Þegar Fiskistofa tók saman kvótastöðu allra útgerða í fyrrahaust var niðurstaðan sú að engin ein útgerð héldi á meiri kvóta en lög heimila, en samkvæmt því má engin ein tengd blokk hald á meira en tólf prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda hverju sinni. Brim, sjávarútvegsfyrirtæki sem er skráð á markað, var efst á listanum yfir þær útgerðir sem héldu á mestu með 10,45 prósent af úthlutuðum kvóta.
Tíu stærstu útgerðirnar héldu samanlagt á 53,1 prósent af kvótanum. Það var svipuð staða og hafði verið árin á undan.
Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundin mörk, birti nýja samantekt á samþjöppun aflahlutdeildar í gær. Þar birtist ný staða. Nú er ein útgerð, Brim, komin yfir lögbundið kvótaþak og tíu stærstu útgerðirnar halda nú á 67,45 prósent á öllum úthlutuðum kvóta.
Listi yfir þau tíu sjávarútvegsfyrirtæki sem halda á hæstri hlutdeild af kvóta:
- Brim hf. 13,20 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf. 10,05 prósent
- Síldarvinnslan hf. 9,41 prósent
- Samherji Ísland ehf. 8,09 prósent
- Vinnslustöðin hf. 6,98 prósent
- Skinney-Þinganes hf. 5,93 prósent
- Eskja hf. 4,96 prósent
- FISK-Seafood ehf. 3,40 prósent
- Þorbjörn hf. 2,86 prósent
- Rammi hf. 2,57 prósent
Þar skiptir miklu máli að Kristján Þór Júlíusson, sem enn er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þrátt fyrir að hafa ekki verið í framboði til þings í lok síðasta mánaðar, undirritaði reglugerð í síðasta mánuði sem heimilar íslenskum skipum stórauknar veiðar á loðnu. Raunar verður komandi vertíð sú stærsta í tæp 20 ár og aflaverðmætið er áætlað um og yfir 50 milljarða króna. Þorri þeirrar aflaúthlutunar rennur til stórútgerða.
Tengdir aðilar mega ekki halda á meira en tólf prósent
Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta sem úthlutað er í samræmi við lög um stjórn fiskveiða. Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en tólf prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar. Til að teljast tengdur aðili er þó gerð krafa um meirihlutaeign eða raunveruleg yfirráð. Í því feldst að aðili þurfi að eiga meira en 50 prósent í öðrum aðila eða ráða yfir honum með öðrum hætti til að þeir séu taldir tengdir aðilar. Þau mörk hafa verið harðlega gagnrýnd, enda mjög há í öllum samanburði.
Raunveruleg yfirráð ekki könnuð
Í janúar árið 2019 skilaði Ríkisendurskoðun svartri stjórnsýsluúttekt um Fiskistofu, sem á að hafa eftirlit með framkvæmd laga um úthlutun hans. Eitt þeirra atriða sem verulegar athugasemdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög.
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort það takmark hafi náðst. En skýrsla Ríkisendurskoðunar ýtti málum aðeins áfram. Í henni var meðal annars lagt til að ráðast í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem snúa að yfirráðum yfir aflaheimildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Í mars 2019 var skipuð verkefnastjórn sem falið var þetta verkefni. Hún skilaði skriflega af sér drögum 30. desember 2019 þar sem lagðar voru fram ýmsar tillögur tl úrbóta.
Fimm tillögur
Tillögurnar voru fimm. Lagðar voru til breytingar á skilgreiningum á tengdum aðilum þannig að þær yrðu látnar ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra. Þá var lagt til að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja myndu leiða til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt væri fram á hið gagnstæða og að sérstaklega yrði skilgreint í lögunum hvað fælist í raunverulegum yfirráðum yfir öðru fyrirtæki. Einnig átti að skikka aðila sem ráða yfir meira en sex prósent af aflahlutdeild, sem eru örfá fyrirtæki, eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild til að tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna. Sama myndi eiga við þegar fram færu kaup í félagi sem ráði yfir aflahlutdeild eða við kaup á aflahlutdeild og áttu þau kaup ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu lægi fyrir. Að endingu átti að veita Fiskistofu auknar heimildir til afla gagna.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál yrðu áfram til skoðunar hjá nefndinni.
Takmarkaðar breytingar náðu ekki fram að ganga
Þegar lokaskýrsla verkefnastjórnarinnar var birt í fyrrasumar kom í ljós að hún gerði engar tillögur að breytingum á kvótaþaki eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum í nýrri skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni.
Kristján Þór hafði þá þegar lagt fram drög að frumvarpi um skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi í samráðsgátt stjórnvalda, sem byggði á vinnu verkefnastjórnarinnar. Í þeim drögum kom fram að þeir sem lagabreytingin hefur áhrif á munu hafa fram á fiskveiðiárið 2025/2026 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak, eða sex ár.
Drögin náðu aldrei að verða fullnuma frumvarp og því er staða mála varðandi skilgreiningu á tengdum aðilum sú sama og hún var í upphafi síðasta kjörtímabils.