Málefni Háholts hafa verið mikið í umræðunni undafarna daga eftir að Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að velferðarráðuneytið hyggist gera 500 milljóna króna samnings til þriggja ára um rekstur meðferðarheimilisins, sem er staðsett í Skagafirði, þrátt fyrir að Barnaverndarstofa sé eindregið á móti endurnýjun slíks samnings.
Kjarninn greindi frá því í útgáfu sinni 16. janúar 2014 að til stæði að gera slíkan þjónustusamning og að samkomulag þess efnist hefði verið undirritað 6. desember árið áður. Þar kom einnig fram að kostnaðurinn yrði allt að 500 milljónir króna og að samkomulagið væri gert þvert á vilja flestra sérfræðinga. Samkomulagið má lesa hér.
Sökum þess að málefni Háholts eru komin aftur í umræðuna gefur Kjarninn ákveðið að birta fréttaskýringu sína frá því í janúar aftur í heild sinni.
Fréttaskýring Kjarnans frá 16. janúar 2014:
Háholt fær ungu glæpamennina
Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ákveðið að meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði verði sá staður þar sem fangar undir aldri sem dæmdir hafa verið til óskilorðsbundinnar refsingar verði vistaðir næstu þrjú ár. Samkomulag þess efnis var undirritað 6. desember síðastliðinn og nú er unnið að gerð þjonustusamnings til að innsigla málið. Kostnaður vegna samningsins er áætlaður 400 til 500 milljónir króna.
Þessi niðurstaða er athyglisverð fyrir margar sakir, sérstaklega þá að enginn þeirra sérfræðinga sem Kjarninn ræddi við, og starfa með þessum hópi ungra brotamanna, taldi Háholt hentugan stað til að vista þá á. Meðferðarheimilið þykir of fjarri þeirri stoðþjónustu sem brotamennirnir þurfa á að halda, þjónustu sálfræðinga og geðlækna sem langflestir eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess eru fjölskyldur og rætur brotamannanna nánast undantekningarlaust einnig þar.
Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra, tók ákvörðun um að framlengja samninginn við Háholt.
Illa undirbúin innleiðing
Þörf Íslendinga til að finna viðunandi lausn á vistun dæmdra brotamanna undir lögaldri er knýjandi vegna þess að velferðarríki á auðvitað að geta boðið upp á viðunandi úrræði í þessum málaflokki. En hún er líka knýjandi vegna þess að íslenska ríkið hefur leitt í lög barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem skikkar okkur til þess að leysa málið.
Þrátt fyrir að Barnasáttmálinn hafi verið samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989 hafði hann aldrei verið innleiddur í íslensk lög. Það gerðist hins vegar, frekar snögglega, haustið 2012 að þingmenn úr öllum flokkum lögðu fram þingmannafrumvarp um innleiðingu hans. Sú aðgerð var mjög þörf en frekar illa undirbúin, þar sem um þingmannafrumvarp var að ræða en ekki stjórnarfrumvarp. Þegar sáttmálinn var síðan loks lögfestur hinn 20. febrúar 2013 stóð Barnaverndarstofa til dæmis frammi fyrir því að þurfa að framfylgja lagaákvæði um vistun ungra afbrotamanna án þess að til væri stofnun hérlendis sem hægt væri að nýta til þess.
Stofnun á höfuðborgarsvæðinu
Árið 2011 hafði Barnaverndarstofa lagt fram mjög ítarlega greinargerð til þáverandi velferðarráðherra þar sem lagt var til að komið yrði á fót stofnun á höfuðborgarsvæðinu sem yrði sérstaklega hönnuð fyrir ungmenni sem ættu við mjög alvarlegan vímuefna- og/eða afbrotavanda að stríða og fyrir þá sem þyrftu að afplána óskilorðsbundna dóma. Þessi tillaga rataði inn í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í barnaverndarmálum sem Alþingi samþykkti árið 2012. En eins og oft vill verða með samþykkt íslensk vilyrði voru aldrei neinir peningar settir í að byggja þessa stofnun.
Með innleiðingu Barnasáttmálans vofandi yfir sér stóð Barnaverndarstofa frammi fyrir því að þurfa að finna einhverja aðra stofnun sem gæti leyst hlutverkið, að minnsta kosti til bráðabirgða. Eftir yfirlegu lagði hún til í mars 2013 að Háholti í Skagafirði yrði falið þetta hlutverk.
Innanríkisráðuneytið, sem þá var undir stjórn Ögmundar Jónassonar, lagðist hins vegar gegn þessu. Helstu rökin voru þau að lausnin væri úti á landi, langt frá allri nauðsynlegri stoðþjónustu.
Innanríkisráðuneyti snýst hugur
Háholt hefur starfað sem meðferðarheimili í 15 ár. Um er að ræða einkarekstur sem hvílir á þjónustusamningi við Barnaverndarstofu. Samningur Háholts átti að renna út um síðustu áramót og um mitt ár 2013 ákvað Barnaverndarstofa að framlengja hann ekki, meðal annars vegna þess að innanríkisráðuneytið, sem fer með fangelsismál, hafði vorið 2013 hafnað heimilinu sem lausn. Saga Háholts virtist því vera komin á endastöð og öllu starfsfólki var sagt upp í lok september 2013.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að nánast á sama tíma og uppsagnirnar voru framkvæmdar hafi það hins vegar gerst að innanríkisráðuneytinu, nú undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hafi snúist hugur í málinu. „Þetta gerðist í septemberlok. Ég kann ekki að skýra nánar frá því af hverju þetta var. En á þessum tíma var Barnaverndarstofa komin á þá skoðun að það væri ekki rétt að framlengja þjónustusamning við Háholt vegna skorts á eftirspurn. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að það hefur jafnt og þétt verið að draga úr stofnanameðferð. Á síðari hluta ársins 2013 dróst eftirspurn eftir rýmum á Háholti verulega saman. Það bara barst ekki umsókn. Við töldum því eininguna varla rekstrarhæfa.“
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði það hafa legið fyrir að finna þyrfti lausn á vistun fanga undir lögaldri.
Kjarninn ræddi einnig við sérfræðinga sem starfa með þeim hópi ungmenna sem líklegast verður vistaður á Háholti. Þeir vildu ekki koma fram undir nafni en gagnrýni þeirra allra var samhljóma: stofnun sem vistaði þessi ungmenni þyrfti að vera á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja þeim þá þjónustu sem þau þurftu á að halda. Auk þess væru þau nánast án undantekninga af höfuðborgarsvæðinu og nálægð við fjölskyldur og rætur þeirra væru æskileg til að auka líkur á bata. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, talaði á svipuðum nótum. Í samtali við Kjarnann sagði hann að ef þessi lausn tryggði aðgengi þessara einstaklinga að sérfræðingum gæti Háholt gengið. Slíkt yrði hins vegar að tryggja.
Nauðsynlegt að finna lausn
Bragi segir að það hafi hins vegar legið fyrir að finna þyrfti lausn á vistun fanga undir lögaldri. Velferðarráðuneytið taldi síðastliðið haust rétt að leita sjónarmiða allra barnaverndarnefnda á landinu á þessu, en þær eru 27 talsins. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið segir meðal annars: „Mat ráðuneytisins var að afstaða barnaverndarnefndanna gagnvart þjónustu Háholts væri almennt mjög jákvæð. Þrátt fyrir að sumar nefndir tilgreindu nokkra annmarka á staðsetningu og öðrum atriðum, var það túlkun ráðuneytisins að jákvæðu atriðin sem dregin voru fram vægju þyngra, auk þess sem barnaverndarnefndirnar veittu upplýsingar um allmörg börn sem líkur bentu til að sótt yrði um meðferð fyrir í Háholti á næstu mánuðum og misserum.“
Í kjölfarið tók Eygló Harðardóttir, sem fer með félags- og húsnæðismál í velferðarráðuneytinu, ákvörðun um að framlengja samninginn við Háholt.
Bragi segist líta svo á að vistun fanga á Háholti hljóti að vera bráðabirgðalausn. „Það hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að önnur áform séu uppi en að byggja þessa stofnun sem þarf á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum hins vegar að geta tekið á móti þessum einstaklingum. Það getur fallið dómur á morgun eða hinn. Ráðherrann stóð frammi fyrir því að velja einhverja þeirra stofnana sem við rekum í dag til að sinna þessu. Hann tekur ákvörðun um að velja Háholt. Ég geri mér grein fyrir því að ákvörðunin er umdeilanleg en það þurfti að ráða fram úr þessu.“ Hann segir heildarkostnað vegna þriggja ára samnings við Háholt líklega vera á bilinu 400 til 500 milljónir króna.
Hægt er að lesa fréttaskýringuna í PDF-formi hér.