Staða íslenskra fyrirtækja með alþjóðlega starfsemi innan gildandi fjármagnshafta hefur verið í kastljósinu undanfarna daga eftir að upplýst var rum að plastframleiðandinn Promens ætli að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Ákvörðun fyrirtækisins kemur, að sögn forsætisráðherra, í kjölfar þess að Seðlabankinn neitaði Promens um undanþágu frá höftum til að fjárfesta erlendis með gjaldeyri sem það vildi kaupa með afslætti. Slíkar undanþágur eru ekki veittar, enda tilgangur hafta að halda fé innan íslensks efnahagskerfis, ekki að búa til ábatasamar afsláttarleiðir fyrir valda aðila.
Þótt augun beinist nú að Promens þá er það alls ekki eina stóra iðnfyrirtækið sem starfar hérlendis sem er að hugsa sér til hreyfings. Þvert á móti.
Höft og ESB skipta miklu
Í apríl 2014 sagði Kjarninn frá því að stærstu iðnfyrirtæki landsins væru á barmi þess að fara með höfuðstöðvar sínar úr landi. Erlendir fjárfestar sem er uí hluthafahópi margra af helstu útflutningsfyrirtækja Íslands í iðnaði, meðal annars Marels, Össurar og CCP, hafa spurt sig af hverju þeir ættu að vera með fyrirtækin á Íslandi?
Til þessa hafa íslensk stjórnendateymi og sérfræðiþekking í rannsóknum og þróun verið helsta hindrun þess að fyrirtækin hafi farið formlega úr landi, með tilheyrandi skatttekjumissi fyrir þjóðarbúið og minni ávöxtunarmöguleikum á fjármálamarkaði.
Til þessa hafa íslensk stjórnendateymi og sérfræðiþekking í rannsóknum og þróun verið helsta hindrun þess að fyrirtækin hafi farið formlega úr landi, með tilheyrandi skatttekjumissi fyrir þjóðarbúið og minni ávöxtunarmöguleikum á fjármálamarkaði.
Ástæður þess að fyrirtækin eru að hugsa sér til hreyfings blasa við. Í fyrsta lagi gera fjármagnshöftin sem eru við lýði öllum fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi afar erfitt fyrir við að starfa á eðlilegan hátt. Því lengur sem höftin eru við lýði, því líklegra er að höfuðstöðvar fyrirtækjanna verði fluttar úr landi.
Hin stóra ástæðan, sem hafði mikil áhrif á sýn sumra eigenda fyrirtækjanna á síðasta ári, var einbeittur vilji stjórnvalda til að draga til baka umsókn að aðila að Evrópusambandinu.
Össur og Marel bæði í startholunum
Á síðasta aðalfundi Össurar, sem fór fram 14. mars 2014, lýsti Niels Jacobsen, stjórnarformaður félagsins, yfir miklum áhyggjum af stöðu mála á Íslandi. Áhyggjur hans voru einkum af peningamálum og fjármagnshöftunum auk þess sem hann gagnrýndi íslensk stjórnvöld harðlega fyrir að vilja draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til baka og sagði að augljóslega ekki hægt að reka alþjóðlegt fyrirtæki á stað þar sem „gjaldmiðillinn væri varla til“.
Í einkasamtölum við aðra hluthafa Össurar var Niels Jacobsen enn ákveðnari og lét í það skína að úrslitaákvarðanir varðandi framhald fyrirtækisins hérlendis væri handan við hornið. Staðan væri óviðunandi og fyrir hluthafana væri hún ekki boðleg til lengdar.
Í einkasamtölum við aðra hluthafa Össurar var Jacobsen enn ákveðnari og lét í það skína að úrslitaákvarðanir varðandi framhald fyrirtækisins hérlendis væri handan við hornið. Staðan væri óviðunandi og fyrir hluthafana væri hún ekki boðleg til lengdar. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði í samtali við Kjarnann í apríl í fyrra að ráðaleysi stjórnvlada í efnahagsmálum, óútfært plan um afnám fjármagnshafta og áform þeirra um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka hafi valdið félaginu miklum áhyggjum.
Svipaðar raddir mátti heyra á aðalfundi Marels 5. mars 2014, ekki síst frá fulltrúum erlendra hluthafa, sem töluðu skýrt um það að rekstrarumhverfi félagsins á Íslandi væri óviðundandi og til trafala fyrir fyrirtækið.
Tilfinningarök, ekki viðskiptarök
Á aðalfundi CCP, sem var haldinn 27. mars 2014, var það sama upp á teningnum hvað erlenda hluthafa varðar, og raunar íslenska líka. Mikið var rætt um hvernig fyrirtækið gæti haldið samkeppnishæfni gagnvart öðrum fyrirtækjum í tölvuleikjaiðnaði og hvort það væri verjandi að láta „hjartað í fyrirtækinu slá á Íslandi“, eins og einn viðmælenda komst að orði.
Skömmu fyrir aðalfundinn, nánar tiltekið 6. mars 2014, var iðnþing Samtaka iðnaðarins haldið. Á meðal framsögumanna var Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP. Ræða hans, sem hægt er að horfa á í heild sinni hér að neðan, vakti mikla athygli.
http://youtu.be/jN2uloZa75c
Í ræðunni lýsti Hilmar hvernig það væri að stýra fyrirtæki í höftum í landi þar sem íslensk króna væri gjaldmiðilinn. Hilmar sagði einnig frá því að tilboðum um að færa CCP til útlanda hefði ringt inn og að erlend sendiráð hérlendis væru mjög dugleg að taka við fyrirtæki sem „vit er í“. Staðan væri þannig að þeir sem næðu árangri á hans vettvangi settu ekki upp fyrirtæki á Íslandi. CCP hefði hins vegar ekki flutt þrátt fyrir gylliboð og sagði Hilmar að sú ákvörðun byggði einungis á tilfinningum. Eftir á að hyggja hefði það ekki verið sérstaklega góð ákvörðun. CCP hefði til dæmis boðist að fara til Kanada með höfuðstöðvar sínar en þar bauðst fyrirtækinu að borga enga skatta fyrstu fimm árin eftir flutning.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var mikill vilji hjá erlendum hluthöfum CCP að færa höfuðstöðvar fyrirtækisins úr landi. Þeir ræddu þá afstöðu sína við aðra hluthafa í kringum síðasta aðalfund CCP, sem var haldinn fyrir tæpu ári.
Undirbúningur hafin hjá Creditinfo
Kjarninn greindi einni frá því í apríl í fyrra að fjárhags- og viðskiptaupplýsingafyrirtækið Creditinfo hafi hafið undirbúning að því að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Reynir Grétarsson, stærsti eigandi Creditinfo og einn stofnenda, staðfesta þessi áform við Kjarnann.
Hann hafði skömmu áður, í kjölfar framlagningar á þingsályktunartillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og draga umsókn að því til baka, sent tölvubréf á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
„Ég tel að það eigi að vera forgangsverkefni [stjórnvalda] að hlúa að rekstrarumhverfi sérhæfðra þekkingarfyrirtækja. Það verður best gert með að finna lausnir sem ógna ekki íslensku hagkerfi heldur þvert á móti styðja aukinn hagvöxt. Ég leyfi mér að leggja til að stjórnvöld bregðist fljótt við og finni leiðir sem eru til þess fallnar að bæta enn rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja. Ég er auðvitað tilbúinn að koma með frekari upplýsingar eða á annan hátt aðstoða við að finna lausn á vandanum.“
Reynir fékk engin viðbrögð við tölvubréfinu.