Ríkisendurskoðun hefur áður gefið út falskt heilbrigðisvottorð á einkavæðingu banka
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur beðið Ríkisendurskoðun um að skoða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka til hóps fjárfesta í lokuðu útboði fyrir rúmum tveimur vikum. Stofnunin hefur tvívegis áður skoðað bankasölu og sagt hana í lagi. Þær niðurstöður eldast ekki vel.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi í gær beiðni til Ríkisendurskoðunar um að stofnunin gerði úttekt á því hvort sala á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Salan fór fram í gegnum lokað útboð og alls 207 aðilar fengu að kaupa hlutinn með samtals 2,25 milljarða króna afslætti. Listi yfir kaupendur var birtur fyrr í vikunni og kom þá meðal annars í ljós að starfsmenn söluráðgjafa, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og faðir fjármála- og efnahagsráðherra voru á meðal kaupenda.
Framkvæmd útboðsins hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir ýmislegt annað. Engin sýnileg ástæða hafi til að mynda hafi verið fyrir því að hleypa mörgum minni fjárfestum að í slíku útboði, þeir gætu einfaldlega keypt bréf á eftirmarkaði og á markaðsverði. Þá hefur kostnaður við útboðið, um 700 milljónir króna, verið gagnrýndur og sú ákvörðun að selja erlendum skammtímasjóðum sem tóku líka þátt í almenna útboðinu í fyrrasumar, en seldu sig nær strax niður í kjölfar þess, umtalsverðan hlut í bankanum á afslætti.
Tvær úttektir
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ríkisendurskoðun er beðin um að skoða sölu á hlut íslenska ríkisins í banka. Skömmu eftir að stór hlutur í tveimur ríkisbönkum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, var seldur til kjölfestufjárfesta síðla árs 2002 og snemma árs 2003, gaf hún út heilbrigðisvottorð á þá framkvæmd.
Ríkisendurskoðun vann skýrslu árið 2003 um einkavæðingu ríkiseigna þar sem niðurstaðan var sú að „íslensk stjórnvöld hafi í meginatriðum náð helstu markmiðum sínum með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á árunum 1998-2003.“ Sérstaklega var gagnrýnt á þeim tíma að engar athugasemdir hafi verið gerðar við það hvernig staðið var að sölu á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til svokallaðs S-hóps og að aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser hafi alls ekki verið tortryggileg.
Í mars 2006 vann Ríkisendurskoðun síðan átta blaðsíðna samantekt í kjölfar fundar Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann lagði fram nýjar upplýsingar um söluna á Búnaðarbankanum til S-hópsins. Vilhjálmur hafði lengi verið þeirrar skoðunar, og taldi sig hafa gögn til að sýna fram á, að aðkoma þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser, sem var sagður hluti af S-hópnum, hafi aldrei verið raunveruleg, heldur hafi hann leppað sinn hlut fyrir aðra og blekkt um leið seljendur til að halda að erlend fjármálastofnun kæmi að kaupunum.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var sú að ekkert sem lagt hafi verið fram í málinu hefði stutt víðtækar ályktanir Vilhjálms. „Þvert á móti þykja liggja óyggjandi upplýsingar og gögn um hið gagnstæða,“ segir í skýrslu hennar.
Því sendi Ríkisendurskoðun tvívegis frá sér skýrslu eða samantekt þar sem stofnunin vottaði að ekkert athugavert hafi verið við söluna á hluti ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins.
Allir blekktir
Í mars 2017 opinberaði rannsóknarnefnd Alþingis, með tilvísun í gögn, að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum hafi verið blekking. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu, að baki lágu baksamningar sem tryggðu Hauck & Aufhäuser fullt skaðleysi, þóknanatekjur upp á eina milljón evra fyrir að leppa og sölurétt á hlutnum eftir að þýski leppbankinn var búinn að halda á honum í tæp tvö ár.
Til viðbótar lá fyrir í fléttunni, sem var kölluð „Puffin“, að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni. Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar króna.
Íslensk skattayfirvöld telja að endanlegir eigendur félagsins Dekhill Advisors Limited, aflandsfélags skráð til heimilis á Tortóla-eyju, séu bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör. Þeir eru á meðal þeirra sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði 22. mars síðastliðinn.
Vildi ekki draga mat sitt til baka
Eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar var gerð opinber beindi Kjarninn fyrirspurn til Ríkisendurskoðunar um niðurstöðu hennar.
Í svari stofnunarinnar sagðist hún fagna niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Afhäuser og þeirri „skýru niðurstöðu sem rannsóknarnefndin kemst að í krafti aðgangs nefndarinnar að tölvupóstum sem sýndu fram á mikilvæga baksamninga sem haldið hafði verið leyndum. Það er alltaf mikilvægt að draga sannleikann fram.“
Ríkisendurskoðun taldi hins vegar ekki ástæðu til að draga til baka það mat sitt að gögn þau sem Vilhjálmur Bjarnason afhenti Ríkisendurskoðun 22. febrúar 2006 væru ekki nægjanleg til að sýna fram að Hauck & Afhäuser hafi ekki verið raunverulegur eigandi þess eignarhaldsfélags sem myndaði stóran hluta S-hópsins svokallaða sem keypti 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.
„Breytir engu í því sambandi þó rannsóknarnefnd Alþingis hafi nú á grundvelli upplýsinga og ábendinga, sem bárust umboðsmanni Alþingis sl. vor undir þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra, og á grundvelli víðtækra rannsóknarheimilda sinna, sýnt fram á að gögn þau sem Ríkisendurskoðun aflaði sér í kjölfarið hafi verið lögð fram í blekkingarskyni.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars