Mikið hefur verið rifist um fjármál RÚV undanfarin misseri. Núverandi stjórnendur og stjórn segja stjórnvöld vera að skera það mikið niður í rekstri RÚV að ógerningur sé að halda úti þeirri starfsemi sem lög kveða á um að félagið eigi að sinna.
Fyrrverandi stjórnendur skrifa greinar í blöð, nú síðast fyrrum útvarpsstjórinn Páll Magnússon, og gagnrýna nýju stjórnendurna harðlega og fullyrða að reksturinn væri í jafnvægi ef farið hefði verið eftir þeirra tillögum. Stjórnarliðar segja að framlög til RÚV hafi aldrei verið hærri á meðan að stjórnarandstæðingar saka þá um aðför að félaginu. Hvað er rétt og hvað er rangt í þessu? Kjarninn hefur undir höndum ýmis trúnaðargögn sem skýra stöðuna.
Minnisblað unnið á þremur vikum
Þann 17. desember 2013 tilkynnti Páll Magnússon, sem hafði verið útvarpsstjóri frá árinu 2005, að hann myndi hætta. Ástæðan var sú að ný stjórn RÚV ákvað að auglýsa starf hans og Páll taldi sig ekki njóta nægilegs trausts til að halda áfram. Þann 10. mars 2014 tók Magnús Geir Þórðarson við starfinu. Eitt af hans fyrstu verkum var að segja upp öllum framkvæmdastjórum félagsins og auglýsa stöður þeirra.
Viku síðar, 17. mars 2014, sendi ný stjórn RÚV tilkynningu til Kauphallar um að tap af rekstri félagsins yrði umtalsvert meira en áætlanir stjórnenda höfðu gert ráð fyrir. Þar sagði orðrétt: „Niðurstaða uppfærðrar rekstraráætlunar er stjórn Ríkisútvarpsins mikil vonbrigði og hefur hún óskað eftir að fram fari óháð úttekt á fjármálum þess“.
Það er ekkert gamanmál að senda tilkynningu um að fjármál félagsins séu í ólestri til Kauphallar og því gaf tilkynningin sterklega til kynna að RÚV væri að glíma við gríðarlega og aðkallandi vanda.
Þann 10. júní 2014 var PwC beðið um að framkvæma mat á tilteknum atriðum varðandi fjárhag RÚV. Á meðal þeirra atriða voru fjármögnun félagsins, framtíðarhorfur í þeim efnum, samningur RÚV við Vodafone um uppsetningu nýs stafræns dreifikerfis og lánakjör og mat á framsetningu rekstraráætlana gagnvart stjórn og eftirfylgni með áætlunum. Þetta var hin óháða úttekt sem boðuð var í tilkynningunni til Kauphallarinnar.
Kjarninn hefur undir höndum niðurstöðu þessarrar úttektar. Hún er í formi minnisblaðs sem dagsett er 1. júlí 2014. Úttektin virðist því hafa verið unnin á mjög skömmum tíma, eða tæpum þremur vikum. Í minnisblaðinu sem Kjarninn er með er búið að fjarlægja allar upplýsingar um Vodafone-samninginn en allar aðrar upplýsingar þess eru til staðar.
Hægt er að lesa úttektina sem Kjarninn hefur undir höndum í heild sinni hér.
Yfirskuldsett, en hefur verið það frá upphafi
Niðurstöður PwC eru, í stuttu máli, að RÚV sé yfirskuldsett félag og hafi „ekki burði til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánastofnunum“. Í minnisblaðinu stendur enn fremur að frjálst fjárflæði síðasta fjárhagsárs dugi „ekki til að standa undir greiðslum næsta árs afborgana auk vaxtaniðurgreiðslna. PwC framkvæmdi frekari greiningu á áhættu tengdri greiðslugetu félagsins og niðurstaða þeirrar greiningar staðfestir enn frekar að RÚV muni eiga í erfiðleikum með að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Félagið þarf því að treysta á frekari fjármögnun sem mun leiða til enn frekari skuldsetningar“.
Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, skrifaði grein í vikunni þar sem hann gagnrýndi nýja stjórnendur RÚV harðlega.
Það er ekkert nýtt í þessari greiningu. RÚV var í raun yfirskuldsett þegar því var breytt úr stofnun í opinbert hlutafélag árið 2007. Þá voru háar skuldir, aðallega vegna lífeyrisskuldbindinga, látnar fylgja með inn. Þar sem ríkisframlagið til RÚV er ætlað til dagskrárgerðar hefur greiðsla lífeyrisskuldbindinga verið fjármögnuð með lántökum. RÚV ohf. hefur því verið yfirskuldsett frá stofnun.
