Búið er að semja við kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans um lausn á þeim risastóra vanda sem slitabú þeirra valda íslensku hagkerfi. Í lausninni felst að kröfuhafarnir mæta ákveðnum skilyrðum sem íslensk stjórnvöld settu til að verja greiðslujöfnuð þjóðarbúsins og íslenska hagsmuni. Samkvæmt útreikningum Kjarnans, sem sérfræðingar hafa farið yfir, er búist við að þessir samningar geti skilað ríkissjóði á bilinu 300 til 400 milljörðum króna sem notaðir verða til að greiða niður skuldir hins opinbera. Í haust verður síðan ráðist í uppboð á um 300 milljarða króna aflandskrónusnjóhengju sem mun skila enn fleiri krónum í kassann.
Fyrir Ísland mun þessi sátt við kröfuhafana hafa miklar afleiðingar. Höft verða losuð með þeim afleiðingum að Íslendingar þurfa ekki lengur að taka farseðil með sér í bankann til að kaupa gjaldeyri, geta keypt sér bíl, sumarhús eða hlutabréf í öðru landi og mega geyma sparnað í öðrum gjaldeyri en íslensku krónunni, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er fastlega búist við því að losun hafta muni hafa jákvæð áhrif á erlenda fjárfestingu á Íslandi.
Auk þess mun árlegur vaxtakostnaður íslenska ríkisins, sem í ár er áætlaður um 77 milljarðar króna, lækka um allt að þriðjung. Þeim peningum getur ríkið eytt í eitthvað annað.
En það eru ekki bara Íslendingar sem eru glaðir með niðurstöðuna. Það eru kröfuhafar föllnu bankanna líka. Raunar er hún mjög í takt við það sem þeir hafa lengi áætlað að þyrfti til svo hægt væri að loka málinu og greiða út úr hinum risastóru slitabúum Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans.
Af hverju var samið núna?
Allt frá árinu 2012, þegar slitabú Gitnis og Kaupþings sóttu um undanþágu frá fjármagnshöftum til að klára nauðasamninga sína, hafa kröfuhafar þeirra verið tilbúnir að semja um lausn á málinu. Ýmsir þættir, sem verða betur raktir síðar í þessari grein, hafa hins vegar orðið þess valdandi að það hefur ekki verið mögulegt fram til þessa.
Undir lok síðasta árs dró til tíðinda í ferlinu þegar samþykkt var að lengja í hinu svokallaða Landsbankabréfi milli nýja Landsbankans og slitabús þess gamla. Samkomulagið snérist um lengingu á 228 milljarða króna skuld nýja Landsbankans við búið og fékk slitabúið undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða útistandandi forgangskröfur í kjölfarið. Upphaflega átti bréfið að vera greitt fyrir árið 2018. Með lengingunni lagaðist áætlaður gjaldeyrisjöfnuður á næstu árum og við það varð auðveldara að stíga skref í átt að frekari losun hafta. Það kom líka fljótt í ljós að nú átti að gefa verulega í.
Skrifað var undir nýtt samkomulag milli nýja og gamla Landsbankans í maí 2014. Seðlabankinn samþykkti í desember að veita slitabúi Landsbankans undanþágu frá fjármagnshöftum.
Viðræður milli kröfuhafa föllnu bankanna og fulltrúa stjórnvalda um möguleg skref í átt að uppgjöri búanna hófust síðan í desember 2014. Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, varaformenn framkvæmdahóps um losun hafta, sem leiddu þær viðræður, hafa í viðtölum lagt á það áherslu að þetta hafi verið upplýsingafundir þar sem ekki hafi verið til umræðu að semja um þau skilyrði sem stjórnvöld settu fyrir því að hægt yrði að ljúka gerð nauðasamninga föllnu bankanna.
Það er í sjálfu sér rétt í þeim skilningi að skilyrðin voru ófrávíkjanleg. Samningsniðurstaða mátti ekki ógna greiðslujöfnuði og umfang þeirra innlendu eigna sem slitabúin þurftu að gefa eftir var því endanlegt ef samkomulag átti að nást.
Hvernig skilyrðunum yrði mætt var hins vegar í höndum kröfuhafanna. Þeir lögðu fram tillögur þess efnis, fulltrúar stjórnvalda brugðust við og tillögurnar vorulagaðar að þeim viðbrögðum. Í viðtali við Kjarnann á fimmtudag sagði Lee Buchheit, ráðgjafi framkvæmdahópsins sem var lykilmaður í þeirri niðurstöðu sem kynnt var fyrir viku síðan, að hlutverk framkvæmdahópsins í viðræðunum við kröfuhafana hafi verið að koma á framfæri sýn stjórnvalda á vandann og hvernig framlag kröfuhafa til lausnar á vandanum þyrfti að verða. „Það leiddi til þess að kröfuhafarnir lögðu fram ýmsar tillögur um lausn sem framkvæmdahópurinn bar síðan saman við þá kríteríu sem hann hafði sett sem skilyrði að yrði að uppfylla til að hann gæti samþykkt tillögur þeirra. Þeim niðurstöðum var síðan komið aftur til kröfuhafanna sem gerðu slikt hið sama og þannig gekk þetta fram og til baka. Á endanum þá lögðu kröfuhafarnir fram tillögu sem framkvæmdahópurinn taldi að hann gæti mælt með við stýrinefndina að yrði samþykkt.“
Hverjir tóku þátt í viðræðunum?
Fyrir hönd Íslands voru þær í höndum framkvæmdahóps um losun hafta, undir formennsku Glenn Kim og varaformannanna Sigurðar Hannessonar og Benedikts Gíslasonar, og ráðgjafa þeirra. Þar var, líkt og fyrr segir, hlutverk Lee Buchheit stórt.
Hópur stærstu kröfuhafa föllnu bankanna var valinn til að taka þátt í þessum viðræðum. Í lykilhlutverki var Barry Russell, frá lögmannsstofunni Akin Gump. Russell starfar fyrir skuldabréfaeigendur allra bankanna, og þar af leiðandi alla stærstu kröfuhafana í hópi vogunar- og fjárfestingasjóða. Hann hefur verið viðloðandi slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans nánast frá hruni og þekkir því ferlið betur en líkast til flestir aðrir.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku sagði Benedikt Gíslason að Russell hafi unnið nauðsynlegt starf í samskiptum framkvæmdahóps og kröfuhafa. „Þeir voru allir með sama lögfræðilega ráðgjafann. Ég held að sá ráðgjafi hafi staðið sig vel í að reyna að koma sínum umbjóðendum í skilning um það að markmiðin væru ekki til umræðu, en ólíkar leiðir að sama markmiði gætu gengið [...] Þetta samtal var uppbyggilegt og að mínu mati átti Barry Russell þátt í því að gera það þannig.“
Auk Russell tók Matt Hinds, frá ráðgjafafyrirtækinu Talbot Hughes&McKillop, mikinn þátt en hann hefur árum saman starfað sem ráðgjafi slitastjórnar Glitnis. Sömu sögu er að segja af ráðgjafarfyrirtækinu Blackstone, sem vinnur fyrir Kaupþing, og erlenda fjármálaráðgjafa gamla Landsbankans.
Auk þess voru fulltrúar þriggja til fjögurra stærstu kröfuhafa hvers banka fyrir sig þátttakendur í viðræðunum. Þeirra á meðal er langstærsti kröfuhafi fallinna íslenskra fjármálafyrirtækja, Davidson Kempner Capital Management. Kröfur vogunarsjóðsins eru að mestu í gegnum írska sjóðinn Burlington Loan Management. Sá sem hefur séð um mál sjóðsins á Íslandi heitir Jeremy Lowe, og hefur oft gengið undir nafninu "Herra Ísland" á meðal þeirra sem þurfa að eiga samskipti við hann, í ljósi umfangs þeirra krafna sem hann sýslar með. Þá áttu sjóðirnir Taconic Capital Advisors LP, Silver Point Capital og Solus Alternative Asset Management fulltrúa við borðið.
Lee Buchheit er bjartsýnn á að þeir kröfuhafar sem hafa ekki tekið þátt í viðræðunum undanfarna mánuði muni spila með og samþykkja nauðasamningstillögur í haust.
Þegar viðræður hófust af alvöru í byrjun mars tilkynnti Lee Buchheit fulltrúum kröfuhafanna að íslensk stjórnvöld hefðu fundið leið sem tryggði hagsmuni Íslands og að sú leið væri lögleg. Hún héti stöðugleikaskattur. Í viðræðunum í kjölfarið hljóp umfang hans á 35 til 39 prósentum. Á endanum varð niðurstaðan 39 prósent og sú tala var kynnt á fundinum í Hörpu á mánudag fyrir viku.
Í kjölfarið sagði hann að íslensk stjórnvöld myndu hins vegar einnig vera reiðubúin að endurskoða lög um nauðasamninga til að flýta fyrir ferlinu, ef ákveðnum skilyrðum yrði mætt.
Ríkti trúnaður milli aðila?
Þegar þetta lá fyrir voru allir sem að viðræðunum komu, en það var fámennur hópur báðum megin, látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingar. Trúnaðurinn var mjög mikilvægur, meðal annars vegna þess að kröfur á föllnu bankanna ganga kaupum og sölum. Þær upplýsingar sem voru undir í viðræðunum voru augljóslega verðmyndandi. Þeir sem tóku þátt í viðræðunum skuldbundu sig einnig til að eiga ekki í neinum viðskiptum með kröfur á búin á meðan að þær stóðu yfir. Einn viðmælanda Kjarnans segir að leyndin hafi verið svo mikil að þeir sem tóku þátt „máttu ekki einu sinni segja frá því að samtöl væru að eiga sér stað.“
Íslandsmegin var líka lögð mikil áhersla á trúnaðinn. Ef þeir sérfræðingar, innan og utan stjórnarráðsins, sem komu að vinnunni brutu gegn innherjareglum sem tóku gildi 1. nóvember 2014 gátu þeir átt yfir höfði sér fangelsisvist.
Ljóst er á samtölum við aðila beggja vegna borðsins að töluverðar áhyggjur voru af því að upplýsingar um ferlið væru að leka út til fjölmiðla, og jafnvel til valdra aðila á fjármálamarkaði sem gætu mögulega nýtt sér þær innherjaupplýsingar til að hagnast. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði til að mynda að trúnaðarbrestur eftir fund í samráðsnefnd um losun hafta í desember, sem í sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, hefði leitt til þess að upplýsingagjöf hafi verið breytt þannig að flæði upplýsinga var takmarkað.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði að trúnaðarbrestur eftir fund í samráðsnefnd um losun hafta í desember, sem í sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, hefði leitt til þess að upplýsingagjöf hafi verið breytt þannig að flæði upplýsinga var takmarkað.
Þá hefur framkvæmdahópur um losun hafta legið undir ámæli víða, meðal annars á meðal þingmanna og innan fjármálageirans, fyrir að leka upplýsingum um framgang áætlunarinnar og helsta inntak hennar, til valinna fjölmiðla. Undir þetta hafa fulltrúar kröfuhafa, sem Kjarninn hefur rætt við, tekið. Þeir segja að það hafi blasað við að Íslandsmegin hafi allt míglekið. Það hafi hins vegar hætt eftir að trúnaðaryfirlýsingarnar voru lagðar fram. Sá hópur sem hafi séð um lokasprettinn fyrir Íslands hönd hafi ekki lekið neinu. Þ.e. þar til meginatriði áætlunar stjórnvalda birtust í DV föstudaginn áður en áætlunin var kynnt í Hörpu.
Í viðtali við Kjarnann í síðustu viku sagðist Lee Buchheit kannast við umræðuna um leka úr starfinu. „Lekar voru smávægilegt vandamál í fyrstu skrefunum eftir að ég kom inn, en ekki alvarlegt vandamál. Það voru engir alvarlegir lekar eftir að trúnaðaryfirlýsingarnar voru undirritaðar snemma á þessu ári. En fyrir þann tíma voru nokkrir lekar.“
Var kylfu og gulrót beitt?
Svo virðist sem ekki sé almennilegur samhljómur milli aðila málsins hvort samið hafi verið um niðurstöðu. Lee Buchheit segir að samið hafi verið við kröfuhafa hvernig þeir mættu þeim stöðugleikaskilyrðum sem Ísland setti. Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson, sem voru varaformenn hópsins sem Buchheit var að vinna fyrir, segja hins vegar í viðtalinu við Viðskiptablaðið að þeir hafi ekki staðið í neinum samningaviðræðum. „Við stóðum ekki í neinum samningaviðræðum. Einhverjir aðrir kunna að hafa haldið á einhverjum tímapunkti að slíkt stæði til boða, en þeim varð mjög fljótt ljóst að sú væri ekki raunin. Þannig að upplýsingaskiptin sneru af okkar hálfu meira um það að leggja mat á það hvort þeirra hugmyndir og aðferðafræði féllu að okkar skilyrðum eða ekki, og að reyna að leiða þá að niðurstöðu sem samrýmist hagsmunum Íslands.“
Þarna er hins vegar um ákveðin orðhengilshátt að ræða. Það liggur fyrir að þau skilyrði sem stjórnvöld settu slitabúunum til að ljúka nauðasamningum voru óumsemjanleg, enda voru þau samin til að vernda íslenskan stöðugleika og gjaldeyrisjöfnuð. Það var hins vegar nauðsynlegt að semja um hvernig kröfuhafarnir mættu skilyrðunum. Þeim tillögum var síðan kastað fram og til baka og því kasti lauk með að þær lausnir sem lagðar voru fram sunnudaginn 7. júní og mánudaginn 8. júní þóttu uppfylla skilyrðin.
Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson (á mynd) segja í viðtalinu við Viðskiptablaðið að þeir hafi ekki staðið í neinum samningsviðræðum við kröfuhafa.
Yfir vofði auðvitað álagning stöðugleikaskatts um næstu áramót, sem hefði höggvið mun stærra skarð í eignir kröfuhafanna en samkomulag um lausn við stjórnvöld. Álagning er lokaúrræði sem ágætt var að hafa til að ýta á eftir niðurstöðum, en enginn vildi sérstaklega beita því ljóst var að kröfuhafar myndu alltaf láta reyna á lögmæti hans fyrir dómstólum. Það hefði getað tafið losun hafta umtalsvert.
Raunar höfðu kröfuhafarnir kallað eftir því að stjórnvöld legðu fram skilyrði fyrir þá til að mæta allt frá því að þeir óskuðu eftir undanþágum frá höftum til að ljúka nauðasamningum haustið 2012. Síðan þá hafa þeir sent inn nokkur tilboð sem oftast var ekki svarað. Það hafði því aldrei verið dregin nein lína í sandinn.
Hvað segja kröfuhafarnir?
Þegar línan var loks dregin þá var hún mjög í takt við það sem kröfuhafarnir bjuggust við. Þeir höfðu sjálfir greint greiðslujöfnuð Íslands og möguleika sína til að taka út íslenskar eignir í gegnum gjaldeyrismarkað strax á árinu 2012. Frá þeim tíma hafa flestir lykilmenn í kröfuhafahópnum gert sér grein fyrir að það yrði alltaf mjög erfitt að koma íslensku eignunum út. Þær yrði að gefa eftir, að minnsta kosti að stóru leyti.
Miðað við þessa sýn þeirra hefði verið hægt að klára nauðasamning fyrir nokkrum árum síðan. Það hafi hins vegar verið ljóst að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið tilbúin með sínar greiningar á stöðunni þá. Á fyrri hluta þessa kjörtímabils hafi einnig vantað traust á milli lykilstofnanna, nefnilega fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands. Vantraust forystumanna á Má Guðmundsson hafi endurspeglast í ummælum þeirra á opinberum vettvangi, í gagnrýni bankaráðsmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á störf hans og óvissunni sem skapaðist sumarið 2013 um hvort Már yrði endurskipaður í embætti seðlabankastjóra. Viðmælendur Kjarnans segja að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eigi stóran hlut í því að þessu vantrausti var eytt og nægileg samstaða skapaðist til að fara af fullri alvöru í haftalosun.
Vantraust forystumanna á Má Guðmundsson hafi endurspeglast í ummælum þeirra á opinberum vettvangi, í gagnrýni bankaráðsmanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á störf hans og óvissunni sem skapaðist sumarið 2013 um hvort Már yrði endurskipaður í embætti seðlabankastjóra.
Hvaða leið var farin?
Í einföldu máli var því samið um að kröfuhafar mættu ákveðnum skilyrðum sem stjórnvöld settu þeim. Þeir munu gefa eftir nokkur hundruð milljarða króna af innlendum eignum sínum og fá erlendu eignirnar í staðinn. Tillögum þess efnis var skilað inn til framkvæmdahóps um losun hafta sunnudaginn 7. júní og mánudaginn 8. júní, rétt áður en blaðamannafundur um haftaáætlunina var haldin í Hörpu. Framkvæmdahópurinn og stýrinefnd sem situr yfir honum (í henni eru Már Guðmundsson seðlabankstjóri, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og fulltrúar forsætisráðuneytisins) hafa samþykkt að tillögurnar uppfylli stöðugleikaskilyrðin og munu mæla með því að undanþága fáist frá höftum á grundvelli þeirra.
Því vakti það töluverða furðu margra, í ljósi þess að samkomulag við öll þrjú stóru slitabúin lá fyrir, að öll kynningin í Hörpu fór í að útskýra stöðugleikaskatt, sem að öllum líkindum verður aldrei lagður á. Engin kynning hefur verið haldin á innihaldi þeirra samkomulaga sem gerð hafa verið til að hjálpa almenningi við að skilja þau. Raunar var enskri útgáfu af þeim bara hent inn á enska hluta vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins nokkrum klukkutímum eftir að kynningunni í Hörpu lauk. Lélegri þýðingu á samantekt tillagnanna var síðan bætt við daginn eftir.
Það vakti töluverða furðu margra, í ljósi þess að samkomulag við öll þrjú stóru slitabúin lá fyrir, að öll kynningin í Hörpu fór í að útskýra stöðugleikaskatt, sem að öllum líkindum verður aldrei lagður á.
Það er vert að taka það fram að þótt stærstu kröfuhafar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafi allir skilað tillögum sem stýrinefnd um losun hafta hefur samþykkt að uppfylli stöðugleikaskilyrðin sem þarf til að klára nauðsamninga slitabúa föllnu bankanna er enn eftir töluverð vinna við að klára málið. Slitastjórnirnar þurfa að leggja tillögurnar fyrir kröfuhafafund og þar þarf aukinn meirihluti allra kröfuhafa að samþykkja þær svo nauðasamningarnir klárist.
Hver „á“ leiðina?
Það er töluvert slegist um eignarréttinn á þeirri lausn sem varð ofan á í haftalosunarferlinu. Framsóknarflokkurinn leggur eðlilega mikla áherslu á að hann eigi mesta heiðurinn að þessu. Hann hafi bjargað þjóðinni frá Icesave, bjargað heimilunum með stóru skuldaniðurfellingunni og sé nú að berja hrægammasjóðina til að gefa eftir stórkostlegar fjárhæðir. Skilaboðin eru einföld: Framsókn stendur við það sem flokkurinn segir.
Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson virðast hógværari í því að berja sér á brjóst vegna hinnar góðu niðurstöðu í málinu, þótt Bjarni hafi leikið lykilhlutverk í að ná henni.
Forsvarsmenn fyrri ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna reynir af veikum mætti að segja að þetta sé niðurstaðan sem alltaf hafi verið unnið að í hennar tíð, samningar við kröfuhafa.
Forsvarsmenn fyrri ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna reyna af veikum mætti að segja að þetta sé niðurstaðan sem alltaf hafi verið unnið að í þeirra tíð, samningar við kröfuhafa. Sú leið sem unnið var að í stýrinefnd um afnám gjaldeyrishafta, sem leidd var af Katrínu Júlíusdóttur þáverandi fjármálaráðherra, á fyrstu mánuðum ársins 2013 var að ríkið myndi kaupa bankanna báða til baka á því sem er ekki hægt að kalla annað en svívirðilega lágu verði.
Með því er átt við að greitt yrði 20-30 prósent af bókfærðu innra virði bankanna fyrir þá. Heillavænlegast var talið að fá lífeyrissjóði landsins með í þetta samkomulag, þeir myndu kaupa hluta af bönkunum á móti ríkinu gegn því að þeir flyttu hluta af erlendum eignum sínum heim til að greiða fyrir þann hluta. Í kjölfarið var hugmyndin sú að gera uppgjörssamning milli ríkisins og lífeyrissjóðanna og skipta á milli þeirra ágóðanum. Aðrar krónueignir Glitnis og Kaupþings áttu síðan að kaupast upp af ríkinu eftir samninga sem áttu að tryggja tugprósenta afslátt af þeim. Þeim ávinningi ætlaði ríkið ekki að deila með lífeyrissjóðum eða neinum öðrum. Ljóst er hins vegar að allt of seint var farið af stað til að raunhæft væri að ljúka málinu fyrir kosningum. Ríkisstjórnina skorti einfaldlega pólitískt umboð, og styrkleika, til að klára mál af þessari stærðargráðu á þeim fáu mánuðum sem voru til kosninga. Þegar vinstri stjórnin fór frá í maí 2013 var þessi leið þó enn sú sem þótti æskilegast að fara.
Innan Seðlabankans vilja menn síðan meina að í grunninn sé lausnin sem nú hefur verið samið um byggð á áætlun hans um losun hafta frá árinu 2011, og sérstaklega uppfærðri áætlun frá árinu 2013 sem fékk hið skemmtilega nafn „Project Bingó“.
Góður "díll" fyrir kröfuhafa
Miðað við orkuna sem er sett í að selja þá hugmynd að kröfuhafar hafi verið knésettir af hörku íslenskra stjórnmálamanna mætti ætla að í hópi þeirra væru mikil vonbrigði ríkjandi. Það er þó alls ekki þannig.
Bloomberg sagði í síðustu viku frá því að greinendur telji samkomulagið sem kröfuhafar hafi gert við íslensk stjórnvöld vera gott. Þar var haft eftir Anthony Liu, greinanda hjá Exotix Partners LLP, miðlarafyrirtæki í London, að það hafi komið honum á óvart að samkomulagið hafi ekki verið ósanngjarnara.
Verð á skuldabréfum á föllnu íslensku bankanna er einnig talið líklegt til að hækka í kjölfar aðgerða við losun hafta sem ríkisstjórnin kynnti á mánudag þar sem kröfuhöfum var boðið að semja í stað þess að lagður væri á þá stöðugleikaskattur. Þau urðu því verðmætari eftir samkomulagið en þau voru fyrir.
Í frétt Bloomberg sagði að greiðslur kröfuhafa sem byggja á þeim samkomulögum sem náðst hafa um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda geti kostað slitabúin allt niður í 2,75 milljarða dala, um 365 milljarða króna, í samanburði við þá 5,1 milljarði dala, um 676 milljarða króna, sem þeir hefðu þurft að greiða ef stöðugleikaskatturinn hefði verið lagður á.
Liu sagði að slitabú Glitnis, sem borgar mest allra slitabúa til ríkisins miðað við fyrirliggjandi samkomulög, sé að fá „besta dílinn“. Væntar endurheimtur í bú bankans hafa vanalega verið um 30 prósent af nafnvirði en Liu telur að þær muni nú hækka í um 35 prósent.
Hafa lengi vitað hver mörkin voru
Kröfuhafarnir vissu flestir fyrir nokkuð löngu síðan að nákvæmlega sú staða sem var uppi á síðasta ári og fyrri hluta þessa árs myndi verða. Í greiningu frá ráðgjafafyrirtækinu Birwood Limited, sem var gefin út í apríl 2013, er meðal annars fjallað sérstaklega um mögulega áhrif síðustu alþingiskosninga á uppgjör slitabúanna. Sú greining er mjög nálægt þeirri lausn sem kynnt var með viðhöfn í Hörpu á mánudag.
Þar segir að þorri íslenskra stjórnmálaflokka hafi tekið hófsama eða róttæka and-kröfuhafastöðu í aðdraganda þeirra. Fyrir hafi legið að uppgjör þrotabúa bankanna yrði samningsatriði að kosningum loknum. Samkvæmt greiningunni voru allar líkur á því að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn að loknum kosningum, sem varð raunin, og því miðar greiningin við að helstu stefnumál þeirra verði ráðandi.
Þar stendur orðrétt: „leiðtogar beggja flokka hafa skrifað og talað um plan til að fjármagna áform ríkisstjórnar við að leysa mál sem tengjast aukinni skuldsetningu almennings með því að minnka krónueignir gömlu bankanna hlutfallslega og hafa gefið í skyn að blönduð aðferð af „kylfum og gulrótum“ sé nauðsynleg þegar samið er við kröfuhafa gömlu bankanna. [...] Sú aðferð sem líklegast verður notuð af íslenskum stjórnvöldum mun fela í sér að gömlu bankarnir gefi eftir hluta af eignum sínum í íslenskum krónum. Í staðinn munu gömlu bankarnir fá undanþágu frá fjármagnshöftunum fyrir erlendar eignir og mögulega þær krónueignir sem verða eftir. Slík áætlun mun draga úr endurheimtum kröfuhafa en gæti verið eina leiðin fyrir slitastjórn til að klára nauðasamningsgerð og í kjölfarið greiða út innan skynsamlegs tímaramma. Að okkar mati verður í fyrsta lagi hægt að ná þeim nauðasamningi um sumarið 2014.
Upphæðirnar sem hafa verið nefndar í þessu samhengi eru á milli 300-400 milljarðar króna".