Þeir sem vonuðust eftir því að skýrsla stýrihóps ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group myndi verða einhverskonar endahnútur á hið endalausa rifrildi um veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni urðu ugglaust fyrir vonbrigðum. Skýrslan tekur hvorki afgerandi afstöðu gagnvart veru flugvallarins á þeim stað sem hann er nú og hópurinn, sem dags daglega er nefndur Rögnunefndin eftir Rögnu Árnadóttur formanni hópsins, né var það á verksviði hans að kanna mögulegan flutning á innanlandsflugi til Keflavíkur, þar sem millilandaflugvöllur landsins er fyrir.
Þess í stað býður skýrslan upp á hagkvæmustu lausnina á uppbyggingu nýs flugvallar fyrir innanlands- og millilandaflug, að teknu tilliti til þeirrar þróunar sem þurfi að eiga sér stað í flugvallarmálum í nánustu framtíð. Og sú lausn er uppbygging nýs flugvallar í Hvassahrauni, skammt frá álverinu í Straumsvík. Samkvæmt stýrihópnum yrði samlegð innanlands- og millilandaflugs til bóta fyrir alla þjóðina.
Rúmlega fjórföldun ferðamanna framundan
Í skýrslu stýrihópsins kemur fram að ákveðin tímamót séu framundan vegna mikillar fjölgunar á farþegum í millilandaflugi. Sú mikla aukning kallar á að Keflavíkurflugvöllur þurfi að óbreyttu að tvöfaldast að innviðum fram til ársins 2040. Isavia, sem á og rekur flugvöllinn, áætlar að kostnaðurinn við uppbyggingu flugvallarins muni kosta á annað hundrað milljarða króna á þessu tímabili. Á meðal þess sem þarf að gera er að rífa niður og/eða endurnýja mikinn hluta þeirra bygginga sem nú eru til staðar á Keflavíkurflugvelli og bæta við þriðju flugbrautinni. Millilandaflugið skapar hins vegar miklar tekjur sem standa vel undir þeim framkvæmdum sem þarf að ráðast í til að hámarka þær. Og skýrslan tekur ekki á því hversu hagkvæmt það yrði að ráðast í þá uppbyggingu í Keflavík.
Fjölgun ferðamanna á Íslandi hefur verið gríðarleg á undanförnum árum. Samhliða hefur einnig aukist sá fjöldi sem fer um Keflavíkurflugvöll á leið sinni á aðra áfangastaði. Árið 2008 fóru tæplega tvær milljónir manna um völlinn. Í fyrra er áætlað að 3,9 milljónir manna hafi farið um hann. Sú tvöföldun hefur gert það að verkum að stanslaust þarf að vera að stækka mannvirkin við Keflavíkurflugvöll, sem er í reynd sprungin.
Isavia gerir hins vegar ráð fyrir því að farþegar verði sjö milljónir ári 2020 og að á bilinu 12 til 15 milljónir farþega fari um millilandaflugvöll á Íslandi árið 2040. Fjöldin mun því mögulega tæplega fjórfaldast á næstu 25 árum. Og við þvi þarf að bregðast.
REykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni.
Fækkun í innanlandsflugi en þörf á fjárfestingu
Farþegar í innanlandsflugi sem fóru um Reykjavíkurflugvöll voru 328 þúsund árið 2014. Þeim hefur fækkað nokkuð undanfarin ár þrátt fyrir þá miklu aukningu sem hefur orðið í ferðaþjónustu, en árið 2012 var fjöldi farþega sem fór um Reykjavíkurflugvöll um 363 þúsund.
Ólíkt millilandafluginu er innanlandsflugið að stórum hluta rekið með aðkomu ríkisins og fjárfestingum í því hefur verið haldið í lágmarki. Fjárfestingaþörf fyrir innanlandsflug fer hins vegar vaxandi og stýrihópurinn telur ljóst að þeir innviðir sem séu til staðar nægi ekki til framtíðar.
Með öðrum orðum þarf að fjárfesta í innanlandsflugi. Staðan eins og hún er í dag gengur ekki og það þýðir einnig að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni í því formi sem hann er í dag dugir ekki. Annað hvort þarf að fjárfesta í honum og byggja þjónustuna upp, eða færa miðstöð innanlandsflugs annað. Og það var það sem stýrihópurinn var að kanna.
Besta lausnin Hvassahraun
Stýrihópurinn metur stöðuna þannig að nú sé tækifæri, og fullt tilefni, til að skoða millilanda- og innanlandsflug til lengri tíma í samhengi við farþegaspár og nauðsynlega uppbyggingu.
Niðurstaða stýrihópsins hefur vart farið framhjá neinum. Hann telur að nýr flugvöllur í Hvassahrauni, rétt hjá álverinu í Straumsvík, hafi „mesta þróunarmöguleika til framtíðar, borið saman við aðra flugvallakosti“. Nothæfnisstuðull flugvallar á því svæði var hæstur allra auk þess sem áætlaður stofnkostaður flugvallar og bygginga sem tækju við alir starfsemi Reykjavíkurflugvallar væri 22 milljarðar króna, sem var ódýrasti kosturinn sem stýrihópurinn skoðaði.
Þar sem stýrihópurinn metur að það þurfi að fara í nauðsynlega uppbyggingu vegna millilanda- og innanlandsflugs þá dugar Reykjavíkurflugvöllur eins og hann er í Vatnsmýrinni ekki til framtíðar. Annað hvort þarf að flytja hann eða bæta við hann. Í skýrslu stýrihópsins segir að það yrði mjög dýrt. Breyttar útfærslur í Vatnsmýrinni myndu hafa mikil áhrif á umhverfi flugvallarins auk þess sem þær væru kostnaðarsamar og myndu jafngilda því að byggja nýjan flugvöll.
Ábatasamt fyrir landsbyggðina
Niðurstaða skýrslunnar er sú að ábati flugfarþega, bæði innanlands- og millilandafarþega, vegna breyttrar staðsetningar sé á bilinu 29 til 50 milljarðar króna. Heildartap innanlandsfarþega af flutningi flugvallar er metið á tvo til sjö milljarða króna þar sem flutningur leiðir til aukninga á ferðakostnaði þeirra. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu tapa meira en íbúar á landsbyggðinni, en tap þeirra er reiknað 850 milljónirk róna. Það samantendur af tapi þeirra sem fljúga eingöngu innanlands (5,3 milljarðar króna) og ábata þess hluta innanlandsfarþega sem nota innanlandsflugið á leið sinni til útlanda (4,4 milljarðar króna). Það séu því töluverð samlegðaráhrif til staðar fyrir innanlands- og millilandaflug.
Þegar bara er horft til millilandafarþega er það niðurstaða skýrslunnar að flutningur millilandaflugs í Hvassahraun sé til mikilla bóta. Ábati þeirra er metinn á bilinu 36 til 51 milljarður króna. Ábati íbúa höfðuborgarsvæðisins og jaðarbyggða þess í millilandaflugi er mestur, eða 34 til 48 milljarðar króna. Íbúar landsbyggðinarinnar hagnast hins vegar einnig á þessari leið, samkvæmt skýrslunni. Þar segir að íbúar landsbyggðar í millilandaflugi – þeir sem nota ekki innanlandsflug á leið sinni til Reykjavíkur – hljóti tveggja til þriggja milljarða króna ábata af sameiningu innanlands- og millilandaflugvallar. „Allur ábati landsbyggðar af sameiningu innanlands- og millilandaflugs vegur því rúmlega upp tap íbúa landsbyggðar vegna flutnings innanlandsflugvallar. Ráðstöfunin er því ábatasöm fyrir íbúa landsbyggðar. Samlegðaráhrif innanlands- og millilandaflugs eru til bóta fyrir íslenska flugfarþega samkvæmt þeim mælikvörðum sem lagt er upp með,“ segir í skýrslunni.
Til bóta fyrir þjóðina
Hvassahraunsflugvöllur má því vera 82 til 123 milljörðum krónum dýrari en allur kostnaður vegna Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar áður en að bygging hans verður þjóðhagslega óhagkvæm fjárfesting, samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar. Þar er reyndar gegnið út frá því að allt innanlands- og millilandaflug verði sameinað á vellinum og kostnaður við hina tvo vellina sparist þá á móti. Afar líklegt verður að teljast að það muni ekki gerast þegjandi og hljóðalaust að loka Keflavíkurflugvelli og byggja upp nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni, jafnvel þótt að fyrir liggi að endurnýja þurfi nánast öll mannvirki á honum á næstu árum. Atvinnuástandið er einna verst á Suðurnesjum af öllum landssvæðum og flugvöllurinn er langstærsti vinnustaður svæðisins.
