Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Þingmennirnir, sem eru sex talsins, vilja að sett verði á leigubremsa að danskri fyrirmynd, að vaxtabótakerfinu verði beitt til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glími við mikla greiðslubyrði vegna húsnæðislána og að barnabótakerfið verði styrkt og skerðingarmörk hækkuð til að mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur.
Þá vilja þau að ráðist verði í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármála til að sporna við þenslu, auka jöfnuð í samfélaginu og bæta afkomu ríkissjóðs. „Skattmatsreglum verði breytt til að sporna við því að launatekjur séu ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur, innleiddir verði tímabundnir hvalrekaskattar með viðbótarfjármagnstekjuskatti og sérstöku álagi á veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta. [...] Samtals gætu þessar skattbreytingar aukið tekjur ríkissjóðs um 10 til 12 milljarða á næsta ári, standa undir þeim stuðningi við heimilin sem boðaður er og gott betur. Þannig eru heildaráhrif þingsályktunartillögunnar afkomubætandi fyrir ríkissjóð og til þess fallin að draga úr þenslu og auka aðhaldsstig ríkisfjármálanna.“
Í tillögunni, sem Kristrún Frostadóttir er fyrsti flutningsmaður á, er farið fram á að ríkisstjórn Íslands leggi fyrir Alþingi nauðsynleg lagafrumvörp til að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmdu eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.
Ríkasta fólkið hefur aukið ráðstöfunartekjur sínar mest
Í greinargerð sem fylgir með tillögunni er farið yfir efnahagsástandið og bent á að Seðlabankinn spái tæplega ellefu prósent verðbólgu í lok árs. Til að takast á við hana hafi Seðlabanki Íslands ráðist í stórtækar vaxtahækkanir, úr 0,75 prósent um mitt ár 2021 í 5,75 prósent nú, sem hafi hækkað greiðslubyrði lána umtalsvert.
Þá er bent á að þegar kórónuveirufaraldurinn gekk yfir hafi það verið einbeitt stefna stjórnvalda að halda hagkerfinu gangandi með því að örva eignamarkaði gegnum bankakerfið. „Miklar og hraðar vaxtalækkanir samhliða auknu svigrúmi fjármálastofnana til útlána, m.a. vegna lækkunar á eiginfjárkröfum bankanna, fólu í sér að skrúfað var frá gríðarlegu magni lánsfjármagns sem rataði nær alfarið inn á eignamarkaði, fyrst og fremst íbúðamarkað, í stað þess að styðja við undirliggjandi framleiðslugetu í þjóðfélaginu. Minna fjármagn rann til uppbyggingar húsnæðis á tímum heimsfaraldursins. Þannig stórjókst eftirspurn meðan framboð hreyfðist lítið og gríðarlegt ójafnvægi skapaðist á íbúðamarkaði.“
Niðurstaðan var sú að eignir hækkuðu mikið í verði í faraldrinum og aukið aðgengi að lánsfé ásamt lágum fjármagnskostnaði örvaði samhliða verðbréfamarkaði. Fyrir vikið hafi fjármagnstekjur aukist um 52 prósent á síðasta ári, sem er mesta aukning milli ára frá árinu 2007.
Alls um níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Í Mánaðaryfirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem birt var í ágúst kok fram að skattbyrði haf heilt yfir aukist í fyrra þegar hún er reiknuð sem hlutfall tekju- og fjármagnstekjuskatts af heildartekjum. Hún fór úr 22,4 prósent af heildartekjum í 23,4 prósent.
Skattbyrði efstu tíundarinnar dróst hins vegar saman. Árið 2020 borgaði þessi hópur 28,9 prósent af tekjum sínum í skatta en 27,3 prósent í fyrra. Skattbyrði allra annarra hópa, hinna 90 prósent heimila í landinu, jókst á sama tíma.
Greiðslubyrði hækkað um rúmlega 100 þúsund krónur
Í greinargerðinni segir að tveir af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar í fjármálum, seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra, hafi borið út þann boðskap á tímum heimsfaraldurs að Ísland væri að stíga inn í nýtt lágvaxtatímabil sem myndi vara lengi. „Fjármála- og efnahagsráðherra rak sína kosningabaráttu haustið 2021 meðal annars á þeim skilaboðum að hagstjórnin undir hans handleiðslu hefði leitt af sér lágt vaxtastig en ekki að um tímabundna kreppuvexti væri að ræða. Þau skilaboð voru send út til fyrstu kaupenda, ungs fólks og lágtekjufólks, sem loksins sá sér fært að komast inn á húsnæðismarkaðinn, að lágvaxtaumhverfið væri komið til að vera. Einstaklingar komust í gegnum greiðslumat á þessum forsendum en sama fólk sér nú fram á stóraukna greiðslubyrði vegna snarbreyttra aðstæðna í efnahagslífinu.“
Alls hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 49,7 prósent frá því fyrir kórónuveirufaraldurinn. Það er langt umfram verðbólgu og þýðir að meira fé þarf til að kaupa húsnæði en áður. Það þarf líka meiri skuldir. Þegar vextir á þeim hækka skarpt þarf að borga meira til að þjónusta þær skuldir.
Á vef ASÍ fyrr í þessum mánuði var fjallað um þessar hækkanir á greiðslubyrði húsnæðislána. Þar var tekið dæmi af aðila sem keypti 90 fermetra íbúð í Kópavogi vorið 2021 og borgaði fyrir hana 54 milljónir króna. Gert var ráð fyrir að viðkomandi hafi átt fimmtung í útborgun og hafi því þurft að taka 43,2 milljón króna lán. „Við kaup var greiðslubyrði á láninu 164 þúsund krónur á mánuði. Í dag eru breytilegir vextir á óverðtryggðum lánum orðnir sjö prósent eftir nýjustu hækkun stýrivaxta. Greiðslubyrði er í dag 266 þúsund krónur á mánuði og hefur hækkað um 102 þúsund krónur.“
Forsendubrestur á ábyrgð stjórnvalda
Þingmenn Samfylkingarinnar segja að ábyrgð stjórnvalda á þessu ástandi sé augljós, enda hafi ákveðinn forsendubrestur átt sér stað vegna falskra væntinga sem forystufólk ríkisstjórnarinnar hefur alið á. „Farin var sú leið að hvetja fólk fyrst og fremst til aukinnar lántöku í stað þess að ráðast að rótum húsnæðisvandans með því að leggja meira fjármagn inn í uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegum kjörum og halda þannig aftur af verðhækkunum.“
Til að bregðast við þessu þurfi að setja á leigubremsu að danskri fyrirmynd, en leigubremsan sem stjórnarmeirihlutinn í Danmörku hefur komið sér saman um að innleiða gildir jafnt um núverandi og tilvonandi leigusamninga og miðast við fjögur prósent á ári.
Þá vill þingflokkurinn að millifærslukerfi verði styrkt þannig að eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins verði hækkuð um 25 prósent eða að ráðist verði í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu með svipuðum hætti og gert var við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012. Niðurgreiðslan þá nam 0,6 prósent af skuldum vegna íbúðahúsnæðis til eigin nota, var tekju- og eignatengd en gat hæst orðið 300 þúsund krónur hjá hjónum. Samhliða eflingu vaxtabótakerfisins er lagt til að leitað verði leiða til að koma til móts við fólk með íþyngjandi greiðslubyrði vegna tekjutengdra námslána og húsnæðislána.
Þá er lagt til að barnabótakerfið verði styrkt til að mæta hækkunum á nauðsynjavörum fyrir fjölskyldur og skerðingarmörk hækkuð. „Til langs tíma skiptir miklu að komið verði á fót sterkara barnabótakerfi á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Rannsóknir hafa margsýnt að sterk almenn barnabótakerfi með viðbótarstuðningi við einstæða foreldra eru best til þess fallin að draga úr barnafátækt til langs tíma.“
Leggja til tvenns konar hvalrekaskatt
Þingflokkur Samfylkingarinnar leggur til að ráðist verði í skattkerfisbreytingar sem eigi að geta aukið tekjur ríkissjóðs um tíu til tólf milljarða króna á árinu 2023 og þannig staðið undir þeim stuðningi sem ráðast þurfi í fyrir heimili í landinu og gott betur. Þannig séu heildaráhrif þingsályktunartillögunnar afkomubætandi fyrir ríkissjóði og til þess fallin að draga úr þenslu og auka aðhaldsstig ríkisfjármálanna.
Þær breytingar sem lagt er til að farið verði í eru í fyrsta lagi að skattmatsreglur verði endurskoðaðar með það fyrir augum að girða fyrir að atvinnutekjur séu taldar ranglega fram sem fjármagnstekjur. Ekki er um skattbreytingu að ræða heldur verið að komast hjá skattundanskotum, og áætlað hefur verið að þessi breyting geti skilað ríkissjóði þremur til átta milljörðum króna á ári í tekjur.
Þá er lagt til að lagður verði á hvalrekaskattur af tvennum toga. „Annars vegar að viðbótarfjármagnstekjuskattur verði settur á til að bregðast við ójafnri dreifingu aukinna ráðstöfunartekna eftir að vextir voru lækkaðir og kynt var undir bólumyndun á eignamörkuðum í heimsfaraldrinum. Í ljósi þess hvernig frítekjumörk vegna fjármagnstekna hafa þróast á undanförnum árum mun slík hækkun einvörðungu lenda á allra tekjuhæstu hópunum. Hins vegar er lagt til að veiðigjöld þeirra útgerða sem halda á mestum fiskveiðikvóta verði hækkuð með tímabundnu stærðarálagi. Fjármagnseigendur hafa hagnast á undanförnum árum vegna aðgerða stjórnvalda og útflutningsgreinar auk þess hagnast vegna breyttra viðskiptakjara í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þannig hefur verð á ferskum fiski í Evrópu til að mynda hækkað mikið og stutt við verðmæti sjávarafurða sem og tekjur og hagnaður Landsvirkjunar vegna hækkunar á álverði. Á sama tíma hefur hluti heimilanna í landinu liðið fyrir erlenda verðbólgu vegna stríðsins.“