjármögnunin átti að verða rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds.
Sérlög samþykkt af minnihluta þingmanna
Í júní 2012 samþykkti Alþingi svo sérlög um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Það var gert með atkvæðum minnihluta þingmanna, 29 af 63 sögðu já. Þrettán þingmenn kusu gegn lögunum, 16 voru fjarstaddir og fimm sátu hjá.
Þau veittu þáverandi fjármálaráðherra, Oddnýju Harðardóttur, heimild til að fjármagna gerð gangnanna fyrir hönd ríkissjóðs. Með því var komist framhjá lögum um ríkisábyrgðir, sem hefðu ekki heimilað slíkan gjörnin. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun birti árið 2015 var þetta verklag gagnrýnt harðlega. Þar stóð orðrétt: „Ríkisendurskoðun geldur varhug við þessu verklagi.“
Í lögunum fólst að ríkissjóður gat lánað allt að 8,7 milljarða króna til verkefnisins, á því verðlagi sem var í lok árs 2011. Vextir á lánunum voru allt að 3,7 prósent og átti það fé að duga fyrir stofnkostnaði. Sérstakt félag var stofnað utan um framkvæmdina, Vaðlaheiðargöng ehf. Meirihlutaeigandi þess félags með 66 prósent eignarhlut hefur verið Greið leið ehf., sem er nú meðal annars í eigu Akureyrarbæjar, fjárfestingarfélagsins KEA, Útgerðarfélags Akureyringa (sem er í eigu Samherja hf.) og annarra minni sveitarfélaga á Norðurlandi. Minnihlutaeigandi í félaginu hefur verið íslenska ríkið, sem á 33 prósent. Það mun nú eignast félagið að mestu, eftir að hafa breytt fimm milljörðum króna í nýtt hlutafé. Aðrir hluthafar munu ekki taka þátt í þeirri hlutafjáraukningu, samkvæmt því sem fram kemur í síðasta ársreikningi Greiðrar leiðar.
Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 og að gangagröftur myndi klárast í september 2015. Vandræði vegna mikils vatnsleka gerðu það að verkum að göngin voru á endanum ekki opnuð fyrr en í desember 2018.
Vantaði 4,7 milljarða króna til viðbótar
Áður en göngin voru opnuð, nánar tiltekið í mars 2017, var greint frá því að það vantaði umtalsvert fé til að klára gerð Vaðlaheiðarganga. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ákvað að ríkið myndi hækka lánsheimild Vaðlaheiðarganga um allt að 4,7 milljarða króna til viðbótar við þá 8,7 milljarða króna sem ríkið skuldbatt sig upphaflega til að leggja til framkvæmdarinnar svo hægt yrði að ljúka vinnu við gerð ganganna. Aðrir hluthafar, þ.e. eigendur Greiðrar leiðar, lögðu ekki fram nýtt hlutafé né lánsfé.
Sú ríkisstjórn ákvað þó að láta vinna úttektarskýrslu um gerð Vaðlaheiðarganga í ljósi þeirra viðbótarfjárútláta. Í skýrslunni, sem var skilað í ágúst 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin gæti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd. Í raun væru hún ríkisframkvæmd þótt upphaflega hefði hún ekki verið kynnt sem slík til að þurfa ekki að lúta forgangsröðun samgönguáætlunar. Frá því að lög um gerð ganganna voru sett hafi íslenska ríkið borið megináhættu af Vaðlaheiðargöngum í formi framkvæmdaláns til verksins.
Tekjur undir áætlunum frá byrjun
Á fyrsta heila starfsári Vaðlaheiðarganga hf. eftir opnun ganganna, voru tekjur félagsins „nokkuð undir áætlunum stjórnenda vegna minni umferðar en áætlaðar var auk þess sem samsetning tekna er með öðrum hætti en gert var ráð fyrir,“ samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi þess árs. Á árinu 2019 heimsóttu þó yfir tvær milljónir ferðamanna Ísland, en vonast hafði verið til að slíkir myndu verða mikilvægir í tekjuöflun gangnanna.
Næstu tvö árin voru lituð af kórónuveirufaraldrinum, sem óhjákvæmilega hafði mikið og neikvæð áhrif á rekstur Vaðlaheiðarganga. Í ársreikningi síðasta árs segir að þau áhrif hafi „fyrst og fremst fram í samdrætti tekna félagsins vegna sölu á veggjaldi um Vaðlaheiðargöng sem lækkuðu um 27 prósent á milli áranna 2019 og 2020. Tekjur vegna sölu veggjalds jukust svo nokkuð milli áranna 2020 og 2021 en hafa þó að krónutölu ekki náð þeim tekjum sem voru á árinu 2019.
Að mati stjórnenda félagsins munu áhrif faraldursins hvað varðar umferð um göngin fara minnkandi á árinu 2022 samhliða dvínun faraldursins og horft til þess að umferð hefur aukist umtalsvert á milli áranna 2021 og 2022. Í því sambandi er horft til þess að veruleg umferðaraukning hefur verið á fyrstu 5 mánuðum ársins 2022 samanborið við árið 2021 auk þess sem spár um fjölda erlendra ferðamanna til Íslands samanborið við fyrra ár gefa vísbendingu um verulega umferðaraukningu vegna þess, þegar líður tekur á sumarið og inná haustið.“
Skulda ríkinu tæplega 20 milljarða króna
Á fjárlögum ársins 2020 var ríkinu veitt heimild til að breyta skuldum Vaðlaheiðarganga við ríkissjóð í nýtt hlutafé. Í mars á því ári hófust svo viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins til að hægt væri að tryggja rekstrarhæfi þess til framtíðar. Gjalddagi skulda Vaðlaheiðarganga við ríkissjóð var 1. maí í fyrra. Félagið hafði skuldbundið sig til þess að endurgreiða ríkissjóði að fullu, ásamt áföllnum vöxtum með einni greiðslu, þann dag.
Þegar kom að honum var innheimtuaðgerðum frestað í ljósi þess að enn væri verið að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu. Líkt og áður sagði námu skuldirnar 19,7 milljörðum króna í lok síðasta árs. Upphaflega áttu göngin að kosta 8,7 milljarða króna á verðlagi ársins 2011, sem er í dag um 11,6 milljarðar króna. Því skulduðu Vaðlaheiðargöng ríkissjóði 8,1 milljarði krónur meira en til stóð að hann myndi lána í upphafi í verkið um síðustu áramót.
Ríkið átti að fá allt sitt til baka þremur árum eftir að rekstur gangnanna hófst, en forsendur gerðu ráð fyrir að framkvæmdalánið frá ríkinu yrði þá endurfjármagnað með útgáfu skuldabréfs á markaði og að rekstrarhagnaður þeirra myndi standa undir greiðslu þess.
Það skuldabréf átt svo að greiðast upp í síðasta lagi árið 2045, samkvæmt mati á greiðslugetu og forsendum sem unnið var fyrir fjármálaráðuneytið í byrjun árs 2012.
Það var hins vegar ekki gefið út neitt skuldabréf. Forsendur fyrir því voru ekki til staðar, tekjur ekki nægjanlega miklar, kostnaður mun meiri en lagt var upp með og áhugi fjárfesta á að kaupa slíka afurð enginn.
Þess í stað hefur ríkið breytt fimm milljörðum króna af skuldinni í nýtt hlutafé og staðfest hlutverk sitt sem eini langtímalánveitandi, og fjármagnandi, Vaðlaheiðarganga með því að lengja í lánum félagsins um 36 ár, eða til 15. febrúar 2057.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði