Ríkissjóður fær heimild til að taka allt að 52 milljarða króna lán til að fjármagna eigið fé Seðlabanka Íslands, samkvæmt breytingartillögu við fjárlög ársins 2015 sem meirihluti fjárlaganefndar lagði fram í gær. Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar og einn flutningsmanna tillögunnar. Breytingartillagan helst í hendur við frumvarp um lögfestingu á nýrri arðgreiðslureglu fyrir Seðlabankann sem tryggir að allur hagnaður hans yfir ákveðið lágmarks eigið fé verði borgarður til ríkissjóðs sem arðgreiðslu.
Í því frumvarpi kemur fram að lágmarks eigið fé Seðlabankans eigi að vera 52 milljarðar króna, nákvæmlega sama upphæð og ríkissjóður fær heimild til að fá lánaða verði breytingatillagan samkþykkt.
Í lok árs 2013 var eigið fé Seðlabankans um 90 milljarðar króna. Því er nægt svigrúm til að greiða út úr Seðlabankanum verði nýja frumvarpið að lögum og losa fé til annarra verka.
Vaxtagreiðslur skila sér til baka sem arðgreiðslur
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að til stæða að leggja fram frumvarp um að lögfesta nýja arðgreiðslureglu fyrir Seðlabanka Íslands. Verði frumvarpið að lögum mun Seðlabankinn borga allan hagnað yfir ákveðið lágmarks eigið fé til ríkissjóðs sem arðgreiðslu. Frumvarpið var síðan lagt fram 11. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að „Heildarfjárhæð innkallanlegs eigin fjár [...]er 52 milljarðar kr. Eftirstöðvar innkallanlegs eigin fjár færast upp við hver áramót með hækkun vísitölu neysluverðs“.
Arðgreiðslur Seðlabankans til ríkissjóðs gætu aukist til muna á næstu árum verði lögum um þær breytt. Frumvarp um slíka breytingu var lagt fram 11. nóvember síðastliðinn.
Samkvæmt frumvarpinu mun við gildistöku laganna, verði þau samþykkt, verða„heimilt að lækka stofnfé ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 26 milljarða króna“. Líkt og Kjarninn hefur þegar greint frá mun sú upphæð fara í að lækka skuldabréf sem ríkið skuldar Seðlabankanum um 26 milljarða króna, í 145 milljarða króna. Sú aðgerð gerir það að verkum að vaxtagreiðslur ríkisins vegna skuldabréfsins verða 8,1 milljarður króna á næsta ári.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 segir að þessi nýja arðgreiðsluregla geri „ráð fyrir því að auknar vaxtatekjur vegna skuldabréfsins skili sér aftur til ríkissjóðs í formi arðgreiðslu þar sem nýja reglan gerir ráð fyrir að allur hagnaður bankans verði greiddur til ríkissjóðs sé eigið fé bankans yfir skilgreindu viðmiði“.
Með nýju arðgreiðslureglunni gætu því vextirnir sem ríkið greiðir af skuld sinni við Seðlabankann skilað sér aftur til ríkissjóðs í formi arðgreiðslu í lok hvers árs.
Mikil breyting frá því sem nú er
Um töluvert mikla breytingu er að ræða. Í dag eru lögin þannig að þriðjungur alls hagnaðar Seðlabankans rennur í ríkissjóð. Með nýju arðgreiðslureglunni mun allur hagnaður Seðlabankans yfir 52 milljarða króna eiginfjársviðmiðið renna til ríkissjóðs. Fyrir utan vextina sem ríkið greiðir, og fær svo til baka, þá gæti þessi hagnaður verið töluvert mikill, m.a. vegna sölu á eignum sem Seðlabankinn eignaðist í hruninu. Þær eru í dag vistaðar í dótturfélagi bankans, Eignarsafni Seðlabanka Íslands, og voru metnar á um 295 milljarða króna í lok síðasta ár á meðan að skuldir þess félags voru um 270 milljarðar króna. Flestir sérfræðingar telja að virði eignanna sé vanmetið og sala þeirra muni geta skilað Seðlabankanum háum fjárhæðum þegar búið verður að gera upp skuldir. Þær fjárhæðir gætu þá runnið í ríkissjóð.
Með nýju arðgreiðslureglunni mun allur hagnaður Seðlabankans yfir 52 milljarða króna eiginfjársviðmiðið renna til ríkissjóðs.
Ef Seðlabankinn á hinsvegar slæmt ár, og eigið fé hans fer niður fyrir hið ákveðna viðmið, þá mun hagnaður bankans fyrst fara í að ná því aftur upp fyrir áður en arður er greiddur til ríkissjóðs. Tilgangurinn er að koma á betri reglu sem bregst fyrr við því hvernig eigið fé byggist upp. Samhliða á Seðlabankinn að fá aðgang að meira eigin fé frá ríkissjóði, ef hann þarf á því að halda, í gegnum hlutafjár- eða stofnfjárloforð sem yrði lögbundið. Bankinn gæti dregið á þetta fé án aðkomu fjármálaráðuneytisins eða Alþingis. Heimildir Kjarnans herma að til standi að lögin muni gilda frá og með næstu áramótum, verði þau samþykkt á Alþingi.