Ríkissjóður mun á næsta ári, árið 2016, byrja að greiða á ný inn á uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Það verður í fyrsta sinn frá því fyrir hrun sem þetta verður gert og áform eru uppi um að greiða inn á hallann árlega næstu árin. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við Morgunblaðið í dag.
Þar er haft eftir Bjarna: "Verði þetta ekki gert mun falla á ríkissjóð árleg gjaldfærsla upp á um 20 milljarða eftir um tíu ár. Með þessari greiðslu og frekari greiðslum á næstu árum er ætlunin að forða þessu og ýta því lengra inn í framtíðina."
Vandi sem velt hefur verið á undan
Frá og með þessu ári, 2015, verður byrjað að reikna auknar ævilíkur Íslendinga inn í stöðu íslenska lífeyriskerfisins. Kjarninn greindi frá þessu í nóvember í fyrra. Þar sem Íslendingar eru sífellt að verða eldri aukast þar með skuldbindingarnar. Áætlað er að halli opinbera kerfisins, sem er með ríkisábyrgð og er því í raun "skuld" ríkisins við greiðendur iðgjalda í opinbera lífeyrissjóði, verði vel yfir 700 milljarða króna eftir þessa breytingu.
Áætlað er að halli opinbera kerfisins, sem er með ríkisábyrgð og er því í raun "skuld" ríkisins við greiðendur iðgjalda í opinbera lífeyrissjóði, verði vel yfir 700 milljarða króna eftir þessa breytingu.
Þessi skuld er ekki tilgreind á ríkisreikningi, en hún er eitt stærsta vandamál sem ríkið stendur frammi fyrir þrátt fyrir það.
Langstærsti hluti þessarrar skuldar er við B-deildir opinberra lífeyrissjóða, að mestu leyti við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Eina leiðin til að takast á við þennan vanda er að ríkið greiði háar upphæðir upp í skuld sína á hverju ári. Geri ríkið það ekki safnast skuldin einfaldlega upp og gerir það að verkum að ríkið þarf að greiða um 20 milljarða króna á ári í hítina eftir um áratug. Þær skuldir myndu sem sagt lenda á framtíðar skattgreiðendum.
Á árunum fyrir hrun var reyndar byrjað að takast á við hallann og frá árinu 1999 fram að hruni voru nokkrir milljarðar króna greiddir árlega til að minnka gatið. Því var snarlega hætt eftir hrun og engin þeirra ríkisstjórna sem setið hafa síðan þá hefur séð tilefni til að byrja á slíkum greiðslum aftur. Þangað til að Bjarni gaf út ofangreinda yfirlýsingu í Morgunblaðinu í morgun.
Líka vandamál hjá A-deildum sjóðanna
Vandamál opinbera lífeyriskerfisins liggur þó ekki bara hjá B-deildunum, heldur líka hjá A-deildum sjóðanna. Sá halli sem er á þeim er beinleiðis ólöglegur. Í stað þess að taka á vandamálinu er hins vegar lagt fram nýtt lagafrumvarp árlega sem heimilar opinberu sjóðunum að safna meiri halla.
Nú síðast var það lagt fram í september 2014. Samkvæmt lögum mátti ekki reka A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og sömu deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksins með meira en 11 prósent halla. Sveitafélagasjóðurinn var rekinn með 12,5 prósent halla og A-deild LSR með 11,7 prósent halla árið 2013.
Samkvæmt lögum mátti ekki reka A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og sömu deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríksins með meira en 11 prósent halla. Sveitafélagasjóðurinn var rekinn með 12,5 prósent halla og A-deild LSR með 11,7 prósent halla árið 2013.
Til að takast á við þessa stöðu var svigrúmið einfaldlega hækkað upp í 13 prósent með nýju lagafrumvarpi og sá tími sem heimilt er að reka sjóðina yfir 10 prósent halla lengdur úr sex árum í sjö. Árið 2014 var því sjöunda árið í röð sem A-deild sjóðsins er neikvæð. Haldi þetta áfram verður sjóðurinn auðvitað á endanum tómur.
Vandi sem taka verður á
Þessu verður óhjákvæmilega mætt á einhverjum tímapunkti með sömu meðölum og þarf að beita til að vinna á halla almenna lífeyriskerfisins. T.d. með því að hækka eftirlaunaaldur í allt að 70 ár, með því að hækka iðgjöldin sem við borgum til sjóðanna um hver mánaðarmót og með einhverskonar skerðingu réttinda, til dæmis með því að dreifa töku lífeyris á fleiri ár.
Auk þess er yfirlýstur vilji hjá öllum innan kerfisins að breyta opinbera kerfinu til samræmis við það almenna. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að ná saman um þá breytingu þar sem forsvarsmenn þeirra sem eru hluti af opinbera kerfinu vilja ekki gefa hinn góða og ríkisábyrgða lífeyri eftir nema að fá eitthvað í staðinn, til dæmis hærri laun.