Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja, Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka hefur verið mikið til umræðu síðustu daga. Samanlagt tóku þeir inn um 80 milljarða króna í hagnað á síðasta ári. Hagnaður þeirra þriggja frá hruni er um 370 milljarðar króna.
Íslendingar eru tæplega 330 þúsund talsins. Ef hagnaði bankanna þriggja frá hruni yrði skipt niður á Íslendinga myndi hver og einn þeirra fá rúmlega 1,1 milljón króna í sinn hlut.
Ríkisbankinn tekur langmest inn
Sá sem hefur hagnast langmest á þessum árum er Landsbankinn, sem er að stærstu leyti í eigu íslenska ríkisins. Hann græddi 28,8 milljarða króna í fyrra og hefur samtals rakað inn tæplega 142 milljörðum króna frá upphafi árs 2009. Virðisbreytingar á útlánum námu 20 milljörðum króna og skipta því mestu í uppgjöri bankans í ár. Í ársreikningi er sagt að þetta sé tilkomið „vegna aukinna gæða lánasafnsins“. Það þýðir í raun að fleiri standa í skilum og hægt er að reikna með betri endurheimtum en áður var áætlað.
Landsbankinn er raunar eini bankinn sem má og getur greitt eiganda sínum almennilegan arð. Ríkið hagnast því vel á þessari starfsemi. Vegna ársins 2013 greiddi bankinn ríkinu 20 milljarðar króna í arð og mun greiða því 24 milljarða króna á þessu ári.
Arion banki og Íslandsbanki eru að stærstu leyti í eigu þrotabú Kaupþings og Glitnis. Ríkið á síðan litinn hlut í hvorum þeirra, þrettán prósent í Arion banka og fimm prósent í Glitni. Arðgreiðslur þeirra fara að stærstum hluta til í þrotabú sem enn á eftir að slíta.
Metár hjá Arion banka
Arion banki átti metár í fyrra og hagnaðist um 28,6 milljarða króna. Hluti þess hagnaðar er vegna uppreiknaðs virðis hlutabréfa í HB Granda, sem bankinn á enn rúmlega sex prósent hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu. Þá hækkuðu þóknanatekjur, vaxtatekjur, gengishagnaður og rekstratekjur vegna sölu eigna, leigutekna, virðisbreytinga á eignum, iðgjalda af líftryggingastarfsemi og söluhagnaðar af atvinnuhúsnæði. Alls hagnaðist Arion banki um tæpa 16 milljarða króna meira í fyrra en á árinu 2013. Það er hagnaðaraukning upp á 125 prósent. Stjórn bankans leggur til að hann greiði 45 prósent af hagnaði ársins í arð, eða 14,3 milljarða króna. Þrettán prósent þeirrar upphæðar rennur til íslenska ríkisins. Samanlagður hagnaður Arion banka frá því að hann var búinn til á rústum Kaupþings er 104 milljarðar króna.
Stöðugur hagnaður síðustu þrjú ár
Hagnaður Íslandsbanka hefur verið í kringum 23 milljarða króna á hverju ári síðastliðin þrjú ár. Í fyrra var hann 22,8 milljarðar króna, um 300 milljónum króna minni en árið áður. Samtals hefur bankinn rakað inn 124,6 milljörðum króna í hagnað frá árinu 2009.
Vaxtatekjur bankans lækkuðu á milli ára en voru samt 27 milljaðar króna. Þóknanantekjur hækkuðu á móti og má rekja þær að mestu til viðskiptabankasviðs, sem þjónustar einstaklinga, og dótturfélaga bankans.
Íslandsbanki ætlar að greiða fjóra milljarða króna í arð í ár vegna ársins 2014 en greiddi þrjá milljarða króna í fyrra. Íslenska ríkið fær fimm prósent af þeirri arðgreiðslu.
Ríkið borgar 153 milljarða króna vegna endurreisnarinnar
Líkt og flestir vita þá voru bankarnir þrír endurreistir af ríkinu með handafli eftir að íslenska bankakerfið hrundi með látum í október 2008. Ríkissjóður hefur lagst út í töluverðan kostnað vegna þessa. Ríkissjóður lagði viðskiptabönkunum þremur til bæði reiðufé í formi víkjandi lána, alls 800 milljónir króna til hvers og eins þeirra, og lagði auk þess inn í þá skuldabréf þegar þeir voru fjármagnaðir. Ríkissjóður hefur síðan greitt vexti af þeim skuldabréfum.
Upphaflega stóð til að ríkið myndi eiga, og þar af leiðandi fjármagna að fullu, alla nýju bankanna þrjá. Á endanum var meirihluti hlutafjár í tveimur þeirra, Íslandsbanka (ríkið á enn fimm prósent), og Arion banka (ríkið á enn 13 prósent), afhendur kröfuhöfum þeirra til að hægt yrði að ljúka fjármögnum. Þess vegna eru útgefin skuldabréf ríkisins til Arion banka og Íslands banka mun lægri en það sem lagt var til Landsbankans, eða samtals upp á 68,4 milljarða króna. Íslenska ríkið hefur því greitt samtals 26 milljarða króna í vexti vegna skuldabréfa sem það lagði inn í þessa tvo banka.
Skuldabréfið sem lagt var inn í Landsbanka var töluvert hærra, eða upp á 121,2 milljarða króna, enda á ríkið þann banka nánast að fullu. Því hefur ríkissjóður þurft að greiða 44,2 milljarða króna í vexti vegna fjármögnunar Landsbankans. Við bætist svo 19,2 milljarða króna skuldabréf sem lagt var inn í Landsbankann þegar hann tók yfir SpKef, en töluvert vantaði upp á að sá sparisjóður hafi átt eignir til að standa undir innlánsskuldbindingum sínum. Það skuldabréf hefur kostað ríkissjóð 2,6 milljarða króna í vexti.
Ríkissjóður hefur greitt samtals 72,8 milljarða króna í vexti vegna endurreisnar viðskiptabankanna.
Ríkið stofnaði líka til skuldar gagnvart Seðlabanka Íslands þegar það tók á sig tap hans eftir hrunið. Það tap er rekjanlegt að mestu til athafna þeirra þriggja banka sem nýju viðskiptabankarnir þrír eru byggðir á. Íslenska ríkið hefur greitt um 80 milljarða króna í vexti og verðbætur á þessari skuld sinni við Seðlabanka Íslands. Samanlagðar vaxtagreiðslur og verðbætur ríkissjóðs vegna lána, sem tekin voru til endurreisnar á fjármálakerfinu frá hruni í október 2008 til dagsins í dag, nema því alls um 153 milljörðum króna.
Á móti á ríkið vitanlega eignarhluti í bönkunum þremur og fær greiddan arð úr þeim. Auk þess greiða þeir marga milljarða króna í skatta á hverju ári.