Mynd: Bára Huld Beck

Útboðið í ósamræmi við tilmæli OECD um einkavæðingu

Þátttaka söluráðgjafa í lokuðu útboði Íslandsbanka er ekki í samræmi við tilmæli OECD um hvernig eigi að standa að einkavæðingu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Stofnunin segir mikilvægt að rétt sé farið að sölu á ríkiseignum til að koma megi í veg fyrir spillingu.

Sölu­ferlið á hlutum í Íslands­banka var ekki í sam­ræmi við til­mæli Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­innar (OECD), þar sem ekki var komið í veg fyrir hags­muna­á­rekstra sölu­ráð­gjafa. Einnig benda sam­tökin á að meta þurfi hæfi nýrra kaup­enda og rekstr­ar­á­ætl­anir þeirra, auk þess sem færa þurfi sterk rök fyrir því að setja skuli afslátt á sölu­virði rík­is­eigna. Þetta kemur fram í skýrslu sam­tak­anna um einka­væð­ingu á fyr­ir­tækjum í rík­i­s­eigu sem birt var 2019.

Ráð­herrafað­ir, hrun­menn og sölu­ráð­gjafar

Líkt og Kjarn­inn hefur greint frá birti fjár­mála­ráðu­neytið list­ann yfir þá 209 aðila sem fengu að kaupa hlut rík­is­ins í Íslands­banka fyrir rúmum tveimur vikum síðan með afslætti. Á þeim lista voru meðal ann­ars hluta­fé­lög í eigu Bene­dikts Sveins­son­ar, föður fjármala­ráð­herra og Þor­steins Más Bald­vins­son­ar, for­stjóra Sam­herja, sem er með stöðu sak­born­ings í rann­sókn á meintum mútu­brot­um, skattsvikum og pen­inga­þvætti.

Einnig var þar að finna félög í eigu fjár­festa sem komu að banka­rekstri hér­lendis á árunum fyrir fjár­mála­hrun­ið, þegar bank­arnir urðu gjald­þrota og voru þjóð­nýtt­ir. Þeirra á meðal var fjár­fest­ing­ar­fé­lagið SKEL, en stjórn­ar­for­maður félags­ins, Jón Ásgeir Jóhann­es­son, kom að félögum sem voru á meðal stærstu hlut­hafa Glitnis banka, for­vera Íslands­banka, þegar hann féll í októ­ber 2008. Eitt þeirra félaga, FL Group, heitir í dag Stoðir og er stýrt af Jóni Sig­urðs­syni. Hann var for­stjóri FL Group fyrir banka­hrun og sat sem vara­for­maður stjórnar Glitn­is. Stoðir er einnig á meðal kaup­enda í Íslands­banka. Þá keyptu félög í eigu bræðr­anna Lýðs og Ágústs Guð­mund­sona, sem oft­ast eru kenndir við Bakka­vör, einnig fyrir mörg hund­ruð millj­ónir króna í útboði 22. mars, en þeir voru stærstu eig­endur Kaup­þings áður en sá banki hrundi 2008. Lýður var dæmdur til fang­els­is­vistar eftir banka­hrun­ið.

Félagið Lyf og Heilsa hf., sem keypti í lok­aða útboð­inu fyrir rúmum tveimur vik­um, er í eigu Jóns Hilm­ars Karls­­son­ar. Faðir hans, Karl Wern­er­s­­son, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjald­­þrota. Þrotabú Karls höfð­aði í kjöl­farið nokk­ur rift­un­­­ar­­­mál þar sem talið var að eign­um hefði verið komið und­an kröf­u­höf­um, meðal ann­­­ars með því að eign­um Karls væri komið yfir til Jóns Hilm­­­­­ars. Karl var aðal­­eig­andi fjár­­­fest­ing­­ar­­fé­lags­ins Milestone fyrir banka­hrun, sem var um tíma á meðal stærstu eig­enda Glitn­­is. Hann hefur setið í fang­elsi fyrir alvar­leg efna­hags­brot tengd hrun­inu.

Eign­­ar­halds­­­fé­lagið Steinn ehf., sem er í eigu Þor­­steins Más Bald­vins­­sonar for­­stjóra Sam­herja og Helgu S. Guð­­munds­dótt­­ur, fyrr­ver­andi eig­in­­konu hans, keypti hluta­bréf í lok­aða útboð­inu fyrir 296,3 millj­­ónir króna. Þor­­steinn hefur áður komið að banka­­rekstri en hann var stjórn­­­ar­­for­­maður Glitnis þegar sá banki fór í þrot haustið 2008. Hann er sem stendur með stöðu sak­born­ings í virkri lög­reglu­rann­sókn á meintum mútu­greiðsl­um, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu.

Vísir greindi svo frá því í gær að eig­endur og starfs­menn umsjón­ar­að­ila útboðs­ins væru einnig á meðal kaup­enda. Þeirra á meðal var Þor­björg Stef­áns­dótt­ir, sem er helm­ings­eig­andi í Íslenskum verð­bréf­um, sem var einn af fimm fyr­ir­tækjum sem kom að ráð­gjöf um sölu­ferl­ið. Þor­björg er einnig eig­in­kona Jóhanns M. Ólafs­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Íslenskra verð­bréfa.

Hvað er hæfur fjár­fest­ir?

