Ritstjóri Markaðarins á hlutabréf í félögum sem hann fjallar um
Formaður Blaðamannafélagsins segir siðareglur félagsins kveða á um að blaðamenn ættu ekki að fjalla um félög sem þeir eiga hlutabréf í. Ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu á hlutabréf í 13 Kauphallarfélögum að andvirði níu milljóna króna.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um ársreikninga í fyrra sem átti að stuðla að auknu gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi og tóku lögin svo gildi í upphafi árs 2021.
Á meðal þess sem lögin leiddu af sér var að öll skráð félög á hlutabréfamarkaði þurftu, í fyrsta sinn, að birta heildarhluthafalista sína opinberlega í samstæðureikningum sem þau skiluðu inn til ársreikningaskrár. Áður hafði einungis verið hægt að sjá hverjir 20 stærstu eigendur hvers félags voru. Því var um mikla breytingu að ræða.
Önnur breyting sem varð þegar lögin tóku gildi er sú að aðgangur að ársreikningum er gjaldfrjáls á vef Ríkisskattstjóra. Því var, allt í einu, hægt að nálgast upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni þúsunda einstaklinga, þar án greiðslu.
Á undanförnum árum hafa verið stigin skref í sem skylda ákveðna hópa til að skrá skilgreinda hagsmuni sína og gera þá skráningu opinbera. Tilgangur þess er að auka traust í samfélaginu. Þannig þurfa þingmenn, sumir sveitarstjórnarmenn og embættismenn til dæmis að gera grein fyrir ákveðnum eignum sínum í hagsmunaskráningu. Þar á meðal er hlutafjáreign. Til viðbótar liggur fyrir að aðrir, til dæmis blaða- og fréttamenn, geta skapað hagsmunaárekstra með því að eiga hlut í skráðum félögum sem þeir svo fjalla um í starfi sínu.
Kjarninn hefur undanfarnar vikur greint þá hluthafalista sem birti voru í samstæðureikningum skráðra félaga með það fyrir augum að ganga úr skugga hvort settum reglum um hagsmunaskráningu sé fylgt, og hvort mögulegir hagsmunaárekstrar séu til staðar.
Siðareglur ná til hlutabréfaeignar
Í fimmtu grein siðareglna Blaðamannafélagsins stendur:
Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, þessa reglu eiga við um hlutabréfaeign blaðamanna og að engu máli skipti hversu stóran hlut þeir eiga. Hins vegar gildir þessi regla almennt ekki um fréttaþuli ef þeir hafa ekki komið nálægt því að vinna fréttina sjálfir, samkvæmt henni.
Svipaðar reglur má finna í reglum Siðanefndar breskra fjölmiðla (IPSO). Samkvæmt þeim mega viðskiptablaðamenn ekki fjalla um félög tengd fjármálagerningum sem þeir eða skyldmenni þeirra eiga stóran hlut í, án þess að greina frá því við ritstjóra. Sömuleiðis mega þeir ekki kaupa hluti í félögum sem þeir hafa nýlega skrifað fréttir um eða munu skrifa um í náinni framtíð.
Siðareglur hjá New York Times eru afdráttarlausari, en samkvæmt þeim mega blaðamenn ekki eiga fjármálagerninga í neinum félögum sem koma fyrir í umfjöllunum þeirra. Hið sama gildir um starfsmenn danska ríkisútvarpsins DR, en starfsmenn norska dagblaðsins Aftenposten mega ekki eiga nein bréf á norskum hlutabréfamarkaði yfir höfuð.
Níu milljónir króna bundnar í skráðum félögum
Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins á Fréttablaðinu, er skráður hluthafi í 13 félögum í Kauphöllinni. Þar af á hann fimm milljóna króna hlut í Arion banka og eins milljóna króna hlut í Marel.
Markaðsvirði hlutabréfanna sem Hörður er skráður fyrir nemur samtals rúmlega níu milljónum króna. Meirihluti þeirra er í Arion banka og Marel, en hann á einnig yfir 100 þúsund króna hlut í Kviku, Icelandair, Reitum og Brimi.
Það sem af er ári hefur Hörður skrifað að minnsta kosti 19 fréttir um Arion banka og eina frétt um Marel. Þar að auki hefur hann tekið viðtal við við sérfræðing hjá Arion banka í sjónvarpsþætti Markaðarins, sem sýndur er á Hringbraut, og skrifað fjölda annarra frétta um hin félögin sem hann á hlutabréf í.
Kallar hlutabréfaeignina óverulega
Samkvæmt Jóni Þórissyni, ritstjóra Fréttablaðsins, kveða siðareglur starfsmanna blaðsins á um að halda skuli siðareglum Blaðamannafélags Íslands í heiðri.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Hörður hins vegar að hlutabréfaeign sín sé óveruleg og að ekkert í siðareglum Fréttablaðsins kveði á um að starfsmönnum bæri að upplýsa um slíka eign.
Aðspurður hvort hann hafi þurft að meta hæfi sitt til að fjalla um félögin sem hann er hluthafi að vegna fjárhagslegra hagsmuna sagði hann: „Ég, ásamt samstarfsfélögum mínum á Markaðinum, metum reglulega hæfi okkar til að fjalla um margvísleg fréttamál hverju sinni, rétt eins og væntanlega er gert á ritstjórnum allra fjölmiðla.“
Aðrir blaðamenn á hluthafalistunum
Engin sérstök hagsmunaskráning er til fyrir blaðamenn, en alþingismenn, borgarfulltrúar og háttsettir embættismenn þurfa allir að tilgreina ef þeir eiga hlutabréf að andvirði meira en milljón króna.
Á hluthafalistum skráðra félaga í Kauphöllinni má einnig finna blaðamenn á öðrum fjölmiðlum en Kjarninn fann engin tilvik um að þeir sem ættu meira en milljón krónur í hlutabréf hefðu flutt fréttir af félögum sem þeir áttu aðild að.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV, sagði að starfsreglur þar væru sambærilegar siðareglum Blaðamannafélagsins í svari við fyrirspurn Kjarnans, þótt ekki sé getið sérstaklega um hlutabréfaeign. Samkvæmt honum eiga frétta- og dagskrárgerðarmenn á RÚV að forðast að fjalla um mál sem þeir séu tengdir fjárhagslega, en séu þeir í vafa skulu þeir hafa samband við fréttastjóra eða dagskrárstjóra.
Telur birtinguna fara gegn lögum
Ekki er víst hvort heildarhluthafalistarnir sem notaðir voru til að finna hlutabréfaeign blaðamannanna verði aðgengilegir í langan tíma, en líkt og Kjarninn fjallaði um á dögunum telur Persónuvernd birtingu þeirra fara gegn lögum.
Í áliti sem stofnunin birti í þarsíðustu viku segir að orðalag lagabreytinganna feli að óbreyttu ekki í sér nægilega skýra heimild til birtingarlista yfir alla hluthafa félaga sem undir lögin falla með ársreikningum þeirra. Þess má geta að árið 2018 fetti stofnunin fingur út í það að Kauphöllin sjálf birti reglulega uppfærðar upplýsingar um 20 stærstu hluthafa skráðra félaga á vef sínum.
Persónuvernd lagði fyrir ríkisskattstjóra að láta af slíkri birtingu upplýsinga innan mánaðar frá ákvörðuninni, það er að segja fyrir 18. júlí næstkomandi.