Viðræður Íslands, Noregs og Liecthenstein ríkjanna þriggja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), við Evrópusambandið um greiðslur í þróunarsjóð EFTA hafa enn hafa enn ekki borið ávöxt. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er verið að reyna að mjaka málinu áfram en fátt fréttnæmt hefur gerst undafarna mánuði.
Greiðslur í sjóðinn eru oft kallaðar aðgangsmiðinn að innri markaði Evrópu, gjaldið sem ríkin þrjú greiða fyrir aukaðild sína að þessumstærsta útflutningsmarkaði sínum án þess að vera fullgildir meðlimir Evrópusambandsins.
Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, hefur þurft að endursemja um þennan aðgöngumiða á fimm ára fresti. Samningar um greiðslur í sjóðinn hafa nú verið lausir frá 30. apríl 2014, eða í rúma fjórtán mánuði. Ástæða þess að illa hefur gengið að semja nú er sú að Evrópusambandið hefur farið fram á allt að þriðjungshækkun á framlögum í sjóðinn, sem EES-löndin þrjú hafa ekki viljað sætta sig við.
Ef gengið yrði að upphaflegum kröfum Evrópusambandsins myndi Ísland þurfa að greiða um 6,5 milljarða króna í sjóðinn vegna tímabilsins 2014-2019. Fyrir síðasta samningstímabil, sem stóð frá 2009-2014, greiddum við 4,9 milljarða króna. Því yrði um hækkun upp á 1,6 milljarða króna að ræða. Ekkert EFTA-ríkjanna þriggja sem greiða í sjóðinn eru tilbúin til að ganga að þessum kröfum og taka á sig hækkanir af þessari stærðargráðu.
Vinnur gegn mismunun í ríkjum ESB
Þróunarsjóður EFTA var settur upp sem hluti af EES-samningnum, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liecthenstein greiða í hann eftir stærð og landsframleiðslu hvers þeirra. Yfirlýstur tilgangur hans er að vinna gegn efnahagslegri- og félagslegri mismunum í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem þiggja aðstoð úr sjóðnum.
Styrkir eru greiddir út á grundvelli áætlanna sem styrktarlöndin gera. Á síðasta samningstímabili runnu greiðslur úr sjóðnum til 15 Evrópusambandslanda sem uppfylltu skilyrði til að þiggja þær. Stærstu heildarstyrkirnir fóru til Póllands (267 milljónir evra) og Rúmeníu (191 milljón evra). Önnur ríki sem fengu greiðslur eru Bulgaría, Kýpur, Tékkland, Eistland, Grikkland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía og Spánn.
Ekki í fyrsta sinn sem illa gengur að semja
Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem viðræður um endurnýjun á samkomulaginu ganga illa. Þegar samkomulagið rann út árið 2009 tók tæpt ár að semja um nýja lausn, en hún lá ekki fyrir fyrr en á fyrri hluta ársins 2010. Sá tími sem nú er liðinn síðan að samkomulagið rann út er því orðinn töluvert lengri en sá sem leið síðast.
Í það skiptið var samið um að framlög Íslands, Noregs og Liecthenstein myndu hækka um 33 prósent á milli tímabila en að tvö síðarnefndu ríkin myndu taka meiri hluta hækkunarinnar á sínar herðar vegna þeirrar stöðu sem var uppi í íslensku efnahagslífi eftir bankahrunið haustið 2008. Heimildir Kjarnans herma að kröfur Evrópusambandsins um hækkun nú hafi verið að sambærilegri stærðargráðu og um samdist síðast.
Samkvæmt síðasta samkomulagi greiddu EES-ríkin tæpan milljarð evra, tæplega 150 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag, í sjóðinn. Þar af greidduNorðmenn tæplega 95 prósent upphæðarinnar. Til viðbótar felur samkomulagið um greiðslur EES-ríkjanna til Evrópusambandsins í sér að Norðmenn greiða til hliðar í sérstakan Þróunarsjóð Noregs. Alls borguðu Norðmenn tæpa 125 milljarða króna í hann á tímabilinu. Þeir greiddu því um 260 milljarða króna fyrir aðgöngu sína að innri markaðnum. Ljóst er að þorri þeirrar fjárhagslegu byrðar sem greiðslurnar orsaka lenda á Norðmönnum.
Ástæður þessa eru einfaldar. Þegar upphaflega var samið um greiðslurnar þá var ákveðið að framlag hverrar þjóðar fyrir sig myndi reiknast út frá landsframleiðslu og höfðatölu. Norðmenn eru langríkasta og langfjölmennasta EFTA-ríkið sem á aðild að EES-samningnum og borgar þar af leiðandi lang mest.
Möguleg aðild að Evrópusambandinu hefur verið mikið hitamál á Íslandi um áralangt skeið. Sitjandi ríkisstjórn er andvíg aðild og hefur lagt mikið á sig til að Ísland sé ekki lengur talið umsóknarríki að sambandinu.
Greiðslur Íslands aukist um 70 prósent
Greiðslur Íslands voru mun lægri, þótt þær hafi farið ört hækkandi. Frá árinu 1994, þegar EES-samningurinn gekk í gildi, og fram til 1. maí 2009 greiddum við samtals 2,9 milljarða króna á verðlagi ársins 2010. Þrátt fyrir að Íslandi hafi verið sýnt skilningur í síðasta samningi þá jukust greiðslur landsins samt sem áður gríðarlega og voru 4,9 milljarðar króna á árunum 2009-2014. Þar af er áætlað að við greiddum um 1,4 milljarða króna í sjóðinn í fyrra, á árinu 2014. Aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópusambandsins er því að hækka mjög hratt í verði. Greiðslur Íslands á síðustu fimm árum eru 70 prósent hærri en greitt var í sjóðinn fimmtán árin þar áður.
Viðræður um nýtt samkomulag hófust snemma á síðasta ári. Fyrsti formlegi fundur EFTA-ríkjanna og fulltrúa Evrópusambandsins vegna þess var 22. janúar síðastliðinn. Viðræður um nýtt samkomulag hófust snemma á síðasta ári. Fyrsti formlegi fundur EFTA-ríkjanna og fulltrúa Evrópusambandsins vegna þess var 22. janúar síðastliðinn.
Mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
EES-samningurinn er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert. Hann veitir Íslandi nokkurskonar aukaaðild að innir markaði Evrópu án tolla og gjalda á flestar vörur. Um 80 prósent af útflutningi okkar fer til Evrópu, að langmestu leyti til landa sem tilheyra innri markaðinum, og um 60 prósent af því sem við flytjum inn koma þaðan.
Vankostirnir við EES-samninginn eru síðan þeir að Ísland undirgekkst að taka upp stóran hluta af regluverki Evrópusambandsins án þess að geta haft nokkur áhrif á mótun þess. Í Evrópustefnu sitjandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á að efla hagsmunagæslu Íslands innan EES og stórefldu samstarfi við Norðmenn á þeim vettvangi. Þessari stefnu eigi að framfylgja meðal annars með því að koma sjónarmiðum Íslands á fram í löggjafarstarfi Evrópusambandsins strax á fyrstu stigum mála. Það er ljóst að slík hagsmunagæsla mun kosta töluvert fé, enda nauðsynlegt að fjölga verulega starfsfólki í Brussel, aðalbækistöð Evrópusambandsins, til að framfylgja henni.