Í grein­ar­gerð fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra um áfram­hald­andi sölu á hlutum í Íslands­banka var sölu­ferlið útskýrt, en þar var lagt til að næsta skref í sölu­ferl­inu fæli í sér lokað útboð til „hæfra fjár­festa“. Þetta hug­tak er skil­greint í ESB til­skipun sem inn­leidd hefur verið hér á landi, en sam­kvæmt henni geta ein­stak­lingar sem eru búsettir hér­lendis talist til hæfra fjár­festa ef þeir upp­fylla tveimur af þremur eft­ir­far­andi skil­yrð­um:

  • Þeir hafi að minnsta kosti stundað við­skipti 40 sinnum á verð­bréfa­mark­aði síð­ustu tólf mán­uði, að með­al­tali tíu sinnum á hverjum árs­fjórð­ungi
  • Eignir þeirra í verð­bréfum nemi meira en 500.000 evr­um, eða um 69,8 millj­ónum króna
  • Þeir hafi gegnt stöðu á fjár­mála­mark­aði sem krefj­ist sér­þekk­ingar á fjár­fest­ingum í verð­bréfum í að minnsta kosti eitt ár.

Til við­bótar við þetta telj­ast fjár­mála- og fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki, auk rík­is­stjórna, sveit­ar­stjórna, seðla­banka og alþjóða­stofn­ana til hæfra fjár­festa. Það er svo í höndum fjár­mála­fyr­ir­tækja að meta það hvort ein­stak­lingar eða smærri fyr­ir­tæki telj­ist til hæfra fjár­festa.

Ekki voru gerðar fleiri kröfur á fjár­fest­ana sem fengu að taka þátt í lok­uðu sölu­út­boði. Hins vegar segir í grein­­­ar­­­gerð­inni um banka­söl­una að þeir myndu fá afslátt af kaup­verði í hluta bank­ans vegna þess að þeir væru að kaupa stærri hlut í bank­­­­anum en aðr­ir, auk þess sem óvissa væri um nákvæma þróun hluta­bréfa­verðs­ins á vik­unum eftir útboð­ið.

Þrátt fyrir þessi til­mæli fengu margir fjár­festar að kaupa minni hluti í Íslands­banka á afslætti. Sam­kvæmt list­anum sem birtur var á mið­viku­dag­inn keyptu 22 ein­stak­lingar og lög­að­ilar hlut í bank­anum að and­virði 10 millj­óna króna eða minna. Þetta er tölu­vert minna en með­al­upp­hæð við­skipta sem eiga sér stað með hluti í bank­ann á opnum hluta­bréfa­mark­aði í Kaup­höll­inni, en sam­kvæmt vef Keld­unnar nam með­al­virði hverra við­skipta í bank­anum 18,75 millj­ónum króna í gær.

Hæf­is­mat og rekstr­ar­á­ætlun nauð­syn­leg

OECD gaf út leið­ar­vísi að einka­væð­ingu fyr­ir­tækja í rík­i­s­eigu árið 2019, sem hægt er að nálg­ast hér. Sam­tökin segja leið­ar­vís­inn byggja á alþjóð­lega við­ur­kenndum við­mið­um, auk ára­tuga reynslu um einka­væð­ingu innan aðild­ar­ríkja OECD og ann­arra þjóða.

Í leið­ar­vís­inum stendur sér­stak­lega að huga verði að hæfi nýrra kaup­enda fyr­ir­tækj­anna í einka­væð­ing­unni og sjá til þess að engir ótil­greindir hags­muna­á­rekstrar lægju þar fyrir og að rekstr­ar­á­ætlun lægi fyrir hjá nýjum eig­end­um. Sam­kvæmt sam­tök­unum er skortur á nægi­lega góðu hæf­is­mati kaup­enda var­úð­ar­merki (e. red flag) sem gæti boðið upp á hættu um spill­ingu við einka­væð­ingu.

Sölu­ráð­gjafar ótengdir og afsláttur rök­studdur

Sömu­leiðis nefna sam­tökin mik­il­vægi þess að engir hags­muna­á­rekstrar séu til staðar hjá sölu­ráð­gjafa í einka­væð­ing­ar­ferl­inu. Hér sé mik­il­vægt að ráð­gjaf­arnir séu hvorki tengdir né að vinna fyrir kaup­endur í útboð­inu og gæti ein­ungis hags­muna rík­is­ins.

Einnig segir í leið­ar­vís­inum að ríkið hafi umboðs­skyldu gagn­vart borg­urum um að selja rík­is­eignir á mark­aðsvirði. Þó mætti selja þær á afslætti ef sér­stakar ástæður eru fyrir því, líkt og hugs­an­legar tækni­fram­farir vegna auk­innar erlendrar fjár­fest­ingar eða önnur jákvæð ytri áhrif við að fá nýja eig­end­ur. Þessar ástæður ættu þá að vera skýrt til­greindar af stjórn­völdum til að koma í veg fyrir að salan verði álitin hygla ein­stökum kaup­end­um.

Upp­fært 12. apr­íl: Í upp­haf­legu útgáfu frétt­ar­innar kom fram gömul skil­grein­ing á hæfum fjár­fest­um. Skil­grein­ingin hefur verið upp­færð.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar