Mynd: Skjáskot/Hringbraut hordur_aegisson_hringbraut_skjaskot
Mynd: Skjáskot/Hringbraut

Ritstjóri Markaðarins á hlutabréf í félögum sem hann fjallar um

Formaður Blaðamannafélagsins segir siðareglur félagsins kveða á um að blaðamenn ættu ekki að fjalla um félög sem þeir eiga hlutabréf í. Ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu á hlutabréf í 13 Kauphallarfélögum að andvirði níu milljóna króna.

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, ferða­mála-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra, lagði fram frum­varp um breyt­ingar á lögum um árs­reikn­inga í fyrra sem átti að stuðla að auknu gagn­sæi stærri kerf­is­lega mik­il­vægra félaga. Frum­varpið var sam­þykkt á Alþingi og tóku lögin svo gildi í upp­hafi árs 2021.

Á meðal þess sem lögin leiddu af sér var að öll skráð félög á hluta­bréfa­mark­aði þurftu, í fyrsta sinn, að birta heild­ar­hlut­haf­alista sína opin­ber­lega í sam­stæðu­reikn­ingum sem þau skil­uðu inn til árs­reikn­inga­skrár. Áður hafði ein­ungis verið hægt að sjá hverjir 20 stærstu eig­endur hvers félags voru. Því var um mikla breyt­ingu að ræða.

Önnur breyt­ing sem varð þegar lögin tóku gildi er sú að aðgangur að árs­reikn­ingum er gjald­frjáls á vef Rík­is­skatt­stjóra. Því var, allt í einu, hægt að nálg­ast upp­lýs­ingar um fjár­hags­lega hags­muni þús­unda ein­stak­linga, þar án greiðslu.

Auglýsing

Á und­an­förnum árum hafa verið stigin skref í sem skylda ákveðna hópa til að skrá skil­greinda hags­muni sína og gera þá skrán­ingu opin­bera. Til­gangur þess er að auka traust í sam­fé­lag­inu. Þannig þurfa þing­menn, sumir sveit­ar­stjórn­ar­menn og emb­ætt­is­menn til dæmis að gera grein fyrir ákveðnum eignum sínum í hags­muna­skrán­ingu. Þar á meðal er hluta­fjár­eign. Til við­bótar liggur fyrir að aðr­ir, til dæmis blaða- og frétta­menn, geta skapað hags­muna­á­rekstra með því að eiga hlut í skráðum félögum sem þeir svo fjalla um í starfi sínu.

Kjarn­inn hefur und­an­farnar vikur greint þá hlut­haf­alista sem birti voru í sam­stæðu­reikn­ingum skráðra félaga með það fyrir augum að ganga úr skugga hvort settum reglum um hags­muna­skrán­ingu sé fylgt, og hvort mögu­legir hags­muna­á­rekstrar séu til stað­ar.

Siða­reglur ná til hluta­bréfa­eignar

Í fimmtu grein siða­reglna Blaða­manna­fé­lags­ins stend­ur:

Blaða­maður var­ast að lenda í hags­muna­á­grein­ingi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frá­sagnir af fyr­ir­tækjum eða hags­muna­sam­tökum þar sem hann á sjálfur aðild.

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans segir Sig­ríður Dögg Auð­uns­dótt­ir, for­maður félags­ins, þessa reglu eiga við um hluta­bréfa­eign blaða­manna og að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir eiga. Hins vegar gildir þessi regla almennt ekki um frétta­þuli ef þeir hafa ekki komið nálægt því að vinna frétt­ina sjálfir, sam­kvæmt henni.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Mynd: Aðsend

Svip­aðar reglur má finna í reglum Siða­nefndar breskra fjöl­miðla (IPSO). Sam­kvæmt þeim mega við­skipta­blaða­menn ekki fjalla um félög tengd fjár­mála­gern­ingum sem þeir eða skyld­menni þeirra eiga stóran hlut í, án þess að greina frá því við rit­stjóra. Sömu­leiðis mega þeir ekki kaupa hluti í félögum sem þeir hafa nýlega skrifað fréttir um eða munu skrifa um í náinni fram­tíð.

Siða­reglur hjá New York Times eru afdrátt­ar­laus­ari, en sam­kvæmt þeim mega blaða­menn ekki eiga fjár­mála­gern­inga í neinum félögum sem koma fyrir í umfjöll­unum þeirra. Hið sama gildir um starfs­menn danska rík­is­út­varps­ins DR, en starfs­menn norska dag­blaðs­ins Aften­posten mega ekki eiga nein bréf á norskum hluta­bréfa­mark­aði yfir höf­uð.