PwC segir líka að lánskjör RÚV séu að mestu fín og í samræmi við markaðsvexti. Það sé því ekkert svigrúm til að endursemja um lán til að minnka fjármagnskostnað. Þar er einnig minnst á að vaxtaáhætta sé til staðar í útgefnu skuldabréfi RÚV sem beri verðtryggða vexti og er ekki með uppgreiðsluheimild. Umrætt skuldabréf er þó, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, mjög gömul synd. Lánið var tekið um aldamótin af RÚV þegar félagið var enn stofnun sem heyrði beint undir ráðuneyti og var flutt yfir í RÚV ohf. þegar það var stofnað árið 2007.
Gagnrýna framsetningu rekstraráætlana
Höfundar minnisblaðsins gagnrýna framsetningu rekstraráætlana hjá RÚV og segja að samkvæmt fundargerðum hafi „ekki verið fjallað um rekstur félagsins með reglubundnum hætti en þegar það er gert er gerð grein fyrir helstu breytingum miðað við áætlun[...]Áætlun félagsins byggir á þjónustutekjum fyrra árs og áætlaður rekstrarkostnaður miðaður út frá þeim tekjum. Ef þjónustutekjur eru lægri en áætlað þarf að taka upp áætlunina og lækka kostnað. Þar sem þjónustutekjurnar geta tekið miklum breytingum á milli ára er afar óheppilegt að gera rekstraráætlun áður en þær liggja fyrir. Félagið mun alltaf þurfa að endurskoða áætlunina þegar þjónustutekjurnar liggja fyrir og gera breytingar samhliða nýjum upplýsingum“.
Þjónustutekjurnar sem PwC segir frá eru ríkisframlagið sem rennur til RÚV. Rekstarár RÚV hefst 1. september á hverju ári. Ríkisframlag til RÚV er hins vegar ekki ákveðið fyrr en í fjárlögum hvers árs. Þau eru vanalega ekki afgreidd fyrr en síðari hluta desembermánaðar. Það verður því að teljast frekar erfitt fyrir RÚV að byggja áætlanir sínar á öðru en því sem útvarpsgjaldið skilaði félaginu árið áður, enda liggur ekki fyrir hvað það verður þegar rekstrarárið hefst.
Selja eignir og aðlagast
Þegar síðasta ársreikningur RÚV var birtur, í lok nóvember 2014, var sérstaklega vísað í hina sjálfstæðu úttekt sem PwC hafði unnið fyrir stjórn félagsins og sagt að hún staðfesti að fjárhagsstaða RÚV sé erfið. Við lestur úttektarinnar sést hins vegar fljótt að hún sýnir lítið annað en það sem var vitað.
RÚV tapaði 271,3 milljónum króna í fyrra. Fjármagnsgjöld, það sem félagið borgar af lánum, voru 347,3 milljónir króna þannig að það er augljóst hvar vandamálið liggur. Og hvað þarf að gera til að takast á við það.
RÚV þarf annarsvegar að selja eignir til að borga skuldir og lækka þar með fjármagnskostnað, og hins vegar að annað hvort að aðlaga starfsemi sína að þeim tekjum sem ríkið skammtar henni eða fá meira fé frá ríkinu.
Sú eign sem þarf að selja til að leysa fyrra vandamálið er Útvarpshúsið við Efstaleiti. Ljóst er að hægt yrði að hreinsa upp töluvert af skuldum félagsins með sölu þess og í raun gerbylta efnahag RÚV frá því sem birtist í ársreikningi félagsins. Þar er húsið metið á 3,2 milljarða króna en heimildir herma að búist sé við því að það seljist á allt að fimm milljarða króna. Með þeim peningum væri hægt að hreinsa upp allar langtímaskuldir RÚV (um 4,5 milljarðar króna) og eiga afgang.
Mikillar óánægju hefur gætt víða í samfélaginu með skerðingu á tekjum RÚV og áhrifa þess á þjónustu félagsins.
Stór leikandi á auglýsingamarkaði
Rekstrargjöld RÚV á síðasta rekstrarári voru 5,4 milljarðar króna og búist er við því að þau verði lægri í ár þegar áhrif hagræðingaraðgerða taka að fullu gildi. Þá kostaði það skildinginn að skipta út allri yfirstjórninni og sá einskiptiskostnaður sem fylgir því að borga alla gömlu stjórnendurna út fellur ekki aftur til á næsta ári.
