Ríkustu tíu prósent Íslendinga juku eign sína í verðbréfum um 93,4 milljarða króna á árinu 2021. Það er mun meira en hópurinn jók þá eign árið 2020, þegar virði verðbréfaeignar hans jókst um 53,8 milljarða króna.
Heildaraukning í eign á verðbréfum, sem eru að uppistöðu hlutabréf og skuldabréf, á meðal allra landsmanna var upp á 105,3 milljarða króna. Því eignaðist efsta tíundin, rúmlega 23 þúsund einstaklingar, í tekjustiganum 89 prósent af virði nýrra verðbréfa á síðasta ári.
Þetta má lesa út úr tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna sem birtar voru í vikunni. Þær tölur taka ekki með í reikninginn hlutdeild landsmanna í eignum lífeyrissjóða, sem eiga stóran hluta allra verðbréfa á Íslandi.
Efsta tekjutíundin á alls verðbréf sem bókfærð voru á 628 milljarða króna um síðustu áramót. Hún á tæplega 86 prósent af öllum verðbréfum í eigu einstaklinga á Íslandi. Frá árinu 2010 hefur bókfærð verðbréfaeign þessa hóps aukist um 316 milljarða króna. Heildaraukning á bókfærðu virði verðbréfa á tímabilinu jókst um 359 milljarða króna. Það þýðir að 88 prósent af allri aukningunni á virði þessa eignaflokkar hefur lent hjá efstu tekjutíundinni.
Þessi auður varð fyrst og síðast til vegna ofangreindar aukningar á virði verðbréfa, hækkunar á virði fasteigna í eigu hópsins og stóraukinna fjármagnstekna, sem innihalda meðal annars söluhagnað og arðgreiðslur verðbréfa.
Dróst saman í hruninu
Árið 2010 var heildareign þjóðarinnar í verðbréfum metin á 374 milljarða króna. Af þeirri tölu átti efsta tíundin 312 milljarða króna í slíkum eignum, eða rúm 83 prósent. Uppgefið virði allra verðbréfa í eigu Íslendinga hafði þá dregist saman um fjórðung síðan í árslok 2007, enda bankahrun átt sér stað í millitíðinni. Þar er þó einungis um tap að nafnvirði að ræða þegar kemur að hlutabréfum. Þorri þeirra var metinn mun hærra að markaðsvirði og bókhaldslegt tap þeirra sem héldu á bréfum í skráðum félögum þegar þau urðu verðlaus í hruninu mun hærra.
Út á þær bókhaldslegu tölur – hækkanir á virði hlutabréfa – höfðu margir tekið ný lán sem þeir gátu keypt sér raunverulega hluti fyrir sem halda betur verðmæti.
Á áratug, frá 2010 til 2020, jókst heildarvirði verðbréfa sem gefin eru upp í skattskýrslu landsmanna um 253,2 milljarða króna. Af því heildarvirði höfðu 222,3 milljarðar króna lent hjá efstu tíundinni, eða 88 prósent.
Hlutabréfaverð rauk upp í faraldrinum
Sama hlutfallslega þróun hélt áfram í fyrra, en þá áttu sér stað tvær stórar skráningar á aðalmarkað Kauphallar Íslands þegar Síldarvinnslan og Íslandsbanki voru skráð á markað. Miklar örvunaraðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands spiluðu þar stóra rullu. Öll félögin sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallarinnar hækkuðu í virði í fyrra. Mest hækkaði Arion banki, en markaðsvirði hans tvöfaldaðist á einu ári. Fyrir utan lífeyrissjóði landsins, sem eiga um og yfir helming allra hlutabréfa, eru íslensk hlutabréf að uppistöðu í eigu ríkustu tekjutíundar landsmanna.
Það sást skýst í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn.
Þar kom fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári tóku til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári.
Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021. Ljóst má vera að þorri þeirrar aukningar lenti hjá efstu tekjutíundinni, sem er sá hópur sem á meginþorra hlutabréfa í eigu einstaklinga á Íslandi.
Ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundar hækkuðu mest
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir.
Í minnisblaði um áðurnefnda greiningu sem lagt var fyrir ríkisstjórn er þetta staðfest. Þar kemur fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti. Þessar auknu tekjur gerðu það að verkum að innheimtur fjármagnstekjuskattur jókst um 73 prósent, eða 16,3 milljarða króna, milli áranna 2020 og 2021.
Heildartekjur, hvort sem þær eru laun vegna vinna eða fjármagnstekjur mynda, auk bóta, ráðstöfunartekjur einstaklinga. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkaði að meðaltali um 5,1 prósent á árinu 2021 og náði sú aukning yfir allar tekjutíundir. Í minnisblaði ráðuneytisins segir hins vegar: „Mikil aukning fjármagnstekna gerir það að verkum að meðaltal efstu tíundarinnar hækkar mest.“
Þessar upplýsingar, að meðaltal ráðstöfunartekna hafi hækkað mest hjá tekjuhæstu tíu prósent þjóðarinnar, var ekki að finna í umfjöllun um greininguna á vef stjórnarráðsins. Þess í stað voru birtar upplýsingar um miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna, sem sýndu allt aðra mynd en meðaltal myndi sýna.
Í umfjölluninni var heldur ekki minnst á að 81 prósent allra fjármagnstekna hafi ratað til efstu tekjutíundarinnar á árinu 2021.