Millilandsflugvöllur þjóðarinnar er í dag í Keflavík.
Í skýrslu stýrihópsins segir að til að fá botn í það hvort flugvöllurinn í Hvassahrauni sé hagkvæmur kostur þurfi þó að ákvarða fjárfestingarþörf á Keflavíkurflugvelli, stofn- og rekstrarkostnað Hvassahraunsflugvallar og nauðsynlegra innviða og áætla hvernig vellirnir tveir myndu vinna saman. „Niðurstaðan sýnir þó að samlegðaráhrif innanlands- og millilandaflugs yrðu til bóta fyrir þjóðina að gefnum forsendum þ.e. að Íslendingar myndu hagnast af því að hafa aðgang að innanlands- og millilandaflugi á sama stað á höfuðborgarsvæðinu.“
Ekki lagt mat á að viðhalda Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd
Mjög tilfinningaheitar deilur hafa staðið um veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni. Sett var af stað undirskriftastöfnun um að halda flugvellinum þar. Þegar Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, voru afhentar undirskriftirnar höfðu 69.802 manns skrifað undir. Sú undirskriftasöfnun, sem fer fram undir nafninu „Hjartað í Vatnsmýrinni“, er sú fjölmennasta sem ráðist hefur verið í á Íslandi.
Auk þess varð til sérstaks framboð fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar sem hafði það sem sitt helsta stefnumál, að minnsta kosti framan af kosningabaráttunni, að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Í framboðinu blönduðust saman Framsóknarflokkurinn og eldheitir áhugamenn um áframhaldandi veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni undir nafninu Framsókn og flugvallarvinir. Greinileg eftirspurn var eftir málflutningi framboðsins, þar sem það hlaut 10,7 prósent atkvæða og tvo kjörna borgarfulltrúa. Það verður reyndar að fylgja sögunni að fylgi Framsóknar og flugvallarvina fór fyrst á flug eftir að Sveinbjörg Birna Sveinbjarnardóttir, tjáði sig um andstöðu sína við byggingu mosku í Reykjavík.
Í skýrslu stýrihópsins er ekki lagt mat á hagkvæmni þess að halda Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd, enda skoðun nefndarinnar að fjárfestingar sé þörf í innanlandsflugi. Í fréttatilkynningu frá Framsókn og flugvallarvinum, sem send var út skömmu eftir að skýrslan var opinberuð, kom fram að niðurstaðan breytti ekki afstöðu framboðsins. Það vill enn að Reykjavíkurflugvöllur verði óbréyttum í Vatnsmýrinni.
Fylgjendur Vatnsmýrarflugvallarins geta einnig tengt við þá skýru niðurstöðu stýrihópsins að tryggja þurfi rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni á meðan að undirbúningur fyrir framtíðarskipan flugmála, og eftir atvikum framkvæmdir, fara fram. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er því ekki að fara þaðan í bráð, þótt hann verði ekki þar um aldur og ævi.
Sjúkraflutningstími lengist lítillega
Stór partur af umræðunni um framtíð Reykjavíkurflugvallar hefur ætið snúist um nálægð hans við Landsspítalann til að tryggja öryggi sjúklinga sem flogið er með til höfuðborgarinnar með sjúkraflugi. Stýrihopurinn lét kanna hvaða áhrif flutningur á miðstöð sjúkraflugs á flugvöll í Hvassahrauni myndi hafa á sjúkraflutninga.
Þar kemur fram að ferðatími með sjúkrabíl frá flugvelli á Landsspítalann muni aukast um 7,5 til 11,5 mínútur ef flugvöllur verður byggður í Hvassahrauni fremur en í Vatnsmýrinni. Vert er að taka fram að sjúkraflutningur í forgangi tók 157 til 158 mínútur að meðaltali á árunum 2012 til 2014, að meðtöldum flutningi af flugvelli. Forgangsflutningur er þó einungis 3-4 prósent af sjúkraflutningum. Í skýrslunni segir: „Um er að ræða tíma frá því að beiðni um sjúkrafl ug berst og þar til sjúklingur er kominn á LSH. Sá tími sem líður frá atviki þar til viðbragðsaðili óskar eftir sjúkrafl ugi er þá ótalinn. Að öðrum þáttum sjúkraflutninga óbreyttum má búast við að tími sjúkraflutnings með sjúkraflugi lengist um 8,5-12,5 mínútur vegna lengri flug- og aksturstíma.“