Samkvæmt fjárlögum fær RÚV um 3,7 milljarða króna úr ríkissjóði á þessu ári. Það er umtalsvert meira en þeir 3,3 milljarðar króna sem félaginu var skammtað í þjónustutekjur á síðasta rekstrarári. Auk þess voru tekjur RÚV af auglýsingum og öðru tæplega 2,1 milljarður króna á síðasta rekstrarári. Tekjur af auglýsingum lækkuðu reyndar um 4,7 prósent á milli ára. Ástæðurnar eru tvær. Önnur er sú að samdráttur var á auglýsingamarkaði á síðari hluta rekstrarárs. Hin er að ný lög sem sett voru um starfsemi RÚV, og tóku gildi í upphafi árs í fyrra, takmörkuðu möguleika RÚV á sölu auglýsinga og kostunar enn frekar. Samt tekur RÚV rúmlega 20 prósent af öllum auglýsingatekjum allra fjölmiðla til sín.
Ef auglýsingatekjur ársins í ár verða þær sömu og í fyrra og rekstrargjöld RÚV verða lægri en þá, líkt og boðað hefur verið, þá ættu tekjur RÚV því að duga vel fyrir sambærilegum rekstri á þessu ári án fjármagnskostnaðar. Ef Útvarpshúsið verður selt og skuldir greiddar niður fyrir afraksturinn ætti félagið að losna við fjármagnskostnað að mestu.
Hafa hækkað í krónum en lækkað að raunvirði
Það er því alveg ljóst að framlög til RÚV hafa hækkað að krónutölu og aldrei verið hærri en nú í krónum talið. En við búum á Íslandi og það verður að taka verðbólgu inn í reikninginn.
Í grein sem Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri skrifaði á Þorláksmessu bendir hann á að frá því að RÚV var gert að opinberu hlutafélagi hafi verðlag hækkað um 57 prósent. Á sama tíma hafi framlag til RÚV hækkað um tæp 34 prósent. Því hafi framlög til RÚV lækkað að raunvirði um 18 prósent á tímabilinu. Því segir Magnús Geir að „opinbert fé til RÚV, samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015, er meira en 600 milljónum króna lægra að raunvirði en árið 2007, þegar RÚV var gert að opinberu hlutafélagi“.
Magnús Geir Þórðarson tók við sem útvarpsstjóri í mars 2014.
Fá tæpa sex milljarða á ári til að spila úr
Magnús Geir og stjórnendur hans sögðust geta rekið RÚV og sinnt lögbundnu hlutverki félagsins með því að selja eignir upp í skuldir og fá útvarpsgjaldið óskert, en ríkið hefur undanfarin ár notað hluta þessa markaða tekjustofns í önnur verkefni og borið fyrir sig þá klassísku skýringu: „hér varð hrun“. Nú mun útvarpsgjaldið hins vegar renna óskert til RÚV, en það verður lækkað. Í fyrra var það 19.400 krónur á hvern greiðanda en verður 17.800 krónur í ár. Á næsta ári lækkar það síðan enn frekar og verður 16.400 krónur.
Það er þessi lækkun sem gerir það að verkum að stjórnendur RÚV segjast ekki geta staðið undir þeirra þjónustu sem lög gera ráð fyrir. Því þurfi að skera niður og á fundi fjárlaganefndar Alþingis í desember með helstu stjórnendum RÚV kom fram að lækkun útvarpsgjaldsins myndi leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins upp á mörg hundruð milljónir króna.
Sá niðurskurður verður að öllum líkindum tilkynntur í mars næstkomandi.
Hverjir hafa rétt fyrir sér?
Í raun má segja að allir hafi rétt fyrir sér í þessu máli. Það er rétt hjá nýjum stjórnendum RÚV að þeir muni þurfa að skera niður, en það er afar matskennt hvort sá niðurskurður ógni lögbundnu hlutverki RÚV. Það er rétt hjá fyrrum stjórnendum að þeir ráku félagið nánast á núlli utan fjármagnsgjalda árum saman en ómögulegt að segja til um hvort niðurskurðaraðgerðir þeirra frá því í nóvember 2013 hefðu skilað þeirri hagræðingu sem hún átti, þar sem þeir fengu aldrei að fylgja þeim almennilega úr hlaði.
Það er rétt hjá stjórnarliðum að framlög til RÚV hafi aldrei verið hærri í krónum talið og það er rétt hjá gagnrýnendum þeirra að þau hafa dregist saman að raungildi frá árinu 2007.
Það er þó ljóst að það verður alveg hægt að reka RÚV áfram, þótt að skera verði töluvert niður. Félagið mun fá tæpa sex milljarða króna, að meðtöldum auglýsingatekjum, á þessu rekstrarári til að spila úr. Fæstir fjölmiðlar myndu slá hendinni á móti slíkri summu.