Árið 1994 samþykkti borgarstjórn Kaupmannahafnar að selja hluta svæðis á norðvesturhluta Amager. Umrætt svæði, tæplega 19 hektarar að stærð og kallað Strandengen, er skammt norðan við sýningahöllina Bella Center. Á Strandengen voru engar byggingar, en við vesturenda hins fyrirhugaða byggingasvæðis hafði um árabil staðið farfuglaheimili. Byggingalóðir í nágrenni miðborgar Kaupmannahafnar hafa í áratugi verið takmarkaðar og í þeim fólgin mikil verðmæti. Þegar ákveðið var að selja hluta Strandengen var jafnframt ákveðið að peningarnir sem fengjust fyrir svæðið yrðu notaðir í uppbyggingu Metro lestakerfisins sem þá var í undirbúningi. Þótt ákvörðun um söluna hefði verið samþykkt árið 1994, eins og áður sagði, var þess langt að bíða að svæðið yrði selt og framkvæmdir gætu hafist.
Tugþúsundir mótmæltu
Árið 2015 greindu danskir fjölmiðlar frá því að nú liði brátt að því að framkvæmdir á Strandengen svæðinu gætu hafist. Fyrsta skrefið yrði sala landsins. Þessar fyrirætlanir fóru ekki framhjá andstæðingum þessara fyrirhuguðu framkvæmda. Efnt var til mótmælafunda og tæplega 30 þúsund manns mótmæltu með undirskriftum. Dönsk náttúruverndarsamtök og stjórn sædýrasafnsins Den Blå Planet lýstu andstöðu við áætlanir stjórnvalda. Óspillt mörg þúsund ára gamalt landsvæði, þar sem fjölbreytt og viðkvæmt dýralíf þrifist, yrði eyðilagt. Sérstaklega lýstu andstæðingar byggingaframkvæmdanna áhyggjum af tiltekinni tegund froska, svonefndri Stóru Salamöndru, sem er alfriðuð. Þær áttu eftir að koma aftur við sögu síðar. Fulltrúar Sósíalíska Þjóðarflokksins í borgarstjórn Kaupmannahafnar lögðu til að hætt yrði við fyrirhugaðar framkvæmdir á Strandengen og leitað að öðru svæði. Sú tillaga var felld.
Klofningur og yfirborgarstjóri vill finna nýtt svæði
Skömmu fyrir bæjar- og sveitastjórnarkosningarnar árið 2017 lýstu nokkrir borgarfulltrúar því yfir að þeir styddu ekki lengur áætlanir um byggingasvæðið á Strandengen. Frank Jensen yfirborgarstjóri tilkynnti að hann hefði skipt um skoðun og hefði í huga annað svæði.
Umrætt svæði er um það bil hálfum kílómetra vestan við Strandengen, kallað Lærkesletten. Á þessu svæði stóð þá áðurnefnt farfuglaheimili Danhostel Amager. Þessi hugmynd varð að tillögu sem samþykkt var í borgarstjórn Kaupmannahafnar í september 2018. Friðun á svæðinu var í framhaldinu aflétt og óljóst um framtíð farfuglaheimilisins en þar var gistipláss fyrir 560 manns.
Andstæðingar mótmæla og grípa til aðgerða
Í janúar og febrúar árið 2021 voru byggingaráformin að komast á skrið en andstæðingar höfðu ekki lagt árar í bát. 4. febrúar lagði Borgarráð Kaupmannahafnar (þar sitja 55) blessun sína yfir samþykktir borgarstjórnarinnar. Andstæðingar kröfðust þess að almennir borgarar fengju að kjósa um fyrirhugaðar framkvæmdir, því var hafnað.
25. febrúar tilkynnti fyrirtækið By & Havn (sem er þróunar- og rekstrarfyrirtæki í eigu borgarinnar) að framkvæmdir væru að hefjast. Fyrsta skref væri að undirbúa svæðið, gera það byggingarhæft, eins og komist var að orði. Meðal annars að rífa farfuglaheimilið. Fyrsta skrefið væri að girða svæðið af. Andstæðingar reyndu að koma í veg fyrir að vinnuvélar kæmust á staðinn en verkið hófst eigi að síður.
Hálfum mánuði síðar sendu dönsku náttúruverndarsamtökin inn formlega kvörtun og lögðu áherslu á að framkvæmdirnar stríddu gegn náttúruverndartilskipun Evrópusambandsins, einkum með tilliti til Stóru Salamöndrunnar (sem þrátt fyrir nafnið verður lengst 16 cm) og er ásamt fleiri froskategundum nefnd sérstaklega í tilskipuninni.
Allt kom þó fyrir ekki, vinnuvélarnar snérust áfram. Fyrst um sinn.
Urðu að leggja fram tryggingu
Andstæðingar byggingaframkvæmdanna og samtökin Vinir Amager Fælled höfðu ekki gefist upp og kærðu nú framkvæmdirnar til dómstóla. Kærendurnir urðu að leggja fram tryggingu, tvær milljónir danskra króna (40 milljónir íslenskar) til að mæta hugsanlegu tjóni By & Havn áður en til þess kæmi að dómstóllinn (Bæjarrétturinn í Kaupmannahöfn) tæki afstöðu til kærunnar, sem var þess vegna vísað frá. Nokkurn tíma tók að skrapa saman peningum fyrir tryggingunni en í millitíðinni héldu undirbúningsframkvæmdir á svæðinu áfram.
Í byrjun febrúar á þessu ári kærðu andstæðingar framkvæmdirnar til dómstóla, öðru sinni. Og lögðu fram trygginguna áðurnefndu. Svo leið og beið.
12. desember 2022
Bæjarréttur Kaupmannahafnar tilkynnti sl. mánudag, 12. desember, að allar byggingaframkvæmdir á Lærkesletten (fyrirhuguðu byggingasvæði) skyldu samstundis stöðvaðar. Bannið er algjört og vinnuvélar og önnur tæki sem voru á svæðinu skyldu fjarlægð og framkvæmdabannið gildir þangað til dómur fellur í Bæjarréttinum. Gert er ráð fyrir dómsuppkvaðningu í maí 2023. Knud Erik Hansen, talsmaður samtakanna Amager Fælleds Venner, sagðist þess fullviss að ár og dagar myndu líða þangað til þetta mál yrði til lykta leitt.
Stóru salamöndrurnar og aðrar froskategundir á Amager Fælled fá því að vera í friði fyrir vinnuvélunum, enn um sinn að minnsta kosti.
Stórar salamöndrur geta orðið 16 ára gamlar, þær liggja í dvala yfir vetrartímann. Kvendýrið verpir einu sinni á ári, tvö til fjögur hundruð eggjum.