Níu millj­ónir króna bundnar í skráðum félögum

Hörður Ægis­son, rit­stjóri Mark­að­ar­ins á Frétta­blað­inu, er skráður hlut­hafi í 13 félögum í Kaup­höll­inni. Þar af á hann fimm millj­óna króna hlut í Arion banka og eins millj­óna króna hlut í Mar­el.

Mark­aðsvirði hluta­bréf­anna sem Hörður er skráður fyrir nemur sam­tals rúm­lega níu millj­ónum króna. Meiri­hluti þeirra er í Arion banka og Mar­el, en hann á einnig yfir 100 þús­und króna hlut í Kviku, Icelanda­ir, Reitum og Brimi.

Auglýsing

Það sem af er ári hefur Hörður skrifað að minnsta kosti 19 fréttir um Arion banka og eina frétt um Mar­el. Þar að auki hefur hann tekið við­tal við við sér­fræð­ing hjá Arion banka í sjón­varps­þætti Mark­að­ar­ins, sem sýndur er á Hring­braut, og skrifað fjölda ann­arra frétta um hin félögin sem hann á hluta­bréf í.

Kallar hluta­bréfa­eign­ina óveru­lega

Sam­kvæmt Jóni Þór­is­syni, rit­stjóra Frétta­blaðs­ins, kveða siða­reglur starfs­manna blaðs­ins á um að halda skuli siða­reglum Blaða­manna­fé­lags Íslands í heiðri.

Í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans segir Hörður hins vegar að hluta­bréfa­eign sín sé óveru­leg og að ekk­ert í siða­reglum Frétta­blaðs­ins kveði á um að starfs­mönnum bæri að upp­lýsa um slíka eign.

Aðspurður hvort hann hafi þurft að meta hæfi sitt til að fjalla um félögin sem hann er hlut­hafi að vegna fjár­hags­legra hags­muna sagði hann: „Ég, ásamt sam­starfs­fé­lögum mínum á Mark­að­in­um, metum reglu­lega hæfi okkar til að fjalla um marg­vís­leg frétta­mál hverju sinni, rétt eins og vænt­an­lega er gert á rit­stjórnum allra fjöl­miðla.“

Aðrir blaða­menn á hlut­haf­alist­unum

Engin sér­stök hags­muna­skrán­ing er til fyrir blaða­menn, en alþing­is­menn, borg­ar­full­trúar og hátt­settir emb­ætt­is­menn þurfa allir að til­greina ef þeir eiga hluta­bréf að and­virði meira en milljón króna.

Auglýsing

Á hlut­haf­alistum skráðra félaga í Kaup­höll­inni má einnig finna blaða­menn á öðrum fjöl­miðlum en Kjarn­inn fann engin til­vik um að þeir sem ættu meira en milljón krónur í hluta­bréf hefðu flutt fréttir af félögum sem þeir áttu aðild að.

Heiðar Örn Sig­ur­finns­son, vara­f­rétta­stjóri RÚV, sagði að starfs­reglur þar væru sam­bæri­legar siða­reglum Blaða­manna­fé­lags­ins í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans, þótt ekki sé getið sér­stak­lega um hluta­bréfa­eign. Sam­kvæmt honum eiga frétta- og dag­skrár­gerð­ar­menn á RÚV að forð­ast að fjalla um mál sem þeir séu tengdir fjár­hags­lega, en séu þeir í vafa skulu þeir hafa sam­band við frétta­stjóra eða dag­skrár­stjóra.

Telur birt­ing­una fara gegn lögum

Ekki er víst hvort heild­ar­hlut­haf­alist­arnir sem not­aðir voru til að finna hluta­bréfa­eign blaða­mann­anna verði aðgengi­legir í langan tíma, en líkt og Kjarn­inn fjall­aði um á dög­unum telur Per­sónu­vernd birt­ingu þeirra fara gegn lög­um.

Í áliti sem stofn­unin birti í þar­síð­ustu viku segir að orða­lag laga­breyt­ing­anna feli að óbreyttu ekki í sér nægi­lega skýra heim­ild til birt­ing­ar­lista yfir alla hlut­hafa félaga sem undir lögin falla með árs­reikn­ingum þeirra. Þess má geta að árið 2018 fetti stofn­unin fingur út í það að Kaup­höllin sjálf birti reglu­lega upp­færðar upp­lýs­ingar um 20 stærstu hlut­hafa skráðra félaga á vef sín­um.

Per­sónu­vernd lagði fyrir rík­is­skatt­stjóra að láta af slíkri birt­ingu upp­lýs­inga innan mán­aðar frá ákvörð­un­inni, það er að segja fyrir 18. júlí næst­kom­andi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar