Þann 21. mars síðastliðinn birtist í dagblaðinu Jótlandspóstinum grein eftir sendiherra Rússa í Danmörku, Mikhail Vanin. Í greininni segir sendiherrann að ef Danir taki þátt í eldflaugavörnum NATO gæti Danmörk (dönsk herskip voru sérstaklega nefnd) orðið skotmark rússneskra kjarnorkuflauga. Það er ekki daglegt brauð að rússneski sendiherrann í Danmörku skrifi greinar í dönsk dagblöð og þessi blaðagrein vakti mikla athygli og varð umfjöllunarefni nær allra danskra fjölmiðla.
Martin Lidegaard utanríkisráðherra (Radikale venstre) sagði í viðtölum að sér væri alvarlega brugðið og Danir gætu ekki sætt sig við jafn alvarlegar hótanir og fram kæmu í grein sendiherrans. Mette Gjerskov formaður utanríkismálanefndar danska þingsins sagði tóninn í grein sendiherrans auka spennuna milli Rússlands og NATO. Margir danskir þingmenn og hernaðarsérfræðingar tóku í sama streng. Talsmaður NATO kvaðst undrast þennan tón sem ekki væri til þess fallinn að stuðla að stöðugleika og trausti. Sumir veltu því fyrir sér hvort sendiherranum hefði verið alvara með orðum sínum, aðrir sögðu að sendiherra Rússa væri ekki mikið fyrir grín af þessu tagi og greinin hefði örugglega verið skrifuð með samþykki stjórnvalda í Moskvu. Frá þeim heyrðist hinsvegar ekkert fyrstu dagana eftir að greinin birtist.
Martin Lidegaard, utanríkisráðherra Danmerkur er ekki skemmt vegna nýlegra yfirlýsinga Rússa.
Rússneska utanríkisráðuneytið staðfestir hótanir sendiherrans
Grein sendiherrans í Jótlandspóstinum vakti athygli víða um heim og á fréttamannafundi í rússneska utanríkisráðuneytinu tæpri viku eftir að hún birtist var talsmaður ráðuneytisins krafinn svara um hvort hótanirnar hefðu verið settar fram með samþykki rússneskra stjórnvalda. Talsmaðurinn, Aleksandr Lukasjevitj, sagði að grein sendiherrans hefði ekki verið nein reyksprengja heldur fúlasta alvara. Hann sagði jafnframt að Rússar myndu ekki grípa til neinna ónauðsynlegra aðgerða en þeir sem tækju þátt í þessu eldflaugavarnakerfi skyldu vita að Rússar gætu gert slíkt kerfi ónothæft.
Lukasjevitj vísaði þarna til þess að í ágúst í fyrra samþykkti danska þingið að Danmörk tæki virkan þátt í eldflaugavörnum NATO (kjarnorkuskildinum svonefnda) „Þetta er ekki hótun, heldur aðvörun,“ sagði Lukasjevitj. Ekki lyftist brúnin á Dönum við þessar yfirlýsingar enda ljóst að þessar „aðvaranir“ eru settar fram með vitund og vilja æðstu stjórnvalda í Kreml.
Tónninn er skarpari og ákveðnari en oft áður
Yfirlýsingarnar núna eru ekki þær fyrstu sem komið hafa frá Rússum, þeir hafa margsinnis „látið hringla í kjarnorkubjöllunni,“ eins og danskur blaðamaður orðaði það. Núna er tónninn hinsvegar mun beinskeyttari og ákveðnari en áður og skemmst er að minnast nýlegrar heimildamyndar þar sem Vladimír Pútín forseti sagði að hann hefði verið viðbúinn því að setja rússneska kjarnorkuheraflann í viðbragðsstöðu.
Þessum ummælum forsetans tóku ráðamenn um allan heim vel eftir og þau vöktu ugg í brjósti margra. Ekki hefur heldur farið framhjá neinum að Rússar hafa á síðustu mánuðum lagt aukna áherslu á að sýna mátt sinn og megin á hernaðarsviðinu með fjölmennum heræfingum sem tugir þúsunda hermanna hafa tekið þátt í. Þar hafa meðal annars verið notaðar sprengjuflugvélar sem borið geta kjarnaodda og eldflaugar af gerðinni Iskander sem einnig geta borið kjarnaodda.
Mörgum er enn í fersku minni þegar uppi varð fótur og fit í Stokkhólmi þegar óttast var að rússneskur kafbátur hefði sést í skerjagarðinum fyrir utan höfuðborgina.
Pútín þarf að sýna klærnar
Ýmsir sérfræðingar sem þekkja vel til Rússlands og stjórnmála þar í landi telja að stórkarlalegar yfirlýsingar rússneskra stjórnvalda, með forsetann í fararbroddi, séu fyrst og fremst til „heimabrúks.“ Pútín bæði þurfi og vilji sýna rússneskum almenningi að hann sé karl í krapinu og yfirlýsingarnar undanfarið séu fyrst og fremst til þess gerðar að styrkja ímynd hans heima fyrir.
Margir Rússar sakna þeirra tíma þegar Sovétríkin og Bandaríkin voru nefnd í sömu andránni sem heimsveldin tvö. Eftir tímabil umróts og niðurlægingar (að sumra mati) sé nauðsynlegt að Rússar skynji að landið sé risið úr öskustónni og að þeir skynji jafnframt að það sé hinn sterki leiðtogi Vladimír Pútín sem eigi heiðurinn af því verki. Pútín vilji jafnframt gera leiðtogum Vesturlanda, fyrst og fremst NATO, það ljóst að þau skuli ekki skipta sér af því sem forsetinn kallar rússnesk málefni og vísar þar til ástandsins í Úkraínu. Blaðakonan og stjórnmálaskýrandinn Julia Latynina segir í grein í blaðinu Novaja Gaseta að allt þetta brambolt, hótanir og heræfingar, séu „íburðarmikil sviðsetning“ ætluð til að skjóta Vesturlandabúum skelk í bringu.
Rússar eiga ekkert svar við kjarnorkuskildi NATO
Danski hernaðarsérfræðingurinn Johannes Riby Nordby segir að á undanförnum árum hafi Rússar dregist aftur úr í hernaðartækninni og þeirra eina svar við því hafi verið kjarnorkuvopn. Þannig hafi haldist ákveðið jafnvægi, kjarnorkuskjöldurinn svonefndi slái nú vopnin úr höndum Rússa sem eigi ekkert svar við honum. Þetta sé Rússum mætavel ljóst og þess vegna slái þeir nú um sig með stóryrðum og hótunum. Það hafi iðulega dugað vel þótt ekki hafi alltaf verið miklar innstæður fyrir þeim hótunum. „Við verðum bara að vona og treysta því að þetta sé enn einn stormurinn í vatnsglasi,“ sagði danski hernaðarsérfræðingurinn.